Ferill 631. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 941  —  631. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2023.

1. Inngangur.
    Á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) bar á árinu 2023 hæst umræðu um alvarlegt ástand mannúðarmála, innrás Rússlands í Úkraínu, friðsamlega sambúð og samfélög án aðgreiningar og áhrif loftslagsbreytinga.
    Á vorþingi IPU í mars var samþykkt neyðarályktun sem beindi sjónum sínum að því hvernig auka mætti vitund og kalla eftir aðgerðum vegna alvarlegs ástands mannúðarmála sem hefur áhrif á íbúa Afganistan, Sýrlands, Úkraínu, Jemen og annarra landa, með áherslu á varnarleysi kvenna og barna. Í ályktuninni er alþjóðasamfélagið hvatt til þess að vinna saman að því að vernda mannslíf, lina þjáningar, standa vörð um reisn og tryggja öllum einstaklingum aðgang að grunnþjónustu, svo sem fæði, læknishjálp, vatni og húsaskjóli, óháð uppruna þeirra, með laga- og stefnuúrræðum á landsvísu.
    Jafnframt fundaði starfshópur IPU um friðsamlega lausn stríðsins í Úkraínu með háttsettum sendinefndum þingmanna bæði frá Rússlandi og Úkraínu, hvorri í sínu lagi, með það fyrir augum að halda diplómatískum leiðum þingsins opnum fyrir friðaruppbyggingu í framtíðinni. Viðvarandi valdbeiting Rússa gegn Úkraínu var fordæmd sem brot á sáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal á meginreglunni um fullveldi og landhelgi. Þá lýstu þingmenn ítrekað yfir áhyggjum af því að stríðið í Úkraínu ógnaði alþjóðaöryggi og ylli efnahagslegri óvissu.
    Einnig fór fram almenn umræða um það hvernig stuðla mætti að friðsamlegri sambúð og samfélögum án aðgreiningar og um baráttuna gegn umburðarleysi. Í yfirlýsingu þingsins eru þingmenn hvattir til að innleiða heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun fyrir árið 2030 og þau sögð besta vonin um frið, lýðræði og sjálfbæra þróun fyrir alla. Yfirlýsingin kallar eftir umburðarlyndari heimi þar sem fjölbreytileika er fagnað og sérhver manneskja er viðurkennd fyrir framlag sitt til samfélagsins. Þar er einnig kallað eftir því að þingmenn geri hvers kyns ofbeldi tengt trúarbrögðum, skoðunum, útlendingahatri, kynþáttafordómum eða umburðarleysi gagnvart jaðarhópum að broti samkvæmt lögum.
    Baráttan gegn loftslagsbreytingum var jafnframt áhersluatriði á árinu og stóðu IPU og Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) fyrir árlegum sameiginlegum fundi þar sem sjónum var beint að sjötta heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um hreint vatn og hreinlætisaðstöðu. Umræða um aukna öfga í veðri vegna loftslagsbreytinga, sem hafa leitt til aukinnar tíðni þurrka og flóða, var í brennidepli en breytingar á veðurfari hafa haft neikvæð áhrif á vatns- og hreinlætisþjónustu sem síðan hefur skaðleg áhrif á þróun og heilsu. Jafnframt hleypti IPU af stokkunum nýrri herferð, Parliaments for the Planet, sem er ætlað að virkja þing og þingmenn til að bregðast við neyðarástandi í loftslagsmálum. Með herferðinni eru þjóðþing hvött til að sýna fordæmi, draga úr eigin kolefnisfótspori og grípa til raunhæfra aðgerða til að innleiða Parísarsamkomulagið um loftslagsmál til að takmarka hnattræna hlýnun við 1,5 gráður á Celsíus.
    Á árinu voru haldnir fundir þingkvenna þar sem var m.a. rætt um jafnréttismiðuð þjóðþing, kynjamisrétti og ofbeldi gegn konum. Enn fremur var samþykkt yfirlýsing þar sem aðildarríki IPU eru hvött til þess að stuðla að jafnrétti kynjanna á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Jafnframt fór fram umræða um það hvernig efla mætti traust milli fólks og stjórnkerfa og gera opinberar stofnanir skilvirkari og ábyrgari. Þá var samþykkt ályktun um hlutverk þjóðþinga í baráttunni gegn mansali á munaðarleysingjum. Af öðrum stórum málum sem voru tekin til umfjöllunar á fundum IPU á árinu 2023 má nefna netárásir og áhættuna sem af þeim stafar fyrir alþjóðlegt öryggi og málefni fólksflutninga og flóttafólks með áherslu á leiðir til að stöðva mansal og mannréttindabrot.
    Að lokum ber að nefna mikilvægt starf Alþjóðaþingmannasambandsins við að efla lýðræði en mörg aðildarþing þess eru ekki lýðræðislega kjörin og í sumum fer ekkert eiginlegt löggjafarstarf fram. Sem dæmi um slíkt starf á árinu 2023 má nefna svæðisbundnar málstofur um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Enn fremur gefur Alþjóðaþingmannasambandið út handbækur og skýrslur fyrir þingmenn til að aðstoða þá við að hafa áhrif í ólíkum málaflokkum.

2. Almennt um Alþjóðaþingmannasambandið.
    Aðild að Alþjóðaþingmannasambandinu eiga nú 180 þjóðþing en aukaaðild að því eiga 14 svæðisbundin þingmannasamtök. Markmið sambandsins er að stuðla að skoðanaskiptum þingmanna frá öllum heimshornum um alþjóðleg málefni, vinna að friði og samstarfi þjóða og treysta í sessi lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing. Áhersla er lögð á að standa vörð um mannréttindi sem einn af grundvallarþáttum lýðræðis og þingræðis. Þá vinnur IPU að styrkingu þjóðþinga og aðstoðar við þróun lýðræðislegra vinnubragða innan þeirra. Sambandið styður starfsemi Sameinuðu þjóðanna og á margvíslegt samstarf við stofnanir þeirra. Höfuðstöðvar sambandsins eru í Genf, en sambandið rekur jafnframt skrifstofu í New York.
    Alþjóðaþingmannasambandið heldur tvo þingfundi árlega, þing að vori sem haldið er í einu af aðildarríkjum sambandsins og þing að hausti sem haldið er í Genf nema annað sé ákveðið sérstaklega. Auk þess heldur sambandið alþjóðlegar ráðstefnur og málstofur á ári hverju, oft um málefni sem eru efst á baugi hjá Sameinuðu þjóðunum hverju sinni og þá gjarnan í tengslum við tiltekna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þá eru haldnar námsstefnur fyrir þjóðþing sem óska eftir slíku um ýmsa þætti löggjafarstarfsins og eflingu lýðræðis.
    Fjórar fastanefndir starfa innan Alþjóðaþingmannasambandsins:
     1.      nefnd um friðar- og öryggismál,
     2.      nefnd um sjálfbæra þróun og efnahags- og viðskiptamál,
     3.      nefnd um lýðræði og mannréttindamál,
     4.      nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna.
    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins markar stefnu samtakanna og hefur umsjón með starfi nefnda og vinnuhópa. Í því eiga sæti þrír fulltrúar frá hverri landsdeild en fulltrúum fækkar í tvo ef í sendinefndinni eru ekki fulltrúar beggja kynja oftar en þrjú þing í röð. Á milli funda hefur 17 manna framkvæmdastjórn umsjón með daglegum rekstri samtakanna, undirbýr fundi ráðsins og fylgir eftir ákvörðunum þess. Auk fastanefnda sambandsins skila aðrar nefndir og vinnuhópar sem starfa innan sambandsins skýrslum til ráðsins til afgreiðslu, en það eru nefnd um mannréttindi þingmanna, nefnd um málefni Miðausturlanda, vinnuhópur um málefni Kýpur, nefnd til að auka virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum, undirbúningsnefnd kvennafundar sambandsins og vinnuhópur um samstarf kynjanna.
    Nefnd um mannréttindi þingmanna gefur út skýrslu fyrir hvert þing sambandsins þar sem fjallað er um brot á mannréttindum þingmanna, hvort sem um er að ræða fangelsanir, hótanir, barsmíðar, mannshvörf eða dauðsföll. Nefndin heimsækir viðkomandi ríki, ræðir við málsaðila og aflar gagna. Málum er fylgt eftir, oft árum saman, þar til niðurstaða fæst. Nefndin hefur það að markmiði að styrkja þjóðþing í að tryggja öryggi og friðhelgi þingmanna svo að þeir geti sinnt starfi sínu á lýðræðislegan og öruggan hátt. Ráð IPU samþykkir á hverju þingi ályktanir sem grundvallast á skýrslu nefndarinnar. Ályktanir sambandsins eru ekki bindandi fyrir þjóðþing aðildarríkjanna. Þær endurspegla hins vegar umræðu um mikilvæg málefni sem hinar ýmsu þjóðir glíma við.

3. Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Í upphafi ársins 2023 áttu eftirfarandi aðalmenn sæti í Íslandsdeild: Hildur Sverrisdóttir formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson varaformaður, þingflokki Miðflokks, og Jóhann Friðrik Friðriksson, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Bergþór Ólason, þingflokki Miðflokks, og Þórarinn Ingi Pétursson, þingflokki Framsóknarflokks. Á þingfundi 26. september var sú breyting gerð að Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingflokki Samfylkingar, tók sæti Sigmundar Davíðs sem aðalmaður og Dagbjört Hákonardóttir, þingflokki Samfylkingar, sæti Bergþórs sem varamaður í Íslandsdeild. Arna Gerður Bang var ritari Íslandsdeildar.
    Íslandsdeild hélt tvo fundi á árinu þar sem þátttaka í fundum IPU var undirbúin og starf sambandsins rætt. Á fundi Íslandsdeildar 19. október var Þórunn Sveinbjarnardóttir kosin varaformaður Íslandsdeildar.

4. Fundir Alþjóðaþingmannasambandsins 2023.
    Á venjubundnu ári kemur IPU tvisvar saman til þings og jafnframt fundar ráð IPU í tengslum við þingin. Tveir norrænir samráðsfundir eru haldnir árlega til að fara yfir málefni komandi þings og samræma afstöðu Norðurlanda eins og hægt er. Norðurlöndin skiptast á að fara með formennsku í norræna hópnum og gegndi Svíþjóð formennsku á árinu. Fyrri norræni fundurinn var haldinn í Washington í febrúar en sá síðari í Stokkhólmi í september.
    Árið 2023 tók Íslandsdeild þátt í vorþingi í mars og haustþingi í október og í tveimur norrænum samráðsfundum. Einnig tók Jóhann Friðrik Friðriksson þátt í sameiginlegum fundi IPU og Sameinuðu þjóðanna í New York og vinnuheimsókn í norrænu sendiráðin í Washington í febrúar. Þá tók Þórunn Sveinbjarnardóttir þátt í fundi á vegum IPU og þings Sameinuðu arabísku furstadæmanna í Dúbaí í desember í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28.

Sameiginlegur fundur Sameinuðu þjóðanna í New York 13. og 14. febrúar og norrænir fundir Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) 15.–17. febrúar í Washington.
    IPU og Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) stóðu fyrir árlegum sameiginlegum fundi 13. og 14. febrúar í tengslum við vatnsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 2023. Þema fundarins var vatn og bar hann yfirskriftina: Vatn fyrir fólk og plánetu; hættum að sóa, breytum leikreglunum og fjárfestum í framtíðinni. Af hálfu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins sótti fundinn Jóhann Friðrik Friðriksson, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Fundurinn var haldinn í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna þar sem 150 þingmenn frá 46 aðildarríkjum IPU, auk sérfræðinga og embættismanna, komu saman með það að markmiði að stuðla að þingræðislegum aðgerðum til að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
    Dagana 15.–17. febrúar stóðu norrænu sendiráðin í Washington fyrir fundardagskrá fyrir norrænar landsdeildir Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) í norska sendiráðinu. Af hálfu Íslandsdeildar IPU sótti fundinn Jóhann Friðrik Friðriksson, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Á dagskrá fundanna voru stríðið í Úkraínu, innganga Svíþjóðar og Finnlands í NATO, öryggismál í Evrópu með áherslu á Rússland og NATO, samskipti Bandaríkjanna og Kína og norðurslóðamál. Einnig fóru fram pallborðsumræður um loftslagsmál, tvíhliða samskipti við Bandaríkin, norrænt samstarf og innanríkisstefnu Bandaríkjanna. Að auki fengu þingmenn kynningu á starfsemi norrænu sendiráðanna og norrænu samstarfi (sjá fylgiskjal I).

146. þing Alþjóðaþingmannasambandsins í Manama, Barein 11.–15. mars.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar IPU sóttu fundinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson varaformaður, Jóhann Friðrik Friðriksson og Berglind Ósk Guðmundsdóttir, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru ályktun um netglæpi og áhættuna sem af þeim stafar fyrir alþjóðlegt öryggi og málefni fólksflutninga með áherslu á leiðir til að stöðva mansal og mannréttindabrot. Jafnframt fór fram almenn umræða um það hvernig stuðla mætti að friðsamlegri sambúð og samfélögum án aðgreiningar og um baráttuna gegn umburðarleysi. Þá fór fram utandagskrárumræða um það hvernig auka mætti vitund og kalla eftir aðgerðum vegna alvarlegra mannúðarvandamála sem hafa áhrif á íbúa Afganistan, Sýrlands, Úkraínu, Jemen og annarra landa, með áherslu á konur og börn (sjá fylgiskjal II).
    
Norrænn samráðsfundur í Stokkhólmi 29. september.
    Af hálfu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) sóttu fundinn Hildur Sverrisdóttir formaður, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Fundurinn var haldinn til undirbúnings þátttöku í 147. þingi IPU 23.–27. október 2023. Helstu mál á dagskrá voru kynning formanns sænsku landsdeildarinnar á niðurstöðum fundar framkvæmdastjórnar og stýrihóps Tólfplús-hópsins, ólögmæt innrás Rússlands í Úkraínu og það hvernig IPU gæti fordæmt innrásina á sem áhrifaríkastan hátt á haustþingi bandalagsins í október. Einnig var í brennidepli umræða um kosningu nýs forseta IPU sem kosinn var á haustþinginu. Embætti forseta er til þriggja ára og skiptist á milli landahópa IPU og er nú komin röðin að Afríkuhópnum (sjá fylgiskjal III).

147. þing Alþjóðaþingmannasambandsins í Lúanda, Angóla, 21.–27. október.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar IPU sóttu fundinn Hildur Sverrisdóttir formaður og Þórunn Sveinbjarnardóttir varaformaður, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru ályktun um munaðarleysingjahæli og eftirlitshlutverk þjóðþinga, leiðir til að stuðla að auknu gagnsæi, baráttan gegn spillingu og þátttaka borgara í að endurreisa traust á stofnunum og efla frið. Einnig fóru fram pallborðsumræður um gervigreind og félagsleg og mannúðarleg áhrif ómannaðra vopna. Jafnframt fór fram almenn umræða um það hvernig þjóðþing geta stuðlað að friði, réttlæti og öflugum stofnunum með áherslu á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna (sjá fylgiskjal IV).

Fundur IPU í tengslum við loftslagsráðstefnu sameinuðu þjóðanna, COP28, í Dúbaí 6. desember.
    Alþjóðaþingmannasambandið og þing Sameinuðu arabísku furstadæmanna í Dúbaí stóðu fyrir sameiginlegum fundi um loftslagsmál 6. desember í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28, sem fór fram í Dúbaí 30. nóvember til13. desember. IPU hefur undanfarin ár skipulagt þingmannafund samhliða loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í samstarfi við þing gestgjafalandsins. Markmið fundanna er að veita þingmönnum tækifæri til að fá milliliðalaust upplýsingar frá sérfræðingum um loftslagsmál og ræða leiðir til að ná markmiðum Parísarsáttmálans (sjá fylgiskjal V).

Alþingi, 1. febrúar 2024.

Hildur Sverrisdóttir,
form.
Þórunn Sveinbjarnardóttir,
varaform.
Jóhann Friðrik Friðriksson.


Fylgiskjal I.



FRÁSÖGN af sameiginlegum fundi IPU og Sameinuðu þjóðanna í New York 13. og 14. febrúar og norrænum fundum Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) í Washington 15.–17. febrúar.


    IPU og Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) stóðu fyrir árlegum sameiginlegum fundi 13. og 14. febrúar í tengslum við vatnsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 2023. Þema fundarins var vatn og bar hann yfirskriftina: Vatn fyrir fólk og plánetu; hættum að sóa, breytum leikreglunum og fjárfestum í framtíðinni. Af hálfu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins sótti fundinn Jóhann Friðrik Friðriksson, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Fundurinn var haldinn í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna þar sem 150 þingmenn frá 46 aðildarríkjum IPU, auk sérfræðinga og embættismanna, komu saman með það að markmiði að stuðla að þingræðislegum aðgerðum til að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
    Fundurinn fór fram aðeins nokkrum vikum eftir að ályktun UNGA nr. 77/159 var samþykkt þar sem lögð er áhersla á mikilvægt hlutverk þjóðþinga við að hrinda í framkvæmd áætlun um sjálfbæra þróun til ársins 2030. Sjónum var beint að sjötta heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um hreint vatn og hreinlætisaðstöðu og vatnsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 2023.
    Forseti allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna (SÞ), Csaba Korösi, hélt opnunarávarp fundarins og lagði áherslu á sameiginleg markmið SÞ og IPU varðandi fjölþjóðastefnu og alþjóðlegt samstarf. Hann sagði þjóðþing mikilvægan vettvang þar sem hægt væri að færa efni ályktana SÞ í landslög. Enn fremur væri hægt að koma áhyggjum af málefnum heima fyrir á framfæri við SÞ og alþjóðasamfélagið í gegnum þjóðþing aðildarríkjanna. Einnig lagði hann áherslu á ómetanlegt hlutverk þingmanna við að ná heimsmarkmiðum SÞ, þar sem stefnumótun og lagasetning gegndi lykilhlutverki. Hann sagði jafnframt þema fundarins í ár gríðarlega mikilvægt og að heimurinn stæði frammi fyrir grafalvarlegri vatnskreppu. Flestar loftslagsbreytingar raungerðust í gegnum vatn – sem væri annaðhvort of mikið af, ekki nóg eða það ekki drykkjarhæft. Stefnan sem við framfylgjum núna hefði ekki bara áhrif á okkur heldur réði því hvernig lífi börnin okkar og barnabörnin mundu lifa. Nauðsynlegt væri að bregðast strax við vandanum sem blasti við.
    Fundurinn skiptist í sjö pallborðsumræður og voru þátttakendur í þeim þingmenn, sendiherrar og embættismenn SÞ, auk sérfræðinga. Sjónum var m.a. beint að loftslagsbreytingum og vatnsskorti, þeim mannréttindum sem felast í aðgangi að öruggu vatni og hreinlætisaðstöðu, fjármögnun innviða fyrir hreinlætis- og vatnsþjónustu og sjálfbæra þróun. Umræða um aukna öfga í veðri vegna loftslagsbreytinga sem leitt hafa til aukinnar tíðni þurrka og flóða var í brennidepli. Breytingar á veðurfari hafa haft neikvæð áhrif á vatns- og hreinlætisþjónustu sem síðan hefur skaðleg áhrif á þróun og heilsu. Í ljósi þess að ríkustu 10% valda 50% losunar í heiminum var rætt um aukna ábyrgð auðugri ríkja við að hjálpa þeim fátækustu að aðlagast neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga.
    Jóhann Friðrik Friðriksson tók þátt í umræðum um loftslagsbreytingar og vatnsskort. Hann minnti á að hitastigið á norðurslóðum héldi áfram að hækka þrisvar sinnum hraðar en annars staðar á jörðinni sem ylli m.a. bráðnun hafíss og hopun jökla. Hlýnunin hefði áhrif á bæði staðbundin vistkerfi og hnattræn loftslagskerfi og áhrif breytts loftslags á norðurslóðum gætti víða. Þá sagði hann skort á aðgengi að hreinu drykkjarvatni lýðheilsumál og nátengt öðrum markmiðum heimsmarkmiðanna og það væri ljóst að loftslagsbreytingar væru ein mikilvægasta áskorun okkar tíma. Þær hefðu sífellt meiri áhrif á daglegt líf okkar og umhverfi, merkin væru augljós og vísindin skýr.
    Jóhann Friðrik greindi jafnframt frá markmiðum Íslands um að ganga lengra en Parísarskuldbindingarnar segja til um með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um meira en helming fyrir árið 2030, ná algjöru kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 og verða jarðefnaeldsneytislaust árið 2050. Þá lagði hann áherslu á mikilvægi þess að gerðar yrðu áætlanir um sjálfbæra vatnsnotkun á heimsvísu og að samvinna milli ríkisstjórna yrði efld á sviði rannsókna, þróunar, fjármögnunar og alþjóðlegrar heilsu.
    Forseti IPU, Duarte Pacheco, sagði: „Þó að plánetan okkar sé kölluð bláa plánetan hafa milljarðar manna ekki aðgang að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu. Góðu fréttirnar eru þær að vatns- og hreinlætisvandamál er hægt að leysa með samræmdum innlendum og alþjóðlegum aðgerðum og þar geta þingmenn skipt sköpum.“
    Samkvæmt SÞ skortir fjórðung jarðarbúa öruggt drykkjarvatn og næstum 50% jarðarbúa skortir örugga hreinlætisaðstöðu. Vatn tengist flestum náttúruhamförum þar sem 1,2 milljarðar manna eru í hættu vegna flóða um allan heim. Á undanförnum 20 árum hafa flóð og þurrkar valdið yfir 166.000 dauðsföllum, truflað líf milljarða manna og valdið að minnsta kosti 700 milljarða bandaríkjadala tjóni. Framkvæmdastjóri IPU, Martin Chungong, sagði sameiginlegan fund sem þennan gera þingmönnum kleift að leggja sitt af mörkum til vinnu SÞ og alþjóðlegrar lagasetningar.
    Dagana 15.–17. febrúar stóðu norrænu sendiráðin í Washington fyrir fundardagskrá fyrir norrænar landsdeildir Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) í norska sendiráðinu. Af hálfu Íslandsdeildar IPU sótti fundinn Jóhann Friðrik Friðriksson, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Á dagskrá fundanna voru stríðið í Úkraínu, innganga Svíþjóðar og Finnlands í NATO, öryggismál í Evrópu með áherslu á Rússland og NATO, samskipti Bandaríkjanna og Kína og norðurslóðamál. Einnig fóru fram pallborðsumræður um loftslagsmál, tvíhliða samskipti við Bandaríkin, norrænt samstarf og innanríkisstefnu Bandaríkjanna. Að auki fengu þingmenn kynningu á starfsemi norrænu sendiráðanna og norrænu samstarfi.
    Jóhann Friðrik Friðriksson tók þátt í umræðum um norðurslóðir og sagði ljóst að svæðið væri sífellt að verða mikilvægara í efnahags- og öryggislegu tilliti. Aukið aðgengi að norðurslóðum hefði ýtt undir áhuga ríkja utan norðurslóða á svæðinu, t.d. Kína, sem hefði á undanförnum árum aukið vísindarannsóknir á norðurslóðum sem hefðu augljóslega bæði borgaralegt og hernaðarlegt gildi. Jafnframt átti sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, Bergdís Ellertsdóttir, fund með sendinefnd Íslands og kynnti fyrir henni helstu verkefni sendiráðsins og áherslur. Einnig hitti Íslandsdeildin fastanefnd Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum í New York og fékk kynningu á helstu verkefnum frá Jörundi Valtýssyni, fastafulltrúa Íslands. Frekari upplýsingar má nálgast hjá ritara Íslandsdeildar.

Fylgiskjal II.



FRÁSÖGN af 146. þingi Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) og tengdum fundum í Manama, Barein, 11.–15. mars 2023.


    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar IPU sóttu fundinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson varaformaður, Jóhann Friðrik Friðriksson og Berglind Ósk Guðmundsdóttir, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru ályktun um netglæpi og áhættuna sem af þeim stafar fyrir alþjóðlegt öryggi og málefni fólksflutninga með áherslu á leiðir til að stöðva mansal og mannréttindabrot. Jafnframt fór fram almenn umræða um það hvernig stuðla mætti að friðsamlegri sambúð og samfélögum án aðgreiningar og um baráttuna gegn umburðarleysi. Þá fór fram utandagskrárumræða um það hvernig auka mætti vitund og kalla eftir aðgerðum vegna alvarlegra mannúðarvandamála sem hafa áhrif á íbúa Afganistan, Sýrlands, Úkraínu, Jemen og annarra landa.
    Um 1.200 þátttakendur sóttu þingið, þar af 683 þingmenn (233 þingkonur, eða 34%) frá 136 aðildarríkjum og 58 þingforsetar. Einnig var mæld þátttaka ungra þingmanna (yngri en 45 ára) og voru þeir 22% þátttakenda. Duarte Pacheco, forseti IPU, lagði í opnunarræðu sinni áherslu á mikilvægi þess að sjónum væri beint að auknu óþoli og mismunun í heiminum og sagði að þingmenn hefðu mikilvægu hlutverki að gegna við að takast á við þá neikvæðu þróun. Konur og börn stæðu einkum frammi fyrir að brotið væri á réttindum þeirra og nefndi hann Afganistan sérstaklega, þar sem konur væru útskúfaðar úr samfélaginu.
    Tólfplús-hópurinn, sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja, hittist að venju flesta morgna meðan á þinginu stóð. Á þeim fundum var farið yfir helstu mál þingsins og afstaða sendinefnda samræmd eins og hægt var, auk þess sem valdir voru fulltrúar hópsins í embætti og störf á vegum IPU. Fulltrúar hópsins í stýrihópum og framkvæmdastjórn IPU kynntu helstu niðurstöður síðustu funda stjórnarinnar og fundar stjórnarnefndar. Hópur norrænna þingmanna hittist jafnframt í tengslum við þingið í vinnuhádegisverði 12. mars, en Svíþjóð fer með formennsku í norræna hópnum árið 2023.
    Enn fremur var haldinn kvennafundur 11. mars þar sem m.a. var rætt um jafnréttismiðuð þjóðþing, kynjamisrétti og ofbeldi gegn konum. Sérstök nefnd um mannréttindi þingmanna gegnir veigamiklu hlutverki innan IPU og gefur hún út viðamikla skýrslu fyrir hvert þing. Á grundvelli skýrslunnar samþykkir ráð IPU fjölmargar ályktanir um brot á mannréttindum þingmanna. Nefndin vinnur mikið starf á milli þinga þar sem hún fer yfir mál þingmanna sem mannréttindi hafa verið brotin á, hvort sem um er að ræða fangelsanir, hótanir, barsmíðar, mannshvörf eða dauðsföll. Nefndin skoðaði mál um meint mannréttindabrot gegn þingmönnum í 14 löndum, þar á meðal Kambódíu, Esvatíní, Írak, Úganda, Líbíu og Venesúela. Þá skipulagði nefndin einnig sérstakan fund um samstöðu þingsins til að hvetja aðra þingmenn til að styðja kollega sína sem standa frammi fyrir mannréttindabrotum.
    Sex tillögur að neyðarályktun voru lagðar fram við upphaf þingsins en aðeins er hægt að taka fyrir eitt mál utan dagskrár á hverju þingi samkvæmt reglum IPU. Kosning fór fram um hvaða tillaga yrði fyrir valinu og fékk tillaga Argentínu, Síle, Þýskalands, Hollands og Úkraínu, með stuðningi frá landahópi Rómönsku Ameríku og Karíbahafsins (GRULAC) og Tólfplús-hópsins flest atkvæði. Neyðarályktun þingsins beindi sjónum sínum að því hvernig auka mætti vitund og kalla eftir aðgerðum vegna alvarlegra mannúðarvandamála sem hafa áhrif á íbúa Afganistan, Sýrlands, Úkraínu, Jemen og annarra landa og um sérstakt varnarleysi kvenna og barna. Í ályktuninni er alþjóðasamfélagið hvatt til þess að vinna saman að því að vernda mannslíf, lina þjáningar, standa vörð um reisn og tryggja öllum einstaklingum aðgang að grunnþjónustu, svo sem fæði, læknishjálp, vatni og húsaskjóli, óháð uppruna þeirra, með laga- og stefnuúrræðum á landsvísu.
    Almenn umræða fór fram um pólitískt, efnahagslegt og félagslegt ástand í heiminum og var sjónum beint að því hvernig stuðla mætti að friðsamlegri sambúð og samfélögum án aðgreiningar og um baráttuna gegn umburðarleysi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tók þátt í umræðunum fyrir hönd Íslandsdeildar. Hann ræddi um mikilvægi þess að takast á við hatursorðræðu og rangar upplýsingar og varpaði því fram að hugsanlega væri best að gera það á grundvelli menntunar og gamla góða réttarríkisins. Og í stað þess að skipta fólki í hópa ættum við að fylgja þeirri meginreglu að hver einstaklingur öðlist sömu réttindi óháð fyrir fram skilgreindum eiginleikum. Að lokum skoraði Sigmundur á yfirvöld í Barein að sleppa dansk-bareinska ríkisborgaranum og mannréttindafrömuðinum al-Khawaja úr haldi en hann hefur setið í fangelsi frá árinu 2011 fyrir að nýta tjáningarfrelsi sitt.
    Við lok almennrar umræðu samþykkti þingið Manama-yfirlýsingu þar sem helstu áhersluatriði umræðunnar voru dregin saman. Þar eru aðildarríkin hvött til þess að leggja sig fram um að berjast gegn ójöfnuði með réttindatengdri efnahags- og félagsmálastefnu sem leggur áherslu á jafnrétti og reisn hverrar persónu. Í yfirlýsingunni eru þingmenn einnig hvattir til að innleiða heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun fyrir árið 2030 – að skilja engan eftir – og það sagt besta vonin um frið, lýðræði og sjálfbæra þróun fyrir alla. Yfirlýsingin er boðskapur vonar sem kallar eftir umburðarlyndari heimi þar sem fjölbreytileika er fagnað og sérhver manneskja er viðurkennd fyrir framlag sitt til samfélagsins. Þar er einnig kallað eftir því að þingmenn geri hvers kyns ofbeldi tengt trúarbrögðum, skoðunum, útlendingahatri, kynþáttafordómum eða umburðarleysi gagnvart jaðarhópum að broti samkvæmt lögum.
    Í fastanefndum var fjallað um fyrir fram ákveðin mál og ályktanir afgreiddar. Í 1. nefnd, um frið og öryggismál, fór fram umræða og afgreiðsla á ályktun um netárásir og þá ógn sem af þeim stafar fyrir alþjóðlegt öryggi. Ályktunin undirstrikar þörfina á alþjóðlegu samstarfi til að takast á við netglæpi, sem og að vernda heimsfrið, öryggi og efnahagslegan stöðugleika en viðhalda mannréttindum, þar á meðal málfrelsi. Þar er áréttað að konur, ungt fólk og börn eru meðal viðkvæmustu hópa varðandi árásir á internetinu. Ályktunin er afrakstur langs samráðsferlis og voru m.a. sendar inn 320 breytingartillögur frá þingmönnum sem afgreiddar voru af nefndinni. Í ályktuninni er lögð áhersla á ábyrgð þinga við að byggja upp regluverk til að vernda borgara í netheimum á sama hátt og í raunheimum.
    Í 2. nefnd, um sjálfbæra þróun, fór fram umræða og afgreiðsla á ályktun um kolefnisjöfnun skóga og mikilvægi þess að tryggja fjármagn til átaksverkefna um verndun skóga og endurnýjun þeirra. Einnig var rætt um meginregluna um sameiginlega ábyrgð og hugtakið loftslagsréttlæti (e. climate justice). Þá samþykkti nefndin að næsta umræðuefni yrði um samstarf um aðgerðir í loftslagsmálum og hvernig stuðla mætti að aðgangi að grænni orku á viðráðanlegu verði og tryggja nýsköpun. Enn fremur skipulagði nefndin í samstarfi við 3. nefnd vinnustofu um aðgerðir til að sporna við loftslagsbreytingum.
    Í 3. nefnd, um lýðræði og mannréttindi, var afgreidd ályktun um þinglega hvata til þróunarríkja sem eru með hátt hlutfall alþjóðlegra fólksflutninga og leiðir til að stöðva mansal og mannréttindabrot. Í ályktuninni hvetur IPU Sameinuðu þjóðirnar til að leggja á næsta allsherjarþingi stofnunarinnar aukna áherslu á aðgerðir vegna mansals, smygls á fólki og nútímaþrælahalds. Jafnframt eru ríkisstjórnir og þjóðþing hvött til þess að beina sjónum sínum í auknum mæli að mansali, m.a. kvenna og stúlkna, þar sem þær eru misnotaðar kynferðislega. Við afgreiðslu ályktunarinnar var tekin afstaða til 91 breytingartillögu frá 18 aðildarríkjum. Endurskoðuð drög voru lögð fyrir nefndarfund 14. október og voru þau samþykkt samhljóða. Eftir afgreiðslu og samþykkt ályktunarinnar lýsti rússneska landsdeildin yfir andstöðu við hana.
    Þá fundaði starfshópur IPU um friðsamlega lausn stríðsins í Úkraínu með háttsettum sendinefndum þingmanna bæði frá Rússlandi og Úkraínu, hvorri í sínu lagi, með það fyrir augum að halda diplómatískum leiðum þingsins opnum fyrir friðaruppbyggingu í framtíðinni. Jafnframt hleypti IPU af stokkunum nýrri herferð, Parliaments for the Planet, sem ætlað er að virkja þing og þingmenn til að bregðast við neyðarástandi í loftslagsmálum. Með herferðinni eru þjóðþing og þeir sem starfa í þeim hvattir til að sýna fordæmi, draga úr eigin kolefnisfótspori og grípa til raunhæfra aðgerða til að innleiða Parísarsamkomulagið um loftslagsmál til að takmarka hnattræna hlýnun við 1,5 gráður á Celsíus. Átakið skiptist í tvo hluta. Í fyrri hlutanum eru þjóðþing og þingmenn hvattir til að verða umhverfisvænni og kolefnisjafna. Síðari hluta herferðarinnar er ætlað að gera þjóðþingum og þingmönnum kleift að setja skilvirka löggjöf um loftslagsbreytingar, greiða atkvæði um nauðsynleg fjárlög og gaumgæfa aðgerðir stjórnvalda, einkum framvindu landsframlaga (NDCs) til framkvæmdar Parísarsamkomulagsins. Þá eru þjóðþing hvött til að taka ríkari þátt í ferlum rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, sérstaklega í aðdraganda umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28, sem haldin verður í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í desember 2023. Um 3.000 dæmum að loftslagslöggjöf og stefnum hefur nú þegar verið safnað saman í gagnagrunninn Climate Change Laws of the World, sem gerður er af Grantham Research Institute í London School of Economics í samstarfi við IPU. Einnig vinnur IPU náið með Sameinuðu þjóðunum og tæknilegum samstarfsaðilum til að tryggja að þingmenn hafi aðgang að nýjustu vísindalegu þekkingu og lausnum varðandi loftslagsbreytingar.
    Ráð IPU kom tvisvar saman á þinginu og afgreiddi fjölda mála. Aðildarríki IPU eru nú 179 talsins. Rætt var um fjárhagsáætlun IPU og var yfirlit yfir skipulagða fundi fram undan kynnt. Næsta þing IPU verður haldið í Lúanda 23.–27. október 2023. Frekari upplýsingar má nálgast á nefndasviði og á vefsvæðinu www.ipu.org/.

Fylgiskjal III.



FRÁSÖGN af norrænum samráðsfundi landsdeilda IPU í Stokkhólmi 29. september 2023.


    Af hálfu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) sóttu fundinn Hildur Sverrisdóttir formaður, auk Örnu Gerður Bang, ritara Íslandsdeildar. Fundurinn var haldinn til undirbúnings þátttöku í 146. þingi IPU í október 2023. Hér á eftir fer stutt yfirlit um helstu málefni sem voru til umræðu á fundinum.
    Fyrsta mál á dagskrá var kynning formanns sænsku landsdeildarinnar á helstu málum sem til umræðu eru í framkvæmdastjórn og stýrihóp Tólfplús-hópsins. Hann sagði ólögmæta innrás Rússlands í Úkraínu hafa verið í brennidepli og það hvernig IPU gæti fordæmt innrásina á sem áhrifaríkastan hátt á haustþingi bandalagsins í október. Einnig var í brennidepli umræða um kosningu nýs forseta IPU sem kosinn verður á haustþinginu. Embætti forseta er til þriggja ára og skiptist á milli landahópa IPU og er nú komin röðin að Afríkuhópnum. Fimm þingkonur frá Afríku hafa boðið sig fram og munu þær kynna áherslur sínar á 12+ fundi landahópa hinn 22. október í Lúanda og á þinginu sjálfu. Fundarmenn voru sammála um að frekari upplýsinga væri þörf til að geta tekið afstöðu varðandi frambjóðendur. Þeir voru þó sammála um að afstaða þeirra til stríðsins í Úkraínu skipti miklu máli við val þeirra á frambjóðenda. Einnig vildu þeir heyra hvaða frambjóðanda Úkraína styddi til embættisins.
    Því næst fór fram umræða um niðurstöður vorþings IPU í mars 2023 og annarra ráðstefna og funda sem nefndarmenn höfðu sótt á vegum IPU-þingsins undanfarna sex mánuði. Þá var farið yfir helstu umræðuefni haustþingsins og skiptingu þingmanna í fastanefndir. Umræðuefni fastanefndanna voru m.a. munaðarleysingjahæli og eftirlitshlutverk þjóðþinga, leiðir til að stuðla að auknu gagnsæi, baráttan gegn spillingu og þátttaka borgara í að endurreisa traust á stofnunum og efla frið. Einnig fóru fram umræður um gervigreind og félagslegar og mannúðlegar afleiðingar beitingar ómannaðra vopna. Jafnframt fór fram almenn umræða um það hvernig þjóðþing geta stuðlað að friði, réttlæti og öflugum stofnunum með áherslu á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Þá var árlegur kvennafundur haldinn í tengslum við þingið þar sem sjónum var beint að jafnréttismiðuðum þjóðþingum, kynjamisrétti og áreitni og ofbeldi gegn konum. Rætt var um tengsl kynbundinna þinga og afnáms kynjamisréttis og áreitni og ofbeldis gegn konum á þingi. Þá hélt Anders B. Johnson, fyrrverandi framkvæmdastjóri IPU, erindi um sögu IPU og þróun og svaraði spurningum fundarmanna.
    Rætt var um sameiginlegan fund IPU og Sameinuðu þjóðanna sem fer árlega fram í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York og fyrirhugað er að halda 8.–9. febrúar 2024. Voru fundarmenn sammála um að fundirnir væru mikilvægur hluti af starfi IPU og veittu þingmönnum einstakan og mikilvægan vettvang til að ræða málefni Sameinuðu þjóðanna og mynda tengslanet við embættismenn þar. Að lokum var fjallað um mögulega vinnuheimsókn norrænna landsdeilda til Washington í febrúar 2024 í tengslum við árlegan fund IPU og Sameinuðu þjóðanna í New York. Fundarmenn voru sammála um að áhugi væri á að skipuleggja slíka heimsókn eins og gert hefði verið í febrúar 2023. Á fundi IPU í New York verður sjónum beint að friðarumleitunum í heiminum.
    Norrænu ríkin hafa átt fulltrúa í trúnaðarstörfum í flestum nefndum IPU, auk framkvæmdastjórnar, undanfarin ár og voru nefndarmenn sammála um mikilvægi þess. Sérstaklega var rætt um mikilvægi umræðuvettvangs þingkvenna og ungra þingmanna hjá IPU, en sá umræðuvettvangur er mjög virkur og hefur vaxið á undanförnum misserum. Að lokum var rætt um framtíðarfyrirkomulag norrænu samráðsfundanna sem haldnir hafa verið tvisvar á ári, til skiptis í norrænu ríkjunum, til þess að undirbúa vor- og haustþing IPU. Voru nefndarmenn sammála um að núverandi fyrirkomulag væri ákjósanlegt þar sem fundirnir væru haldnir í höfuðborg viðkomandi formennskuríkis eða nágrenni hennar. Árið 2024 tekur Noregur við formennsku í norræna samráðshópnum af Svíþjóð. Formaður norsku landsdeildarinnar bauð nefndarmenn velkomna til næsta fundar hópsins sem fyrirhugaður er í Ósló í mars 2024. Verður fundurinn haldinn til undirbúnings fyrir vorþing IPU sem fram fer í Genf 23.–27. mars 2024.

Fylgiskjal IV.



FRÁSÖGN af 147. þingi Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) og tengdum fundum í Lúanda, Angóla, 23.–27. október 2023.


    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar IPU sóttu fundinn Hildur Sverrisdóttir formaður og Þórunn Sveinbjarnardóttir varaformaður, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru ályktun um munaðarleysingjahæli og eftirlitshlutverk þjóðþinga, leiðir til að stuðla að auknu gagnsæi, baráttan gegn spillingu og þátttaka borgara í að endurreisa traust á stofnunum og efla frið. Einnig fóru fram pallborðsumræður um gervigreind og félagsleg og mannúðarleg áhrif ómannaðra vopna. Jafnframt fór fram almenn umræða um það hvernig þjóðþing geta stuðlað að friði, réttlæti og öflugum stofnunum með áherslu á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
    Um 1.150 þátttakendur sóttu þingið frá 128 aðildarríkjum IPU, þar af 622 þingmenn (227 þingkonur, eða 36,5%) og 51 þingforseti. Einnig var mæld þátttaka ungra þingmanna (yngri en 45 ára) og voru þeir 31% þátttakenda. Duarte Pacheco, fráfarandi forseti IPU, lagði í opnunarræðu sinni áherslu á mikilvægi lýðræðislegra og skilvirkra stofnana því að án þeirra væri ómögulegt að berjast gegn t.d. fátækt, ójöfnuði og loftslagsbreytingum.
    Tólfplús-hópurinn, sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja, hittist að venju flesta morgna meðan á þinginu stóð. Á þeim fundum var farið yfir helstu mál þingsins og afstaða sendinefnda samræmd eins og hægt var, auk þess sem valdir voru fulltrúar hópsins í embætti og störf á vegum IPU. Fulltrúar hópsins í stýrihópum og framkvæmdastjórn IPU kynntu helstu niðurstöður síðustu funda stjórnarinnar og fundar stjórnarnefndar. Hópur norrænna þingmanna hittist jafnframt í tengslum við þingið í vinnuhádegisverði 24. október, en Svíþjóð fer með formennsku í norræna hópnum árið 2023.
    Enn fremur var haldinn kvennafundur 23. október þar sem m.a. var rætt um kynjamisrétti og ofbeldi gegn konum. Sérstök nefnd um mannréttindi þingmanna gegnir veigamiklu hlutverki innan IPU og gefur hún út viðamikla skýrslu fyrir hvert þing. Á grundvelli skýrslunnar samþykkir ráð IPU fjölmargar ályktanir um brot á mannréttindum þingmanna. Nefndin vinnur mikið starf á milli þinga þar sem hún fer yfir mál þingmanna sem mannréttindi hafa verið brotin á, hvort sem um er að ræða fangelsanir, hótanir, barsmíðar, mannshvörf eða dauðsföll. Nefndin skoðaði mál um meint mannréttindabrot gegn 39 þingmönnum í 14 löndum, þar á meðal í Austur-Kongó, Mjanmar, Pakistan, Súdan og Simbabve.
    Tvær tillögur að neyðarályktun voru lagðar fram til atkvæðagreiðslu og beindu þær báðar sjónum sínum að neyðarástandinu á Gaza. Aðeins er hægt að taka fyrir eitt mál utan dagskrár á hverju þingi samkvæmt reglum IPU. Kosning fór fram um hvor tillagan yrði fyrir valinu og náði hvorug 2/ 3 hluta atkvæða sem er skilyrði fyrir því að efni sé sett á dagskrá samkvæmt starfsreglum IPU. Gætti mikillar óánægju meðal þingmanna með niðurstöðuna og var tekin ákvörðun um að kalla eftir tillögum að breytingum á starfsreglum IPU fyrir næsta þing sambandsins svo að koma megi í veg fyrir að engin neyðarályktun verði til umræðu á þingum IPU í framtíðinni.
    Almenn umræða fór fram um pólitískt, efnahagslegt og félagslegt ástand í heiminum og var sjónum beint að 16. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir þjóðþinga til að stuðla að friði, réttlæti og öflugum stofnunum. Rætt var um aðgerðir til að efla traust milli fólks og stjórnkerfa og gera opinberar stofnanir skilvirkari og ábyrgari. Þá var fjallað um það hvernig undirbúa mætti þjóðþing betur til að takast á við margvíslegar áskoranir í tengslum við geópólitískar, efnahagslegar og umhverfislegar krísur í heiminum. Við lok almennrar umræðu samþykkti þingið Lúanda-yfirlýsingu þar sem helstu áhersluatriði umræðunnar voru dregin saman.
    Hildur Sverrisdóttir tók þátt í umræðunum og sagði m.a. að þrátt fyrir að Ísland væri í fyrsta sæti, fjórtánda árið í röð, yfir friðsælustu ríki heims þá væri mikilvægt að hafa í huga að sá friður sem Ísland byggi við væri varinn af kerfi alþjóðalaga og alþjóðastofnana auk þess sem við nytum verndar bandamanna okkar sem hafa skuldbundið sig til að verja landið ef til ófriðar kemur. Þá sagði hún að hnattrænar áskoranir varðandi frið á 21. öldinni virtust margfaldast, ekki aðeins í fjölda heldur einnig í alvarleika. Það sé því afar mikilvægt að alþjóðakerfið geti sýnt að það standist prófraun sína án þess að sundrast. Að lokum sagði hún það valda sér áhyggjum að þingið hefði ekki komið sér saman um skilaboð varðandi þá hræðilegu atburði sem ættu sér nú stað í heiminum. Það væri hlutverk þingmanna að finna leiðir til að berjast fyrir friði og nauðsynlegt að hugleiða hvernig aðgerðir okkar nú líta út eftir nokkra áratugi.
    Þórunn Sveinbjarnardóttir tók einnig þátt í umræðunum og sagði brýnt að þingmenn stuðluðu að friðsamlegum samfélögum án aðgreiningar fyrir sjálfbæra þróun, sem veittu öllum aðgang að réttlátri málsmeðferð og byggðu upp skilvirkar, ábyrgar stofnanir án aðgreiningar á öllum stigum samfélagsins. Hún lagði áherslu á að þessum markmiðum yrði ekki náð án fullrar lýðræðislegrar þátttöku kvenna á öllum stigum samfélagsins og á löggjafarþingum. Ríki heims næðu ekki að nýta möguleika sína til fulls nema þátttaka kvenna í opinberu lífi og stjórnmálum yrði leyfð. Þá þarfnaðist vinnumarkaðurinn kvenna jafn mikið og karla. Enn fremur áréttaði Þórunn mikilvægi ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi og vakti athygli á skelfilegum aðstæðum palestínsku þjóðarinnar og hryðjuverkaárásunum í Ísrael. Hún sagði konur hafa mikilvægu hlutverki að gegna til að koma í veg fyrir átök og stuðla að friði. Að lokum sagði Þórunn frá kvennaverkfallinu sem fór fram 24. október á Íslandi, þar sem hundrað þúsund konur sýndu mátt sinn og samstöðu og kröfðust tekjujafnréttis og mótmæltu ofbeldi gegn konum.
    Í fastanefndum var fjallað um fyrir fram ákveðin mál og ályktanir afgreiddar. Í 1. nefnd, um frið og öryggismál, fór fram umræða um hlutverk þjóðþinga við að stuðla að menningu gagnsæis, gegn spillingu, og þátttöku borgara við að endurreisa traust á stofnunum og efla frið. Þá hélt nefndin pallborðsumræður um gervigreind og félagsleg og mannúðarleg áhrif ómannaðra vopna. Í 2. nefnd, um sjálfbæra þróun, fór fram umræða um samstarf um aðgerðir í loftslagsmálum og hvernig stuðla mætti að bættu aðgengi að grænni orku og tryggja nýsköpun, ábyrgð og eigið fé. Ályktun um efnið verður lögð fyrir nefndina á næsta fundi hennar í mars 2024. Einnig var rætt um samstarf í loftslagsaðgerðum og hvernig tryggja mætti fæðuöryggi á heimsvísu. Þar var fjallað um ýmsar leiðir til að umbreyta landbúnaðarkerfum til að gera þau sjálfbærari og viðnámsþolnari, sem og leiðir til að stuðla að ódýrari, næringarríkum mat fyrir alla.
    Í 3. nefnd, um lýðræði og mannréttindi, var samþykkt ályktun um mansal á munaðarleysingjum og hlutverk þjóðþinga við að draga úr skaða. Við afgreiðslu ályktunarinnar tók nefndin til skoðunar 194 breytingartillögur. Þá var tekin ákvörðun um að næsta umræðuefni nefndarinnar yrði áhrif gervigreindar á lýðræðið, mannréttindi og réttarríkið. Nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna ræddi m.a. um hlutverk þjóðþinga við að hafa eftirlit með ríkisstjórnum, lagasetningu varðandi innleiðingu heimsmarkmiðanna og umbætur í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna (UNSC).
    Þá fundaði starfshópur IPU um friðsamlega lausn stríðsins í Úkraínu með háttsettum sendinefndum þingmanna bæði frá Rússlandi og Úkraínu, hvorri í sínu lagi, með það fyrir augum að halda diplómatískum leiðum þingsins opnum fyrir friðaruppbyggingu í framtíðinni. Enn fremur var tilkynnt um handhafa Cremer-Passy-viðurkenningarinnar fyrir árið 2023 og var það Samuelu Penitala Teo, forseti þings Túvalú, sem hlaut hana fyrir framúrskarandi árangur sinn í loftslagsaðgerðum. Hann hefur m.a. stuðst við loftslagsherferð IPU, Parliaments for the Planet, sem hleypt var af stokkunum fyrr á árinu.
    Ráð IPU kom tvisvar saman á þinginu og afgreiddi fjölda mála. Aðildarríki IPU eru nú 180 talsins. Rætt var um fjárhagsáætlun IPU og var yfirlit yfir skipulagða fundi fram undan kynnt. Þá var Tulia Ackson, þingforseti Tansaníu, kosin nýr forseti IPU til næstu þriggja ára. Næsta þing IPU verður haldið í Genf 23.–27. mars 2024. Frekari upplýsingar má nálgast á alþjóðadeild og á vefsvæðinu www.ipu.org/.

Fylgiskjal V.



FRÁSÖGN af sameiginlegum fundi Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) og þingsins í Sameinuðu arabísku furstadæmunum 6. desember 2023.


    Alþjóðaþingmannasambandið og þing Sameinuðu Arabísku furstadæmanna í Dúbaí stóðu fyrir sameiginlegum fundi um loftslagsmál 6. desember í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28, sem fór fram í Dúbaí 30. nóvember til 13. desember. IPU hefur undanfarin ár skipulagt þingmannafund samhliða loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í samstarfi við þing gestgjafalandsins. Markmið fundanna er að veita þingmönnum tækifæri til að fá milliliðalaust upplýsingar frá sérfræðingum um loftslagsmál og ræða leiðir til að ná markmiðum Parísarsáttmálans. Um 400 þingmenn frá 70 aðildarríkjum IPU, auk sérfræðinga og embættismanna, sóttu fundinn. Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Þórunn Sveinbjarnardóttir, Jódís Skúladóttir og Halldóra Mogensen, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar.
    Á fundinum var m.a. fjallað um framvindu samningaviðræðna á ráðstefnunni COP28, áhrif loftslagsbreytinga og leiðir til að takast á við afleiðingar þeirra, svo sem að draga úr losun og virkja loftslagsfjármögnun. Einnig var rætt um loftslagsaðgerðir og sjálfbæra þróun með áherslu á mikilvæg tengsl milli aðgerða í loftslagsmálum og sjálfbærrar þróunar. Áhersla var lögð á mikilvægi sérstakra þróunarverkefna, matvælaöryggi, landflótta og viðkvæm ríki. Enn fremur fór fram umræða um loftslagsréttlæti og forgangsröðun ábyrgðar. Áhersla var lögð á ábyrgð sem helsta drifkraftinn til að sporna við loftslagsóréttlæti. Rætt var um leiðir fyrir þjóðþing til að stuðla að því að þróuð ríki tækju aukinn þátt í baráttunni gegn loftslagsbreytingum með því m.a. að draga úr útblæstri og auka fjárframlög, sérstaklega til aðlögunar.
    Jafnframt deildu þingmenn frá ríkjum sem eru viðkvæmust fyrir áhrifum loftslagsbreytinga reynslu sinni af áhrifum þeirra á heimkynni sín og samfélög og kölluðu eftir tafarlausum aðgerðum alþjóðasamfélagsins. Rætt var um gögn frá loftslagssérfræðingum og aðgerðir þjóðþinga til að takast á við neyðarástandið í loftslagsmálum, en staðfest er að árið 2023 var heitasta ár frá upphafi mælinga. Kallað var eftir kröftugum viðbrögðum þingmanna þar sem tíminn til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga væri senn liðinn. Vísindin hefðu sýnt fram á að óafturkræfar breytingar hefðu nú þegar átt sér stað og grípa þyrfti til aðgerða strax til að afstýra loftslagshörmungum víða um heim.
    Í samþykkt fundarins voru settar fram metnaðarfullar leiðbeiningar fyrir aukna þátttöku þjóðþinga í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Þar voru áréttaðar skuldbindingar við alþjóðlegar aðgerðir til að takast á við alvarleg áhrif loftslagsbreytinga sem ógna heiminum. Gengist var við þeirri eyðileggingu sem þegar hefur orðið af völdum loftslagsbreytinga og stutt við að auka aðgerðir í loftslagsmálum til verndar náttúruauðlindum og fjölbreytni lífríkis. Alþjóðaþingmannasambandið hefur undanfarinn áratug stutt þjóðþing í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Í samvinnu við samstarfsaðila veitir IPU þjóðþingum tæknilega aðstoð og heldur námskeið til þess að auka vitund þingmanna um alvarleika loftslagsbreytinga og til að skilgreina mikilvægustu aðgerðir.
    Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna var haldin dagana 30. nóvember til 13. desember í Dúbaí. Jódís Skúladóttir, Halldóra Mogensen og Þórunn Sveinbjarnardóttir, auk Örnu Gerðar Bang alþjóðaritara, sóttu ráðstefnuna 3.–6. desember fyrir hönd Alþingis. Stóru málin á ráðstefnunni voru hnattræn stöðutaka, þar sem lagt er mat á árangur ríkja, en fyrir liggur að herða þarf verulega á aðgerðum svo að markmiðum Parísarsamningsins verði náð. Einnig var lögð áhersla á nýjan loftslagshamfarasjóð um töp og tjón og rætt um tillögur um fyrirkomulag fjármögnunar og skilyrði til úthlutunar úr sjóðnum. Þá var krafa þróunarríkja um aukið fjármagn til loftslagsmála rauður þráður í þeirra málflutningi. Kjarninn í málflutningi Íslands var markmið um að hitastig jarðar hækkaði ekki meira en um 1,5° og að vísindin væru grunnur ákvarðana. Einnig var lögð áhersla á freðhvolfið og útfösun á notkun jarðefnaeldsneytis, auk réttlátra umskipta, mannréttinda og jafnréttismála. Meðal helstu niðurstaðna COP28 var að sögulegt samkomulag náðist um að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Ekki eru þó allir á eitt sáttir um orðalag yfirlýsingarinnar en ákall hefur verið á meðal margra ríkja að stefnt skuli að útfösun jarðefnaeldsneytis. Í samkomulaginu kemur fram að reynt verði að takmarka hlýnun jarðar við 1,5° og þannig verði hægt að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2050. Þá voru samþykkt markmið um að þrefalda endurnýjanlega orku og tvöfalda orkunýtingu fyrir árið 2030. Enn fremur var ákveðið að svokölluð hnattræn stöðutaka verði á fimm ára fresti. Með því sé komið verkfæri til að fylgja eftir markmiðum Parísarsamkomulagsins.

Fylgiskjal VI.



Ályktanir og yfirlýsingar Alþjóðaþingmannasambandsins árið 2023.


    Ályktanir Alþjóðaþingmannasambandsins:
     *      Um munaðarleysingjahæli og hlutverk þjóðþinga við að draga úr skaða.
     *      Að vekja athygli á og kalla eftir aðgerðum vegna alvarlegs ástands í mannúðarmálum sem hefur áhrif á íbúa Afganistans, Sýrlands, Úkraínu, Jemen og annarra landa, með áherslu á konur og börn.
     *      Um netglæpi: Nýju áhætturnar fyrir alþjóðlegt öryggi.
     *      Um viðleitni þjóðþinga til að ná kolefnislosunarjöfnuði skóga.

    Yfirlýsingar Alþjóðaþingmannasambandsins:
     *      Í þágu friðar, réttlætis og sterkra stofnana.
     *      Að stuðla að jafnrétti kynjanna á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.
     *      Að stuðla að friðsamlegri sambúð og samfélögum án aðgreiningar: Baráttan gegn umburðarleysi.