Ferill 633. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 945  —  633. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2023.

1. Inngangur.
    Á vettvangi Evrópuráðsþingsins á árinu 2023 bar hæst umræðu um undirbúning og eftirfylgni leiðtogafundar Evrópuráðsins í Reykjavík 16. og 17. maí og um árásarstríð Rússlands í Úkraínu. Var þetta fjórði leiðtogafundur Evrópuráðsins frá stofnun þess árið 1949 en fyrri fundir fóru fram í Vínarborg árið 1993, í Strassborg árið 1997 og í Varsjá árið 2005. Stjórnarnefnd Evrópuráðsþingsins kom saman á sérstökum aukafundi í Reykjavík 15. maí í aðdraganda leiðtogafundar hér á landi þar sem m.a. voru tekin til umræðu mikilvæg málefni sem snertu áherslur leiðtogafundarins á borð við stöðu og framtíð lýðræðis, marghliða samvinnu, sameiginleg gildi og nýja kynslóð réttinda. Þá voru einnig kynnt til sögunnar ný verðlaun í nafni Vigdísar Finnbogadóttur sem veitt verða í þingfundaviku Evrópuráðsþingsins í júní ár hvert fyrir framúrskarandi árangur í valdeflingu kvenna. Á stjórnarnefndarfundi Evrópuráðsþingsins í Vaduz í Liechtenstein í nóvember var formlega tekið við tilnefningum til verðlaunanna.
    Ísland tók við formennsku í Evrópuráðinu í nóvember 2022 og gegndi henni fram til 17. maí en þá tók Lettland við formennsku í ráðinu. Formennska í Evrópuráðinu tekur ekki til Evrópuráðsþingsins en forseti þess er kosinn á grundvelli tilnefninga flokkahópa sem á þinginu starfa. Þingmaður frá formennskuríki Evrópuráðsins tekur þó ætíð sæti í framkvæmdastjórn Evrópuráðsþingsins og sat Bjarni Jónsson í framkvæmdastjórninni í tengslum við formennskutíð Íslands. Ákveðið var að veita auknar heimildir til þátttöku á þingfundum Evrópuráðsþingsins í formennskutíð Íslands og gafst varamönnum Íslandsdeildar færi á að sækja tvo fyrri þingfundi ársins jafnhliða aðalmönnum en alls fundar Evrópuráðsþingið fjórum sinnum á árinu í viku í senn í Strassborg.
    Á dagskrá þingfundaviku í janúar bar einna hæst umræðu um skýrslu og tilmæli Evrópuráðsþingsins um leiðtogafundinn í Reykjavík, sem og umræðu um lagaleg sjónarmið og mannréttindaáhrif af árásarstríði Rússlands í Úkraínu. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ávarpaði þingið og átti fund með Íslandsdeild. Þá var Oddný Mjöll Arnardóttir kjörin dómari við Mannréttindadómstól Evrópu fyrir Íslands hönd, fyrst íslenskra kvenna. Málefni Kósovó og Serbíu voru til umfjöllunar í sérstakri umræðu vegna aukinnar spennu á milli ríkjanna tveggja og einnig var fjallað um afleiðingar af lokun Latsjín-hliðsins sem tengir saman Armeníu og Nagorno-Karabakh í Aserbaísjan.
    Á þingfundum í apríl var umræða um undirbúning fyrir leiðtogafundinn í Reykjavík enn í hámæli ásamt umræðu um afleiðingar árásarstríðs Rússlands í Úkraínu. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, ávörpuðu þingið og áttu fundi með Íslandsdeild. Olena Zelenska, forsetafrú Úkraínu, flutti netávarp við upphaf sérstakrar umræðu um brottnám úkraínskra barna og ráðherranefnd Evrópuráðsins, undir formennsku Íslands, samþykkti að taka fyrir aðildarumsókn Kósovó að Evrópuráðinu. Með samþykktinni fól ráðherranefndin Evrópuráðsþinginu að skila inn áliti um málið og hefja aðildarferlið með formlegum hætti.
    Í þingfundaviku Evrópuráðsþingsins í júní bar hæst umræðu um eftirfylgni leiðtogafundarins í Reykjavík, m.a. hvernig tryggja mætti að fjárveitingar til Evrópuráðsins fyrir árin 2024–2027 og fjárhagsáætlun Evrópuráðsþingsins fyrir árin 2024–2025 tækju mið af Reykjavíkuryfirlýsingunni og niðurstöðum fundarins. Að auki bar hátt umræðu um pólitískar afleiðingar árásarstríðs Rússlands í Úkraínu og um þátttöku íþróttafólks frá Rússlandi og Belarús á Ólympíuleikunum í París 2024, sem og sérstaka umræðu um stöðuna við Latsjín-hliðið og samskipti Armeníu og Aserbaísjan.
    Atburðir undangenginna daga og missera voru ofarlega á baugi í þingfundaviku í október en þar fór m.a. fram umræða um nýafstaðin hryðjuverk Hamas í Ísrael þar sem þingmenn lýstu meðal annars yfir áhyggjum af frekari hörmungum á svæðinu. Einnig fór fram umræða um mannúðarafleiðingar af árás Aserbaísjan á Nagarno-Karabakh, aukna spennu norður af Kósovó og árásarstríð Rússlands í Úkraínu. Václav Havel mannréttindaverðlaunin voru veitt á Evrópuráðsþinginu í ellefta sinn og komu þau að þessu sinni í hlut Osman Kavala sem hefur verið pólitískur fangi í Tyrklandi frá því í október 2017. Sérstök umræða um stöðu Kavala fór einnig fram á þingfundi þar sem m.a. var lagt til að ógilda kjörbréf tyrknesku landsdeildarinnar við upphaf þingfundar í janúar ef Kavala yrði ekki látinn laus úr haldi fyrir þann tíma. Birgir Þórarinsson flutti þinginu skýrslu um vaxandi neyðarástand í mannúðarmálum í Afganistan og meðal afgansks flóttafólks og Bjarni Jónsson stýrði fundi formanna landsdeilda Norðurlanda og Eystrasaltsríkja (NB8).
    Nefnd Evrópuráðsþingsins um fólksflutninga og málefni flóttafólks kom saman í Reykjavík í september en nefndina skipar 81 þingmaður frá ríkjunum 46 sem eiga aðild að Evrópuráðsþinginu. Birgir Þórarinsson, sem á sæti í nefndinni fyrir Íslands hönd, kynnti skýrslu sína á fundinum um neyðarástand í mannúðarmálum í Afganistan en einnig fór fram umræða um málefni innflytjenda og flóttafólks í aðdraganda kosninga og möguleg áhrif á réttindi þeirra, sem og hvernig tryggja mætti réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd í umsóknarferlinu. Þá fóru fram hringborðsumræður með þátttakendum úr fræðasamfélaginu og frá frjálsum félagasamtökum þar sem áhersla var lögð á eftirfylgni leiðtogafundar Evrópuráðsins í Reykjavík og sjónum beint að þeim þáttum Reykjavíkuryfirlýsingarinnar sem snúa að inngildingu flóttafólks og innflytjenda.
    Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins auglýsti í janúar eftir umsóknum um stöðu fulltrúa Íslands í nefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (CPT-nefnd). Alls sóttu sex um stöðuna og tilnefndi Íslandsdeild þrjá til setu í nefndinni og voru niðurstöður þess efnis kynntar á fundi undirnefndar lýðræðis- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins um mannréttindi í þingfundaviku í júní. Ráðherranefnd Evrópuráðsins tók tillögurnar til efnislegrar meðferðar á fundi nefndarinnar í október og var Elsa Bára Traustadóttir endurkjörin til setu í nefndinni fyrir tímabilið 20. desember 2023 til 19. desember 2027.

2. Almennt um Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið.
    Evrópuráðið var stofnað 5. maí 1949 af tíu Vestur-Evrópuríkjum. Aðildarríkin eru nú 46 talsins með samtals um 830 milljónir íbúa og mynda eina órofa pólitíska heild í álfunni að Rússlandi, Belarús og Kósovó undanskildum en Rússlandi var vísað úr ráðinu í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu í febrúar 2022. Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um grundvallarhugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi, lýðræði og réttarríki, auk þess að stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum. Með það að markmiði beitir ráðið sér m.a. fyrir gerð og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála. Mannréttindasáttmálinn er þeirra þekktastur og á honum grundvallast Mannréttindadómstóll Evrópu. Dómstóllinn tekur til meðferðar kærur frá aðildarríkjum, einstaklingum og hópum vegna meintra brota á ákvæðum mannréttindasáttmálans og eru dómar hans bindandi að þjóðarétti fyrir viðkomandi ríki.
    Ályktanir og fjölþjóðasáttmálar Evrópuráðsins hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar ráðsins á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á lýðræði og réttarríki, en mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og alþjóðleg samtök. Frá lokum kalda stríðsins hefur Evrópuráðið m.a. gegnt því veigamikla hlutverki að styðja við lýðræðisþróun í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, m.a. með tæknilegri aðstoð á sviði laga- og stjórnsýsluuppbyggingar auk kosningaeftirlits. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört síðan Berlínarmúrinn féll. Svartfjallaland er nýjasta aðildarríkið en það sleit ríkjasambandi við Serbíu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í maí 2006 og varð aðili að Evrópuráðinu í maí 2007.
    Framkvæmdarvald Evrópuráðsins er í höndum ráðherranefndarinnar, en í henni sitja utanríkisráðherrar aðildarríkjanna eða fastafulltrúar þeirra í Strassborg. Evrópuráðsþingið er vettvangur fulltrúa þjóðþinga aðildarríkjanna en einnig hafa sveitar- og héraðsstjórnir aðildarríkjanna samráð á ráðstefnu sveitar- og héraðsstjórna.
    Evrópuráðsþingið er vettvangur Evrópuráðsins fyrir umræðu, tilmæli og ályktanir á sviði stjórnmála, efnahagsmála, félagsmála, mannréttindamála, umhverfis- og orkumála og menningar- og menntamála. Á Evrópuráðsþinginu eiga 306 fulltrúar sæti og jafnmargir til vara. Ólíkt ráðherranefnd Evrópuráðsins þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar. Á þinginu starfa níu fastanefndir og sex flokkahópar. Þá sitja forseti, 20 varaforsetar og formenn fastanefnda og flokkahópa í framkvæmdastjórn þingsins, sem hefur umsjón með innri málefnum þess. Sami hópur skipar stjórnarnefnd þingsins ásamt formönnum landsdeilda. Þingið kemur saman ársfjórðungslega, eina viku í senn, að jafnaði í janúar, apríl, júní og október. Stjórnarnefndin fundar þrisvar á milli þingfunda. Loks kemur sameiginleg nefnd þingsins og ráðherranefndar Evrópuráðsins reglulega saman samhliða fundum Evrópuráðsþingsins í Strassborg.
    Hlutverk þingsins felst einkum í því að:
          eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum til ráðherranefndarinnar,
          hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir ef misbrestur verður þar á, og
          vera vettvangur fyrir skoðanaskipti og samráð þingmanna aðildarríkjanna og styrkja þannig lýðræðismenningu og efla tengsl þjóðþinga.
    Á þingfundum Evrópuráðsþingsins eru skýrslur nefnda ræddar og ályktað á grundvelli þeirra. Þingið getur beint tilmælum og álitum til ráðherranefndarinnar sem fjallar um þau og bregst við eftir atvikum með beinum aðgerðum. Evrópuráðsþingið á þannig oft frumkvæði að gerð fjölþjóðlegra sáttmála sem eru lagalega bindandi fyrir aðildarríkin. Sem dæmi má nefna að Evrópusáttmálinn um aðgerðir gegn mansali, sem tók gildi árið 2008, á rætur sínar að rekja til ályktana Evrópuráðsþingsins frá árunum 1997 og 2002. Þar eru stjórnvöld hvött til þess að grípa til samstilltra aðgerða til að stemma stigu við þeirri skipulögðu glæpastarfsemi sem mansal er. Sáttmáli Evrópuráðsins um baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi, sem einnig er nefndur Istanbúl-samningurinn, er einnig í samræmi við ályktanir Evrópuráðsþingsins. Istanbúl-samningurinn tók gildi árið 2014 og Ísland fullgilti hann í apríl 2018. Þingmenn á Evrópuráðsþinginu gegna einnig því mikilvæga hlutverki að velja dómara við Mannréttindadómstól Evrópu og kjósa í embætti Evrópuráðsins.
    Evrópuráðsþingið er fjölþjóðastofnun þar sem þingmenn frá öllum ríkjum Evrópu, að Rússlandi, Belarús og Kósovó undanskildum, starfa saman á jafnréttisgrundvelli. Jafnframt hafa störf Evrópuráðsþingsins bein áhrif á störf þjóðþinganna þar sem fulltrúar á Evrópuráðsþinginu eru þingmenn í heimalöndum sínum, ólíkt því sem á t.d. við um Evrópuþingið. Þingfundir Evrópuráðsþingsins, þar sem þingmenn bera saman bækur sínar og skiptast á skoðunum, eru því afar mikilvægt framlag til löggjafarstarfs heima fyrir og hafa þeir hraðað mjög þeirri öru lýðræðisþróun sem hefur orðið í Evrópu eftir lok kalda stríðsins og stutt hana. Þá hefur reynslan sýnt að þjóðir sem hafa skýr markmið í störfum sínum innan þingsins og kappkosta að ná þeim fram geta haft áhrif langt umfram stærð og pólitískt bolmagn. Sú staðreynd varpar skýru ljósi á mikilvægi íslenskrar þátttöku á Evrópuráðsþinginu og þá hagsmuni sem í henni felast.

3. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.
    Eftirfarandi aðalmenn áttu sæti í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins á árinu: Bjarni Jónsson, formaður, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, þingflokki Pírata, og Birgir Þórarinsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Í upphafi árs voru varamenn Jódís Skúladóttir, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Björn Leví Gunnarsson, þingflokki Pírata, og Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, en Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir tók sæti Björns Levís sem varamaður á þingfundi Evrópuþingsins í Strassborg í apríl. Ritari Íslandsdeildar var Auður Örlygsdóttir, sérfræðingur í alþjóðamálum.
    Skipan Íslandsdeildar í nefndir Evrópuráðsþingsins var sem hér segir:
     *      Stjórnarnefnd: Bjarni Jónsson.
     *      Sameiginleg nefnd Evrópuráðsþingsins og ráðherraráðsins: Bjarni Jónsson.
     *      Stjórnmála- og lýðræðisnefnd: Bjarni Jónsson.
     *      Laga- og mannréttindanefnd: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
     *      Nefnd um félagsmál, heilbrigðismál og sjálfbæra þróun: Bjarni Jónsson.
     *      Nefnd um fólksflutninga og málefni flóttafólks: Birgir Þórarinsson.
     *      Nefnd um menningar- og menntamál, fjölmiðla og vísindi: Birgir Þórarinsson.
     *      Jafnréttisnefnd: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
    Flokkahópar Evrópuráðsþingsins skipuðu Íslandsdeildarmeðlimi í eftirfarandi nefndir:
     *      Reglunefnd: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
     *      Eftirlitsnefnd: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Birgir Þórarinsson. Bjarni Jónsson sat einnig í eftirlitsnefnd fyrri hluta árs.
    Bjarni Jónsson sat í framkvæmdastjórn Evrópuráðsþingsins í tengslum við formennsku Íslands í Evrópuráðinu eða allt fram í miðjan nóvember þegar Liechtenstein tók við keflinu af Lettlandi. Bjarni tók því þátt í fundum framkvæmdastjórnar sem fundaði alla jafna tvisvar í hverri þingfundaviku og eins í tengslum við fundi stjórnarnefndar. Bjarni sótti einnig þrjá fundi stjórnarnefndar sem fulltrúi Íslandsdeildar í nefndinni, í Haag, Ríga og Vaduz, auk fundarins sem haldinn var í Reykjavík í aðdraganda leiðtogafundar. Hann tók einnig þátt í þingmannaneti um heilnæmt umhverfi á vegum félagsmálanefndar og tók sæti í sérnefnd á vegum framkvæmdastjórnarinnar um brottnám úkraínskra barna. Þá tók hann einnig sæti í sérnefnd um framtíð lýðræðis í Belarús af hálfu stjórnmálanefndar Evrópuráðsþingsins. Að auki sótti Bjarni þrjá nefndarfundi á árinu utan þingfundaviku, tvo fundi stjórnmálanefndar og einn fund sérnefndar Evrópuráðsþingsins um brottnám úkraínskra barna.
    Þórhildur Sunna Ævarsdóttir tók þátt í tveimur fundum eftirlitsnefndar, tveimur fundum laga- og mannréttindanefndar og einum fundi jafnréttisnefndar. Hún gegndi stöðu formanns undirnefndar laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins um gervigreind og mannréttindi og sat í undirnefndum laga- og mannréttindanefndar um mannréttindi og um framfylgd úrskurða Mannréttindadómstóls Evrópu. Hún gegndi stöðu annars varaformanns reglunefndar frá janúar og fram í apríl. Hún var fengin til þess að stýra umræðu eða flytja erindi á sex fundum og ráðstefnum um mismunandi málefni, svo sem um gervigreind og mannréttindi, um beitingu refsiréttar í þágu umhverfisverndar og um kosningar á viðsjárverðum tímum. Þórhildur Sunna var skipuð framsögumaður af hálfu laga- og mannréttindanefndar í málefnum pólitískra fanga. Þá var hún framsögumaður fyrir tveimur skýrslum á árinu, annars vegar í tengslum við eftirlit með skuldbindingum Búlgaríu gagnvart Evrópuráðinu og hins vegar um óréttmæta fangelsun Vladímírs Kara-Murza og kerfisbundnar ofsóknir í Rússlandi gegn andstæðingum árásarstríðs Rússlands. Þórhildur Sunna fór jafnframt í kosningaeftirlit til Tyrklands í maí.
    Birgir Þórarinsson sótti fjóra nefndarfundi utan þingfundaviku, einn fund menningarmálanefndar, einn fund eftirlitsnefndar og einn fund flóttamannanefndar en annar þeirra fór fram á Íslandi. Birgir kynnti skýrslu flóttamannanefndar um yfirvofandi neyðarástand í mannúðarmálum í Afganistan og meðal afgansks flóttafólks á fundi flóttamannanefndar í Reykjavík og tók einnig þátt í pallborðsumræðum í tengslum við fundinn þar sem áhersla var lögð á eftirfylgni leiðtogafundar og sjónum beint að þeim þáttum Reykjavíkuryfirlýsingarinnar sem snúa að inngildingu flóttafólks og innflytjenda. Birgir fór í vettvangsferð til Tyrklands vegna skýrslugerðar um stöðu mannúðarmála í Afganistan og kynnti skýrsluna á þingfundi Evrópuráðsþingsins í október þar sem skýrslan var samþykkt samhljóða. Birgir var skipaður framsögumaður í málefnum afgansks flóttafólks af hálfu flóttamannanefndar og gegndi áfram stöðu framsögumanns fyrir skýrslu um eftirlit með skuldbindingum Úkraínu gagnvart Evrópuráðinu.

4. Fundir Evrópuráðsþingsins 2023.
    Þingfundir Evrópuráðsþingsins eru að jafnaði haldnir í Evrópuhöllinni í Strassborg fjórum sinnum á ári, í janúar, apríl, júní og október. Auk þess koma framkvæmdastjórn og stjórnarnefnd Evrópuráðsþingsins saman til funda á milli þinga og afgreiða mál sem æðsta vald þingsins.

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 23.–27. janúar.
    Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Bjarni Jónsson, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, varamaður, og Björn Leví Gunnarsson, varamaður, auk Auðar Örlygsdóttur, sérfræðings í alþjóðamálum. Veitt var sérstök heimild til aukinnar þátttöku á vettvangi Evrópuráðsþingsins sem gerði varamönnum kleift að sækja þingfundi í formennskutíð Íslands í ráðinu, frá nóvember 2022 til maí 2023. Á dagskrá bar einna hæst umræðu um skýrslu og tilmæli Evrópuráðsþingsins um leiðtogafundinn í Reykjavík, sem og umræðu um lagaleg sjónarmið og mannréttindaáhrif af árásarstríði Rússlands í Úkraínu (sjá fylgiskjal I).

Fundir framkvæmdastjórnar og stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í Haag 2. og 3. mars.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Bjarni Jónsson, formaður, og Auður Örlygsdóttir, sérfræðingur í alþjóðamálum. Á dagskrá fundar var m.a. málþing í tilefni af því að 75 ár voru liðin frá Evrópufundinum í Haag, sérstök umræða um stuðning við Úkraínu einu ári eftir upphaf árásarstríðs Rússlands og umræða um undirbúning komandi leiðtogafundar í Reykjavík í maí undir fyrirsögninni Leiðin til Reykjavíkur (sjá fylgiskjal II).

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 24.–28. apríl.
    Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Bjarni Jónsson, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, og Birgir Þórarinsson, auk Auðar Örlygsdóttur, sérfræðings í alþjóðamálum. Formennska Íslands í Evrópuráðinu setti svip sinn á þingfundaviku, ásamt umræðu um árásarstríð Rússlands í Úkraínu og komandi leiðtogafund Evrópuráðsins í Reykjavík í maí (sjá fylgiskjal III).

Aukafundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í Reykjavík 15. maí.
    Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Bjarni Jónsson, formaður, Birgir Þórarinsson, Jódís Skúladóttir, varamaður, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, varamaður, auk Auðar Örlygsdóttur, sérfræðings í alþjóðamálum. Á dagskrá fundarins, sem haldinn var í aðdraganda leiðtogafundar Evrópuráðsins, voru m.a. ný verðlaun í nafni Vigdísar Finnbogadóttur á sviði valdeflingar kvenna, málþing um stöðu og framtíð lýðræðis og umræður um mikilvægi sameiginlegra gilda og marghliða samvinnu, og um mannréttindavernd og nýja kynslóð réttinda (sjá fylgiskjal IV).

Fundir framkvæmdastjórnar og stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í Ríga 25. og 26. maí.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Bjarni Jónsson, formaður, og Auður Örlygsdóttir, sérfræðingur í alþjóðamálum. Meðal helstu áherslumála var eftirfylgni leiðtogafundarins í Reykjavík og umræða um að útiloka íþróttafólk frá Rússlandi og Belarús frá keppni á Ólympíuleikunum í París 2024 (sjá fylgiskjal V).

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 19.–23. júní.
    Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Bjarni Jónsson, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, og Birgir Þórarinsson, auk Auðar Örlygsdóttur, sérfræðings í alþjóðamálum. Meðal helstu dagskrármála var sameiginleg umræða um pólitískar afleiðingar árásarstríðs Rússlands í Úkraínu og þátttaka íþróttafólks frá Rússlandi og Belarús á Ólympíuleikunum í París 2024, ásamt sérstakri umræðu um stöðuna við Latsjín-hliðið og samskipti Armeníu og Aserbaísjan (sjá fylgiskjal VI).

Fundur nefndar Evrópuráðsþingsins um fólksflutninga og málefni flóttafólks í Reykjavík 21. og 22. september.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Birgir Þórarinsson, meðlimur í Íslandsdeild og flóttamannanefnd Evrópuráðsþingsins, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, varamaður, og Auður Örlygsdóttir, sérfræðingur í alþjóðamálum. Á dagskrá fundar var m.a. skýrsla Birgis Þórarinssonar um yfirvofandi neyðarástand í mannúðarmálum í Afganistan og meðal afgansks flóttafólks (sjá fylgiskjal VII).

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 9.–13. október.
    Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Bjarni Jónsson, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, og Birgir Þórarinsson, auk Auðar Örlygsdóttur, sérfræðings í alþjóðamálum. Á dagskrá þingsins var m.a. umræða um hryðjuverk Hamas í Ísrael, mannúðarafleiðingar af árás Aserbaísjan á Nagarno-Karabakh, aukna spennu norður af Kósovó og árásarstríð Rússlands í Úkraínu (sjá fylgiskjal VIII).

Fundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í Vaduz 28. nóvember.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Bjarni Jónsson, formaður, og Auður Örlygsdóttir, sérfræðingur í alþjóðamálum. Meðal áherslumála á fundinum voru friður og réttlæti í Úkraínu og fyrir botni Miðjarðarhafs og eftirfylgni eftir leiðtogafundinn en á fundinum var opnað í fyrsta skipti fyrir tilnefningar til Vigdísarverðlaunanna fyrir valdeflingu kvenna (sjá fylgiskjal IX).

5. Ályktanir, tilmæli og álit Evrópuráðsþingsins árið 2023.
    Ályktun er ákvörðun Evrópuráðsþingsins eða yfirlýsing um afstöðu þess í tilteknu máli. Tilmæli eru tillögur sem alla jafna byggjast á ályktunum þingsins og er beint til ráðherranefndarinnar sem tekur þær til umfjöllunar og bregst við eftir atvikum með beinum aðgerðum eða tillögu að lagasetningu í aðildarríkjunum. Álit eru oftast gefin sem umsögn eða svör við spurningum sem ráðherranefndin beinir til þingsins, t.d. varðandi inngöngu nýrra aðildarríkja, en einnig um fjárlög Evrópuráðsins og drög að nýjum Evrópusamningum.
    Nálgast má upplýsingar um þær ályktanir, álit og tilmæli til ráðherranefndar Evrópuráðsins sem samþykkt voru á þingfundum og fundum stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins árið 2023 á vefsíðu þess.

Alþingi, 1. febrúar 2024.

Bjarni Jónsson,
form.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir,
varaform.
Birgir Þórarinsson.

Fylgiskjal I.


FRÁSÖGN
af fundum Evrópuráðsþingsins í Strassborg 23.–27. janúar 2023.


    Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Bjarni Jónsson, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, varamaður, og Björn Leví Gunnarsson, varamaður, auk Auðar Örlygsdóttur, sérfræðings í alþjóðamálum. Veitt var sérstök heimild til aukinnar þátttöku á vettvangi Evrópuráðsþingsins í formennskutíð Íslands í ráðinu, frá nóvember 2022 til maí 2023, sem gerði varaþingmönnum kleift að sækja þingfundi á tímabilinu.
    Á dagskrá bar einna hæst umræðu um skýrslu og tilmæli Evrópuráðsþingsins um leiðtogafundinn í Reykjavík, sem og umræðu um lagaleg sjónarmið og mannréttindaáhrif af árásarstríði Rússlands í Úkraínu. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, ávörpuðu þingið og venju samkvæmt flutti Marija Pejcinovic Buric, aðalframkvæmdastjóri, þinginu skýrslu. Einnig fór fram kjör tveggja dómara til Mannréttindadómstóls Evrópu. Oddný Mjöll Arnardóttir var kjörin dómari fyrir Íslands hönd, fyrst íslenskra kvenna, og Anne Louise Haahr Bormann tók sæti Danmerkur við Mannréttindadómstólinn. Málefni Kósovó og Serbíu var til umfjöllunar í sérstakri umræðu um aukna spennu á milli ríkjanna tveggja og einnig var fjallað um afleiðingar af lokun Latsjín-hliðsins sem tengir saman Armeníu og Nagorno-Karabakh í Aserbaísjan. Þá fór einnig fram sameiginleg umræða um þrjár kynjajafnréttisályktanir, um áskoranir Istanbúl-samningsins, um hlutverk karla og drengja í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi og um lausnir á þvinguðu hjónabandi. Í vikunni ræddi þingið jafnframt ályktanir og tilmæli um endurkomu Daesh-liða til aðildarríkja Evrópuráðsins, um kynferðislegt ofbeldi í átökum, um umhverfisáhrif stríðsátaka, um siðferðileg og menningarleg álitamál í tengslum við rakningaröpp, um eftirlitsstarf þingsins á síðasta ári, um framfylgd Moldóvu á skuldbindingum sínum gagnvart Evrópuráðinu, um mannréttindi í tengslum við sjálfvirk vopnakerfi og um OCEAN-fræðasamstarfið.     Þingið samþykkti tilmæli á grundvelli skýrslu Fionu O'Laughlin, þingkonu frá Írlandi úr flokkahópi frjálslyndra, um leiðtogafund Evrópuráðsins í Reykjavík 16. og 17. maí. Með tilmælunum hvetur þingið ríkisstjórnir aðildarríkjanna 46 til þess að styrkja hlutverk ráðsins sem boðbera mannréttinda, lýðræðis og réttarríkis á tímum gríðarlegra áskorana. Þingið fór meðal annars fram á óskoraðan stuðning við Úkraínu og lagði til að aðildarríkin leiddu stofnun sérstaks dómstóls fyrir árásarglæpi Rússlands. Þá lagði þingið einnig til að ríkin tækju forystu um mikilvæg framfaraskref á sviði umhverfisverndar og styddu gerð lagaramma sem tryggði réttinn á hreinu, heilnæmu og sjálfbæru umhverfi. Bjarni Jónsson talaði fyrir hönd flokkahóps sameinaðra vinstri manna og tók sérstaklega undir tilmæli um að festa ætti í sessi lagalega bindandi ramma á leiðtogafundinum sem tryggði réttinn til heilnæms umhverfis. Slíkt mætti gera með stofnun sérstakrar nefndar um verndun umhverfisins, svokallaðrar Reykjavíkurnefndar, í takt við Evrópunefnd um skilvirkara réttlæti (e. European Commission for the efficiency of justice (CEPEJ)). Þá lagði hann jafnframt áherslu á að styrkja stoðir lýðræðis, í takt við tilmæli þingsins, og benti í því samhengi á að undir forystu Íslands hefði ferlið verið opnað í fyrsta sinn og kallað eftir tillögum frá frjálsum félagasamtökum og einstaklingum varðandi umfjöllun og efnistak fundarins. Með því væri verið að hvetja almenning til þátttöku í stefnumótandi aðgerðum í aðdraganda leiðtogafundarins.
    Oleksandra Matvíjtsjúk, framkvæmdastjóri Miðstöðvar borgaralegra réttinda (e. Center for Civil Liberties) í Úkraínu opnaði umræðu um lagaleg sjónarmið og mannréttindaáhrif af árásarstríði Rússlands í Úkraínu en samtökin voru ein af handhöfum friðarverðlauna Nóbels árið 2022. Þórhildur Sunna tók til máls fyrir hönd flokkahóps jafnaðarmanna og lagði áherslu á mikilvægi þess að draga rússnesk stjórnvöld til ábyrgðar fyrir stríðsglæpi og að stærsti glæpurinn væri í raun stríðið sjálft. Brýnt væri að setja á fót sérstakan dómstól um glæpi gegn friði í Úkraínu. Refsileysi stæði stríðsglæpum og árásarstríðum fyrir þrifum. Hún sagði skýrsluna vera leiðarvísi til réttlætis og lagði áherslu á að hún yrði samþykkt á vettvangi þingsins. Að lokum ítrekaði hún stuðning sinn og síns flokkahóps við úkraínsku þjóðina sem sýndi af sér mikið hugrekki.
    John Howell, formaður bresku landsdeildarinnar, kynnti skýrslu félagsmálanefndar um umhverfisáhrif átaka. Bjarni tók til máls undir þeim dagskrárlið og talaði fyrir því að rétturinn til heilnæms umhverfis yrði viðurkenndur sem sjálfstæð mannréttindi og að nauðsynlegt væri að horfast í augu við þá eyðileggingu sem stríðsrekstur hefði fyrir náttúru og vistkerfi viðkomandi svæða. Í skýrslunni væri að finna mikilvæga viðurkenningu á vistmorði (e. ecocide) sem glæp gegn mannkyni og aðgerðir sem ætlað væri að draga úr refsileysi fyrir slíkan glæp. Þá lagði hann til að leiðtogafundurinn í Reykjavík yrði nýttur til þess að marka fyrstu skrefin í þá átt.
    Berglind tók til máls í umræðu um rakningarsmáforrit þar sem hún lagði meðal annars áherslu á mikilvægi þess að skoða hvort smáforritin stæðust persónuvernd og sagði áhyggjuleysi almennra borgara visst áhyggjuefni. Afar brýnt væri að tryggja að hvers kyns eftirlit af hinu opinbera gengi ekki þvert gegn grundvallarmannréttindum. Björn Leví tók í svipaðan streng í sömu umræðu og sagði að það væri einmitt á erfiðum tímum, þegar hvað mest væri í húfi varðandi mannréttindi, sem hvað erfiðast væri að standa vörð um þau. Nauðsynlegt væri að tryggja persónuvernd og auka á skyldu einkageirans og hins opinbera varðandi gagnsæi. Leiðbeiningar um notkun þyrftu að vera skýrar svo að tryggja mætti grundvallarmannréttindi.
    Berglind tók einnig til máls í sameiginlegri umræðu um jafnréttismál þar sem hún talaði um mikilvægi Istanbúl-samningsins og bakslagið sem finna mætti í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Hún minntist á ógnina sem stafaði af stafrænu kynferðisofbeldi og að þar væru ungar stúlkur í sérstökum áhættuhópi. Hún kom einnig inn á áherslur Íslands í formennsku sinni í Evrópuráðinu og fagnaði því að þar væru mannréttindi og jafnrétti sett á oddinn og ekki síst hlutverk karla og drengja í baráttunni gegn mismunun og misrétti.
    Bjarni talaði fyrir hönd flokkahóps sameinaðra vinstri manna í umræðu um banvæn sjálfvirk vopnakerfi þar sem hann sagði mikilvægt að kalla eftir skýlausu banni við slíkum vopnakerfum þar sem þau væru ekki í samræmi við alþjóðalög og mannréttindi. Hann nefndi í þessu samhengi að Alþingi hefði lagt fram þingsályktunartillögu árið 2016 þar sem þingið lýsti yfir stuðningi við blátt bann gegn framleiðslu og notkun á slíkum vopnakerfum. Björn Leví tók einnig til máls undir þessum dagskrárlið og lýsti svipaðri afstöðu til málsins þar sem hann vitnaði meðal annars í kvikmyndina Tortímandann um dómsdaginn sem nálgaðist þegar menn og vélar myndu berjast. Björn Leví taldi tækniþróunina í raun óumflýjanlega en lagði áherslu á að beiting hennar væri valkvæð. Hann lagði því fram breytingartillögur með það að markmiði að skýra enn frekar mikilvægi mannlegrar aðkomu í allri ákvarðanatöku um notkun og beitingu á þessum banvænu sjálfvirku vopnakerfum. Þá tók Björn Leví einnig til máls í umræðu um OCEAN, opið tengslanet Evrópuráðsins fyrir fræðimenn, þar sem hann talaði fyrir mikilvægi þess að til staðar væri öflugt net fræðimanna sem byggðist á grunngildum Evrópuráðsins og gæti staðið vörð um akademískt frelsi.
    Á þessum fyrsta þingfundi ársins fór fram kosning venju samkvæmt til forseta Evrópuráðsþingsins og var Tiny Kox, öldungadeildarþingmaður frá Hollandi og meðlimur í flokkahópi sameinaðra vinstri manna, endurkjörinn forseti þingsins með 175 atkvæðum gegn 44. Kox hlaut nokkuð óvænt mótframboð frá Oleksandr Merezjko, þingmanni frá Úkraínu og meðlim í flokkahópi hægri manna.
    Samhliða þingfundum fundaði Íslandsdeild með Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, og Ragnhildi Arnljótsdóttur, fastafulltrúa Íslands gagnvart Evrópuráðinu. Fyrir hönd Íslandsdeildar sótti Björn Leví Gunnarsson, varamaður, fund með forseta þingsins í Kósovó. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, var skipuð í sérfræðinganefnd laga- og mannréttindanefndar um beitingu refsiréttar í þágu umhverfisverndar og þá sat Bjarni Jónsson, formaður, einnig fund framkvæmdastjórnar þingsins.

Fylgiskjal II.


FRÁSÖGN
af fundum framkvæmdastjórnar og stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í Friðarhöllinni í Haag 2. og 3. mars 2023.


    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Bjarni Jónsson, formaður, og Auður Örlygsdóttir, sérfræðingur í alþjóðamálum. Dagskráin hófst á málþingi í tilefni af því að 75 ár voru liðin frá Evrópufundinum í Haag en einnig fór fram sérstök umræða um stuðning við Úkraínu einu ári eftir upphaf árásarstríðs Rússlands. Á fundinum var jafnframt fjallað um undirbúning fyrir leiðtogafund í Reykjavík í maí undir fyrirsögninni Leiðin til Reykjavíkur (e. #Road to Reykjavík), evrópska samstöðu á sviði alþjóðlegrar verndar, menningarslóðir sem vettvang fyrir fjölmenningarlega umræðu, eflingu rannsókna og menntunar á netinu þvert á landamæri og nýja nálgun á sviði kyn- og frjósemisheilbrigðis og réttinda sem tengjast því.
    Evrópufundurinn í Haag í maí 1948 markaði tímamót í samstarfi Evrópuríkja. Þá komu saman fleiri en 750 stjórnmálamenn, vísindamenn, blaðamenn, rithöfundar og aðrir fulltrúar víðs vegar að úr Evrópu til að ræða hvernig endurreisa mætti Evrópu á grunni marghliða samvinnu í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar og koma í veg fyrir að þriðja, og hugsanlega síðasta, heimsstyrjöldin brytist út í Evrópu. Tiny Kox, forseti Evrópuráðsþingsins, flutti opnunarávarp en frummælendur voru Franc Weerwind, ráðherra réttarverndar í Hollandi, og Marija Pejcinovic Buric, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins. Í framsöguræðum var sjónum beint að þeim gríðarlegu framförum sem náðst hefðu á undanförnum 75 árum, ekki síst fyrir tilstuðlan alþjóðlegra samninga, ályktana og samþykkta. Árásarstríð Rússlands í Úkraínu setti svip sinn á umræðuna og meðal þess sem kom fram var mikilvægi þess að sú framtíðarsýn og sá metnaður sem leiðtogar Evrópu sýndu af sér í Haag árið 1948 yrði ráðamönnum nú hvatning til aukinnar samstöðu og samvinnu. Þátttakendur í pallborðsumræðum voru Barbara Oomen, prófessor í mannréttindum við Utrecht-háskóla, og Bob Deen, fræðimaður við Clingendael-stofnunina. Í umræðum var fjallað um mikilvægi alþjóðastofnana og áhrif þeirra á daglegt líf Evrópubúa. Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneyti Íslands, flutti lokaorð og gerði grein fyrir sjónarmiðum íslenskra stjórnvalda er þau gegna formennsku í Evrópuráðinu og mikilvægi leiðtogafundarins fyrir marghliða samvinnu og eflingu réttarríkisins. Málþingið var skipulagt af landsdeild Hollands á Evrópuráðsþinginu, utanríkisráðuneyti Hollands og Clingendael-stofnuninni.
    Fundur stjórnarnefndar hófst á ávörpum Jans Anthonie Bruijns, forseta efri málstofu hollenska þingsins (Eerste Kamer), og Toms van der Lee, varaforseta neðri málstofunnar (Tweede Kamer), þar sem þeir lögðu áherslu á mikilvægi Evrópuráðsins og Evrópuráðsþingsins. Í kjölfarið fór fram sérstök umræða um stuðning við Úkraínu einu ári eftir upphaf árásarstríðsins og hlutverk Evrópuráðsins. Umræðan hófst á því að stuðningur Evrópuráðsþingsins við Úkraínu var ítrekaður og öll viðstödd vottuðu fórnarlömbum stríðsins virðingu sína með einnar mínútu þögn. Bjarni Jónsson ávarpaði fundinn fyrir hönd flokkahóps síns og fjallaði um heimsókn sína til Úkraínu 24. febrúar. Þar lagði hann áherslu á mikilvægi þess að sýna úkraínsku þjóðinni stuðning og samhug með þátttöku sinni á þessum hörmulegu tímamótum og hrósaði landsdeild Úkraínu fyrir aðdáunarvert starf þeirra við að sameina þingmenn ráðsins í stuðningi sínum við Úkraínu. Hann vitnaði í Zelenskí, forseta Úkraínu, um mikilvægi þess að Úkraína glataði ekki landi sínu og fullveldi og lagði áherslu á mikilvægi þess að styðja Úkraínu í áframhaldandi baráttu.
    Frummælendur í umræðu um undirbúning leiðtogafundar Evrópuráðsins í Reykjavík 16. og 17. maí voru Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis, Leendert Verbeek, forseti Samráðsþings sveitar- og héraðsstjórna á Evrópuráðsþinginu, Bjørn Berge, aðstoðarframkvæmdastjóri Evrópuráðsins, og Jacobine Geel, forseti Mannréttindastofnunar Hollands. Í ræðu Martins Eyjólfssonar kom fram að leiðtogafundurinn væri mikilvægt tækifæri fyrir þjóðhöfðingja og ríkisstjórnir 46 aðildarríkja Evrópuráðsins til að koma saman fyrir Úkraínu, fyrir Evrópu og fyrir Evrópuráðið. Í því samhengi fjallaði hann um mikilvægi samráðs og samstarfs, bæði við almenning en ekki síst Evrópuráðsþingið sem veitti Evrópuráðinu lýðræðislegt lögmæti. Þá minntist hann á mikilvægi þess að leiðtogafundurinn leiddi til áþreifanlegra niðurstaðna fyrir borgara Evrópu og lýsti skrefum sem þegar hafa verið stigin til að tryggja ábyrgðarskyldu gagnvart Úkraínu með stofnsetningu sérstakrar tjónaskrár vegna eignaskemmda, manntjóns og alvarlegra meiðsla sem innrás Rússlands í Úkraínu hefur leitt af sér. Í umræðum kom fram að leiðtogafundurinn væri sögulegt tækifæri fyrir ráðamenn til að skilgreina framtíð Evrópuráðsins upp á nýtt í breyttu pólitísku landslagi og að nauðsynlegt væri að nýta fundinn til að staðfesta og treysta enn frekar evrópsk gildi um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið. Áhersla var lögð á samstarf þvert á stjórnsýslustig og að framlag hvers og eins skipti miklu þrátt fyrir að áskoranir samtímans væru hnattrænar í eðli sínu.
    Fjórar ályktanir voru samþykktar samhljóða á fundinum í Friðarhöllinni í Haag: ályktun um evrópska samstöðu á sviði alþjóðlegrar verndar, um menningarslóðir sem vettvang fyrir fjölmenningarlega umræðu, um eflingu rannsókna og menntunar á netinu þvert á landamæri og um nýstárlegar nálganir á sviði kyn- og frjósemisheilbrigðis og réttinda sem tengjast því.
    Fundunum í Haag lauk með hringborðsumræðum um hlutverk karla og drengja í því að stöðva kynbundið ofbeldi. Bjarni Jónsson sat einnig fund framkvæmdastjórnar þingsins.

Fylgiskjal III.


FRÁSÖGN
af fundum Evrópuráðsþingsins í Strassborg 24.–28. apríl 2023.


    Ísland tók við formennsku í Evrópuráðinu í nóvember 2022 og af því tilefni var ákveðið að veita varamönnum Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins heimild til að sækja þing Evrópuráðsins í formennskutíð Íslands til jafns á við aðalmenn. Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Bjarni Jónsson, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, Birgir Þórarinsson, Jódís Skúladóttir, varamaður, og Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, varamaður, auk Auðar Örlygsdóttur, sérfræðings í alþjóðamálum.
    Formennska Íslands í Evrópuráðinu setti svip sinn á þingfundaviku, ásamt umræðu um árásarstríð Rússlands í Úkraínu og komandi leiðtogafund Evrópuráðsins í Reykjavík í maí. Í opnunarávarpi sínu lagði Tiny Kox, forseti Evrópuráðsþingsins, áherslu á leiðtogafundinn og leiðina til Reykjavíkur og þakkaði gjöfult samstarf við ráðherranefndina í undirbúningsferlinu. Þrátt fyrir að fundurinn væri fyrst og fremst meðal ráðamanna aðildarríkja Evrópuráðsins væri þáttur þingsins veigamikill og markvert að stjórnarnefnd Evrópuráðsþingsins kæmi saman í Reykjavík 15. maí í aðdraganda leiðtogafundar. Kox minntist einnig þeirra sem létust í jarðskjálftum í Tyrklandi og Sýrlandi í febrúar 2023 og vottaði fjölskyldum þeirra samúð sína við upphaf þingfundar. Kjörbréf Arndísar Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur var samþykkt á þingfundi en hún tók sæti Björns Levís Gunnarssonar sem varamaður í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins fyrir þingflokk Pírata.
    Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, ávörpuðu þingið og sátu fyrir svörum. Bjarni Jónsson tók til máls fyrir hönd flokkahóps sameinaðra evrópskra vinstrimanna (UEL) í umræðu um framvinduskýrslu Evrópuráðsþingsins og varð honum tíðrætt um árásarstríð Rússlands í Úkraínu. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að Evrópuráðsþingið hefði svarað innrásinni af einurð og festu og verið leiðandi í stuðningi sínum við Úkraínu. Hann sagði einnig að þingið hefði leikið afgerandi hlutverk í aðdraganda leiðtogafundarins og að það væri í raun fyrir tilstuðlan þingsins og forseta þess sem fundurinn væri á dagskrá. Tekið yrði mið af áherslum þingsins við mótun efnistaka fundarins og í fyrsta sinn hefði almenningi gefist kostur á að hafa áhrif á áherslumál fundarins í opnu ferli. Bjarni sagði að leiðtogafundurinn ætti eftir að skila mikilvægum niðurstöðum, þar yrðu lagðar fram meginreglur um lýðræði til að sporna gegn lýðræðislegri afturför, stuðningur við Úkraínu yrði í forgrunni og Rússland yrði dregið til ábyrgðar fyrir gjörðir sínar. Stofnun tjónaskrár væri fyrsta skrefið í þá átt. Hann lagði einnig áherslu á mikilvægi aðgerða í þágu brottnuminna barna frá Úkraínu og sagði brýnt að leiðtogafundurinn yrði einnig nýttur til að þróa lagaramma sem tryggði rétt til heilnæms umhverfis.
    Birgir Þórarinsson talaði fyrir hönd flokkahóps evrópskra þjóðarflokka (EPP) í sérstakri umræðu um undirbúning fyrir leiðtogafundinn. Hann þakkaði þeim aðildarríkjum sem hefðu skuldbundið sig til þátttöku á fundinum og sagðist binda vonir við að hann yrði sögulegur. Hann vitnaði í því samhengi til Höfðafundarins árið 1986 og sagði að Reykjavík hefði þegar sýnt að borgin gæti verið mikilvægur vettvangur á erfiðum tímum. Ísland hefði lagt fram afar brýn mál til fundarins en nú væri það í höndum aðildarríkja að tryggja að fundurinn skilaði tilætluðum árangri.
    Olena Zelenska, forsetafrú Úkraínu, flutti netávarp við upphaf sérstakrar umræðu um brottnám úkraínskra barna sem felld var undir dagskrárlið um knýjandi málsmeðferð (e. debate under urgent procedure). Bjarni Jónsson talaði fyrir hönd flokkahóps síns og lýsti áhyggjum sínum af þeim vísbendingum sem safnast hefðu saman frá upphafi stríðs um að úkraínsk börn hefðu verið numin brott til Rússlands með ólöglegum hætti. Slíkt bryti í bága við alþjóðleg mannúðarlög og teldist bæði stríðsglæpur og glæpur gegn mannkyni. Hann sagði að brýnt væri að þingið gerði allt sem hægt væri til að endurheimta líf þessara barna og fjölskyldna þeirra og sjá til þess að Rússland yrði dregið til ábyrgðar fyrir þessi grimmdarverk. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir tók til máls fyrir hönd flokkahóps jafnaðarmanna (SOC) í sömu umræðu. Hún sagði að það að ræna börnum og að ræna þau fjölskyldu sinni og sjálfsmynd væri ekki einungis grimmilegt brot gegn börnunum sjálfum og fjölskyldum þeirra heldur væri það réttilega skilgreint sem einn þáttur þjóðarmorðs. Þau gögn sem lægju fyrir legðu mikla ábyrgð á herðar þingsins, aðildarríkja og ekki síst alþjóðastofnana og dómstóla. Kerfisbundið og ólöglegt brottnám úkraínskra barna krefðist aðgerða og vonaði hún að leiðtogafundurinn myndi marka fyrstu skrefin í þá átt.
    Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir tók til máls í umræðu um skýrslu eftirlitsnefndar um skuldbindingar San Marínós gagnvart Evrópuráðinu þar sem hún tæpti á áskorunum smáríkja. Hún benti á að smáríki væru ekki smækkaðar útgáfur af stærri ríkjum. Meðal áskorana sem smáríki eða örríki á borð við San Marínó stæðu frammi fyrir væru takmarkaðar auðlindir, takmarkaður mannauður og fábreyttari efnahagur. Skortur á mannauði hefði áhrif á getu stjórnvalda og setti einnig mark sitt á einkageira og frjáls félagasamtök. Þetta gæti bæði verið kostur og ókostur, boðleiðir væru styttri, samskipti óformlegri og því oft auðveldara að samþætta einstaka verkþætti þrátt fyrir mögulegan skort á nægri sérhæfingu innan kerfis. Hún sagði að skýrslan sýndi hvernig örríkinu San Marínó hefði tekist að nýta sér sérstöðu smáríkja og skapa þróað stofnanakerfi lýðræðis og réttarríkis í landinu.
    Jódís Skúladóttir tók til máls fyrir hönd flokkahóps sameinaðra evrópskra vinstrimanna í umræðu um ungt fólk og miðla. Hún sagði að stafrænir miðlar gætu verið valdeflandi fyrir ungt fólk en gæta þyrfti að því að tryggja ungu fólki tækifæri samhliða til að örva félagsfærni og aðra þætti með beinum samskiptum. Þá skipti miklu máli að huga að dreifingu efnis, að tryggja upplýsingafrelsi, tjáningarfrelsi og verndun fjölmiðlafólks, og að styðja við öfluga fjölmiðlun. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir tók einnig til máls í sömu umræðu og notaði tækifærið til að minna á mikilvægi menntunar. Það skipti auðvitað miklu að tryggja öryggi barna á netinu en það væri ekki síður mikilvægt að stuðla að fjölbreyttri menntun til að sporna gegn því að í sumum tilvikum væri einu uppsprettu upplýsinga að finna á netinu. Tók hún kynfræðslu sem dæmi og sagði mikilvægt að fyrsta snerting ungs fólks við kynfræðslu væri ekki í gegnum klám á netinu.
    Ráðherranefnd Evrópuráðsins, þar sem Ísland gegnir formennsku, samþykkti að taka fyrir aðildarumsókn Kósovó að Evrópuráðinu, rétt rúmu ári eftir að Kósovó sótti formlega um aðild. Með samþykktinni fól nefndin Evrópuráðsþinginu að skila áliti um málið og hefja aðildarferlið með formlegum hætti.
    Vegna viðhalds og endurbóta á þingsal Evrópuráðsins fór þingfundur Evrópuráðsþingsins fram í þingsal Evrópuþingsins. Aðlaga þurfti dagskrá þingsins að breyttu fyrirkomulagi og ákveðið var að þingmenn skyldu sitja í flokkahópum en ekki einungis samkvæmt stafrófsröð óháð flokkslínum eins og áður. Við breytinguna þurfti einnig að innleiða nýtt atkvæðagreiðslukerfi fyrir þingmenn og reyndi töluvert á kerfið í þessari fyrstu þingfundaviku Evrópuþingsins. Kjósa þurfti aftur í fyrstu umferð við kosningu dómara við Mannréttindadómstól Evrópu og nokkuð var um gagnrýni á framkvæmd kosningarinnar. Meðal þess sem þótti gagnrýnivert var að ekki væri tryggt nógu vel að um leynilega kosningu væri að ræða þar sem atkvæði væru sýnileg á skjám í sætum þingmanna.
    Samhliða þingfundum fundaði Íslandsdeild með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, utanríkisráðherra, og Ragnhildi Arnljótsdóttur, fastafulltrúa Íslands gagnvart Evrópuráðinu. Bjarni Jónsson sat fund formanna landsdeilda Norðurlanda og Eystrasaltsríkja (NB8), sameiginlegan fund með ráðherranefnd Evrópuráðsins og fundi framkvæmdastjórnar. Þá sóttu fulltrúar Íslandsdeildar einnig fjölbreytta viðburði á vegum íslensku fastanefndarinnar vegna formennsku Íslands í ráðinu sem fóru fram í vikunni.

Fylgiskjal IV.


FRÁSÖGN
af fundi stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í Reykjavík 15. maí 2023.


    Ný verðlaun í nafni Vigdísar Finnbogadóttur á sviði valdeflingar kvenna, málþing um stöðu og framtíð lýðræðis og umræða um mikilvægi sameiginlegra gilda, marghliða samvinnu, mannréttindavernd og nýja kynslóð réttinda var á meðal þess sem var á dagskrá stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins sem kom saman hér á landi í aðdraganda leiðtogafundar Evrópuráðsins. Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Bjarni Jónsson, formaður, Birgir Þórarinsson, aðalmaður, Jódís Skúladóttir, varamaður, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, varamaður, og Auður Örlygsdóttir, sérfræðingur í alþjóðamálum.
    Dagskráin hófst á málþingi um lýðræði fyrir framtíðina sem haldið var í Veröld – húsi Vigdísar í samstarfi við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands. Á málþinginu var lögð áhersla á umræðu um framtíð lýðræðis í Evrópu og hvernig efla megi lýðræðislega menningu og traust á lýðræðisstofnunum í álfunni. Meðal framsögufólks voru Tiny Kox, forseti Evrópuráðsþingsins, Alexander Shlyk, sérstakur ráðgjafi Svjatlönu Tsíkhanóskaju um kosningar, Maríja Mezentseva, formaður úkraínsku landsdeildarinnar, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, Jón Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna '78, og Isabel Alejandra Diaz, ungmennafulltrúi Sameinuðu þjóðanna á sviði mennta, vísinda og menningar. Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslu og þróunar, stýrði umræðum. Fjöldi fulltrúa ungmennahreyfinga tók virkan þátt í fundinum og beindi mikilvægum spurningum um lýðræði og hlutverk ungs fólks í umræðunni til þátttakenda í pallborði.
    Í beinu framhaldi af málþinginu hleyptu Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Tiny Kox Vigdísarverðlaunum fyrir valdeflingu kvenna af stokkunum í Veröld – húsi Vigdísar. Verðlaunin eru veitt til heiðurs Vigdísi Finnbogadóttur, fyrsta þjóðkjörna kvenleiðtoga heims, og var Vigdís sérstakur heiðursgestur á viðburðinum. Marija Pejcinovic Buric, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, og Maríja Mezentseva, formaður jafnréttisnefndar Evrópuráðsþingsins og formaður úkraínsku landsdeildarinnar, tóku einnig þátt í athöfninni. Verðlaunin verða veitt árlega þeim einstaklingi, frjálsu félagasamtökum, stofnunum eða öðrum aðilum sem þykja skara fram úr á sviði valdeflingar kvenna og þeim fylgir verðlaunafé að upphæð 60.000 evra. Tilnefningarferlið verður opið en sett verður á fót sérstök dómnefnd sem skipuð verður fulltrúum Evrópuráðsþingsins og íslenskra stjórnvalda. Við val á verðlaunahafa verður meðal annars horft til mikilvægs árangurs á sviði kynjajafnréttis, hvernig stuðlað er að aukinni þátttöku og aðgengi kvenna að ákvarðanatöku sem og aðgerða sem ýta undir stefnubreytingar eða draga úr hvers kyns mismunun og aðgreiningu. Verðlaunaafhendingin fer fram á þingfundi Evrópuráðsins í júní ár hvert.
    Fundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins fór fram í Sjálfstæðissalnum á Iceland Parliament Hotel en nefndin kom saman í aðdraganda leiðtogafundar til þess að ræða hlutverk Evrópuráðsins og mikilvægi sameiginlegra gilda frammi fyrir gríðarlegum áskorunum. Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, opnaði fundinn, Rúslan Stefantsjúk, forseti úkraínska þingsins Verkhovna Rada, flutti netávarp, og Bjørn Berge, aðstoðarframkvæmdastjóri Evrópuráðsins, ávarpaði einnig fundargesti við upphaf fundar. Í kjölfarið fór fram umræða um Evrópuráðið sem lykilaðila í marghliða stofnanastrúktúr Evrópu en þar tóku til máls Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, utanríkisráðherra, Tiny Kox, Sylvie Bermann, fyrrverandi sendiherra Frakklands í Peking, London og Moskvu, og Alice Bergholtz, varaformaður ráðgjafaráðs Evrópuráðsins um æskulýðsmál. Bjarni Jónsson flutti opnunarávarp í upphafi umræðunnar þar sem hann kvaðst vera stoltur og auðmjúkur yfir því að geta boðið þingmenn Evrópuráðsþingsins velkomna hingað til lands í aðdraganda leiðtogafundarins. Hann lagði áherslu á mikilvægi stuðnings Evrópuráðsþingsins við Úkraínu og úkraínsku þjóðina og sagði að málefni Úkraínu yrðu réttilega í brennidepli á leiðtogafundinum. Þar nefndi hann sérstaklega mikilvægi tjónaskrárinnar sem væri fyrsta skrefið í átt að því að draga Rússland til ábyrgðar fyrir gjörðir sínar og næði jafnframt til ólögmæts brottnáms úkraínskra barna. Hann hvatti einnig leiðtoga Evrópuráðsins til þess að sýna sömu staðfestuna og hugrekkið þegar kæmi að loftslagsmálum og grípa til aðgerða fyrir komandi kynslóðir.
    Í síðari umræðu fundarins var sjónum beint að Evrópuráðinu sem brautryðjanda mannréttindaverndar og nýrri kynslóð réttinda, svo sem réttinum til heilnæms lífs, en meðal þátttakenda voru Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Tiny Kox, Nathalie Smuha, sérfræðingur í gervigreind frá Institute for European Law við KU Leuven, og Tinna Hallgrímsdóttir, loftslags- og sjálfbærnifræðingur hjá Seðlabanka Íslands. Umræðum stjórnaði Rósa Björk Brynjólfsdóttir, verkefnastjóri alþjóðamála í forsætisráðuneytinu.
    Svjatlana Tsíkhanóskaja, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Belarús, var sérstakur heiðursgestur Alþingis í dagskrá stjórnarnefndar og flutti ávarp að loknum umræðum. Lokaávarp fluttu Katrín Jakobsdóttir og Tiny Kox.

Fylgiskjal V.


FRÁSÖGN
af fundum framkvæmdastjórnar og stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í Ríga 25. og 26. maí 2023.


    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Bjarni Jónsson, formaður, og Auður Örlygsdóttir, sérfræðingur í alþjóðamálum.
    Í opnunarumræðu fundarins fjallaði Tiny Kox, forseti Evrópuráðsþingsins, um nýafstaðinn leiðtogafund Evrópuráðsins í Reykjavík 16. og 17. maí og lagði áherslu á þann mikilvæga árangur sem þar hefði náðst, bæði hvað varðaði alþjóðlegu tjónaskrána sem halda ætti utan um tjón af völdum árásarstríðs Rússlands í Úkraínu og með yfirlýsingu Evrópusambandsins um að gerast aðilar mannréttindasáttmála Evrópu. Edvards Smiltens, forseti Seimas, þjóðþings Lettlands, flutti opnunarávarp. Í kjölfarið fór fram umræða með þátttöku Edgars Rinkevics, utanríkisráðherra Lettlands, um formennsku Lettlands í ráðherranefndinni en Lettland tók við formennsku af Íslandi í ráðinu við lok leiðtogafundarins í Reykjavík. Smiltens, forseti þings, talaði fyrir samstöðu og mikilvægi þess að skilja hættuna og þá ógn sem steðjaði að öryggi Evrópu. Áskorunin fælist í því að ná að draga Rússland til ábyrgðar en það væri meðal helstu forgangsmála Lettlands í formennskutíð landsins í ráðinu. Rinkevics, utanríkisráðherra, fagnaði einnig samstöðunni sem aðildarríkin sýndu með þátttöku sinni á leiðtogafundinum og með því að sameinast um þau gildi sem Evrópuráðið grundvallaðist á. Mikilvægast væri að fylgja eftir niðurstöðum leiðtogafundarins og þakkaði hann þinginu mikilvægt framlag. Í umræðum inntu þingmenn ráðherra um afstöðu og aðgerðir lettnesku formennskunnar í málefnum á borð við brottnám úkraínskra barna, stofnunar sérstaks dómstóls vegna innrásar Rússlands í Úkraínu, réttindi LGBTQI+, stöðu Mannréttindadómstóls Evrópu og tilraunum einstakra aðildarríkja til þess að grafa undan dómstólnum, aðildarumsókn Kósovó, loftslagsbreytingar og lýðræðislegt bakslag.
    Haldnar voru sérstakar umræður um eftirfylgni leiðtogafundarins í Reykjavík og um að útiloka íþróttafólk frá Rússlandi og Belarús frá keppni á Ólympíuleikunum. Aoife Nolan, forseti Evrópunefndar um félagsleg réttindi (e. European Committee of Social Rights), ávarpaði þingið í umræðu um eftirfylgni leiðtogafundarins og sagði hún félagsleg réttindi mikilvægan hluta af Reykjavíkuryfirlýsingunni en það fæli jafnframt í sér mikinn stuðning við félagsmálasáttmála Evrópu (e. European Social Charter) af hálfu þeirra sem skrifuðu undir yfirlýsinguna. Nolan fór yfir starf nefndarinnar sem skipuð er sérfræðingum en hennar helsta starf er að fylgjast með stöðunni í þeim 42 ríkjum sem eru aðilar að sáttmálanum. Sáttmálinn væri lagalega bindandi og því bæri aðildarríkjum skylda til þess að fara að ákvæðum hans. Hann næði yfir afar mikilvæg réttindi, svo sem réttinn til húsnæðis, og skapaði ríkjum gagnlegan ramma til þess að stuðla að auknum félagslegum réttindum. Nolan sagðist sjá tækifæri í auknu samstarfi við Evrópuráðsþingið, þar væri félagsmálanefndin afar mikilvægur samstarfsaðili en efla mætti samstarfið við laga- og mannréttindanefnd, og stuðla með þeim hætti að sem bestri eftirfylgni með Reykjavíkuryfirlýsingunni og niðurstöðum leiðtogafundarins. Þá benti hún jafnframt á hið þýðingarmikla hlutverk sem þingmenn hefðu við að stuðla að auknum félagslegum réttindum heima fyrir og mikilvægi þess að standa fyrir umræðu um þessi mikilvægu réttindi á grundvelli félagsmálasáttmála Evrópu.
    Í umræðu um eftirfylgni leiðtogafundarins kom fram almenn ánægja með fundinn og að hann hefði gengið vel, þátttaka hefði verið góð og samstaðan mikil. Íslandi og fyrrum formennskuríkjum var þakkað sérstaklega og lögð áhersla á mikilvægi þess að Lettland tæki við keflinu. Reykjavíkuryfirlýsingin fæli í sér nýjan leiðarvísi fyrir Evrópuráðið og nú þyrfti að fylgja honum eftir. Hlutverk þingsins væri að hrinda niðurstöðum fundarins í framkvæmd í samstarfi við ráðherranefndina. Bjarni tók til máls og sagði fundinn sögulegan. Niðurstöður leiðtogafundarins hefðu byggt á tillögum þingsins og að leiðtogar hefðu sent Úkraínu sterka stuðningsyfirlýsingu með stofnsetningu tjónaskrárinnar. Mikilvægt væri að fylgja fundinum eftir. Hann benti í því samhengi á þingsályktunartillögu utanríkismálanefndar um að fordæma ólöglegt brottnám úkraínskra barna sem lögð hefði verið fyrir á Alþingi Íslendinga en byggðist á ályktun Evrópuráðsþingsins. Þá kallaði hann einnig eftir því að rétturinn til heilnæms umhverfis yrði tekinn inn í félagsmálasáttmála Evrópu.
    Umræða um að útiloka íþróttafólk frá Rússlandi og Belarús frá keppni á Ólympíuleikunum hófst á ávarpi Kaspars Cipruss, framkvæmdastjóra körfuknattleikssambands Lettlands. Jevheníja Kravtsjúk, meðlimur í úkraínsku landsdeildinni og formaður nefndar Evrópuráðsþingsins um menningu, vísindi, menntun og fjölmiðla, var mjög afgerandi í sinni afstöðu og sagði ómögulegt að veita rússneskum þátttakendum aðgang að keppninni í París. Fleiri þingmenn tóku í sama streng og bentu á að íþróttafólkið væri styrkt af rússneskum yfirvöldum. Það væri því í raun ógerlegt að skilja á milli og ætla eingöngu að horfa til framlags þeirra á sviði afreksíþrótta. Þá væru mörg keppenda styrkt af sömu aðilum og verið væri að beita efnahagslegum þvingunum vegna árásarstríðsins. Mikilvægt væri að þingið talaði einni röddu í þessu máli, um leið og fram kom að skiptar skoðanir væru engu að síður meðal einstakra þingmanna. Þar sem um sérstaka umræðu var að ræða var málefnið ekki til beinnar efnislegrar umræðu en Kox vísaði til dagskrár þingfundar í júní og benti á að þá gæfist tækifæri til þess að komast að frekari niðurstöðu um málið.
         Andrej Hunko, meðlimur í þýsku landsdeildinni og fulltrúi flokkahóps sameinaðra evrópskra vinstrimanna (UEL), kynnti stjórnarnefndinni skýrslu um niðurstöður kosningaeftirlits í Búlgaríu. Dagskrá stjórnarnefndar lauk á málþingi um áskoranir og hættur tengdar gervigreind, tjáningarfrelsi og upplýsingaóreiðu. Umræðan snerist meðal annars um það hvernig nýta mætti til fulls tækifæri gervigreindar án þess að ýta undir upplýsingaóreiðu og neikvæð áhrif hennar á lýðræði. Í umræðum var lögð áhersla á mikilvægi þess að þróa lagaramma sem byggðist á mannréttindum, lýðræði og réttarríkinu og kallað var eftir því að Evrópuráðið tæki forystu í málaflokknum. Meðal framsögufólks voru Tiny Kox, forseti Evrópuráðsþingsins, Zanda Kalnina-Lukasevica, formaður lettnesku landsdeildarinnar, Gundars Bergmanis-Korãts, sérfræðingur hjá Atlantshafsbandalaginu, Gregor Strojin, varaformaður nefndar Evrópuráðsins um gervigreind (CAI), og Kaspars Kaulins, yfirmaður viðskiptaþróunar hjá Tilde. Bjarni Jónsson sat einnig fund framkvæmdastjórnar þingsins.


Fylgiskjal VI.


FRÁSÖGN
af fundum Evrópuráðsþingsins í Strassborg 19.–23. júní 2023.


    Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundinn Bjarni Jónsson, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, og Birgir Þórarinsson, ásamt Auði Örlygsdóttur, sérfræðingi í alþjóðamálum.
    Meðal helstu dagskrármála var sameiginleg umræða um pólitískar afleiðingar árásarstríðs Rússlands í Úkraínu og þátttaka íþróttafólks frá Rússlandi og Belarús á Ólympíuleikunum í París 2024, ásamt sérstakri umræðu um stöðuna við Latsjín-hliðið og samskipti Armeníu og Aserbaísjan. Tiny Kox, forseti Evrópuráðsþingsins, opnaði fundinn, sem fram fór, í annað sinn á árinu, í þingsal Evrópuþingsins þar sem framkvæmdir stóðu enn yfir á Evrópuráðsþinginu. Kox benti á að nú hefði þingmönnum í fyrsta skipti verið raðað eftir flokkahópum en ekki einungis í stafrófsröð óháð flokkslínum. Hann beindi athyglinni að Úkraínu þar sem rússneskir hermenn háðu enn árásarstríð og færu fram með ofbeldi gegn óbreyttum borgurum í Úkraínu. Hann minnti á að þennan dag væri alþjóðadagur gegn kynferðisofbeldi í átökum og minntist fórnarlamba kynferðisofbeldis í Úkraínu og allra fórnarlamba stríðsins. Kox bað þingið um að votta virðingu sína með einnar mínútu þögn. Í ræðu sinni minntist hann einnig á að þingið kæmi nú saman í fyrsta skipti eftir sögulegan leiðtogafund í Reykjavík. Hann lýsti ánægju sinni með hversu margar af þeim tillögum sem ræddar hefðu verið á vettvangi þingsins skiluðu sér í niðurstöður fundarins og þakkaði hann öllum þeim sem lagt hefðu sín lóð á vogarskálarnar í þeirri vegferð. Nú þyrfti að fylgja niðurstöðunum eftir og jafnframt að tryggja að þeim fylgdi viðhlítandi fjármagn.
    Í sameiginlegri umræðu um pólitískar afleiðingar af árásarstríði Rússlands í Úkraínu kom fram að ein helsta afleiðingin væri endurnýjun tengsla meðal lýðræðisríkja í Evrópu sem sameinuðust í stuðningi sínum við Úkraínu. Það hefði bersýnilega komið í ljós á leiðtogafundinum í Reykjavík. Í ályktun þingsins um málið kom fram að auka þyrfti aðstoð við Úkraínu, draga þyrfti Rússland til ábyrgðar með því að ljúka vinnu við innleiðingu á alþjóðlegu skaðabótakerfi og setja á fót sérstakan dómstól fyrir árásarglæpi Rússlands gegn Úkraínu. Nauðsynlegt væri að styrkja lýðræði í Evrópu og vinna áfram að því að einangra rússnesk stjórnvöld. Þá þyrfti einnig að hefja viðræður og samvinnu við rússneska borgara svo stefna mætti að lýðræðisbreytingum í landinu. Í umræðu um þátttöku íþróttafólks frá Rússlandi og Belarús á Ólympíuleikunum skoraði Evrópuráðsþingið á Alþjóðaólympíunefndina að víkja ekki frá fyrri afstöðu sinni frá árinu 2022 og banna þátttöku Rússa og Belarúsa í Ólympíuleikunum og Ólympíuleikum fatlaðra í París, sem og öllum öðrum stærri íþróttaviðburðum, meðan Rússland héldi áfram árásarstríði sínu í Úkraínu.
    Birgir Þórarinsson tók til máls fyrir hönd flokkahóps evrópskra þjóðarflokka (EPP) í umræðu um hvernig tryggja mætti frjálsa og örugga för um Latsjín-hliðið. Hann sagði að lokun leiðarinnar um Latsjín-hliðið hefði gert það að verkum að íbúar Nagorno-Karabakh hefðu verið í algjörri einangrun síðastliðna sex mánuði. Mikilvægir innviðir hefðu verið eyðilagðir með vísvitandi hætti og að aðgerðir Aserbaísjan væru klárt brot á samningi um Nagorno-Karabakh frá árinu 2020 og eins á úrskurðum Mannréttindadómstóls Evrópu og Alþjóðadómstólsins í Haag.
    Áskoranir Belarúsa í útlegð voru til umræðu í þingfundaviku og hófst þingfundur dagsins á listrænum gjörningi Volny Chor sem varð til út frá skipulögðum mótmælum tónlistarfólks við Sinfóníuhljómsveit Belarúss í ágúst 2020 en tónlistarfólk úr öðrum tónlistarhópum í Minsk bættist fljótt í hópinn. Atvinnutónlistarfólk og áhugafólk sameinaðist þannig í óskinni um að stöðva ofbeldið og kalla fram réttlæti að nýju. Svjatlana Tsíkhanóskaja, leiðtogi lýðræðisafla í Belarús, ávarpaði þingið við upphaf umræðunnar. Hún sagði Volny Chor hafa mikla persónulega þýðingu fyrir sig þar sem eitt af lögum þeirra væri samið af eiginmanni hennar, Sjargej Tsíkhanóskí, sem sent hefði ljóð sitt úr fangelsi. Hann hefði verið dæmdur í 19 ára fangelsi og að hún ekki séð hann í þrjú ár. Tsíkhanóskaja sagði jafnframt að stjórnin gæti fangelsað fólk en henni tækist aldrei að fangelsa frelsisvilja þess, drauma og sköpunarkrafta. Meðal þúsunda pólitískra fanga væru hundruð tónlistarfólks, rithöfunda, framleiðenda og listmálara. Hún sagði stjórnina í Belarús berjast gegn rithöfundum, listafólki og skapandi einstaklingum vegna þess að hún hræddist þau. Kraftur listarinnar væri þó betur til þess fallinn að mylja einræði mélinu smærra en nokkurt vopn. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir tók til máls undir þessum umræðulið og lýsti því yfir, sem skýrsluhöfundur um pólitíska fanga í Evrópu, að hún stæði í einu og öllu með þeim 1.700 pólitísku föngum sem væru í haldi í Belarús og myndi beita sér í því að þrýsta á um lausn þeirra og lyfta þeirra málstað. Að fangelsa fólk fyrir skoðanir þess væri banvænt vopn gegn lýðræðinu. Hún nýtti vettvanginn til þess að lýsa yfir vonbrigðum sínum með íslensk stjórnvöld þar sem þau neituðu að segja upp heiðursræðismanni Belarúss á Íslandi, Alexander Mósjenskí, en hann væri náinn samstarfsmaður einræðisherrans í Belarús. Hún lýsti yfir stuðningi sínum við lýðræðisöflin í Belarús og vonaði að þess yrði ekki langt að bíða þar til Ísland sýndi afstöðu sína í verki.
    Fram fór sameiginleg umræða um málefni flóttafólks þar sem þrjár skýrslur lágu fyrir þinginu, um inngildingu flóttafólks, um hlutverk íþrótta í félagslegri inngildingu og um heilsuvernd og félagslega vernd óskráðra einstaklinga og þeirra sem búa við ótryggar aðstæður. Birgir talaði fyrir hönd flokkahóps evrópskra þjóðarflokka (EPP) og vék sérstaklega að skýrslu Hajdukovic, meðlims króatísku landsdeildarinnar, um inngildingu flóttafólks. Hann sagði mikilvægt að tryggja flóttafólki aukin tækifæri til þátttöku í samfélaginu og til þess að nýta eigin færni og þátttöku. Inngilding fæli í sér langtímafjárfestingu í mannauð og mikilvægt væri að láta ekki stýrast af ótta og fordómum og tryggja aukið aðgengi að menntun og atvinnutækifærum fyrir fólk á flótta svo það upplifði sig sem fullgilda þátttakendur í samfélaginu.
    Natasa Pirc Musar, forseti Slóveníu, og Péter Szijjártó, utanríkis- og viðskiptaráðherra Ungverjalands, ávörpuðu þingið og Marija Pejcinovic Buric, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, átti sitt hefðbundna samtal við þingið. Edgars Rinkevics, utanríkisráðherra Lettlands og formaður ráðherranefndarinnar, flutti þinginu ávarp og tók í framhaldi þátt í samtali við þingmenn. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir bar fram spurningu fyrir hönd flokkahóps jafnaðarmanna (SOC) og innti ráðherra eftir svörum varðandi það hvernig hann hygðist fylgja eftir áhersluatriðum Reykjavíkuryfirlýsingarinnar og þá sérstaklega með tilliti til stöðu Osman Kavala, pólitísks fanga í Tyrklandi, þar sem lægi fyrir dómur um skýrt brot á 46. gr. mannréttindasáttmála Evrópu í hans máli. Með því að líta fram hjá dómum í málum einstakra ríkja væri hætta á því að grafið yrði undan Mannréttindadómstóli Evrópu í heild sinni. Rinkevics kvað vinnu við eftirfylgni með niðurstöðum leiðtogafundarins í fullum gangi. Hann lagði jafnframt ríka áherslu á mikilvægi þess að öllum úrskurðum Mannréttindadómstóls Evrópu væri hlýtt og sagðist tilbúinn að fylgja því eftir að svo yrði, þ.m.t. í máli Kavala.
    Þá fór einnig fram umræða sem felld var undir dagskrárlið um knýjandi málsmeðferð (e. debate under urgent procedure) um pólitískar hræringar í Póllandi. Eins fóru fram umræður um umbætur á mannréttindalöggjöf í Bretlandi og um þörf á heildrænni nálgun í heilbrigðisþjónustu. Þá ræddu þingmenn um fjárveitingar og forgangsröðun Evrópuráðsins fyrir tímabilið 2024–2027 og fjárhagsáætlun Evrópuráðsþingsins fyrir árin 2024 og 2025.
    Þórhildur Sunna kynnti tilnefningar á fulltrúa Íslands í nefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (CPT-nefnd) fyrir hönd Íslandsdeildar á fundi undirnefndar lýðræðis- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins um mannréttindi. Alls sóttu sex um stöðuna og tilnefndi Íslandsdeild þrjú til setu í nefndinni. Var málinu vísað áfram til ráðherranefndar Evrópuráðsins og mun hún taka málið upp á fundi ráðsins í haust.
    Samhliða þingfundum fundaði Íslandsdeild með Ragnhildi Arnljótsdóttur, fastafulltrúa Íslands gagnvart Evrópuráðinu. Bjarni Jónsson sat fund formanna landsdeilda Norðurlanda og Eystrasaltsríkja (NB8) og sameiginlegan fund með ráðherranefnd Evrópuráðsins.


Fylgiskjal VII.


FRÁSÖGN
af fundi nefndar Evrópuráðsþingsins um fólksflutninga og málefni flóttafólks á Hótel Reykjavík Grand í Reykjavík 21. og 22. september 2023.


    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Birgir Þórarinsson, meðlimur í Íslandsdeild og flóttamannanefnd Evrópuráðsþingsins, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, varamaður Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur í Íslandsdeild, og Auður Örlygsdóttir, sérfræðingur í alþjóðamálum.
    Dagskráin hófst á opnunarávörpum Birgis Ármannssonar, forseta Alþingis, og Guðrúnar Hafsteinsdóttur, dómsmálaráðherra, þar sem þau buðu gesti velkomna og tæptu á mikilvægum málefnum sem snerta málaflokkinn, bæði hér heima og erlendis, svo sem stefnu íslenskra stjórnvalda, nýleg átök í Nagorno-Karabakh, mannúðarafleiðingar árásarstríðs Rússlands í Úkraínu og önnur málefni sem lágu einnig fyrir fundi nefndarinnar. Þeirra á meðal var skýrsla Birgis Þórarinssonar um yfirvofandi mannúðarkrísu í Afganistan og meðal afgansks flóttafólks. Auk hennar var til umfjöllunar skýrsla um umræðu um málefni innflytjenda og umsækjenda um alþjóðlega vernd í aðdraganda kosninga og hvort slík umræða hefði mögulega áhrif á móttöku þeirra og réttindi. Sjónum var einnig beint að því hvernig tryggja mætti að umsækjendur um alþjóðlega vernd nytu réttinda sinna í umsóknarferlinu en í þeirri umræðu deildu Claudia Ashanie Wilson, lögmaður, og Catherine Woollard, framkvæmdastjóri European Council on Refugees and Exiles (ECRE) í Belgíu, sérfræðiþekkingu sinni og reynslu með nefndarmönnum. Þá var einnig á dagskrá umfjöllun um hvort nota mætti sprengjur sem ástæðu til að réttlæta brottflutning en í þeirri umræðu var leitað sérfræðiálits Rachel Bolton-King, dósents við Nottingham Trent-háskóla, og Christian De Cock, gestafræðimanns við Vrije Universiteit í Brussel og háskólann í Gent. Á fundinum var Birgir jafnframt kjörinn í undirnefnd flóttamannanefndar um mansal og smygl á flóttafólki.
    Á föstudeginum fóru fram hringborðsumræður í Háteig á Hótel Reykjavík Grand þar sem áhersla var lögð á eftirfylgni leiðtogafundar Evrópuráðsins í Reykjavík sl. vor og sjónum beint að þeim þáttum Reykjavíkuryfirlýsingarinnar sem snúa að inngildingu flóttafólks og innflytjenda. Þátttakendur í pallborði voru Birgir Þórarinsson, Joanna Marcinkowska, verkefnastjóri fjölmenningar og inngildingar á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, Nína Helgadóttir, teymisstjóri í málefnum flóttafólks hjá Rauða krossinum á Íslandi, Hussain Merzaye, flóttamaður frá Afganistan á Íslandi, og Mina Sharifi, flóttakona frá Afganistan sem búsett er á Ítalíu. Fundarstjóri var Louise Barton, framkvæmdastjóri nefnda hjá Evrópuráðsþinginu. Meðal annarra þátttakenda á fundinum voru fulltrúar frjálsra félagasamtaka, fræðafólk og sérfræðingar í málaflokknum.
    Nefnd Evrópuráðsins um fólksflutninga og málefni flóttafólks skipar 81 þingmaður frá ríkjunum 46 sem eiga aðild að Evrópuráðsþinginu og á Birgir Þórarinsson sæti í nefndinni fyrir Íslands hönd. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins skipa Bjarni Jónsson, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, og Birgir Þórarinsson.

Fylgiskjal VIII.


FRÁSÖGN
af fundum Evrópuráðsþingsins í Strassborg 9.–13. október 2023.


    Af hálfu Alþingis tóku þátt í fundinum Bjarni Jónsson, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, og Birgir Þórarinsson, auk Auðar Örlygsdóttur, sérfræðings í alþjóðamálum.
    Atburðir síðustu daga og missera voru ofarlega á baugi í þingfundaviku í Strassborg en þar fór meðal annars fram umræða um hryðjuverk Hamas í Ísrael, mannúðarafleiðingar af árás Aserbaísjan á Nagarno-Karabakh, aukna spennu norður af Kósovó og árásarstríð Rússlands í Úkraínu. Þingið vottaði fórnarlömbum hamfara undanfarinna missera virðingu sína með einnar mínútu þögn, jafnt þeim sem höfðu orðið fyrir barðinu á náttúruhamförum og þeim sem höfðu mátt þola átök og ofbeldi af mannavöldum.
    Tiny Kox, forseti Evrópuráðsþingsins, talaði fyrir mikilvægi Evrópuráðsins á tímum áskorana og sagði að við upphaf eigin forsetatíðar hefði hann sagt að ein og sér værum við veik en saman gætum við sýnt þann styrk sem búast mætti við af einni elstu stofnun Evrópu. Samtakamátturinn hefði komið skýrt fram á leiðtogafundi ráðsins í Reykjavík fyrr á árinu og að þar hefði leiðin fram á við einnig verið mörkuð með Reykjavíkuryfirlýsingunni og meginreglunum um lýðræði sem ætlað er að sporna gegn lýðræðislegri afturför. Kox lagði einnig þunga áherslu á mikilvægi mannréttindasáttmála Evrópu og nefndi í því samhengi ávarp dómsmálastjóra Evrópusambandsins síðar í vikunni sem hann vonaði að myndi varpa frekara ljósi á aðild sambandsins að mannréttindasáttmálanum. Áríðandi væri að aðildarríki fylgdu eftir Reykjavíkuryfirlýsingunni, virtu mannréttindasáttmálann og hlýddu dómsúrskurðum Mannréttindadómstóls Evrópu.
    Václav Havel mannréttindaverðlaunin voru veitt á Evrópuráðsþinginu og komu þau að þessu sinni í hlut Osman Kavala en verðlaunin eru veitt árlega fyrir markverðar aðgerðir í þágu mannréttinda. Kavala hefur verið pólitískur fangi í Tyrklandi frá því í október 2017 og því tók kona hans, Ayse Bugra, við verðlaununum fyrir hans hönd. Kavala er sá ellefti í röðinni til þess að hljóta Václav Havel mannréttindaverðlaunin en auk hans voru tilnefnd Justyna Wydrzynska, pólskur mannréttindalögfræðingur og baráttukona fyrir auknu jafnrétti, og úkraínski mannréttindafrömuðurinn Jevhen Zakharov. Sérstök umræða um stöðu Kavala fór einnig fram á þingfundi þar sem meðal annars var lagt til að ógilda ætti kjörbréf tyrknesku landsdeildarinnar við upphaf þingfundar í janúar ef Kavala yrði ekki látinn laus úr haldi fyrir þann tíma.
    Birgir Þórarinsson flutti þinginu skýrslu um vaxandi neyðarástand í mannúðarmálum í Afganistan og meðal afgansks flóttafólks. Þingið samþykkti skýrsluna og ályktun sama efnis en þar er kerfisbundið ofbeldi af hálfu talíbana gegn konum og stúlkum í Afganistan fordæmt harðlega og aðildarríki hvött til þess að virða leiðbeiningar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um að senda afganskt flóttafólk ekki aftur til Afganistans, Írans og Pakistans. Þá eru aðildarríkin jafnframt hvött til þess að deila ábyrgð á móttöku flóttafólks og styðja við framtak Evrópuráðsins, European Qualifications Passport for Refugees (EQPR).     
    Piero Fassino, meðlimur ítölsku landsdeildarinnar, opnaði sérstaka umræðu um hryðjuverkaárásir Hamas í Ísrael og lýsti yfir stuðningi sínum við Ísrael og fjölskyldur fórnarlamba hryðjuverkaárásarinnar. Hann sagði nauðsynlegt að gera allt sem hægt væri til þess að stöðvar árásir Hamas og fá gíslana lausa úr haldi. Hann sagði Ísrael eiga rétt á að verjast en kallaði eftir því að ísraelsk stjórnvöld létu palestínsku þjóðina ekki gjalda fyrir voðaverk Hamas. Nú væri enn brýnna en áður að koma á friði á svæðinu og alþjóðasamfélagið bæri ábyrgð á því að finna leiðir til þess að koma á virkum friðarviðræðum án frekari tafa. Meirav Ben-Ari, formaður landsdeildar Ísraels, tók þátt í umræðum í gegnum fjarfundarbúnað og Bernard Sabella, formaður palestínsku landsdeildarinnar, ávarpaði þingið einnig við þetta tilefni. Bæði eiga þau aðkomu að Evrópuráðsþinginu þar sem Ísrael er áheyrnaraðili að Evrópuráðsþinginu og Palestína er samstarfsaðili þingsins á sviði lýðræðis (e. Partner for Democracy). Alls tóku nítján aðrir þingmenn á vettvangi Evrópuráðsþingsins þátt í umræðunni.
    Í umræðu sem felld var undir knýjandi málsmeðferð um mannúðarástandið í Nagorno-Karabakh gagnrýndi Birgir Þórarinsson seinagang og skort á hlutleysi í viðbrögðum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Fólk væri ráðvillt og vissi ekki hvað yrði um heimili sín, á meðal þeirra væru mörg börn og eldra fólk sem væri í áfalli. Hann kallaði eftir því að fólkinu yrði tryggð örugg endurkoma til Nagorno-Karabakh og að aftur yrði komið á frjálsri för um Latsjín-hliðið undir alþjóðlegu eftirliti í umboði Sameinuðu þjóðanna.
    Bjarni Jónsson bar upp spurningu í hefðbundum fyrirspurnartíma með Mariju Pejcinovic Buric, framkvæmdastjóra Evrópuráðsþingsins, fyrir hönd flokkahóps frjálslyndra (ALDE) þar sem hann spurðist fyrir um Reykjavíkurnefndina. Í Reykjavíkuryfirlýsingunni hefðu leiðtogar aðildarríkja hvatt til þess að sett yrði á fót fjölþjóðleg nefnd á sviði umhverfis og mannréttinda, Reykjavíkurnefndin, og kallaði hann eftir upplýsingum um það hvernig ráðherranefndin hygðist vinna að stofnun hennar og hvaða skref hefðu þegar verið tekin í þá átt. Buric svaraði því til að nú stæðu yfir áhugaverð réttarhöld á sviði umhverfis og mannréttinda og að umræðan á þessum vettvangi væri mjög virk. Spurningin lyti meðal annars að því hvort þörf væri á nýjum sáttmála eða hvort betur færi á því að færa réttinn inn í bókun við núverandi sáttmála. Vinna væri þegar hafin innan ráðherranefndarinnar, bæði í samstarfi við stýrinefnd um mannréttindi en einnig með hliðsjón af sáttmála um verndun umhverfis með beitingu refsiréttar.
    Birgir tók til máls í umræðu um skýrslu eftirlitsnefndar og talaði þar fyrir hönd flokkahóps evrópskra þjóðarflokka (EPP) um reglubundna endurskoðun á skuldbindingum Frakklands gagnvart Evrópuráðinu. Hann sagði skoðanir þingmanna innan flokkahópsins skiptar en að þeir væru þó allir sammála um mikilvægi eftirlitsnefndar og þeirrar vinnu sem ætti sér stað við að fylgjast með stöðu einstakra aðildarríkja. Skýrslan drægi fram mikilvægar framfarir á sviði regluverks um fjárframlög til stjórnmálaafla, aðgerða gegn kynbundnu ofbeldi, verndunar fjölmiðlafólks og sjálfstæðis fjölmiðla, endurbóta í fangelsum og í fleiri brýnum málum. Helst var sett út á að tekið væri til umfjöllunar mál sem enn lægi fyrir dómstólum og þar deildi fólk á um afstöðu til skýrslunnar.
    Meðal annarra mála sem tekin voru fyrir í þingfundaviku voru umræða um Pegasus og annan svipaðan njósnabúnað og lögmæti breytinga á takmörkunum á fjölda kjörtímabila sitjandi forseta Rússlands. Þingmenn áttu í skoðanaskiptum við Didier Reynders, dómsmálastjóra Evrópusambandsins, og Krisjãnis Karins, utanríkisráðherra Lettlands og formann ráðherranefndarinnar, og gerði hann jafnframt grein fyrir starfi framkvæmdastjórnar Evrópuráðsins. Meðal annarra mála á dagskrá var umræða um áskoranir hugmyndafræði öfgahægriafla fyrir lýðræði og mannréttindi í Evrópu. Einnig fór fram sameiginleg umræða um áhrif baráttunnar gegn COVID-19 á andlega heilsu og vellíðan barna og ungmenna og um hvernig sporna megi gegn ávanabindandi hegðun barna. Þá var einnig tekin fyrir umræða um leiðir til þess að koma í veg fyrir ofbeldi gegn konum með fötlun og hvernig endurheimta megi trúverðugleika alþjóðastofnana og stuðla að friði í heiminum.
    Samhliða þingfundum fundaði Íslandsdeild með Ragnhildi Arnljótsdóttur, fastafulltrúa Íslands gagnvart Evrópuráðinu. Bjarni Jónsson stýrði fundi formanna landsdeilda Norðurlanda og Eystrasaltsríkja (NB8) og sat einnig sameiginlegan fund með ráðherranefnd Evrópuráðsins. Þá fundaði Birgir Þórarinsson með Michael O'Flaherty, frambjóðanda Írlands til stöðu mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins.
Fylgiskjal IX.


FRÁSÖGN
af fundi stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í Vaduz 28. nóvember 2023.


    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Bjarni Jónsson, formaður, og Auður Örlygsdóttir, sérfræðingur í alþjóðamálum. Tiny Kox, forseti Evrópuráðsþingsins, setti fundinn og lagði áherslu á frið og réttlæti, bæði í tengslum við árásarstríð Rússlands í Úkraínu en einnig fyrir þjóðir fyrir botni Miðjarðarhafs. Hann sagði mikilvægt fyrir aðildarríki að fylgja eftir Reykjavíkuryfirlýsingunni og kallaði eftir því að látið yrði af hvers kyns tilefnislausum árásum á Mannréttindadómstól Evrópu. Albert Frick, forseti þjóðþings Liechtenstein, flutti opnunarávarp og í framhaldinu tóku þingmenn þátt í samtali við Dominique Hasler, utanríkis-, mennta- og íþróttamálaráðherra landsins. Í ávarpi sínu varð ráðherra tíðrætt um öryggismál og sagði hún að grundvöllur öryggis væri virðing fyrir sameiginlegum gildum, lýðræði, réttarríkinu og mannréttindum. Það væri skylda aðildarríkja að gera allt sem þau gætu til að varðveita og styrkja þessi sameiginlegu grunngildi. Hasler fór einnig yfir forgangsatriði í formennskutíð Liechtenstein þar sem áhersla er lögð á einkunnarorð leiðtogafundarins í Reykjavík og samnefndrar yfirlýsingar, Sameinuð um gildi okkar (e. United around our values). Meðal helstu forgangsmála Liechtenstein verður að fylgja eftir Reykjavíkuryfirlýsingunni en sérstök áhersla verður lögð á að styrkja stöðu Mannréttindadómstóls Evrópu og tryggja áframhaldandi stuðning við Úkraínu. Í umræðum beindu þingmenn sjónum sínum að fjölbreyttum málefnum og kölluðu eftir viðbrögðum Hasler varðandi áherslur og úrræði Evrópuráðsins í þeim efnum. Rætt var um refsiaðgerðir gegn Rússlandi og um mikilvægi þess að þær skiluðu tilætluðum árangri, um stöðu aðildarferlis Kósovó að Evrópuráðinu, um brottnám úkraínskra barna, um neyðarástand íbúa í Nagorno-Karabakh og um ástandið í Mið-Austurlöndum.
    Opnað var fyrir tilnefningar til Vigdísarverðlauna fyrir valdeflingu kvenna en verðlaunin verða veitt árlega þeim einstaklingi, frjálsu félagasamtökum, stofnunum eða öðrum sem þykja skara fram úr á sviði valdeflingar kvenna. Tilnefningarferlið verður opið en sett hefur verið á fót sérstök dómnefnd sem skipuð er þremur fulltrúum Evrópuráðsþingsins og þremur fulltrúum íslenskra stjórnvalda. Dómnefndinni er ætlað að velja þrjú úr hópi tilnefndra og hlýtur eitt þeirra Vigdísarverðlaun sem afhent verða á þingfundi Evrópuráðsþingsins í júní ár hvert ásamt verðlaunafé að upphæð 60.000 evra fyrir framúrskarandi starf í þágu valdeflingar kvenna. Maríja Mezentseva, formaður jafnréttisnefndar, stýrði umræðum en þátttakendur í pallborði voru Tiny Kox, forseti Evrópuráðsþingsins, Bernadette Kubik-Risch, sérfræðingur í jöfnum tækifærum frá Liechtenstein, Wilfried Marxer, formaður Mannréttindasamtaka Liechtenstein, og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, fulltrúi dómnefndar og ráðgjafi í alþjóðamálum í forsætisráðuneyti. Í umræðum kom fram mikilvægi þess að eiga góðar fyrirmyndir og hvernig kjör Vigdísar Finnbogadóttur hefði haft þau áhrif að hlutfall kvenna á þingi jókst í næstu alþingiskosningum á eftir. Aukin þátttaka kvenna í stjórnmálum hefði skilað sér í breyttum áherslum og gert það að verkum að veigamikil málefni á borð við fæðingarorlof og leikskólamál hefðu loks verið sett á dagskrá. Brýnt væri að karlar tækju jafnréttismál einnig upp á sína arma og brettu upp ermar, ekki síst þegar kæmi að umönnun og að sinna fjölskyldunni, annarri og þriðju vaktinni. Í umræðum kom einnig fram að áríðandi væri að halda vinnu áfram, jafnrétti hefði því miður ekki verið náð þrátt fyrir miklar framfarir og að sérstaka áherslu þyrfti að leggja á kynbundið ofbeldi. Istanbúl-samningurinn var nefndur í því samhengi og öll aðildarríki hvött til að fullgilda hann en samningurinn snýr að forvörnum og baráttu á móti ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi.
    Þrjár tillögur voru lagðar fram um sérstaka umræðu undir dagskrárlið um knýjandi málsmeðferð: 1) forgangsatriði í fjárhagsáætlun Evrópuráðsins og eftirfylgni leiðtogafundarins, 2) staða réttarríkisins á Spáni og 3) vítahringur ofbeldis og neyðarástand fyrir botni Miðjarðarhafs og hvernig finna megi friðsamlega leið út úr vandanum. Voru fyrstu og síðustu tillögurnar samþykktar til umræðu á fundinum.
    Ingjerd Schou, skýrsluhöfundur um fjárlög og milliríkjaáætlanir, hóf umræðu um forgangsatriði í fjárhagsáætlun Evrópuráðsins og sagði að aðildarríki gætu verið stolt af skuldbindingum sínum gagnvart Evrópuráðinu. Í fyrsta skipti síðan árið 2007 hefðu fjárframlög til stofnunarinnar aukist og þeim verið varið til mikilvægra málefna til að fylgja eftir Reykjavíkuryfirlýsingunni. Hún minnti á að Evrópuráðið væri fjármagnað með skattfé og því væri afar mikilvægt að sjá til þess að fénu væri vel varið. Bjørn Berge, aðstoðarframkvæmdastjóri Evrópuráðsins, tók til máls undir þessum dagskrárlið og sagði brýnt að forgangsraða með enn skýrari hætti, fylgja fjármagni eftir og meta árangur. Með því að fylgja eftir Reykjavíkuryfirlýsingunni gæfist tækifæri til að vinda ofan af lýðræðislegri afturför sem græfi undan sameiginlegum gildum. Þingmenn tóku undir þessi sjónarmið í umræðum og sögðu mikilvægt að fylgja eftir niðurstöðum leiðtogafundarins í Reykjavík og auka skilvirkni og gegnsæi í starfsemi Evrópuráðsins. Ekki væri hægt að segja til um árangur af fundinum fyrr en eftir tvo áratugi en eftirfylgni skipti þar höfuðmáli.
    Aleksander Pociej, pólskur þingmaður og formaður flokkahóps evrópskra þjóðarflokka (EPP), hóf umræðu um vítahring ofbeldis og neyðarástand á Gaza-ströndinni og lagði áherslu á mikilvægi þess að Evrópuráðsþingið gerði allt sem það gæti til að stuðla að friðsamlegri lausn á svæðinu. Gaza-ströndin væri nú hættulegasti staður jarðar fyrir börn að mati UNICEF. Mikilvægt væri að atburðir síðustu vikna, bæði hrottalegar hryðjuverkaárásir á ísraelska borgara og eins hrikalegt stríð gegn óbreyttum borgurum á Gaza-ströndinni, yrðu síðasti kaflinn í þessari hryllilegu sögu. Hann sagði jafnframt að þingið hefði ítrekað stuðning sinn við tveggja ríkja lausn og kallaði eftir því að Evrópa gerði sitt til að uppfylla vonir Ísraels um að búa við öryggi og vonir Palestínumanna um sjálfstætt ríki. Boaz Bismuth og Bernard Sabella, fulltrúar ísraelsku og palestínsku landsdeildanna, tóku einnig til máls í umræðunum.
    Þá voru einnig ræddar þrjár skýrslur sem lagðar voru fram á fundinum: 1) um niðurstöður kosningaeftirlits með þingkosningum í Póllandi, 2) um arfgengar erfðabreytingar í mönnum og 3) um kerfisbundna fordóma innan löggæslustofnana gagnvart Rómafólki og farandfólki. Í skýrslu um kosningaeftirlit í Póllandi kom fram að stjórnarflokkurinn og aðrir framboðsflokkar hefðu ekki setið við sama borð í kosningabaráttunni. Kosningaþátttaka hefði verið góð og aðstæður orðið til þess að virkja borgara til þátttöku sem víluðu ekki fyrir sér að bíða lengi í röð til að fá að kjósa. Framkvæmd eftirlits var talin ámælisverð þar sem ekki hefði fengist samþykki fyrir öllum meðlimum eftirlitsnefndar fyrr en seint og um síðir. Í umræðu um arfgengar erfðabreytingar í mönnum samþykktu þingmenn að mælast til þess við ráðherranefndina að skora á öll aðildarríki að leggja algjört bann við erfðabreytingum á fósturvísum og beita sér fyrir slíku banni, bæði með innlendri löggjöf og á evrópskum og alþjóðlegum vettvangi. Í umfjöllun um kerfisbundna fordóma innan löggæslustofnana lýstu þingmenn áhyggjum af slæmri meðferð á Rómafólki og farandfólki og af ofbeldi gegn því. Lögð var áhersla á mikilvægi þess að berjast gegn kerfisbundnum fordómum innan löggæslustofnana í garð þessara hópa. Auka þyrfti eftirfylgni og rannsóknir á þessum málum, tryggja hert viðurlög við ofbeldisverkum og illri meðferð og efla traust milli Rómafólks og farandfólks annars vegar og lögregluyfirvalda hins vegar.