Ferill 634. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
2. uppprentun.

Þingskjal 946  —  634. mál.
Leiðréttur texti.




Skýrsla


Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2023.

1. Inngangur.
    Á vettvangi NATO-þingsins árið 2023 var innrás Rússlands í Úkraínu í brennidepli og var fjallað um hana á öllum fundum. Lýst var yfir algjörri samstöðu með lýðræðislega kjörinni ríkisstjórn, þjóðþingi og íbúum Úkraínu. Með yfirgangi sínum gegn Úkraínu séu Rússar að leitast við að brjóta niður lýðræðið í landinu, ógna öðrum fullvalda lýðræðisríkjum og grafa undan grunngildum NATO og lýðræðisríkja.
    Rúslan Stefantsjúk, forseti úkraínska þingsins ávarpaði stjórnarnefndarfund NATO-þingsins í mars með fjarfundarbúnaði og kallaði eftir áframhaldandi stuðningi og aðstoð aðildarríkja NATO. Þá óskaði hann eftir því að NATO-þingið beitti sér fyrir framkvæmd Búkarest-ákvörðunarinnar frá árinu 2008 þess efnis að Úkraína fengi fulla aðild að NATO og ítrekaði að landið hefði ekki efni á að bíða eftir því í 15 ár til viðbótar að aðildarumsókn þeirra næði fram að ganga. Michal Szczerba, forseti NATO-þingsins, áréttaði eindreginn stuðning við Úkraínu og sagði framtíð lýðræðis vera í húfi.
    Á vorfundum NATO-þingsins í Lúxemborg var stríðið í Úkraínu helsta dagskrármálið. Þingfundur samþykkti tvær yfirlýsingar, annars vegar um hraðari aðlögun NATO á nýjum tímum hernaðarsamkeppni og hins vegar um staðfastan stuðning við Úkraínu. Í fyrri yfirlýsingunni er aðild Finnlands að bandalaginu 4. apríl fagnað og stuðningi lýst yfir við væntanlega aðild Svíþjóðar, sem muni ekki aðeins veita báðum löndunum meira öryggi heldur einnig NATO. Jafnframt er lögð áherslu á að Rússland sé mesta ógnin við öryggi, frið og stöðugleika á Evró-Atlantshafssvæðinu. Í seinni yfirlýsingunni um stuðning við Úkraínu er tilefnislaust og ólöglegt stríð Rússa í Úkraínu fordæmt harðlega og aðildarríkin hvött til að auka bæði hagnýtan og pólitískan stuðning við Úkraínu.
    Á ársfundi NATO-þingsins í Kaupmannahöfn var stríðið í Úkraínu enn í brennidepli og ítrekaði þingið enn staðfastan stuðning við lýðræði, sjálfstæði og fullveldi Úkraínu og fordæmdi tilefnislausa og ólögmæta innrás Rússa. Volodymyr Zelenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði fundinn með fjarfundarbúnaði frá Kænugarði og kallaði eftir frekari stuðningi og aðstoð aðildarríkja NATO. Þá lýsti fundurinn yfir samstöðu um nauðsyn þess að styðja Úkraínu linnulaust, næstum 600 dögum eftir að stríðið hófst.
    Á ársfundinum tók Svetlana Tichanovskaja, leiðtogi lýðræðisafla í Hvíta-Rússlandi, við viðurkenningu NATO-þingsins sem veitt er árlega og ber yfirskriftina Konur í þágu friðar og öryggis. Hún þakkaði heiðurinn og sérstaklega Íslandsdeild fyrir að tilnefnda hana til viðurkenningarinnar og veita henni tækifæri til að ávarpa fundinn. Tichanovskaja tileinkaði viðurkenninguna þúsundum fangelsaðra og kúgaðra kvenna í Íran, heimalandi sínu og víðar um heim.
    Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar á fundum NATO-þingsins árið 2023 má nefna viðnám og fælingarmátt NATO, netöryggi, málefni Kína og framlög aðildarríkja NATO til varnarmála. Einnig fór fram umræða um innleiðingu uppfærðrar stefnu NATO sem samþykkt var á síðasta ári á leiðtogafundi NATO, þar sem rík áhersla er lögð á grunngildi bandalagsins; lýðræði og frelsi. Þá var Njáll Trausti Friðbertsson höfundur skýrslu og ályktunar um verndun mikilvægra innviða hafsins og hlutverk tækninnar. Í ályktuninni er lögð áhersla á þörfina fyrir skilvirkt samstarf opinberra aðila og einkaaðila og ríkisstjórnir og þjóðþing hvött til að auka vitund og forgangsraða verndun mikilvægra innviða hafsins og efla viðbúnað. Enn fremur gaf NATO-þingið út sautján málefnaskýrslur á árinu og sex ályktanir sem nálgast má á vefsvæði NATO-þingsins, www.nato-pa. int/.

2. Almennt um NATO-þingið.
    NATO-þingið er þingmannasamtök sem hefur allt frá árinu 1955 verið vettvangur þingmanna aðildarríkja NATO til að ræða öryggis- og varnarmál. Fram til ársins 1999 bar þingið heitið Norður-Atlantshafsþingið, en heitir síðan NATO-þingið. Á síðustu árum hefur aðildar- og aukaaðildarríkjum NATO-þingsins fjölgað ört og hefur starfssvið þess verið víkkað í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa í ríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og ríkjum í Mið- og Austur-Evrópu. Sjö lýðræðisríki úr hópi fyrrverandi kommúnistaríkja eiga nú aukaaðild að þinginu (auk hlutlausu Evrópuríkjanna þriggja, Austurríkis, Sviss og Svíþjóðar) sem þýðir að þau geta tekið þátt í störfum og umræðum á þinginu. Störf þingsins beinast í auknum mæli að öryggismálum Evrópu í heild, efnahagslegum og pólitískum vandamálum í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og hinu hnattræna öryggiskerfi. Með Rose-Roth-áætluninni styður þingið nú einnig við þróun þingbundins lýðræðis í ríkjum álfunnar og nálægum ríkjum.

Hlutverk og starfssvið þingsins.
    Í Atlantshafssáttmálanum frá árinu 1949 var ekki gert ráð fyrir þinglegri ráðgjafarsamkundu en með tímanum jókst fylgi við þá skoðun að nauðsyn væri á skipulegu samstarfi þjóðþinga í tengslum við NATO og til stuðnings bandalaginu. Þingið hefur ekki formlega stöðu innan bandalagsins en smám saman hefur komist á náin og virk samvinna stofnananna. Meginhlutverk þingsins er að efla samstöðu og samráð þjóðþinga á sviði öryggis- og varnarmála. Þingið kemur saman tvisvar á ári, til vorfundar og ársfundar að hausti.
    Starfsemi þingsins fer að mestu fram í fimm málefnanefndum, stjórnmálanefnd, varnar- og öryggismálanefnd, efnahagsnefnd, vísinda- og tækninefnd og nefnd um lýðræði og öryggi. Auk þess fer mikið starf fram á vegum Miðjarðarhafshópsins sem þó hefur ekki stöðu formlegrar málefnanefndar. Þessar nefndir eru meginvettvangur umræðna, þær fjalla um samtímamál sem upp koma á starfssviði þeirra og vinna um þau skýrslur. Nefndarálit eru oftast sett fram í formi tilmæla, yfirlýsinga eða ályktana sem nefndin samþykkir og þingið greiðir síðan atkvæði um. Tilmælum er beint til Norður-Atlantshafsráðsins, sem fer með æðsta ákvörðunarvald innan NATO, og í þeim er hvatt til tiltekinna aðgerða. Ályktunum þingsins er hins vegar beint til ríkisstjórna aðildarríkjanna.
    Þótt þingið sé óháð NATO hafa samskipti þess við bandalagið smám saman tekið á sig fastara form. Á meðal formlegra samskipta má í fyrsta lagi nefna formleg svör við tilmælum þingsins frá framkvæmdastjóra bandalagsins fyrir hönd Norður-Atlantshafsráðsins. Í öðru lagi flytur framkvæmdastjóri bandalagsins ávarp á vorfundum og ársfundum NATO-þingsins og svarar fyrirspurnum þingmanna. Í þriðja lagi koma stjórnarnefnd NATO-þingsins og Norður-Atlantshafsráðið árlega saman til fundar í höfuðstöðvum NATO í Brussel. Að lokum skal nefndur sameiginlegur fundur þriggja nefnda NATO-þingsins í Brussel í febrúarmánuði ár hvert til að greiða fyrir samskiptum við starfsmenn og embættismenn NATO, SHAPE ( Supreme Headquarters Allied Powers in Europe, æðstu bækistöðvar bandamanna í Evrópu) og Evrópusambandsins.

Fulltrúar á NATO-þinginu og forystumenn þess.
    Á NATO-þinginu eiga sæti 274 þingmenn frá aðildarríkjunum sem eru 31 talsins. Fjöldi fulltrúa frá hverju landi ræðst að mestu af fólksfjölda. Stærsta sendinefndin er sú bandaríska með 36 þingmenn en Ísland er í hópi þeirra smæstu með þrjá þingmenn. Auk fulltrúanna má hvert þjóðþing tilnefna jafnmarga varamenn sem mega taka þátt í störfum þingsins en hafa ekki atkvæðisrétt. Ráðherrar í ríkisstjórnum mega ekki vera fulltrúar á NATO-þinginu. Alls á 88 þingmaður frá 10 aukaaðildarríkjum sæti á NATO-þinginu og taka þeir þátt í nefndarfundum, nema fundum stjórnarnefndar, og þingfundum en hafa ekki atkvæðisrétt. Þeir hafa þó rétt til þess að leggja fram breytingartillögur.
    Forystumenn þingsins eru sjö og eru sex þeirra, forseti og fimm varaforsetar, kjörnir ár hvert af fulltrúum á þingfundi. Sjöundi embættismaðurinn er gjaldkeri en hann kýs stjórnarnefndin annað hvert ár. NATO-þinginu er stjórnað af stjórnarnefnd en í henni eiga sæti forseti, varaforsetar, gjaldkeri og nefndarformenn auk formanna allra landsdeilda aðildarríkja NATO.

3. Íslandsdeild NATO-þingsins.
    Í ársbyrjun 2023 áttu eftirfarandi aðalmenn sæti í Íslandsdeild NATO-þingsins: Njáll Trausti Friðbertsson formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Andrés Ingi Jónsson varaformaður, þingflokki Pírata, og Stefán Vagn Stefánsson, þingflokki Framsóknarflokksins. Varamenn voru Diljá Mist Einarsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Jóhann Friðrik Friðriksson, þingflokki Framsóknarflokksins og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokki Pírata. Á þingfundi 18. september var sú breyting gerð að Jóhann Friðrik tók sæti aðalmanns í stað Stefáns Vagns sem tók sæti varamanns í Íslandsdeild.
    Íslandsdeild hélt tvo fundi á árinu til undirbúnings þátttöku sinni á fundum NATO-þingsins. Ritari Íslandsdeildar var Arna Gerður Bang alþjóðaritari.
    Skipan málefnanefnda til 18. september 2023 var eftirfarandi:

Stjórnarnefnd: Njáll Trausti Friðbertsson
Til vara: Diljá Mist Einarsdóttir
Stjórnmálanefnd: Njáll Trausti Friðbertsson
Til vara: Diljá Mist Einarsdóttir
Varnar- og öryggismálanefnd: Stefán Vagn Stefánsson
Til vara: Jóhann Friðrik Friðriksson
Nefnd um lýðræði og öryggi: Andrés Ingi Jónsson
Til vara: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir
Efnahagsnefnd: Andrés Ingi Jónsson
Til vara: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir
Vísinda- og tækninefnd: Njáll Trausti Friðbertsson
Til vara: Diljá Mist Einarsdóttir
Vinnuhópur um Miðjarðarhafssvæðið: Stefán Vagn Stefánsson
Þingmannaráð um málefni Úkraínu: Andrés Ingi Jónsson

    Eftir 18. september breyttist skipan í málefnanefndum þannig að Jóhann Friðrik tók við sem aðalmaður í þeim nefndum sem Stefán Vagn hafði setið í og hann tók við sem varamaður í sömu nefndum. Njáll Trausti Friðbertsson gegndi á árinu starfi aðalskýrsluhöfundar vísinda- og tækninefndar NATO-þingins. Þá var Andrés Ingi Jónsson kjörinn varaformaður undirnefndar lýðræðis- og öryggisnefndar og átti sæti í þingmannaráði Úkraínu og NATO-þingsins.

4. Fundir NATO-þingsins.
    Á venjubundnu ári kemur NATO-þingið saman til þingfundar tvisvar sinnum. Vorfundur er haldinn í maí og ársfundur í október eða nóvember. Á svokölluðum febrúarfundi heldur stjórnarnefndin fund með framkvæmdastjóra NATO og Norður-Atlantshafsráðinu, auk þess sem stjórnmálanefnd, efnahagsnefnd og varnar- og öryggismálanefnd halda sameiginlegan fund. Jafnframt kemur stjórnarnefnd þingsins saman til fundar í mars eða apríl ár hvert. Þá sækir fjöldi NATO-þingmanna árlegan fund um Atlantshafssamstarfið sem fram fer í desember í samstarfi NATO-þingsins og bandaríska Atlantshafsráðsins. Loks halda nefndir og undirnefndir þingsins reglulega málstofur og fundi á milli þingfunda.
    Árið 2023 tók Íslandsdeild þátt í vorfundi í Lúxemborg í maí og ársfundi í Kaupmannahöfn í október. Einnig tóku Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, og Andrés Ingi Jónsson, varaformaður, þátt í febrúarfundi í Brussel. Þá tók Njáll Trausti þátt í fundi stjórnarnefndar í Ósló í mars og Andrés Ingi í árlegum fundi um Atlantshafssamstarfið ( Transatlantic Forum) í Washington í desember. Að auki sótti Njáll Trausti fund vísinda- og tækninefndar í september í Berlín, Hamborg og Kíl og Rose-Roth-ráðstefnu í október í Stokkhólmi. Andrés Ingi Jónsson sótti fundi þingmannaráðs Úkraínu í febrúar í Brussel og í september í Póllandi og Úkraínu. Þá var Alþingi í gestgjafahlutverki á fundum vísinda- og tækninefndar NATO-þingsins sem haldnir voru í Reykjavík 25.–27. apríl. Njáll Trausti Friðbertsson og Andrés Ingi Jónsson tóku þátt í fundunum í Reykjavík ásamt ritara Íslandsdeildar.

Febrúarfundur NATO-þingsins í Brussel 21.–23. febrúar.
    Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sóttu fundinn Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, og Andrés Ingi Jónsson varaformaður, auk Stígs Stefánssonar, deildarstjóra alþjóðadeildar. Fyrirkomulag fundarins var með hefðbundnum hætti, þ.e. embættismenn og herforingjar Atlantshafsbandalagsins og aðrir gestir héldu erindi um afmörkuð málefni og svöruðu spurningum þingmanna. Þá var haldinn árlegur fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins með Norður-Atlantshafsráðinu. Í samræmi við trúnaðarreglu sem gildir á febrúarfundi NATO-þingsins ( Chatham House Rule) er ekki birt frásögn af fundinum.

Stjórnarnefndarfundur NATO-þingsins í Ósló 26. mars.
    Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins tók þátt í fundinum Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, auk Örnu Gerðar Bang, alþjóðaritara. Á dagskrá var stríðið í Úkraínu, drög að yfirlýsingu NATO-þingsins fyrir næsta leiðtogafund bandalagsins, aðlögun NATO að breyttu öryggisumhverfi, aðildarumsókn Svía og Finna að bandalaginu og starfið fram undan. (Sjá fylgiskjal I.)

Vorfundur NATO-þingsins í Lúxemborg 19.–22. maí.
    Árlegur vorfundur NATO-þingsins var haldinn í Lúxemborg dagana 19.–22. maí. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sóttu fundinn Njáll Trausti Friðbertsson formaður, Andrés Ingi Jónsson varaformaður og Jóhann Friðrik Friðriksson auk Örnu Gerðar Bang ritara. Á vorfundum NATO-þingsins vinna málefnanefndir skýrslur og eiga fundi með fulltrúum ríkisstjórna og alþjóðastofnana og sérfræðingum. Þá er þingfundur haldinn þar sem fjallað er um þau mál sem hæst ber í alþjóðlegri öryggis- og varnarmálaumræðu. Helstu umræðuefni fundarins voru stríðið í Úkraínu, netöryggi og fjölþáttaógnir. Lögð var áhersla á staðfastan stuðning NATO-þingsins við Úkraínu og aðlögun NATO að nýjum veruleika í kjölfar stríðs Rússa gegn Úkraínu, byggða á lýðræðislegum gildum. Tvær yfirlýsingar voru samþykktar á fundinum, annars vegar um hraðari aðlögun NATO á nýjum tímum hernaðarsamkeppni og hins vegar um staðfastan stuðning við Úkraínu. (Sjá fylgiskjal II.)

Ársfundur NATO-þingsins í Kaupmannahöfn 6.–9. október.
    Ársfundur NATO-þingsins var haldinn dagana 6.–9. október í Kaupmannahöfn. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sóttu fundinn Njáll Trausti Friðbertsson formaður, Andrés Ingi Jónsson varaformaður og Jóhann Friðrik Friðriksson auk Örnu Gerðar Bang ritara. Meginumræður fundarins fóru fram í fimm málefnanefndum þingsins á grundvelli skýrslna, sem unnar voru af nefndarmönnum, og fyrirlestra alþjóðlegra sérfræðinga um öryggismál. Þá var þingfundur haldinn þar sem fjallað var um þau mál sem hæst hefur borið í alþjóðlegri öryggis- og varnarmálaumræðu og greidd atkvæði um ályktanir og ákvarðanir þingsins. Helstu umræðuefni fundarins voru staða stríðsins í Úkraínu, ástandið í Rússlandi og Kína og framlög aðildarríkja NATO til varnarmála. Þingið lýsti yfir stuðningi við lýðræði, sjálfstæði og fullveldi Úkraínu og fordæmdi ólögmæta innrás Rússa í Úkraínu. (Sjá fylgiskjal III.)

Transatlantic Forum í Washington 4.–6. desember.
    NATO-þingið, Atlantshafsráð Bandaríkjanna og National Defence University (NDU) efna árlega til fundar um helstu málefni Atlantshafssamstarfsins í Washington D.C. Tilgangur fundarins er einkum að veita evrópskum þingmönnum á NATO-þinginu innsýn í það sem hæst ber í bandarískri umræðu um öryggis- og varnarmál. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sótti fundinn Andrés Ingi Jónsson, auk Stígs Stefánssonar, deildarstjóra alþjóðadeildar. Fyrirkomulag fundarins var með hefðbundnum hætti, þ.e. stjórnmálamenn, embættismenn, fræðimenn, fulltrúar hugveitna og aðrir gestir héldu erindi um afmörkuð málefni og svöruðu spurningum þingmanna. Í samræmi við trúnaðarreglu sem gildir á Transatlantic Forum ( Chatham House Rule) er ekki birt frásögn af fundinum.

Alþingi, 1. febrúar 2024.

Njáll Trausti Friðbertsson,
form.
Andrés Ingi Jónsson,
varaform.
Jóhann Friðrik Friðriksson.


Fylgiskjal I.


F R Á S Ö G N
af fundi stjórnarnefndar NATO-þingsins í Ósló 26. mars 2023.


    Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins tók þátt í fundinum Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, auk Örnu Gerðar Bang, alþjóðaritara. Á dagskrá var stríðið í Úkraínu, drög að yfirlýsingu NATO-þingsins fyrir næsta leiðtogafund bandalagsins, aðlögun NATO að breyttu öryggisumhverfi, aðildarumsókn Svía og Finna að bandalaginu og starfið fram undan.
    Joëlle Garriaud-Maylam, franskur þingmaður og forseti NATO-þingsins, hóf fundinn og sagði að næsti leiðtogafundur NATO yrði haldinn í Vilníus 11.–12. júní. Þá bað hún Linu Sanches, bandarískan þingmann og varaforseta NATO-þingsins, um að kynna fyrir nefndarmönnum drög að yfirlýsingu NATO-þingsins með tilmælum fyrir leiðtogafundinn. Yfirlýsingin ber yfirskriftina Nýtt NATO á tímum hernaðarlegrar samkeppni: Hröðun aðlögunar NATO fyrir Vilníus. Garriaud-Maylam tók fram að textinn sem yrði samþykktur á fundinum yrði skoðaður aftur á næsta fundi stjórnarnefndar áður en hann yrði lagður fyrir þingfund NATO-þingsins á vorfundi í Lúxemborg 22. maí. Þá höfðu 44 breytingartillögur borist við yfirlýsinguna og voru þær afgreiddar á fundinum. Enn fremur lagði Garriaud-Maylam til að drög að annarri yfirlýsingu um stuðning NATO-þingsins við Úkraínu yrðu lögð fram á vorfundinum. Var sú tillaga samþykkt samhljóða.
    Sanches benti á að á undanförnum þremur árum hefði NATO-þingið leitast við að stýra aðlögun NATO að heimi sem mótast í auknum mæli af baráttu milli einræðisríkja og lýðræðisríkja. Hún sagði nýlegan fund Xi Jinpings, forseta Kína, og Vladímírs Pútíns, forseta Rússlands, vera skýrt dæmi um það hvernig einræðisherrar leituðust við að endurskilgreina hefðbundna skipan í alþjóðamálum. Þingið, sem hefur lagt fram tillögu að dagskrá leiðtogafundarins NATO 2030, hefði skýra sýn á nýja grunnstefnu NATO. Megináherslur eru þær að koma á sameiginlegri stefnu um lýðræðisleg gildi, sem eru kjarninn í viðbrögðum NATO við áskorunum nútímans, og styrkja fælingarmátt og varnir bandalagsins. Þá hefði NATO-þingið þrýst á bandalagið að styðja Úkraínu enn frekar. Loks hefði þingið stutt dyggilega við aðildarumsókn Svía og Finna að NATO. Með yfirlýsingunni væri leitast við að tryggja að hinni endurnýjuðu skuldbindingu um sameiginleg lýðræðisleg gildi í nýrri grunnstefnu NATO yrði hrint í framkvæmd, m.a. með því að koma á fót miðstöð um lýðræðislegt viðnám í höfuðstöðvum bandalagsins. Þá þyrfti bandalagið að geta brugðist við fjölþáttaógnum sem stafa m.a. af hryðjuverkum, netógnum og útbreiðslu kjarnorku og annarrar háþróaðrar tækni til að grafa undan stöðugleika. Jafnframt væri brýnt að stuðla með virkum hætti að jafnri þátttöku kvenna og karla í varnarmálum.
    Næst fór forseti yfir áhersluatriði NATO-þingsins á árinu 2023 og sagði málefni Úkraínu verða í brennidepli. Þingið myndi áfram styðja Úkraínu og íhuga frekari leiðir til að koma landinu til hjálpar. Þá benti hún á að fulltrúar úkraínsku landsdeildarinnar hefðu boðað komu sína á vorfund NATO-þingsins í maí þar sem stjórnarnefndin mun halda sameiginlegan fund með þingmannaráði Úkraínu og NATO. Jafnframt sagði hún að á NATO-þinginu yrði lögð áhersla á aðlögun að nýrri grunnstefnu bandalagsins fyrir leiðtogafundinn í Vilníus. Önnur áhersluatriði yrðu seigla bandalagsins, upplýsingaóreiða, verndun mikilvægra innviða, samstarf og stefna um opnar dyr NATO, málefni Kína og hvernig styrkja megi undirstöðu bandalagsríkjanna í varnarmálum. Fundurinn samþykkti endurskoðaða starfsáætlun fyrir árið 2023, frestun á samstarfi þingsins við Karl Lamers-stofnunina uns niðurstöður rannsóknar liggja fyrir, og að drög að yfirlýsingu um stuðning við Úkraínu verði á dagskrá. Þá var endurskoðaður ársreikningur fyrir árið 2022 kynntur og samþykktur ásamt öðrum fjárhagsskjölum sem lögð voru fyrir fundinn.
    Því næst hlýddu fundargestir á ávarp Rúslans Stefantsjúks, forseta úkraínska þingsins, og Jehors Tsjernjevs, formanns þingmannanefndar Úkraínu, en landið hefur áheyrnaraðild að NATO-þinginu. Ávörpuðu þeir fundinn með fjarfundarbúnaði. Þeir kölluðu eftir auknum stuðningi og aðstoð aðildarríkja NATO. Tsjernjev þakkaði stjórnarnefndinni fyrir að mega ávarpa nefndarmenn. Hann benti á að Rússar létu ekki af árásarstríði sínu gegn Úkraínu jafnvel þótt rússneski herinn ætti undir högg að sækja. Hann sagði að Vladímír Pútín, forseti Rússlands, héldi áfram að senda hermenn til að sprengja friðsælar borgir og þorp í Úkraínu í loft upp. Því skipti sköpum að vopn og skotfæri bærust til Úkraínu frá bandamönnum, einkum loft- og eldflaugavarnarkerfi, orrustuþotur og langdrægar eldflaugar, til að stöðva árásir og frelsa úkraínsk landsvæði. Hann sagðist vænta þess að NATO-þingið héldi stuðningi sínum áfram og bað um að þingið hefði forystu um framkvæmd Búkarest-ákvörðunarinnar frá árinu 2008 þess efnis að Úkraína fengi fulla aðild að bandalaginu. Hann sagði að Úkraína hefði ekki efni á að bíða eftir því í 15 ár til viðbótar að aðildarumsókn þeirra yrði fullgilt.
    Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, ávarpaði fundinn og svaraði spurningum nefndarmanna. Hann sagði að vatnaskil hefðu orðið í Evrópu með stríðinu í Úkraínu sem hefði haft djúpstæð áhrif í Noregi, álfunni og heiminum öllum. Njáll Trausti Friðbertsson spurði Støre um stöðu öryggismála á norðurslóðum og um framtíð Norðurskautsráðsins. Hann benti á að þegar Svíþjóð og Finnland yrðu aðildarríki NATO væri Rússland eina norðurskautsríkið sem væri ekki í bandalaginu. Støre sagðist telja það hagsmunamál fyrir Rússa að norðurslóðir yrðu áfram lágspennusvæði. Þeir ættu ríkra hagsmuna að gæta á Kólaskaga og það væri þeim ekki í hag að auka á spennu eða fjölga árekstrum á svæðinu. Hann sagði mikilvægt að viðhalda stöðugleika á samstarfssvæðum á norðurslóðum, t.d. við stjórnun fiskistofna milli Noregs og Rússlands. Þá benti hann á að vitund um öryggismál á norðurslóðum væri mun meiri í bandalaginu nú en fyrir 15 árum. Enn fremur hefði Noregur styrkt varnarinnviði sína í norðri í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu, m.a. með auknu eftirliti og upplýsingaöflun. Hann lagði áherslu á að Noregur sæi ekki sérstaka hernaðarógn í norðri, heldur auknar fjölþáttaáskoranir frá Rússlandi. Aukin árvekni væri því mikilvæg, m.a. í samvinnu við bandalagsríkin.
    Þá var rætt um stöðu aðildarumsókna Finnlands og Svíþjóðar að NATO. Forseti NATO-þingsins sagði að frá því á síðasta stjórnarnefndarfundi sem haldinn var í Madríd í nóvember 2022 hefðu bæði Finnland og Svíþjóð lokið fullgildingu sinni. Þá yrðu greidd atkvæði um aðildarumsókn Finnlands í Ungverjalandi í næstu viku og tyrkneska þingið myndi einnig fullgilda aðildarbókun Finnlands á næstu dögum. Garriaud-Maylam lagði áherslu á mikilvægi þess að tyrkneska þingið samþykkti aðildarumsókn Svíþjóðar að NATO á næstunni og ferlið gengi snurðulaust fyrir sig.
    Forseti NATO-þingsins ítrekaði að þingið fordæmdi harðlega árásir Rússa í Úkraínu og væri staðráðið í því að refsað yrði fyrir þá glæpi sem Rússar og hermenn þeirra fremdu.
    Einnig voru málefni Túnis til umræðu. Voru fundarmenn sammála um að stofna til samskipta, með skilyrðum, við nýtt þjóðþing Túnis sem kom saman 13. mars. Samskipti við samstarfsaðila eru í endurskoðun hjá NATO-þinginu. Miðar endurskoðunin einkum að því að tryggja að samstarf samræmist betur sameiginlegum gildum bandalagsríkjanna.
    Forseti NATO-þingsins minnti nefndarmenn á að brátt yrði auglýst eftir tilnefningum til viðurkenningar sem veitt er árlega og ber heitið Konur í þágu friðar og öryggis. Hvatti hún þingmenn til að taka þátt. Á síðasta ári tók Olha Stefanísjína, aðstoðarforsætisráðherra Úkraínu í málefnum er tengjast aðlögun landsins að Evrópu og Atlantshafssvæðinu, við viðurkenningunni. Þá sagði hún að áherslur NATO-þingsins um jafnréttismál kæmu fram í nýrri grunnstefnu NATO þar sem í fyrsta sinn væri minnst á ályktun 1325 um konur, frið og öryggi. Framkvæmdastjóri NATO-þingsins, Ruxandra Popa, greindi frá því að árið 2022 hefðu 20% þingmanna verið konur og hefði það verið metár. Næsti fundur stjórnarnefndar verður haldinn 19. maí í Lúxemborg í tengslum við vorfund NATO-þingsins. Frekari upplýsingar má nálgast hjá ritara Íslandsdeildar og á vefsvæðinu www.nato-pa.int/.


Fylgiskjal II.


F R Á S Ö G N
af vorfundi NATO-þingsins í Lúxemborg 19.–22. maí 2023.


    Árlegur vorfundur NATO-þingsins var haldinn í Lúxemborg dagana 19.–22. maí. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sóttu fundinn Njáll Trausti Friðbertsson formaður, Andrés Ingi Jónsson varaformaður og Jóhann Friðrik Friðriksson auk Örnu Gerðar Bang ritara. Á vorfundum NATO-þingsins vinna málefnanefndir skýrslur og eiga fundi með fulltrúum ríkisstjórna og alþjóðastofnana og sérfræðingum. Þá er þingfundur haldinn þar sem fjallað er um þau mál sem hæst ber í alþjóðlegri öryggis- og varnarmálaumræðu. Helstu umræðuefni fundarins voru stríðið í Úkraínu, netöryggi og fjölþáttaógnir. Lög var áhersla á staðfastan stuðning NATO-þingsins við Úkraínu og aðlögun NATO að nýjum veruleika í kjölfar stríðs Rússa gegn Úkraínu, byggða á lýðræðislegum gildum. Tvær yfirlýsingar voru samþykktar á fundinum, annars vegar um hraðari aðlögun NATO á nýjum tímum hernaðarsamkeppni og hins vegar um staðfastan stuðning við Úkraínu. Um 250 þingmenn sóttu fundinn frá 31 aðildarríki NATO auk fulltrúa frá 16 aukaaðildar- og áheyrnarríkjum.
    Vorfundurinn hófst með sérstökum fundi stjórnarnefndar og þingmannaráðs NATO-þingsins og Úkraínu. Joëlle Garriaud-Maylam, forseti NATO-þingsins, lagði í opnunarræðu sinni áherslu á stuðning NATO-þingsins við Úkraínu og að þjóðin væri að verja sameiginleg gildi aðildarríkjanna, alþjóðlegt regluverk og sameiginlegt öryggi með hugrökku andófi sínu gegn yfirgangi Rússa. Svetlana Tichanovskaja, leiðtogi lýðræðisafla í Belarús, Oleksandra Matviichuk, forstöðumaður friðarverðlaunamiðstöðvar Nóbels fyrir borgaralegt frelsi í Úkraínu, og Irene Fellin, sérlegur erindreki framkvæmdastjóra NATO á sviði kvenna, friðar og öryggis, voru meðal ræðumanna.
    Á fundi stjórnarnefndar NATO-þingsins voru til umræðu drög að tveimur ályktunum NATO-þingsins, annars vegar um stuðning við hraðari aðlögun NATO á nýjum tímum hernaðarsamkeppni og hins vegar um stuðning við Úkraínu þar sem innrás Rússa er fordæmd. Pólski þingmaðurinn Michal Szczerba var höfundur ( rapporteur) síðari ályktunarinnar og lagði hann áherslu á mikilvægi þess að tryggja að Úkraína hefði það sem landið þyrfti til að ná árangri á vígvellinum. Einstök bandalagsríki NATO, ESB og samstarfsríki NATO verði að halda áfram að auka og flýta fyrir afhendingu hergagna og hjálpa Úkraínu að styrkja varnargetu sína. Miklar umræður fóru fram um breytingartillögur við ályktunina.
    Þá bauð Joëlle Garriaud-Maylam, forseti NATO-þingsins, Finnland velkomið sem fullgildan meðlim NATO-þingsins eftir að aðild þess að NATO var samþykkt 4. apríl og lýsti eindreginni von um að Svíþjóð yrði fullgilt aðildarríki sem allra fyrst. Enn fremur voru teknar ákvarðanir um starfsemi og helstu viðfangsefni NATO-þingsins seinni hluta árs 2023 og fjárhagsáætlun þingsins yfirfarin og rædd.
    Á fundum fimm fastanefnda NATO-þingsins voru rædd drög að 17 skýrslum þar sem fjallað var um málefni allt frá alþjóðlegu fæðuöryggi og upplýsingaóreiðu til áskorana sem Kína hefur í för með sér. Vísinda- og tækninefnd ræddi drög að þremur skýrslum á fundi sínum. Sú fyrsta fjallaði um ný efni sem notuð eru í framleiðslu hergagna, önnur um þróun framtíðarviðbúnaðar, vélfærafræði ( robotics) og sjálfstæð kerfi ( autonomous systems) og sú þriðja um verndun mikilvægra innviða hafsins og hlutverk tækninnar. Njáll Trausti Friðbertsson var skýrsluhöfundur og kynnti skýrsluna fyrir nefndinni og svaraði spurningum. Hann útskýrði hversu mikið almennir borgarar reiða sig á mikilvæga innviði hafsins eins og t.d. neðansjávarljósleiðara sem flytja 99% af alþjóðlegum stafrænum gögnum. Þá hafi vernd og eftirlit með þessum innviðum ekki aukist í takt við mikilvægi þeirra. Hann sagði tæknina hafa gert okkur háð innviðum hafsins og opnað fyrir möguleika á skemmdarverkum en jafnframt sé tæknin hluti af lausninni við að auka vernd þeirra. Þá sagði hann skýrsluna ætlaða sem umræðuvettvang fyrir þingmenn og hún verði uppfærð fyrir ársfund NATO-þingsins eftir að tekið hafi verið tillit til breytingartillagna frá nefndarmönnum.
    Við upphaf fundar í nefnd um lýðræði og öryggi hélt Franz Fayot, þróunarsamvinnu- og efnahagsráðherra Lúxemborgar, erindi um samspil þróunarsamvinnu og öryggis. Hann lýsti því hvernig ríkisstjórnin hefði lagt áherslu á þróunarsamvinnu sem þjónaði samhliða markmiðum grænna umskipta og hvernig ríkisstjórnin liti á það sem hluta af framlagi landsins til öryggis heimsbyggðarinnar að leggja ríkulega af mörkum til þróunarmála - en þau framlög nema um 1% af landsframleiðslu. Andrés Ingi Jónsson spurði ráðherrann hvernig Lúxemborg, sem er mikilvæg fjármálamiðstöð, tryggði að fjárfestingar sem stafa frá landinu vinni í þágu heimsmarkmiðanna. Ráðherrann sagði að búið væri að þróa skýran fjárfestingarramma hins opinbera gagnvart þróunarsamvinnuverkefnum en jafnframt væri mikilvægt að fjárfestingar einkaaðila næðu þessu mikilvæga jafnvægi. Þar þyrfti skýran lagaramma með bindandi markmiðum og upplýsingaskyldu, en að því marki væru stjórnvöld að vinna þessi misserin.
    Nefndin fjallaði um drög að þremur skýrslum. Fyrstu drögin snerust um baráttuna gegn refsileysi við brotum á alþjóðalögum í innrás Rússa í Úkraínu og fór fram pallborðsumræða þar sem Oleksandra Matviichuk, forstöðumaður stofnunarinnar Center for Civil Liberties, lýsti vinnu við að skrásetja brot rússneskra hermanna í stríðinu. Í umræðum benti Andrés Ingi Jónsson á að æskilegt væri að nefna hótanir Rússa um beitingu kjarnavopna, sem væru skýrt brot á mannréttindum, auk þess sem skerpa mætti á orðalagi um vistmorð, þ.e. hvernig Rússaher beitir skipulögðu tjóni á umhverfi sem vopni gegn almenningi. Þá var talsverð umfjöllun um kynferðisofbeldi sem vopn í stríðinu þar sem vinna þarf markvisst að stuðningi við konur á úkraínsku yfirráðasvæði, en ástandið sé enn verra og í raun hræðilegt á þeim landsvæðum sem Rússar hafa undir sinni stjórn. Önnur skýrsludrög fjölluðu um stríð Rússa gegn sannleikanum og hvernig verja megi aðildarríkin og samstarfsríki þeirra gegn upplýsingaóreiðuherferð Kremlverja og þau þriðju um fæðuöryggi og átök.
    Efnahagsnefnd NATO-þingsins fjallaði um drög að þremur skýrslum á fundi sínum. Ein þeirra fjallaði um nauðsynleg skref sem þarf að stíga í átt að uppbyggingu Úkraínu eftir stríð. Í tengslum við síðastnefndu skýrsluna fylgdi Andrés Ingi Jónsson eftir umræðu um notkun Rússa á jarðsprengjum til að minna á að athafnir þeirra jafngildi á mörgum sviðum vistmorði, sem væri mikilvægt að halda á lofti svo að ekki gleymdist hversu umfangsmikil umhverfisvíddin komi til með að vera í uppbyggingunni. Í þessu samhengi væri mikilvægt að flétta saman öll þau alþjóðlegu verkfæri sem hægt væri að nýta til að ná fram réttlæti og minnti Andrés þar á gagnsemi tjónaskrár sem Evrópuráðið hefði nýlega samþykkt á fundi sínum í Reykjavík.
    Þá fjallaði varnar- og öryggismálanefnd NATO-þingsins um drög að þremur skýrslum á fundi sínum. Sú fyrsta fjallaði um stríð Rússlands í Úkraínu, næsta um grundvöll iðnaðar fyrir nýjan fælingarmátt og varnir NATO og sú þriðja um hraða þróun öryggismála við Eystrasalt eftir innrás Rússa í Úkraínu.
    Hinn eiginlegi þingfundur NATO-þingsins fór fram 22. maí þar sem gestir fluttu ávörp og svöruðu spurningum fundarmanna. Meðal þeirra sem fluttu erindi voru Xavier Bettel, forsætisráðherra Lúxemborgar, Mircea Geoana, aðstoðarframkvæmdastjóri NATO, Oleksii Reznikov, varnarmálaráðherra Úkraínu, og Joëlle Garriaud-Maylam, forseti NATO-þingsins. Geoana ræddi m.a. um stríðið í Úkraínu og netöryggi sem vaxandi áhyggjuefni þar sem eðli þess er af öðrum toga en það sem þekkst hefði og erfitt væri að rekja slíkar árásir. Þá lagði Joëlle Garriaud-Maylam áherslu á mikilvægi baráttunnar við einræðisöfl sem reyna að grafa undan lýðræðisríkjum og brýnt sé að komið verði á fót lýðræðislegri viðnámsþróttarmiðstöð ( Democratic Resilience Centre) í höfuðstöðvum NATO. Þannig sé hægt að hrinda í framkvæmd endurnýjuðum skuldbindingum um sameiginleg lýðræðisgildi.
    Njáll Trausti Friðbertsson sagði árásina á Nordstream 2-leiðsluna hafa verið vakningu um það hversu mikilvægir innviðir í sjó eru fyrir öryggi ríkja. Þá hafi grimmilegt og tilefnislaust stríð Rússa gegn Úkraínu einnig áhrif á norðurslóðum. Margir sæstrengja sem tengja Evrópu við Norður-Ameríku séu staðsettir á hafsbotni í Norður-Atlantshafi. Jafnframt verði norðurhluti Evrópu sífellt mikilvægari fyrir framleiðslu endurnýjanlegra orkugjafa sem flytja þarf til annarra hluta Evrópu. Þá verði vart við aukna virkni frá rússneskum skipum á svæðinu. Njáll spurði aðstoðarframkvæmdastjóra NATO hvernig bandalagið og aðildarríki þess geti styrkt og bætt vernd mikilvægra innviða hafsins. Geoana svaraði því til að málið væri litið alvarlegum augun innan NATO og verið væri að koma á fót starfshópi í samstarfi við Evrópusambandið með aðkomu sérfræðinga frá opinbera geiranum og einkageiranum til að skoða öryggi innviða hafsins sérstaklega.
    Þingfundur kaus um tvær yfirlýsingar, annars vegar um hraðari aðlögun NATO á nýjum tímum hernaðarsamkeppni og hins vegar um staðfastan stuðning við Úkraínu og voru ályktanirnar samþykktar. Í fyrri yfirlýsingunni er aðild Finnlands að bandalaginu fagnað og stuðningi lýst yfir við væntanlega aðild Svíþjóðar, sem muni ekki aðeins veita báðum löndunum meira öryggi heldur einnig NATO. Jafnframt er lögð áhersla á að Rússland sé mesta ógnin við öryggi, frið og stöðugleika á Evró-Atlantshafssvæðinu. Þá er óréttmætt, tilefnislaust og ólöglegt stríð gegn Úkraínu fordæmt sem og áframhaldandi ólöglegt hernám Abkasíu og Suður-Ossetíu/Tskhinvali í Georgíu. Í seinni yfirlýsingunni um stuðning við Úkraínu er tilefnislaust, óréttmætt og ólöglegt stríð Rússa í Úkraínu fordæmt harðlega og aðildarríki hvött til að auka bæði hagnýtan og pólitískan stuðning við Úkraínu.
Andrés Ingi Jónsson var fyrsti flutningsmaður breytingartillögu sem hópur þingfólks lagði fram við ályktunina þar sem lagt var til að herða orðalag varðandi kjarnavopn, sér í lagi í ljósi þess hvernig rússnesk stjórnvöld hafa talað með óábyrgum hætti um möguleikann á að nota kjarnavopn í tengslum við árás sína á Úkraínu. Benti Andrés á að í ljósi þess að grunnstefna NATO legði upp með framtíðarsýn um kjarnavopnalausan heim, þá væri mikilvægt að geta ályktað í samræmi við það. Eftir nokkrar umræður var tillagan felld með talsverðum atkvæðamun. Ársfundur NATO-þingsins fer næst fram í Kaupmannahöfn 6.–9. október. Frekari upplýsingar fást hjá ritara Íslandsdeildar og á vefsvæðinu www.nato-pa.int.


Fylgiskjal III.


F R Á S Ö G N
af ársfundi NATO-þingsins 6.–9. október 2023.


    Ársfundur NATO-þingsins var haldinn dagana 6.–9. október í Kaupmannahöfn. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sóttu fundinn Njáll Trausti Friðbertsson formaður, Andrés Ingi Jónsson varaformaður og Jóhann Friðrik Friðriksson auk Örnu Gerðar Bang ritara. Meginumræður fundarins fóru fram í fimm málefnanefndum þingsins á grundvelli skýrslna, sem unnar voru af nefndarmönnum, og fyrirlestra alþjóðlegra sérfræðinga um öryggismál. Þá var þingfundur haldinn þar sem fjallað var um þau mál sem hæst hefur borið í alþjóðlegri öryggis- og varnarmálaumræðu og greidd atkvæði um ályktanir og ákvarðanir þingsins. Helstu umræðuefni fundarins voru staða stríðsins í Úkraínu, ástandið í Rússlandi og Kína og framlög aðildarríkja NATO til varnarmála. Þingið lýsti yfir stuðningi við lýðræði, sjálfstæði og fullveldi Úkraínu og fordæmdi ólögmæta innrás Rússa í Úkraínu. Um 240 þingmenn frá 31 aðildarríki NATO og fulltrúar 20 aukaaðildar- og áheyrnarríkja, auk alþjóðastofnana, sóttu ársfundinn.
    Stjórnarnefnd NATO-þingsins hélt fund í tengslum við ársfundinn. Á fundinum voru m.a. teknar ákvarðanir um starfsemi, fjármál og helstu viðfangsefni NATO-þingsins seinni hluta árs 2023. Áhersla var lögð á innrás Rússa í Úkraínu en einnig var rætt um inngöngu Svíþjóðar í bandalagið og fulltrúar Tyrklands og Ungverjalands hvattir til að fullgilda aðildarumsókn þeirra án tafar í þjóðþingum sínum. Michal Szczerba, forseti NATO-þingsins, áréttaði í opnunarræðu sinni eindreginn stuðning við Úkraínu og sagði framtíð lýðræðis vera í húfi.
    Fimm málefnanefndir NATO-þingsins ræddu skýrslur sínar og afgreiddu ályktanir. Jóhann Friðrik Friðriksson tók þátt í störfum varnar- og öryggismálanefndar, Andrés Ingi Jónsson tók þátt í störfum efnahagsnefndar og lýðræðis- og varnarmálanefndar, þar sem hann er varaformaður undirnefndar. Þá tók Njáll Trausti Friðbertsson þátt í störfum stjórnmálanefndar og vísinda- og tækninefndar þar sem hann er aðalskýrsluhöfundur.
    Vísinda- og tækninefnd ræddi þrjár skýrslur á fundum sínum og fjallaði sú fyrsta um það hvernig hægt sé að beisla gervigreind í hernum og áskoranir við að koma jafnvægi á áhættu og tækifæri við notkun hennar. Önnur beindi sjónum sínum að nýjum efnum og aukefnaframleiðslu. Sú þriðja var um aukna vernd mikilvægra innviða hafsins ( Enhancing the protection of Allied critical maritime infrastructure) og var Njáll Trausti Friðbertsson höfundur hennar. Hann kynnti skýrsluna og mælti fyrir ályktun á þingfundi og lagði áherslu á að verndun mikilvægra innviða hafsins sé nauðsynleg fyrir starfsemi ríkja okkar og hagkerfa og undirstrikaði nauðsyn þess að vernda þurfi innviðina gegn utanaðkomandi truflunum. Í ályktuninni er m.a. lögð áhersla á þörfina fyrir skilvirkt samstarf opinberra aðila og einkaaðila, einkum ESB. Jafnframt hvetur hún ríkisstjórnir og þingmenn til að auka vitund og forgangsraða verndun mikilvægra innviða hafsins og efla viðbúnað. Hlutverk tækninnar sé brýnt þar sem það auðveldi m.a. eftirlit og auki öryggi.
    Nefnd um lýðræði og öryggismál fjallaði á fundi sínum um drög að þremur skýrslum. Fyrstu drögin fjölluðu um fæðuöryggi og átök, en í umræðunum lýsti Andrés Ingi Jónsson ánægju með að tekist hefði að skerpa á orðalagi varðandi rétt til heilnæms umhverfis, enda væri aðgangur að hreinu vatni og óspilltum jarðvegi grundvöllur fæðuöryggis. Í því samhengi minnti hann á að ekki væri hægt að horfa fram hjá áhrifum loftslagsbreytinga, sér í lagi varðandi áhrif þeirra á vatnsbúskap. Önnur skýrsla nefndarinnar fjallaði um baráttuna gegn refsileysi við brotum á alþjóðalögum í innrás Rússa í Úkraínu. Þriðja skýrslan fjallaði um stríð Rússa gegn sannleikanum og hvernig verja megi aðildarríkin og samstarfsríki þeirra gegn upplýsingaóreiðuherferð Kremlverja. Í umræðum minnti Andrés á að of harðar aðgerðir gegn upplýsingaóreiðu geti snúist upp í andhverfu sína og grafið undan tjáningarfrelsi.
    Á fundi nefndarinnar hélt Dan Jørgensen, ráðherra þróunar- og loftslagsmála, erindi um áherslu danskra stjórnvalda á að efla öryggi á sama tíma og áhrif loftslagsbreytinga draga úr stöðugleika og öryggi víða um heim. Andrés tók undir með honum um mikilvægi þess að ríki gleymi ekki að takast á við þessar áskoranir þó að önnur knýjandi mál kalli á úrlausn. Hann benti jafnframt á að innan NATO væri full ástæða til að ræða þessi mál, ekki síst í ljósi þess að í salnum sitji þau fimm ríki sem hefðu stórtækustu áformin um aukna olíu- og gasvinnslu, samanlagt 51% af þeirri aukningu sem er á borðinu; Bandaríkin, Bretland, Kanada og Noregur, auk Ástralíu sem er náið samstarfsríki. Þá mætti Charlotte Slente, framkvæmdastjóri danska flóttamannaráðsins, á fund nefndarinnar og hélt erindi um mikilvægi jarðsprengjueyðingar í mannúðar- og þróunarstarfi. Andrés ræddi möguleika ríkja heims til að auka stuðning við fórnarlömb jarðsprengna, sem þurfa oft dýr og sérhæfð stoðtæki allt lífið, en ríkin þar sem mest ógn er af jarðsprengjum hafa oft veik heilbrigðis- og félagskerfi. Á fundinum var Andrés kjörinn varaformaður undirnefndar um viðnámsþrótt og almannaöryggi auk þess sem hann var endurkjörinn í þingmannaráð um málefni Úkraínu.
Hinn eiginlegi þingfundur NATO-þingsins fór fram 9. október þar sem tignargestir fluttu ávörp og svöruðu spurningum fundarmanna. Meðal þeirra sem fluttu ávarp voru Volodymyr Zelenskí, forseti Úkraínu, með fjarfundarbúnaði, Mircea Geoana, aðstoðarframkvæmdastjóri NATO, Michal Szczerba, forseti NATO-þingsins, Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, Søren Gade, forseti danska þingsins, og Philippe Lavigne, hershöfðingi og yfirmaður umbreytinga hjá NATO. Zelenskí sagði Úkraínumenn vissa um að þeir gætu varið land sitt og endurreist landamæri sín en þyrftu nauðsynlega á áframhaldandi stuðningi aðildarríkja NATO að halda til að geta náð markmiði sínu. Frederiksen ávarpaði fundinn og fordæmdi árás Hamas í Ísrael og sagði ekkert geta réttlætt slíkar árásir og bætti við: „Við stöndum með rétti Ísraels til að verja sig.“
    Samþykktar voru sex ályktanir sem m.a. hvöttu NATO og samstarfsríki til að standa við ákvarðanir leiðtogafundarins í Vilníus; endurreisn Úkraínu; nýtt fælingar- og varnarástand NATO; stöðugleika og öryggi á Svartahafssvæðinu; vinnu gegn villandi upplýsingum; og vernda mikilvægra innviða hafsins. Þá lýsti fundurinn yfir samstöðu um nauðsyn þess að styðja Úkraínu linnulaust, næstum 600 dögum eftir að stríðið hófst.
    Enn fremur tók Svetlana Tichanovskaja, leiðtogi lýðræðisafla í Hvíta-Rússlandi, við viðurkenningu NATO-þingsins sem veitt er árlega og ber yfirskriftina Konur í þágu friðar og öryggis. Hún þakkaði heiðurinn og sérstaklega Íslandsdeild fyrir að tilnefna hana til viðurkenningarinnar og veita henni tækifæri til að ávarpa fundinn. Tichanovskaja tileinkaði viðurkenninguna þúsundum fangelsaðra og kúgaðra kvenna í Íran, heimalandi sínu og víðar um heim.
    Njáll Trausti Friðbertsson tók til máls á þingfundinum og vakti athygli á verndun mikilvægra innviða hafsins. Hann sagði norðurslóðir heimkynni mikilvægra neðansjávarstrengja sem beri umtalsvert magn af alþjóðlegu gagnaflæði, auk olíu- og gasvinnslu og flutningsleiða. Þessir sæstrengir og innviðir séu nauðsynlegir fyrir öryggi og varnir aðildarríkja NATO. Það sé því mikilvægt að NATO bæti vernd þessara mikilvægu innviða í norðurhöfum. Mircea Geoana tók undir orð Njáls Trausta og staðfesti að aukin áhersla væri lögð á málaflokkinn hjá bandalaginu.
    Andrés Ingi Jónsson spurði Philippe Lavigne um afvopnunarmál og ræddi hvernig NATO gæti unnið gegn glæfralegri orðræðu Rússa um kjarnavopn með því að þróa stefnu bandalagsins. Þannig mætti reyna að sýna hvernig ábyrg orðræða um kjarnorkuvopn gæti litið út, t.d. með því að taka skýrt fram að aðildarríki NATO muni aldrei nota kjarnavopn að fyrra bragði. Lavigne svaraði með tilvísan til grunnstefnu bandalagsins um að svo lengi sem kjarnavopn væru til yrði NATO kjarnorkubandalag. Þá var áhersla lögð á stuðning við aðildarumsókn Svíþjóðar að NATO og stríðið í Úkraínu. Michal Szczerba, formaður NATO-þingsins, vakti athygli á ákvörðun NATO frá leiðtogafundinum í Vilníus í júlí sl. um að „tryggja að sameiginleg gildi, lýðræði, frelsi og réttur allra þjóða til að ákveða örlög sín, gangi framar heimsvaldastefnu og einræði“. Ríkisstjórnir bandalagsríkjanna verði að taka áþreifanleg skref. Hann sagði tímabært að koma á fót miðstöð lýðræðislegrar seiglu í höfuðstöðvum NATO og að 75 ára afmælisfundur sem haldinn verður í Washington í júlí 2024 væri góður tími til að fagna því að NATO einbeiti sér að því að hjálpa bandalagsríkjum og samstarfsríkjum að verja sameiginleg gildi. Fyrirhugað er að vorfundir NATO-þingsins fari fram 24.–27. maí 2024 í Sófíu í Búlgaríu. Frekari upplýsingar fást hjá ritara Íslandsdeildar og á vefsvæðinu www.nato -pa.int.


Fylgiskjal IV.


Yfirlýsingar og ályktanir NATO-þingsins árið 2023.


     *      Yfirlýsing 481 um NATO á tímum hernaðarsamkeppni: Hraðari aðlögun NATO á leiðtogafundinum í Vilníus.
     *      Yfirlýsing 482 um sameinaðan og staðfastan stuðning við Úkraínu.
     *      Ályktun 483 um verndun aðildarríkjanna og samstarfsríkja þeirra gegn röngum upplýsingar.
     *      Ályktun 484 um innleiðingu nýrrar grunnstefnu um varnar- og fælingarmátt NATO.
     *      Ályktun 485 um að styrkja stöðugleika og öryggi á Svartahafi í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.
     *      Ályktun 486 í átt að uppbyggingu Úkraínu.
     *      Ályktun 487 um framkvæmd ákvarðana leiðtogafundarins í Vilníus: Hraðari aðlögun NATO, stuðningur við Úkraínu.
     *      Ályktun 488 um aukna vernd mikilvægra innviða hafsins og á siglingaleiðum NATO.