Ferill 641. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 954  —  641. mál.




Fyrirspurn


til utanríkisráðherra um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar.

Frá Andrési Inga Jónssyni.


     1.      Hversu margir einstaklingar búsettir á Gaza hafa fengið úthlutað íslensku dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar undanfarið? Hver er samsetning hópsins eftir kyni og aldri?
     2.      Hverjar eru helstu hindranir í ferli fjölskyldusameiningar fyrir Palestínumenn frá Gaza og hvernig hyggst ráðuneytið takast á við þessar áskoranir?
     3.      Hver er ástæða þess að íslensk stjórnvöld hafa ekki séð til þess að þessir einstaklingar komist út af Gaza? Skýrist það af því að ráðuneytið telur sig ekki hafa fullnægjandi upplýsingar um hvað þurfi að gera til að hjálpa til við fjölskyldusameiningar, eða skortir pólitíska stefnumörkun til að utanríkisþjónustan beiti sér í málinu?
     4.      Hvaða leiðir hafa stjórnvöld skoðað til að aðstoða þessa einstaklinga á leið sinni til Íslands og hvernig hefur samráði verið háttað við nánustu samstarfsríki Íslands í utanríkismálum? Hvaða samstarf hefur verið við alþjóðastofnanir eða hjálparsamtök til að stuðla að fjölskyldusameiningu fólks frá Gaza?
     5.      Hvernig og í hvaða mæli hefur utanríkisþjónusta annarra ríkja á Norðurlöndunum aðstoðað fólk með tengsl við einstaklinga í viðkomandi ríki til að komast út af Gaza?
     6.      Hvaða samskipti hefur utanríkisþjónustan átt við þau stjórnvöld sem þarf til að koma fólkinu yfir landamærin á milli Gaza og Egyptalands? Hvaða aðgerðir þyrfti til að koma þessum einstaklingum á lista þeirra sem er heimil för yfir landamærin?
     7.      Hvernig hyggst ráðherra beita sér til að einstaklingar með samþykkt dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar komist út af Gaza? Hvaða tímalínu sér ráðherra fyrir sér þar að lútandi?


Skriflegt svar óskast.