Ferill 497. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 974  —  497. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum, nr. 80/2002, og lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991 (reglugerðarheimildir).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá mennta- og barnamálaráðuneyti.
    Nefndinni barst ein umsögn sem er aðgengileg á síðu málsins á vef Alþingis og er þar lýst yfir stuðningi við að frumvarpið nái fram að ganga.
    Markmið frumvarpsins er fyrst og fremst að skýra ábyrgð mennta- og barnamálaráðherra þegar kemur að reglugerðum sem varða gæði þjónustu sem lýtur eftirliti Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála. Þannig felur frumvarpið í sér afmarkaðar breytingar á barnaverndarlögum og lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga í því skyni að tryggja að sá ráðherra sem fer með mál er varða barnavernd og málefni barna og ungmenna samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga hafi viðeigandi heimildir til að setja reglugerðir á því málefnasviði sem undir hann heyrir.
    Við meðferð málsins hjá nefndinni kom í ljós að misritun væri í 3. kafla greinargerðar frumvarpsins. Þar er vísað í VII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, en tilvísunin á að vera til VIII. kafla þeirra laga.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ásmundur Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Hann ritar undir álitið samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 31. janúar 2024.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
form.
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir,
frsm.
Líneik Anna Sævarsdóttir.
Bryndís Haraldsdóttir. Óli Björn Kárason. Ásmundur Friðriksson.