Ferill 349. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 989  —  349. mál.

3. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á vopnalögum, nr. 16/1998 (skotvopn, skráning, varsla, eftirlit, o.fl.).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju milli 2. og 3. umræðu og fengið á sinn fund gesti frá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Umfjöllun nefndarinnar.
Bann við innflutningi á hálfsjálfvirkum og sjálfvirkum skotvopnum sem safnvopnum.
    Með frumvarpinu er m.a. lagt til að núgildandi ákvæði 2. málsl. 7. mgr. 5. gr. vopnalaga um undanþágu frá banni við innflutningi á sjálfvirkum og hálfsjálfvirkum skotvopnum á grundvelli söfnunar falli brott. Ákvæðið mælir fyrir um að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu geti, að fenginni umsögn ríkislögreglustjóra, heimilað innflutning slíkra vopna hafi þau ótvírætt söfnunargildi vegna aldurs þeirra eða tengsla við sögu landsins. Með frumvarpinu er tekið fyrir þá heimild en á hinn bóginn verður áfram heimilt með leyfi lögreglustjóra að flytja inn hálfsjálfvirkar skammbyssur og hálfsjálfvirka riffla, séu vopnin sérhönnuð og sannanlega ætluð til íþróttaiðkunar.
    Nefndin tók til skoðunar hvort rétt væri að heimila áfram innflutning hálfsjálfvirkra skotvopna með vísan til söfnunargildis þeirra og að ströngum skilyrðum uppfylltum, svo sem vegna aldurs þeirra og tengsla við hernámsliðið á Íslandi í síðari heimsstyrjöld. Við nánari athugun málsins telur meiri hlutinn á hinn bóginn ljóst að ekki sé tímabært eins og sakir standa að heimila áfram innflutning á hálfsjálfvirkum skotvopnum í söfnunarskyni. Að mati meiri hlutans er afar brýnt að sporna gegn auknum innflutningi sjálfvirkra og hálfsjálfvirkra skotvopna með vísan til þeirra röksemda sem raktar eru í greinargerð með frumvarpinu. Þá telur meiri hlutinn jafnframt nauðsynlegt að bregðast við þeim ábendingum sem fram komu í áhættumatsskýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra frá 2019 um skipulagða brotastarfsemi á Íslandi og ábendingum í skýrslu þjóðaröryggisráðs frá 2021 um fjölgun slíkra vopna.
    Meiri hlutinn beinir því til ráðuneytisins að taka mið af framkomnum sjónarmiðum umsagnaraðila um að heimila innflutning á safnvopnum og kanna vandlega við fyrirhugaða heildarendurskoðun laganna hvort tilefni sé til að leyfa takmarkaðan innflutning slíkra vopna á grundvelli skýrt afmarkaðrar undanþáguheimildar. Meiri hlutinn leggur jafnframt áherslu á að komi til þess að leyfa slíkan innflutning verði það gert að vel athuguðu máli og að viðhöfðu ítarlegu samráði við löggæsluyfirvöld og hagsmunaaðila, líkt og félög vopnasafnara.
    Að öðru leyti vísast til umfjöllunar um málið í nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar við 2. umræðu.

Breytingartillögur meiri hlutans.
    Við 2. umræðu málsins voru breytingartillögur á þingskjölum 754 og 755 kallaðar aftur og komu ekki til atkvæða. Málinu var í kjölfarið vísað til nefndarinnar að nýju og leggur meiri hlutinn nú til eftirgreindar breytingar á frumvarpinu.

Samræming orðnotkunar um viðurkennd skotfélög annars vegar og viðurkennd skotíþróttafélög hins vegar.
    Fyrir nefndinni var rætt um hugtakanotkun um mismunandi félög samkvæmt frumvarpinu. Í samráði við dómsmálaráðuneyti telur meiri hlutinn að betur fari á því að samræma hugtakanotkun yfir „viðurkennd skotfélög“ og „viðurkennd skotíþróttafélög“ svo að eingöngu verði mælt fyrir um viðurkennd skotfélög. Leggur meiri hlutinn til breytingartillögu þess efnis.

Breytingar á orðalagi í lögum nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl.
    Í 32. gr. frumvarpsins eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum um skipti á dánarbúum, nr. 20/1991, og á erfðalögum, nr. 8/1962. Í umsögn sýslumannaráðs eru lagðar til nokkrar minni háttar orðalagsbreytingar á lögum nr. 20/1991 í því skyni að samræma heiti stofnana, gæta að réttri hugtakanotkun og auka skýrleika ákvæðanna. Meiri hlutinn tekur undir þessar ábendingar og telur þær vera til bóta.
    Þá leggur meiri hlutinn til breytingartillögur sem eru tæknilegs eðlis og þarfnast ekki skýringar.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og lagðar eru til á sérstöku þingskjali.
    Bergþór Ólason, Eyjólfur Ármannsson og Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir ritar undir álitið samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 1. febrúar 2024.

Bryndís Haraldsdóttir,
form., frsm.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir. Brynhildur Björnsdóttir.
Dagbjört Hákonardóttir. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Líneik Anna Sævarsdóttir.