Ferill 609. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 995  —  609. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, nr. 87/2023 (framlenging).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Nefndinni bárust tvær umsagnir auk minnisblaðs frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og eru gögnin aðgengileg á síðu málsins á vef Alþingis.
    Með frumvarpinu er lagt til að tímabil launastuðnings samkvæmt lögum nr. 87/2023, um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, verði lengt til 30. júní 2024. Þá er lagt til að umsóknarfrestur um stuðning samkvæmt lögunum verði framlengdur til 30. september 2024.
    Frumvarpinu er ætlað að tryggja áframhaldandi stuðning við afkomu einstaklinga sem vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ geta ekki gegnt störfum sínum þar sem starfsstöðvar viðkomandi eru í sveitarfélaginu.
    Meiri hluti nefndarinnar tekur undir mikilvægi þess að afkoma þeirra sem ekki geta sótt atvinnu í Grindavík vegna aðstæðna verði áfram tryggð með lengingu stuðningstímabils til loka júnímánaðar.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Guðbrandur Einarsson, áheyrnarfulltrúi, var fjarverandi við afgreiðslu málsins en er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 5. febrúar 2024.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
form., frsm.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Sigþrúður Ármann.
Magnús Árni Skjöld Magnússon. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir. Óli Björn Kárason.
Ásmundur Friðriksson.