Ferill 672. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1004  —  672. mál.




Beiðni um skýrslu


frá ríkisendurskoðanda um ráðstöfun byggðakvóta.


Frá Ingu Sæland, Eyjólfi Ármannssyni, Guðmundi Inga Kristinssyni, Ásthildi Lóu Þórsdóttur, Jakobi Frímanni Magnússyni, Tómasi A. Tómassyni, Guðbrandi Einarssyni, Sigmari Guðmundssyni, Andrési Inga Jónssyni, Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur, Birni Leví Gunnarssyni, Gísla Rafni Ólafssyni, Halldóru Mogensen og Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur.


    Með vísan til 17. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016, er þess óskað að ríkisendurskoðandi skili Alþingi skýrslu um ráðstöfun byggðakvóta.
    Í skýrslunni verði m.a. dregið fram hvernig framkvæmd er háttað þegar annars vegar ráðherra ráðstafar aflamagni til stuðnings byggðarlögum, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 10. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, og hins vegar þegar Byggðastofnun ráðstafar aflaheimildum, sbr. 10. gr. a sömu laga. Jafnframt verði athugað hvort framkvæmdin stuðli að jákvæðri byggðaþróun, hvort framkvæmdin samrýmist góðum stjórnsýsluháttum, hvort jafnræðis sé gætt við úthlutun byggðakvóta og hvort framkvæmdin samrýmist þeim markmiðum sem stefnt var að með setningu þeirra lagaákvæða sem úthlutun byggðakvóta byggist á.

Greinargerð.

    Beiðni þessi var áður flutt á 153. löggjafarþingi ( 1066. mál).
    Í lögum um stjórn fiskveiða eru ákvæði um heimild stjórnvalda til að ráðstafa aflaheimildum á grundvelli byggðasjónarmiða. Slíkar aflaheimildir eru í daglegu tali nefndar byggðakvóti. Annars vegar er um að ræða almennan byggðakvóta, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga um stjórn fiskveiða, og hins vegar sértækan byggðakvóta, sbr. 10. gr. a. Almenni byggðakvótinn dreifist á fjölda byggðarlaga og er þá úthlutað tiltölulega litlu magni á hvert byggðarlag, en sértækum byggðakvóta er úthlutað samkvæmt samningi um mótframlag og dreifast slíkir samningar á færri byggðarlög. Þá er ólík aðkoma stjórnvalda að úthlutun almenna og sértæka byggðakvótans, en skv. 10. gr. a er það á forræði Byggðastofnunar að ráðstafa hinum sértæka byggðakvóta en hinn almenni byggðakvóti er á forræði ráðherra, þó að höfðu samráði við Byggðastofnun.
    Úthlutun byggðakvóta hefur sætt gagnrýni og deilt hefur verið um hvort stjórnvöld hafi ávallt haft byggðasjónarmið að leiðarljósi við ákvarðanatöku um úthlutun byggðakvóta. Þá hefur það sætt gagnrýni þegar stærri útgerðir fá úthlutað til sín byggðakvóta, enda margir sem rekja neikvæða byggðaþróun undanfarinna áratuga til samþjöppunar veiðiheimilda á fárra hendur. Samkvæmt upplýsingum frá matvælaráðuneytinu er þess ekki gætt hvort viðtakendur byggðakvóta hafi yfir að ráða meiri aflaheimildum en sem nemi hámarksaflahlutdeild. Það er vægast sagt bagalegt að við úthlutun aflaheimilda sem ætlaðar eru til að leiðrétta hlut þeirra byggða sem hafa orðið fyrir hvað mestum skakkaföllum vegna áhrifa kvótakerfisins og samþjöppunar veiðiheimilda séu engin takmörk fyrir því að útgerðum sem jafnvel hafa yfir að ráða meiri kvóta en sem nemur lögbundnu hámarki sé úthlutað byggðakvóta í ofanálag. Þá hafa margir gagnrýnt að ekki séu gerðar kröfur um að fiskiskip sem fái úthlutað byggðakvóta landi aflanum í heimahöfn. Þá hafa komið upp tilvik þar sem stjórnvöld hafa gert samninga við erlenda aðila um úthlutun byggðakvóta þrátt fyrir að slíkt brjóti í bága við ákvæði laga sem banna erlent eignarhald á íslenskum útgerðum.
    Þá telja flutningsmenn tilefni til að ríkisendurskoðandi skoði sérstaklega hvort framsetning ársreikninga Byggðastofnunar sé í samræmi við lög og góða endurskoðunarhætti í ljósi þess að þar er hvergi getið samninga um byggðakvóta sem þó nema umtalsverðum fjárhæðum.
    Það er meginregla íslenskrar stjórnsýslu að þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um úthlutun gæða sé jafnræðis gætt meðal umsækjenda. Þegar um ræðir jafn mikilvæga ráðstöfun og úthlutun byggðakvóta má fullyrða að það sé öllum til gagns að framkvæmdin sé hafin yfir vafa. Því telja flutningsmenn brýnt að ríkisendurskoðanda verði falið að gera úttekt á ráðstöfun byggðakvóta.