Ferill 675. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1009  —  675. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um tímabundinn rekstrarstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



1. gr.

Gildissvið.

    Lög þessi gilda um einstaklinga og lögaðila sem stunduðu tekjuskattsskyldan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og voru með fasta starfsstöð í Grindavíkurbæ 10. nóvember 2023.

2. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að stuðla að því að rekstraraðilar skv. 1. gr. sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi, varðveitt viðskiptasambönd og hafið starfsemi á ný með stuttum fyrirvara.

3. gr.

Orðskýringar.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Atvinnurekstur eða sjálfstæð starfsemi: Starfsemi aðila sem greiðir laun skv. 1. eða 2. tölul. 5. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og er skráður á launa-greiðendaskrá eða gerði grein fyrir reiknuðu endurgjaldi í síðasta skattframtali, svo og á virðisaukaskattsskrá þegar það á við.
     2.      Föst starfsstöð: Föst atvinnustöð þar sem starfsemi aðila fer að nokkru eða öllu leyti fram.
     3.      Rekstrarkostnaður: Rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, að frátöldum niðurfærslum og fyrningum eigna og launum í skilningi laga um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.
     4.      Stöðugildi: Starfshlutfall sem jafngildir fullu starfi launamanns skv. 1. eða 2. tölul. 4. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, í einn mánuð.
     5.      Tekjur: Skattskyldar tekjur skv. B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, að frátöldum hagnaði af sölu varanlegra rekstrarfjármuna.

4. gr.

Skilyrði fyrir rekstrarstuðningi.

    Aðili sem fellur undir gildissvið laga þessara og uppfyllir öll eftirtalin skilyrði á rétt á tímabundnum rekstrarstuðningi úr ríkissjóði vegna hvers almanaksmánaðar frá nóvember 2023 til og með apríl 2024:
     1.      Hann ber ótakmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 1. eða 2. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.
     2.      Tekjur hans í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar voru a.m.k. 40% lægri en í sama almanaksmánuði ári áður og tekjufallið má rekja til náttúruhamfara í Grindavíkurbæ. Hafi hann hafið starfsemi eftir upphaf sama almanaksmánaðar ári fyrr skal miðað við meðaltekjur hans á jafn mörgum dögum og eru í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar frá því hann hóf starfsemi til og með 9. nóvember 2023. Við sérstakar aðstæður má nota annað tímabil til viðmiðunar sýni rekstraraðili fram á að það gefi betri mynd af tekjufalli hans en viðmiðunartímabil skv. 1.–2. málsl. Að jafnaði skal þá miðað við tekjur í sama almanaksmánuði tveimur árum áður.
     3.      Hann er ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga fyrir 10. nóvember 2023 og álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum, til Skattsins síðustu þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan hann hóf starfsemi ef það var síðar. Að auki skal hann, eftir því sem við á og á sama tímabili, hafa staðið skil á ársreikningum samkvæmt lögum um ársreikninga og upplýst um raunverulega eigendur samkvæmt lögum um skráningu raunverulegra eigenda.
     4.      Bú hans hefur ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta. Jafnframt skal hann ekki hafa verið tekinn til slita, nema ef slitin eru liður í samruna, skiptingu eða breytingu á rekstrarformi hans, og fyrirhugað er að lögaðili sem við tekur haldi rekstri sem umsókn varðar áfram.

5. gr.

Fjárhæð rekstrarstuðnings.

    Rekstrarstuðningur vegna hvers almanaksmánaðar jafngildir hvorri eftirtalinna fjárhæða sem er lægri:
     1.      Rekstrarkostnaði umsækjanda þann almanaksmánuð sem umsókn varðar.
     2.      Margfeldi eftirfarandi stærða:
                  a.      600 þús. kr.
                  b.      Fjöldi stöðugilda hjá umsækjanda í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar, þó að hámarki tíu stöðugildi.
                  c.      Tekjufall skv. 2. tölul. 4. gr.
    Rekstrarstuðningur telst til skattskyldra tekna samkvæmt lögum um tekjuskatt.

6. gr.

Umsókn.

    Umsókn um rekstrarstuðning skal beint til Skattsins fyrir hvern almanaksmánuð og eigi síðar en 31. júlí 2024. Umsókn skal vera á því formi sem Skatturinn ákveður og henni skulu fylgja þau gögn sem Skatturinn áskilur.

7. gr.

Ákvörðun.

    Skatturinn skal afgreiða umsókn svo fljótt sem verða má og ekki síðar en tveimur mánuðum eftir að honum berst fullnægjandi umsókn.
    Við afgreiðslu umsóknar og endurskoðun ákvörðunar um rekstrarstuðning getur Skatturinn farið fram á að rekstraraðili sýni með rökstuðningi og gögnum fram á rétt sinn til stuðningsins.
    Skatturinn skal endurákvarða rekstrarstuðning komi í ljósi að rekstraraðili hafi ekki átt rétt á stuðningnum eða átt rétt á meiri eða minni stuðningi en honum var ákvarðaður.
    Að því leyti sem ekki er á annan veg kveðið á um í lögum þessum gilda ákvæði 94.–97. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, eftir því sem við getur átt um afgreiðslu umsókna og endurákvarðanir Skattsins.

8. gr.

Málskot.

    Stjórnvaldsákvarðanir Skattsins samkvæmt lögum þessum sæta kæru til yfirskattanefndar. Um kærufrest og málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum laga um yfirskattanefnd.

9. gr.

Endurgreiðslur.

    Hafi rekstraraðili fengið rekstrarstuðning umfram það sem hann átti rétt á ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var.
    Ef aðili sem fengið hefur rekstrarstuðning samkvæmt lögum þessum greiðir út arð, kaupir eigin hlutabréf eða ráðstafar með öðrum hætti fé til eigenda sinna, öðruvísi en í formi launa eða til samræmis við skuldbindingu sem stofnað var til fyrir 7. febrúar 2024, fyrir 1. maí 2025 skal hann endurgreiða þann rekstrarstuðning sem hann hefur fengið.
    Kröfur um endurgreiðslur samkvæmt grein þessari bera vexti skv. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá þeim degi sem aðili fékk rekstrarstuðning. Dráttarvextir skv. 6. gr. sömu laga leggjast á kröfu um endurgreiðslu skv. 1. mgr. ef hún er ekki innt af hendi innan mánaðar frá dagsetningu endurákvörðunar Skattsins og á kröfu um endurgreiðslu skv. 2. mgr. ef hún er ekki innt af hendi innan mánaðar frá úthlutun fjár til eigenda.
    Ákvarðanir Skattsins og úrskurðir yfirskattanefndar um endurgreiðslur samkvæmt þessari grein eru aðfararhæfir. Kæra til yfirskattanefndar eða málshöfðun fyrir dómstólum frestar aðför.

10. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra getur kveðið nánar á um framkvæmd laga þessara í reglugerð.

11. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Það kveður á um tímabundinn rekstrarstuðning til rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tekjufalli vegna náttúruhamfaranna í Grindavíkurbæ.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Föstudaginn 10. nóvember 2023 ákvað lögreglustjórinn á Suðurnesjum, í samráði við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra að rýma Grindavíkurbæ og samhliða lýsti ríkislögreglustjóri yfir neyðarstigi á grundvelli laga um almannavarnir, nr. 82/2008. Ástæða ákvörðunarinnar voru skýr merki um myndun kvikugangs sem talið var mögulegt að gæti náð til Grindavíkur. Í ákvörðuninni fólst að öllum íbúum Grindavíkurbæjar var skylt að rýma hús sín og yfirgefa bæinn. Þá daga sem neyðarstig stóð yfir var íbúum óheimilt að vera í Grindavíkurbæ nema samkvæmt ákvörðun lögregluyfirvalda og í fylgd með björgunarsveitarmönnum.
    Hinn 22. nóvember 2023 ákvað ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum, að færa almannavarnarstig af neyðarstigi niður á hættustig frá og með klukkan 11 að morgni fimmtudagsins 23. nóvember 2023. Breytingin var skýrð með því að líkur á skyndilegri gosopnun innan bæjarmarka Grindavíkur hefðu farið minnkandi og væru nú taldar litlar. Land risi þó enn í Svartsengi og kvika gæti flætt þar á ný í kvikuganginn undir Grindavík. Fyrirboða um slíka atburðarás yrði hægt að greina á skjálftamælum og GPS-mælum. Samhliða ákvörðun um að færa almannavarnarstigið af neyðarstigi niður á hættustig var ákveðið að heimila íbúum Grindavíkur rýmri aðgang að bænum til að huga að eignum sínum en þeim var þó einungis heimilað að dvelja í bænum hluta úr degi. Frá þessum tíma og fram í janúar á þessu ári ríkti óvissa um hvort búseta og atvinnulíf í Grindavík gæti a.m.k. að einhverju leyti orðið með eðlilegum hætti innan tiltölulega skamms tíma. Áhersla var lögð á að vernda mikilvæga innviði með byggingu varnargarða og lauk fyrsta áfanga í gerð varnargarða við Svartsengi í desember. Á sama tíma var unnið að endurreisn bæjarins með viðgerðum á veitu- og gatnakerfum en alvarlegt vinnuslys sem varð 10. janúar við fyllingu á sprungu í bænum varð til þess að vinna verktaka í bænum var stöðvuð um sinn.
    Eldgosið í Sundhnúkagígaröðinni, 18. desember 2023, hófst með mjög stuttum fyrirvara en stóð stutt yfir og olli ekki tjóni á mannvirkjum. Í framhaldi af því tók ríkisstjórnin ákvörðun um að hraða vinnu við gerð varnargarðs rétt vestan við Grindavík til að verja íbúðabyggð. Gerð þess varnargarðs var ekki lokið þegar eldgos hófst að morgni 14. janúar sl. Gossprunga opnaðist rétt austan varnargarðsins og streymdi hraun inn að íbúðabyggð austast í bænum. Eitt íbúðarhús fór undir hraun og tvö brunnu af þeim sökum áður en hraunstraumurinn stöðvaðist. Daginn áður en síðara eldgosið hófst hafði ríkislögreglustjóri gefið fyrirmæli á grundvelli 24. gr. laga um almannavarnir um tímabundinn brottflutning íbúa og bann við dvöl og starfsemi í Grindavík í þrjár vikur á þeim grundvelli að áhættumat sýndi að dvöl íbúa í Grindavíkurbæ þætti ekki ásættanleg út frá öryggi almennings. Gildistöku þeirrar ákvörðunar var flýtt aðfaranótt 14. janúar sl. þegar líkur á eldgosi höfðu skyndilega aukist.
    Tímabilið frá 10. nóvember 2023 og fram að framlagningu frumvarpsins hefur einkennst af mikilli röskun á allri starfsemi vegna jarðhræringanna og óvíst er hver framvinda þeirra verður. Ekki liggur fyrir hvenær rýmingu verður aflétt í Grindavík og mat á því viðbótartjóni sem varð vegna eldgossins og jarðhræringanna sem hófust 14. janúar sl. hefur ekki farið fram nema að litlu leyti. Sú staða er uppi að forsendur til atvinnurekstrar í sveitarfélaginu hafa gjörbreyst á undanförnum mánuðum. Atvinnurekendur eiga misjafnlega auðvelt með að aðlaga sína starfsemi að breyttum aðstæðum og er frumvarpinu ætlað að taka tillit til þess.
    Ríkisstjórnin hefur gripið til ýmissa ráðstafana til að draga úr tjóni rekstraraðila vegna jarðhræringanna. Auk byggingar varnargarða í Svartsengi og við Grindavík hefur verið lögfest sérstakt tímabundið úrræði til að standa undir greiðslu launa á svæðinu. Þá hafa eftirfarandi þrjár ívilnandi aðgerðir þegar verið lögfestar varðandi skattskil rekstraraðila:
          Greiðslufrestur staðgreiðslu og tryggingagjalds. Heimild til handa launagreiðendum, sem eiga í tímabundnum rekstrarörðugleikum vegna tekjufalls vegna náttúruhamfara í Grindavík, að óska eftir greiðslufresti til ríkisskattstjóra á allt að þremur greiðslum í ríkissjóð á afdregnum skatti í staðgreiðslu og á tryggingagjaldi í staðgreiðslu sem falla mun í gjalddaga 1. desember 2023 til og með 1. febrúar 2024. Greiðslur sem frestað er falla í gjalddaga og eindaga 15. apríl 2024.
          Lækkun eða niðurfelling fyrirframgreiðslu tekjuskatts. Heimild til handa ráðherra að ákvarða með reglugerð að á árinu 2024 megi lækka eða fella niður fyrirframgreiðslu gjaldenda upp í tekjuskatt sem lagður er á á því ári vegna tekna ársins 2023 eða ákvarða aðra gjalddaga fyrirframgreiðslna en mælt er fyrir um í lögum um tekjuskatt.
          Niðurfelling álags á vangreiddan virðisaukaskatt. Heimild ríkisskattstjóra, samkvæmt tilmælum eða að höfðu samráði við ráðherra, til að fella niður álag á vangreiddan virðisaukaskatt, tímabundið eða ótímabundið, vegna uppgjörstímabila frá og með 1. september 2023 til og með 31. desember 2024.
    Í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru í Grindavíkurbæ og hinnar erfiðu stöðu sem flestir rekstraraðilar þar hafa þurft að búa við síðan í nóvember sl. er talið tilefni til að leggja til að þeim bjóðist að auki að sækja um beina styrki úr ríkissjóði.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er lagt til nýtt úrræði til að koma til móts við vanda rekstraraðila vegna jarðhræringa og eldsumbrota í Grindavíkurbæ. Gert er ráð fyrir að einstaklingar og lögaðilar sem stunduðu atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í Grindavíkurbæ þegar rýma þurfti bæinn, 10. nóvember 2023, og hafa orðið fyrir a.m.k. 40% tekjufalli vegna atburðanna geti fengið rekstrarstuðning í formi beinna styrkja úr ríkissjóði samkvæmt frumvarpinu. Gert er ráð fyrir því að unnt verði að fá rekstrarstuðning vegna tímabilsins nóvember 2023 til og með apríl 2024.
    Stuðningur fyrir hvern mánuð nemur hvorri eftirtalinna fjárhæða sem er lægri: 1) Rekstrarkostnaði umsækjanda í mánuðinum. 2) Margfeldi a) 600 þús. kr., b) fjölda stöðugilda hjá umsækjanda í mánuðinum, að hámarki tíu, og c) hlutfallslegs tekjufalls sem rekja má til náttúruhamfaranna. Stuðningur fyrir hvern mánuð getur þannig að hámarki orðið 6 millj. kr. ef stöðugildi eru tíu og tekjur hafa dregist saman um 100%.
    Gert er ráð fyrir að rekstraraðili sæki um rekstrarstuðning til Skattsins fyrir hvern mánuð. Unnt verði að kæra ákvarðanir Skattsins til yfirskattanefndar. Ráðgert er að endurgreiða beri rekstrarstuðning greiði rekstraraðili út arð fyrir 1. maí 2025.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið bannar að meginreglu til ríkisaðstoð sem raskar eða er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinnar vöru að því leyti sem aðstoðin hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila. Aðstoð til að bæta tjón af völdum náttúruhamfara eða óvenjulegra atburða samrýmist þó framkvæmd samningsins, sbr. b-lið 2. mgr. 61. gr. samningsins. Við undirbúning aðgerða til stuðnings íbúum og fyrirtækjum í Grindavíkurbæ sem lögfestar voru í desember 2023 var haft samráð við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), sem hefur eftirlit með framkvæmd EFTA-ríkjanna á EES-samningnum. Á fundi með ESA kom fram að aðstoð sem afmarkaðist við fyrirtæki innan skilgreinds svæðis sem hefðu orðið fyrir tjóni af völdum náttúruhamfara væri ekki tilkynningarskyld. Voru því af hálfu ESA ekki gerðar athugasemdir við úrræðin sem samþykkt voru á haustþingi 2023, og að mati ESA er ekki ástæða til að tilkynna um önnur sambærileg úrræði.

5. Samráð.
    Við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við forsætisráðuneytið, menningar- og viðskiptaráðuneytið, matvælaráðuneytið, Skattinn og Grindavíkurbæ. Við mótun úrræðisins var byggt á upplýsingum frá Skattinum, Vinnumálastofnun, Byggðastofnun og Grindavíkurbæ.
    Sökum þess hversu áríðandi þótti að leggja frumvarpið fram á Alþingi sem fyrst var ekki gefinn kostur á að hafa samráð um áform og drög að frumvarpi í samráðsgátt stjórnvalda.

6. Mat á áhrifum.
6.1. Áhrif á rekstraraðila.
    Styrkjunum er ætlað að koma til móts við tekjutap sem ýmsir rekstraraðilar með starfsemi í Grindavík verða fyrir vegna yfirstandandi jarðhræringa og eldsumbrota. Þeim er ætlað að draga úr greiðsluvanda sem hlýst af minni tekjuöflun á tímabilinu 1. nóvember 2023 til 30. apríl 2024. Styrkfjárhæð skal jafngilda rekstrarkostnaði að frátöldum launakostnaði en launakostnaður fyrirtækja fæst bættur að hluta með öðru úrræði stjórnvalda, tímabundnum stuðningi til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ. Styrkfjárhæð rekstrarstyrks er bundin hámarki háð tekjufalli rekstraraðila og fjölda stöðugilda. Getur styrkfjárhæð ekki orðið hærri en 600 þús. kr. fyrir hvert stöðugildi á mánuði hjá rekstraraðila á tímabilinu og aldrei hærri en 6 millj. kr. á mánuði. Styrkurinn mun teljast til skattskyldra tekna en ekki virðisaukaskattsskyldrar veltu.
    Nýtast styrkirnir þannig best litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem er meginþorri fyrirtækja í Grindavíkurbæ samkvæmt gögnum Skattsins en 85% rekstraraðila þar hafa færri en 10 starfsmenn, eða 120 einyrkjar og 55 fyrirtæki með 340 starfsmenn í heild. Fjórtán fyrirtæki eru með 10–20 starfsmenn (alls 193 starfa hjá þeim fyrirtækjum), sex fyrirtæki með 20–30 starfsmenn (alls 138 manns) og þrjú fyrirtæki með 30–50 starfsmenn (alls 113 manns). Alls sjö fyrirtæki hafa fleiri en 50 starfsmenn og þar af eru þrjú langstærst (alls 1.626 manns). Þessu til viðbótar eru rekstraraðilar með skráðar höfuðstöðvar í öðru sveitarfélagi en starfsstöð í Grindavíkurbæ en ekki er vitað um fjölda þeirra.

6.2. Áhrif á efnahagslífið.
    Í ársbyrjun 2024 voru 3.692 einstaklingar með lögheimili í Grindavík samkvæmt tölum Þjóðskrár Íslands. Er Grindavíkurbær þar með átjánda stærsta sveitarfélag Íslands, litlu fámennara en Ísafjarðarbær og Suðurnesjabær. Öflugt atvinnulíf er í bænum þar sem ferðaþjónusta og sjávarútvegur eru burðarásinn. Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum störfuðu 205 tekjuskattsskyldir rekstraraðilar í Grindavík á haustmánuðum 2023. Þar af eru 120 einyrkjar og 85 fyrirtæki með samtals 2.410 starfsmenn. Að auki eru 431 sem starfa hjá Grindavíkurbæ, íþróttafélögum og stéttarfélögum. Alls starfa því 2.841 einstaklingar í Grindavík, sem er 1,3% starfandi fólks á Íslandi. Ekki liggja fyrir staðfestar upplýsingar um aðstæður og tekjufall í einstökum greinum en fyrir liggur að fyrirtæki í sjávarútvegi hafa að einhverju leyti náð að laga starfsemi sína að þeim aðstæðum sem sköpuðust eftir jarðhræringarnar í nóvember 2023 og áhrif á umsvif í greininni gætu orðið lítil þegar frá líður. Það hefur verið erfiðara að aðlaga starfsemi fyrirtækja sem selja vöru og þjónustu á staðnum, svo sem ferðaþjónustufyrirtækja, að breyttum aðstæðum. Nú þegar eru vísbendingar um að jarðhræringarnar og eldsumbrotin hafi dregið úr umsvifum í ferðaþjónustu sem merkja má í skörpum samdrætti erlendrar kortaveltu hér á landi undir lok síðasta árs.
    Með því úrræði sem lagt er til í frumvarpi þessu og samspili þess við önnur úrræði stjórnvalda er vonast til að dregið verði úr greiðsluflæðisvanda smárra og meðalstórra rekstraraðila í Grindavík sem hafa orðið fyrir talsverðu tekjutapi vegna atburðanna. Með slíkri aðstoð gefst tækifæri til að viðhalda sérhæfingu og viðskipta- og ráðningarsamböndum rekstraraðila í Grindavík sem gerir þeim kleift að hefja starfsemi aftur um leið og færi gefst, hvort sem það verður í Grindavík eða á nýjum slóðum. Í efnahagslegu samhengi getur það borgað sig að styðja við lífvænlega rekstraraðila með þessu móti til skemmri tíma. Úrræði stjórnvalda styðja við rekstraraðila í Grindavík og gera þeim kleift að viðhalda starfsemi sem er jafnframt mikilvægt fyrir fjárhag starfsfólks þeirra.

6.3. Áhrif á stjórnsýslu.
    Með frumvarpinu er lagt til að Skattinum verði falið nýtt verkefni við afgreiðslu umsókna um rekstrarstuðning. Afgreiðsla styrkjanna mun fela í sér aukin umsvif og kostnað hjá Skattinum en þó verður unnt að nýta að nokkru leyti þann grunn sem þegar hefur verið lagður fyrir umsóknir um tekjufalls- og viðspyrnustyrki og dregur það úr kostnaði við að koma úrræðinu á laggirnar. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að ákvarðanir Skattsins um rekstrarstuðning verði kæranlegar til yfirskattanefndar. Áhrifin á nefndina munu ráðast af fjölda kærumála en gert er ráð fyrir að þau áhrif verði ekki veruleg og málin ekki af þeim toga að þau krefjist mannauðs sem nefndin býr ekki yfir nú þegar.

6.4. Áhrif á ríkissjóð.
    Úrræðið sem lagt er til í frumvarpi þessu mun bjóðast rekstraraðilum óháð stærð og rekstrarformi. Það nýtist þó hlutfallslega best minni aðilum því hámark styrkfjárhæðar er 6 millj. kr. í hverjum almanaksmánuði fyrir aðila sem hefur orðið fyrir 100% tekjufalli og hefur a.m.k. 10 stöðugildi í almanaksmánuði. Samkvæmt gögnum Skattsins störfuðu ríflega 200 tekjuskattsskyldir rekstraraðilar í Grindavík sl. haust og er stærð þeirra afar ólík, eins og rakið hefur verið. Til viðbótar er óljós fjöldi rekstraraðila með starfsstöð í Grindavík en höfuðstöðvar í öðru sveitarfélagi. Ekki liggja fyrir upplýsingar um tekjufall rekstraraðila á síðastliðnum mánuðum auk þess sem erfitt er að áætla hvert tekjufallið verður í framtíðinni. Þá liggur ekki fyrir rekstrarkostnaður rekstraraðila á sama tímabili. Þannig er áhrifamatið eðli máls samkvæmt nokkurri óvissu háð og þykir rétt að gæta varúðar og setja fyrirvara um heildarfjárhæðir.
    Matið á nokkurs konar efri mörkum miðast við að öll fyrirtæki skráð í Grindavík verði fyrir 100% tekjufalli og að fjöldi launþega hjá þeim endurspegli öll stöðugildi. Til viðbótar er bætt við nær 20 rekstraraðilum með starfsstöð í Grindavíkurbæ en höfuðstöðvar í öðru sveitarfélagi sem hafa þegar sótt um stuðning til greiðslu launa vegna atburðanna. Þá gerir matið ráð fyrir að hámarkið sé bindandi í öllum tilfellum jafnvel þó að styrkfjárhæðin muni alltaf miðast við rekstrarkostnað. Þannig má ætla að heildarfjárhæð tímabundins rekstrarstuðnings vegna náttúruhamfaranna í Grindavíkurbæ á sex mánaða tímabili úrræðisins yrði ekki hærri en 2.700 millj. kr. Ef horft er eingöngu til þeirra rekstraraðila sem hafa þegar sótt um stuðning vegna greiðslu launa og áætlað að þeir aðilar hafi orðið fyrir slíku tekjufalli að þeir nýti sér einnig rekstrarstuðning má ætla að heildarkostnaður vegna úrræðisins gæti orðið um 1.600 millj. kr. Gerir matið ráð fyrir 100% tekjufalli hjá þeim rekstraraðilum og að hámarkið sé í öllum tilfellum bindandi, það felur í sér ofmat á heildarfjárhæðinni en á móti vegur að umsóknarfrestur vegna stuðnings við greiðslu launa er ekki liðinn og líklegt að fleiri aðilar sæki um þegar frá líður.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Frumvarpinu er ætlað að styðja við rekstraraðila í Grindavíkurbæ. Því geta aðeins einstaklingar og lögaðilar sem stunduðu tekjuskattsskyldan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og voru með fasta starfsstöð í Grindavíkurbæ 10. nóvember 2023 fengið rekstrarstuðning samkvæmt frumvarpinu. Hugtökin atvinnurekstur, sjálfstæð starfsemi og föst starfsstöð eru skilgreind í 1. og 2. tölul. 3. gr. frumvarpsins. Miðað er við að starfsemi hafi verið hafin 10. nóvember 2023 því það er sá dagur sem fyrst var ákveðið að rýma Grindavíkurbæ.


Um 2. gr.

    Markmiðið með stuðningsúrræðinu sem felst í frumvarpinu er að koma til móts við þann vanda sem skapast hefur hjá rekstraraðilum skv. 1. gr. vegna náttúruhamfaranna. Úrræðinu er ætlað að auðvelda þeim að viðhalda nauðsynlegri lágmarksstarfsemi og varðveita viðskiptasambönd á óvissutímum. Um tímabundið úrræði er að ræða og stuttur gildistími skýrist af óvissunni á svæðinu.

Um 3. gr.

     Um 1. tölul. Með atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi er átt við starfsemi aðila sem greiða laun skv. 1. eða 2. tölul. 5. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987. Undir það fellur bæði endurgjald fyrir vinnu starfsfólks og reiknað endurgjald vegna vinnu við eigin rekstur. Það er jafnframt skilyrði að launagreiðandi hafi verið skráður á launagreiðendaskrá eða hafi gert grein fyrir reiknuðu endurgjaldi í síðasta skattframtali sem honum bar að leggja fram. Skv. 19. gr., sbr. 5. og 7. gr., laga um staðgreiðslu opinberra gjalda ber hverjum þeim sem greiðir laun í skilningi laganna að tilkynna sig sem launagreiðanda. Heimildinni til að miða frekar við reiknað endurgjald í skattframtali fyrir næstliðið rekstrarár er ætlað að koma til móts við aðstæður einyrkja sem eru ekki með umfangsmikinn atvinnurekstur og hafa ekki alltaf gætt þess að skrá sig á launagreiðendaskrá. Þá er það skilyrði að viðkomandi sé jafnframt skráður á virðisaukaskattsskrá þegar það á við. Skv. 5. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, ber hverjum þeim sem er skattskyldur samkvæmt þeim lögum að tilkynna ríkisskattstjóra um atvinnurekstur sinn eða starfsemi.
     Um 2. tölul. Skilgreining frumvarpsins á fastri starfsstöð byggist á 1. mgr. 3. gr. a laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Við nánari afmörkun á hugtakinu er unnt að byggja á skilgreiningu þeirrar greinar, eins og skilgreiningin hefur verið afmörkuð nánar í reglugerð um fasta starfsstöð, nr. 1165/2016, eftir því sem við getur átt. Hugtakið tekur þannig einkum til aðseturs framkvæmdastjórnar, útibús, skrifstofu, verksmiðju, verkstæðis og námu, olíu- eða gaslindar, grjótnámu eða annars staðar þar sem náttúruauðlindir eru nýttar, sbr. 1. tölul. 2. gr. reglugerðarinnar. Byggingarsvæði eða byggingar- eða uppsetningarframkvæmd telst því aðeins föst starfsstöð að hún standi lengur en sex mánuði, sbr. 2. mgr. 3. gr. a laga um tekjuskatt og 5. gr. reglugerðarinnar. Starfsemi sem er aðeins ætlað að undirbúa, styðja við eða reka aðra starfsemi fyrirtækisins myndar almennt ekki fasta starfsstöð, sbr. 3. mgr. 3. gr. a laganna og 4. gr. reglugerðarinnar.
     Um 3. tölul. Rekstrarkostnaður samkvæmt frumvarpinu er skilgreindur með sama hætti og í 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, að því frátöldu að til rekstrarkostnaðar samkvæmt frumvarpinu teljast ekki niðurfærslur og fyrningar eigna og laun í skilningi laga um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, nr. 87/2023. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði tekjuskattslaga má draga frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi rekstrarkostnað, þ.e. þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við. Ástæða þess að niðurfærslum og fyrningum eigna er í frumvarpinu haldið utan hugtaksins er að þær fela ekki í sér bein fjárútlát. Launum í skilningi laga um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ er haldið utan hugtaksins því unnt er að fá styrk vegna þeirra samkvæmt þeim lögum. Til launa samkvæmt þeim lögum teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og framlag atvinnurekanda til lífeyrissjóðs viðkomandi starfsfólks, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna.
     Um 4. tölul. Stöðugildi er skilgreint sem starfshlutfall sem jafngildir fullu starfi launamanns í einn mánuð. Í þessu felst að einn launamaður getur í hæsta lagi jafngilt einu stöðugildi enda starfi hann í fullu starfi hjá rekstraraðila í heilan mánuð. Tveir launamenn í hálfu starfi í einn mánuð jafngilda samtals einu stöðugildi. Að sama skapi jafngildir launamaður sem starfar í heilu starfi hjá rekstraraðila í hálfan mánuð 50% stöðugildi. Ekki verður talið að einn launamaður geti numið meira en einu stöðugildi í skilningi laganna enda þótt hann vinni í einum mánuði fullt starf auk yfirvinnu. Með launamanni er átt við fólk sem fær endurgjald fyrir starf sitt hjá rekstraraðila og sjálfstætt starfandi fólk sem reiknar sér endurgjald fyrir vinnu sína í eigin atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, auk maka og barna sjálfstætt starfandi fólks ef þeim er reiknað endurgjald í atvinnurekstrinum eða starfseminni.
     Um 5. tölul. Tekjur í skilningi frumvarpsins eru tekjur sem eru skattskyldar skv. B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt, þ.e. allar tekjur af atvinnurekstri og sjálfstæðri starfsemi, þ.m.t. endurgjald fyrir selda vöru og þjónustu, umboðslaun, þóknanir, atvinnurekstrarstyrkir, rekstrarstöðvunarbætur og hvers konar tekjur sem upp eru taldar í öðrum liðum greinarinnar og tengdar eru atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Hagnaður af sölu varanlegra rekstrarfjármuna telst þó ekki til tekna í skilningi frumvarpsins. Hann getur verið verulegur en er almennt óreglulegur og gefur ekki rétta mynd af þeim tekjum sem rekstraraðili hefur alla jafna.

Um 4. gr.

    Lagt er til að aðili sem fellur undir gildissvið laganna geti fengið rekstrarstuðning úr ríkissjóði vegna hvers almanaksmánaðar frá og með nóvember 2023 til og með apríl 2024 að uppfylltum fjórum skilyrðum.
     Um 1. tölul. Ótakmörkuð skattskylda skv. 1. eða 2. gr. laga um tekjuskatt felur að meginreglu til í sér skyldu til að greiða tekjuskatt hér á landi af öllum skattskyldum tekjum einstaklings eða lögaðila. Almennt hvílir ótakmörkuð skattskylda á einstaklingum og lögaðilum sem eru heimilisfastir hér á landi. Aðilar sem bera takmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 3. gr. laga um tekjuskatt eða eru undanþegnir tekjuskattskyldu skv. 4. gr. laganna uppfylla ekki skilyrðið. Af því leiðir t.d. að fyrirtæki sem ríkissjóður eða sveitarfélög reka og bera ótakmarkaða ábyrgð á og lögaðilar sem verja hagnaði sínum einungis til almannaheilla og hafa það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum geta ekki fengið rekstrarstuðning samkvæmt frumvarpinu.
     Um 2. tölul. Rekstrarstuðningi samkvæmt frumvarpinu er ætlað að aðstoða rekstraraðila í Grindavíkurbæ sem hafa orðið fyrir nokkrum tekjumissi vegna náttúruhamfara í sveitarfélaginu við að standa undir rekstrarkostnaði. Því er lagt til að tekjur rekstraraðila þurfi að hafa dregist saman um a.m.k. 40% vegna náttúruhamfaranna til að geta hlotið rekstrarstuðning vegna viðkomandi almanaksmánaðar.
    Aðeins skal taka tillit til tekjufalls sem má rekja til náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, þar á meðal rýmingar bæjarins og annarra ráðstafana stjórnvalda. Nægjanlegt er að tekjufall sé að rekja til eðlilegra viðbragða við náttúruhamförunum. Því er t.d. ekki áskilið að rekstraraðila hafi verið skylt að loka starfsstöð í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar. Aftur á móti skal ekki taka tillit til tekjufalls sem er náttúruhamförunum óviðkomandi, svo sem vegna persónulegra aðstæðna rekstraraðila eða slæmra rekstrarskilyrða sem eru ekki til komin vegna náttúruhamfaranna. Rekstraraðili þarf að skýra tilurð tekjufalls óski Skatturinn eftir því, sbr. 6. gr. og 2. mgr. 7. gr. frumvarpsins.
    Við ákvörðun tekjufalls skal almennt bera tekjur í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar saman við tekjur í sama almanaksmánuði ári fyrr. Sæki rekstraraðili t.d. um rekstrarstuðning vegna desember 2023 skulu tekjur hans þann mánuð bornar saman við tekjur hans í desember 2022.
    Hafi rekstraraðili hafið starfsemi eftir upphaf viðkomandi almanaksmánaðar ári fyrr þarf að nota aðra aðferð. Sem dæmi má nefna rekstraraðila sem sækir um rekstrarstuðning vegna desember 2023 en hóf ekki starfsemi fyrr en 1. apríl 2023 sem útilokar að miðað sé við tekjur hans í desember 2022. Þá skal þess í stað miðað við meðaltekjur rekstraraðila á jafn mörgum dögum og eru í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar frá því rekstraraðilinn hóf starfsemi til 9. nóvember 2023, sem er dagurinn áður en Grindavíkurbæ var fyrst rýmdur vegna jarðhræringanna. Í desember 2023 var t.d. 31 dagur og tímabilið frá 1. apríl til 9. nóvember 2023 var 223 dagar. Því þyrfti í tilviki rekstraraðilans sem sækir um rekstrarstuðning vegna desember 2023 en hóf ekki starfsemi fyrr en 1. apríl 2023 að deila í tekjur hans á tímabilinu 1. apríl til 9. nóvember 2023 með 223 og margfalda svo með 31 til að fá viðmiðunartekjur hans. Hafi tekjur hans á tímabilinu 1. apríl til 9. nóvember 2023 t.d. verið 10 millj. kr. væru viðmiðunartekjur hans 10 millj. kr./223 dagar * 31 dagur = 1.390.135 kr. Tekjur hans í desember 2023 mættu ekki hafa verið umfram 60% af því, eða 834.081 kr.
    Í sérstökum tilvikum kann almennt viðmiðunartímabil skv. 1.–2. málsl. 2. tölul. 4. gr. að gefa mjög skakka mynd af tekjufalli rekstraraðila. Það getur t.d. átt við hafi reksturinn legið niðri stóran hluta almenna viðmiðunartímabilsins vegna veikinda eða fæðingarorlofs rekstraraðila og tekjurnar því verið mun lægri en þær væru alla jafna. Við þær aðstæður má, ef rekstraraðili óskar eftir því og sýnir fram á að almenna viðmiðunartímabilið gefi mjög skakka mynd af tekjum hans alla jafna, notast við annað viðmiðunartímabil. Að jafnaði skal þá miðað við sama almanaksmánuð tveimur árum áður. Sem dæmi má nefna rekstraraðila sem sækir um rekstrarstuðning vegna desember 2023. Hafi reksturinn legið niðri í desember 2022 vegna veikinda rekstraraðila gæti samanburður við þann mánuð gefið mjög skakka mynd af tekjufalli hans. Þá kæmi til greina að miða frekar við tekjur í desember 2021.
    Ef rekstraraðili hefur ekki hafið starfsemi í upphafi viðkomandi almanaksmánaðar tveimur árum áður, eða ef hann sýnir fram á að sá mánuður gefi einnig mjög skakka mynd af tekjum hans, mætti notast við annað tímabil sem rekstraraðili tilgreinir og sýnir fram á að gefi betri mynd af tekjum hans alla jafna. Gera verður nokkuð strangar kröfur til þess að rekstraraðili miði við tímabil sem endurspeglar tekjur hans alla jafna en að hann velji ekki úr tímabil þegar tekjur voru óvenju miklar. Almennt má ætla að meðaltal tekna yfir löng tímabil gefi betri mynd af tekjum heldur en tekjur á stuttum tímabilum. Skatturinn getur farið fram á að rekstraraðili tilgreini nýtt tímabil telji hann rekstraraðila hafa valið tímabil þegar tekjur voru óvenju miklar.
    Miða skal við almennar reglur laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, við ákvörðun á því hvenær tekjur hafi orðið til, sbr. einkum 2. mgr. 59. gr. laganna þar sem fram kemur að tekjur skuli að jafnaði telja til tekna þegar þær verða til, þ.e. þegar myndast hefur krafa þeirra vegna á hendur einhverjum, nema um óvissar tekjur sé að ræða.
     Um 3. tölul. Ekki er talið eðlilegt að ríkissjóður veiti sérstakan fjárstuðning þeim rekstraraðilum sem voru í vanskilum með opinber gjöld áður en áhrifa náttúruhamfara í Grindavíkurbæ fór að gæta eða hafa ekki staðið skil á gögnum til Skattsins. Því er það gert að skilyrði fyrir rekstrarstuðningi að rekstraraðili sé ekki í vanskilum með opinber gjöld sem voru komin á eindaga fyrir 10. nóvember 2023 og hafi staðið skil á skattskýrslum og ársreikningum og upplýst um raunverulega eigendur þegar við á.
     Um 4. tölul. Frumvarpinu er ætlað að styðja við starfandi rekstraraðila. Því er lagt til að rekstraraðili geti ekki fengið rekstrarstuðning ef bú hans hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta eða rekstraraðilinn hefur verið tekinn til slita. Um gjaldþrotaskipti gilda lög um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Upphaf gjaldþrotaskipta miðast almennt við úrskurð héraðsdómara um gjaldþrotaskipti. Um slit á lögaðilum fer samkvæmt þeim lögum sem gilda um viðkomandi lögaðilaform. Um slit einkahlutafélaga fer þannig t.d. samkvæmt lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994. Aðili í slitum getur þó fengið rekstrarstuðning ef slitin eru liður í samruna, skiptingu eða breytingu á rekstrarformi hans, og fyrirhugað er að lögaðili sem við tekur haldi rekstri sem umsókn varðar áfram. Tekur breytingin mið af ábendingu þar um í áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um viðspyrnustyrki frá 151. löggjafarþingi (þskj. 567, 334. mál).

Um 5. gr.

     Um 1. mgr. Lagt er til að rekstrarstuðningur jafngildi rekstrarkostnaði umsækjanda þann almanaksmánuð sem umsókn varðar eða margfeldi þriggja stærða, eftir því hvor fjárhæðin er lægri.
     Um 1. tölul. 1. mgr. Rekstrarstuðningur getur ekki verið hærri en rekstrarkostnaður umsækjanda þann almanaksmánuð sem umsókn varðar. Rekstrarkostnaður er skilgreindur í 3. tölul. 3. gr. frumvarpsins. Kalli Skatturinn eftir því þarf rekstraraðili að sýna fram á að kostnaður hafi fallið til á viðkomandi mánuði. Kostnað sem fellur til á lengra tímabili og er ekki með góðu móti unnt að afmarka hvort falli innan mánaðarins, svo sem iðgjöld vegna vátrygginga, skal reikna hlutfallslega. Sem dæmi má nefna að hafi tiltekinn kostnaðarliður rekstraraðila vegna ársins 2023 í heild verið samanlagt 3 millj. kr. gæti rekstrarstuðningur til hans vegna þessa kostnaðar stakan almanaksmánuð numið allt að 250 þús. kr. (3 millj. kr./12).
     Um 2. tölul. 1. mgr. Rekstrarstuðningur getur að hámarki numið margfeldi 1) 600 þús. kr., 2) fjölda stöðugilda hjá umsækjanda í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar, þó að hámarki tíu stöðugildi, og 3) tekjufalli umsækjanda í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar. Stuðningurinn getur þannig að hámarki numið 6 millj. kr. á mánuði miðað við tíu stöðugildi og 100% tekjufall (600 þús. kr. * 10 * 100%). Stuðningur miðað við fjögur stöðugildi og 40% tekjufall væri 960 þús. kr. (600 þús. kr. * 4 * 40%). Ekki er unnt að fá stuðning hafi tekjufall verið minna en 40%, sbr. 2. tölul. 4. gr. frumvarpsins.
    Fjárhæðin 600 þús. kr. byggist á efri mörkum tekjufalls- og viðspyrnustyrkja, sem voru 500 þús. kr. á stöðugildi. Miðað er við 20% hærri fjárhæð því almennt verðlag hefur hækkað um um það bil 20% frá því að lög um tekjufalls- og viðspyrnustyrki voru samþykkt. Stöðugildi er skilgreint í 4. tölul. 3. gr. frumvarpsins. Tekjufall skal ákvarðað með þeim hætti sem í 2. tölul. 4. gr. frumvarpsins greinir.
     Um 2. mgr. Rekstrarstuðningur samkvæmt frumvarpinu myndar skattstofn samkvæmt lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003. Hann telst þó ekki til skattskyldrar veltu samkvæmt lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.

Um 6. gr.

    Gert er ráð fyrir að umsókn og umsóknarferli verði á formi sem Skatturinn ákveður. Skattinum er heimilt að áskilja að með umsókn fylgi upplýsingar um rekstrarkostnað eða fylgiskjöl sem sannreyna tilvist hans, svo sem hreyfingalistar úr bókhaldi og reikningar vegna útlagðs kostnaðar, og önnur gögn sem hann telur nauðsynleg til að staðreyna rétt rekstraraðila til rekstrarstuðnings. Rekstrarstuðningi samkvæmt frumvarpinu er ætlað að mæta tímabundnu tekjufalli og því er lagt til að umsóknum skuli skila eigi síðar en 31. júlí 2024, þremur mánuðum frá lokum stuðningstímabils skv. 4. gr. frumvarpsins. Sótt er um rekstrarstuðning fyrir hvern almanaksmánuð fyrir sig, en ekkert stendur því þó í vegi að sótt sé um stuðning vegna fleiri en eins almanaksmánaðar í einu.

Um 7. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að Skatturinn fari yfir umsóknir um rekstrarstuðning og greiði út stuðning til þeirra sem eiga rétt á honum. Skatturinn skal afgreiða umsókn svo fljótt sem verða má og ekki síðar en tveimur mánuðum eftir að honum berst fullnægjandi umsókn.
    Skatturinn getur kallað eftir rökstuðningi og gögnum ef þess þarf við afgreiðslu umsóknar eða við endurskoðun á ákvörðun eftir á, eftir atvikum í reglubundnu eftirliti.
    Í 3. mgr. er lagt til að komi í ljós eftir ákvörðun rekstrarstuðnings að skilyrði fyrir greiðslu hans voru ekki uppfyllt skuli Skatturinn með endurákvörðun fella hann niður. Þá skal hann endurákvarða stuðningsfjárhæð, eftir atvikum til lækkunar eða hækkunar, ef síðar kemur í ljós að rekstraraðili átti rétt á lægri eða hærri rekstrarstuðningi en honum var ákvarðaður. Um endurgreiðslu ofgreidds rekstrarstuðnings fer skv. 9. gr.
    Í 4. mgr. er gert ráð fyrir að almennar reglur 94.–97. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, um heimild skattyfirvalda til upplýsingaöflunar og málsmeðferð gildi um ákvarðanir Skattsins, að því leyti sem ekki er sérstaklega kveðið á um annað. Þetta hefur meðal annars þá þýðingu að heimild til endurákvörðunar takmarkast almennt við sex rekstrarár á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram.

Um 8. gr.

    Stjórnvaldsákvarðanir Skattsins sæta almennt kæru til yfirskattanefndar og lagt er til að hið sama gildi um stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt lögum þessum, nái frumvarp þetta fram að ganga, þar á meðal um það hvort aðili eigi rétt á rekstrarstuðningi. Um kærufrest og meðferð mála, þar á meðal form kæru, gagnaöflun, málflutning og lok meðferðar, gilda lög um yfirskattanefnd, nr. 30/1992.


Um 9. gr.

    

    Lagt er til að hafi aðili fengið rekstrarstuðning umfram það sem hann átti rétt á, hvort sem hann átti ekki rétt á neinum rekstrarstuðningi eða fékk meiri rekstrarstuðning en hann átti rétt á, beri honum að endurgreiða í ríkissjóð þá fjárhæð sem ofgreidd var.
    Með hliðsjón af 3. mgr. 12. gr. laga um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, nr. 87/2023, er lagt til að aðila beri að endurgreiða allan rekstrarstuðning sem hann hefur fengið greiði hann út arð eða ráðstafi með öðrum hætti fé til eigenda sinna fyrir 1. maí 2025. Eðlilegt þykir að atvinnurekandi endurgreiði stuðning sem hann hefur þegið frá skattgreiðendum sé afkomu hans svo háttað að hann sé í færum til að greiða fé út til eigenda innan árs frá því að stuðningstímabili samkvæmt frumvarpinu lýkur, verði það að lögum. Ekki ber þó að endurgreiða rekstrarstuðning vegna launagreiðslna til eigenda eða greiðslna til samræmis við samningsskuldbindingu sem rekstraraðili gekkst undir áður en frumvarp þetta var lagt fram og kom fyrir sjónir almennings.
    Krafa um endurgreiðslu skv. 1. eða 2. mgr. ber útlánavexti skv. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá þeim degi sem aðili fékk rekstrarstuðning og þar til hann endurgreiðir hann. Dráttarvextir skv. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu leggjast þó á standi rekstraraðili ekki skil á endurgreiðslu innan mánaðar frá dagsetningu endurákvörðunar Skattsins um að fella niður eða lækka rekstrarstuðning eða frá dagsetningu úthlutunar fjár til eigenda.
    Í 4. mgr. er lagt til að gera megi aðför til fullnustu ákvarðana Skattsins og úrskurða yfirskattanefndar um endurgreiðslur samkvæmt greininni án undangengins dóms, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför, nr. 90/1989. Um framkvæmd fullnustunnar fer samkvæmt lögum um aðför. Ekki má þó gera aðför á meðan endurgreiðslukrafa er til meðferðar hjá yfirskattanefnd eða dómstólum. Réttmæt endurgreiðslukrafa ber eigi að síður áfram vexti eða dráttarvexti meðan á slíkri meðferð stendur.

Um 10. gr.     

    Lagt er til að ráðherra verði heimilað að setja reglugerð þar sem framkvæmd laganna verði útfærð nánar, nái frumvarp þetta fram að ganga.

Um 11. gr.

    Lagt er til að lögin taki þegar gildi enda eru þau ívilnandi og ætlað að mæta brýnni þörf.