Ferill 676. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1010  —  676. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004 (rafræn upplýsingagjöf).

Flm.: Sigþrúður Ármann, Hildur Sverrisdóttir, Vilhjálmur Árnason, Diljá Mist Einarsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Dreifingaraðili vátrygginga skal veita viðskiptavini upplýsingar samkvæmt kafla þessum og 140. gr. d. Heimilt er að veita upplýsingar á rafrænu formi, t.d. á vefsvæði. Þó skal viðskiptavinur sem eftir því óskar fá gögn og upplýsingar á pappírsformi sér að kostnaðarlausu.
     b.      3. og 4. mgr. falla brott.
     c.      2. tölul. 5. mgr. fellur brott.
     d.      Í stað orðanna „skv. 4.“ í 6. mgr. kemur: skv. 1.

    2. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „1.–4. mgr.“ í g-lið 3. mgr. 140. gr. g laganna kemur: 1. og 2. mgr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Á síðastliðnum árum hafa ýmsar breytingar á lögum miðað að því að einfalda regluverk og minnka kolefnisfótspor einstaklinga og fyrirtækja. Hefur það meðal annars verið gert með því að heimila t.d. viðskiptabönkum og lífeyrissjóðum að koma upplýsingum til viðskiptavina sinna með rafrænum hætti í stað þess að senda bréf á pappírsformi. Þær breytingar hafa verið mikið framfaraskref sem einfaldar og bætir upplýsingagjöf og felur í sér mikinn hægðarauka fyrir fyrirtækin og viðskiptavini þeirra. Sambærilegar breytingar hafi aftur á móti ekki verið gerðar á lögum um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004, þar sem gildandi ákvæði 7. gr. laganna bindur rafræna birtingu við samþykki viðskiptavina. Eðlilegra er að meginreglan sé sú að birting skuli vera rafræn, en pappírsbirting verði þess í stað bundin við samþykki viðskiptavina, enda má gera ráð fyrir því að hentugra sé fyrir viðskiptavin að fá upplýsingar á rafrænu formi.
    Kostnaður tryggingafélaga vegna pappírssendinga er umtalsverður og getur hlaupið á tugum milljóna króna á ári fyrir hvert félag. Að auki er núverandi fyrirkomulag óumhverfisvænt, enda felur það í sér mikla og óþarfa sóun á pappír. Því er lagt til að tryggingafélögum verði heimilað að birta viðskiptavinum sínum þær upplýsingar sem kveðið er á um í 7. gr. rafrænt, svo sem á vefsvæði þar sem rafrænnar auðkenningar viðskiptavinar er krafist.