Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1019, 154. löggjafarþing 349. mál: vopnalög (skotvopn, skráning, varsla, eftirlit o.fl.).
Lög nr. 11 15. febrúar 2024.

Lög um breytingu á vopnalögum, nr. 16/1998 (skotvopn, skráning, varsla, eftirlit o.fl.).


1. gr.

     Á eftir 2. mgr. 1. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Með nauðsynlegum íhlutum skotvopna í lögum þessum er átt við hlaup, ramma, láshús, bæði efra og neðra, þar sem við á, sleða, hólk fyrir skothylki, bolta eða loku fyrir hleðsluhólf sem eru aðskildir hlutar en teljast til sama flokks og þau skotvopn sem þeir eru festir við eða þeim er ætlað að vera festir við.
     Með varanlega óvirku skotvopni í lögum þessum er átt við skotvopn sem hefur verið gert endanlega ónothæft með því að gera það óvirkt og tryggt hefur verið að allir nauðsynlegir íhlutir skotvopnsins hafi verið gerðir ónothæfir til frambúðar og að ógerlegt sé að fjarlægja þá, skipta þeim út eða breyta þannig að unnt sé að gera skotvopnið virkt á nokkurn hátt.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
  1. Á eftir a-lið 1. mgr. kemur nýr stafliður, svohljóðandi: nauðsynlega íhluti skotvopna.
  2. Orðið „og“ í lok f-liðar 1. mgr. fellur brott.
  3. Í stað orðanna „a–f-liðum“ í g-lið 1. mgr. kemur: a–g-lið.
  4. Við 1. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: óvirk skotvopn.
  5. Orðin „láshús, hlaup“ í 2. mgr. falla brott.


3. gr.

     Á eftir 3. gr. laganna kemur ný grein, 3. gr. a, svohljóðandi:
     Ákvæði laga þessara gilda einnig um skotskýlingarbúnað annan en þann sem er í eigu Landhelgisgæslu, lögreglu, fangelsa eða erlendra lögreglumanna eða öryggisvarða sem starfa undir stjórn lögreglu. Með skotskýlingarbúnaði er átt við hlífðarbúnað, svo sem vesti og hjálma, sem markaðssettur er sem skotheldur og skal ráðherra setja ákvæði í reglugerð um hvaða búnaður fellur hér undir.
     Enginn má flytja inn, versla með, eiga eða nota slíkan búnað nema með leyfi lögreglustjóra og skal ráðherra setja skilyrði um hvað þarf að uppfylla til þess að geta fengið slíkt leyfi og um skráningar á slíkum búnaði. Almennt skal miða við að slík leyfi til eignar og notkunar séu ekki veitt nema þegar einstaklingur þarf þess starfs síns vegna.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
  1. 1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Enginn má framleiða skotvopn, nauðsynlega íhluti, skotfæri eða sprengiefni nema með leyfi lögreglustjóra.
  2. Á eftir orðinu „framleiðanda“ í 1. málsl. 5. mgr. kemur: og hvaða hæfni hann skal búa yfir.
  3. Í stað orðanna „Brunamálastofnun ríkisins“ í 2. málsl. 5. mgr. kemur: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.


5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
  1. Á eftir orðinu „skotvopn“ í 1. og 2. málsl. 1. mgr. kemur: nauðsynlega íhluti.
  2. Á eftir orðinu „skotvopna“ í 3. málsl. 1. mgr. og í 2. mgr. kemur: eða nauðsynlegra íhluta; og: nauðsynlegra íhluta.
  3. 3. mgr. orðast svo:
  4.      Óheimilt er að flytja til landsins eða framleiða skotvopn nema þau séu merkt skýrum, varanlegum og einstökum merkingum. Hið sama á við um innflutning og framleiðslu á nauðsynlegum íhlutum skotvopna. Sé nauðsynlegur íhlutur of smár til að merkja hann í samræmi við þetta skal hann a.m.k. merktur raðnúmeri, stafakóða eða stafrænum kóða. Þá skal hver grunnpakkning fullbúinna skotfæra einnig merkt.
  5. Við 4. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þrátt fyrir a- og b-lið getur lögreglustjóri heimilað að flytja inn hálfsjálfvirkar skammbyssur og hálfsjálfvirka riffla, séu vopnin sérhönnuð og sannanlega ætluð til íþróttaiðkunar. Þá er heimilt með leyfi lögreglustjóra að framleiða vopn samkvæmt þessari málsgrein til útflutnings.
  6. Við 5. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þegar um notkun í samræmi við 2. mgr. 14. gr. ræðir getur lögreglustjóri heimilað innflutning eða framleiðslu eftirlíkinga.
  7. 7. mgr. fellur brott.


6. gr.

     Á eftir orðinu „skotvopn“ í 1. mgr. 6. gr. laganna kemur: nauðsynlega íhluti.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Enginn má versla með skotvopn, nauðsynlega íhluti, skotfæri, varanlega óvirk skotvopn og eftirlíkingar eða sprengiefni nema að fengnu leyfi lögreglustjóra.
  3. Orðin „eða sérþekkingu á þeim vörum sem þar um ræðir eftir nánari reglum sem ráðherra setur“ í 2. mgr. falla brott.
  4. 4. mgr. orðast svo:
  5.      Sá sem hefur leyfi skv. 1. mgr. hefur heimild til að hafa í umboðssölu skotvopn, nauðsynlega íhluti og skotfæri í eigu einstaklinga.
  6. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  7.      Ráðherra skal setja nánari skilyrði í reglugerð fyrir því að mega versla með skotvopn, svo sem hvaða tegund skotvopnaleyfis þeim sem verslar með skotvopn er skylt að hafa og hæfni sem viðkomandi skal búa yfir.


8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „enda sé fullnægt ákvæðum 2., 3., 5., 6. og 7. mgr. 7. gr.“ í 1. mgr. kemur: að fullnægðum skilyrðum 7. gr. um leyfi til verslunar með skotvopn.
  2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Leyfi skv. 1. mgr. skal ekki veita til lengri tíma en fimm ára eða til skemmri tíma ef ástæða þykir til að mati lögreglustjóra.


9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
  1. 1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Verslunareigandi, innflytjandi eða framleiðandi skotvopna, nauðsynlegra íhluta, skotfæra og sprengiefna skal halda færslubók yfir keypt og seld skotvopn, nauðsynlega íhluti og skotfæri og skal skrá númer skotvopnaleyfis kaupanda við kaup á skotfærum.
  2. Á eftir orðinu „skotfæri“ í 2. mgr. kemur: nauðsynlegir íhlutir.


10. gr.

     12. gr. laganna orðast svo:
     Lögreglustjóri veitir skotvopnaleyfi. Skilyrði fyrir veitingu skotvopnaleyfis eru:
  1. að hafa náð 20 ára aldri og hafa ekki verið sviptur sjálfræði,
  2. að hafa hvorki gerst brotlegur við ákvæði laga þessara, almennra hegningarlaga, áfengislaga, laga um ávana- og fíkniefni, laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, né hafa gerst brotlegur við ákvæði umferðarlaga um akstur undir áhrifum áfengis, fíkniefna eða annarra lyfja eða ítrekað gerst brotlegur við ákvæði um ölvunarbrot samkvæmt reglum settum á grundvelli laga um lögreglusamþykktir,
  3. að hafa nægilega kunnáttu til þess að fara með skotvopn, vera andlega heilbrigður og að öðru leyti hæfur til þess að fara með skotvopn; við mat á þessu er lögreglu heimilt að líta til brotaferils og háttsemi samkvæmt sakaskrá og málaskrá lögreglu,
  4. að hafa staðist námskeið í meðferð og notkun skotvopna.

     Lögreglustjóri getur veitt skotvopnaleyfi þótt viðkomandi hafi brotið ákvæði laga þeirra sem tilgreind eru í b-lið 1. mgr. ef brot er smávægilegt eða langt um liðið frá því að brot var framið. Að liðnum tveimur árum frá því að brot var framið eða einstaklingur var sviptur skotvopnaleyfi getur lögreglustjóri þó veitt leyfi, enda hafi refsing ekki farið fram úr sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum og ekki verið um að ræða árásar- eða ofbeldisbrot, brot á lögum um ávana- og fíkniefni, ítrekuð ölvunarbrot, ítrekuð brot gegn ákvæðum umferðarlaga um akstur undir áhrifum áfengis, fíkniefna eða annarra lyfja eða brot á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum eða lögum þessum.
     Ef umsækjandi um leyfi er ríkisborgari eða lögaðili annars ríkis innan Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu skal umsókn beint til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Hið sama gildir um ríkisborgara Færeyja og lögaðila þar í landi.
     Lögreglustjóri getur veitt manni búsettum erlendis tímabundið leyfi fyrir skotvopni, enda fullnægi viðkomandi skilyrðum 1. mgr. um skotvopnaleyfi.
     Skotvopnaleyfi skal vera rafrænt. Í því skal tilgreina nafn, kennitölu og heimilisfang leyfishafa. Þar skal vera nýleg ljósmynd af leyfishafa. Einnig skal tilgreina nákvæmlega hvers konar skotvopn leyfishafa er heimilt að eiga eða nota samkvæmt öðrum ákvæðum laga þessara. Lögreglustjóra er heimilt að setja sérstök skilyrði fyrir leyfi telji hann þess þörf.
     Skotvopnaleyfi skal ekki gefið út til lengri tíma en fimm ára í senn og til skemmri tíma ef ástæða þykir. Við endurnýjun skotvopnaleyfis er lögreglustjóra heimilt að kanna hæfni umsækjanda.
     Ráðherra setur í reglugerð ákvæði um námskeið og próf skv. d-lið 1. mgr., þ.m.t. námskeiðs- og prófagjöld sem ákveðin eru að fengnum tillögum ríkislögreglustjóra, en einnig um hversu langur tími má líða frá því að próf var tekið og þar til skotvopnaleyfi er veitt. Ráðherra skal jafnframt setja ákvæði um hvað skal koma fram í skotvopnaleyfi en þar skal þó a.m.k. koma fram hvaða skotvopn eru í eigu leyfishafa, gerð þeirra, landsnúmer og eintaksnúmer framleiðanda. Jafnframt er heimilt að setja í reglugerð ákvæði um að í skotvopnaleyfi skuli koma fram hvaða nauðsynlegu íhlutir og aðrir íhlutir eru í eigu skotvopnaleyfishafa. Þá skal ráðherra einnig setja í reglugerð nánari ákvæði um tímabundið skotvopnaleyfi skv. 4. mgr.

11. gr.

     13. gr. laganna orðast svo:
     Enginn má eiga eða nota skotvopn, nauðsynlega íhluti og skotfæri nema hafa til þess tilskilin leyfi eða heimildir. Hið sama gildir um varanlega óvirk skotvopn og eftirlíkingar skotvopna. Skotvopn sem heimilt er að veita leyfi fyrir skiptast í fimm flokka og fer eftir skotvopnaréttindum einstaklinga hvaða skotvopn þeim er heimilt að nota. Alltaf þarf sérstakt leyfi lögreglustjóra til að eiga vopn.
     Í A-flokk skotvopna falla minni rifflar og handhlaðnar haglabyssur. Ráðherra skal setja í reglugerð ákvæði um hvaða skotvopn falla þar undir.
  1. Einstaklingur sem er með skotvopnaleyfi skv. 12. gr. hefur skotvopnaréttindi A og hefur heimild til að nota skotvopn sem fellur í A-flokk til veiða og íþróttaiðkunar.
  2. Lögreglustjóra er heimilt að veita einstaklingi með skotvopnaréttindi A leyfi til að eiga vopn í A-flokki til veiða og íþróttaiðkunar.

     Í B-flokk skotvopna falla stærri rifflar og hálfsjálfvirkar haglabyssur. Ráðherra skal setja í reglugerð ákvæði um hvaða skotvopn falla hér undir.
  1. Lögreglustjóra er heimilt að veita einstaklingi skotvopnaréttindi B sem er með og hefur haft skotvopnaleyfi í a.m.k. eitt ár þar á undan. Ráðherra er heimilt að setja skilyrði um námskeið og próf sem viðkomandi þarf að hafa lokið.
  2. Einstaklingur sem er með skotvopnaréttindi B hefur heimild til að nota skotvopn sem falla í B-flokk til veiða og íþróttaiðkunar.
  3. Lögreglustjóra er heimilt að veita einstaklingi með skotvopnaréttindi B leyfi til að eiga vopn í B-flokki til veiða og íþróttaiðkunar.

     Í C-flokk skotvopna falla loftskammbyssur. Ráðherra skal setja í reglugerð ákvæði um hvaða skotvopn falla þar undir.
  1. Lögreglustjóra er heimilt að veita einstaklingi sem hefur skotvopnaleyfi og hefur verið virkur meðlimur í viðurkenndu skotfélagi í a.m.k. eitt ár skotvopnaréttindi C. Ráðherra er heimilt að setja skilyrði um námskeið og próf sem viðkomandi þarf að hafa lokið og skal ráðherra jafnframt setja í reglugerð ákvæði um skilyrði.
  2. Einstaklingur sem er með skotvopnaréttindi C hefur heimild til að nota skotvopn sem falla í C-flokk til íþróttaiðkunar.
  3. Lögreglustjóra er heimilt að veita einstaklingi með skotvopnaréttindi C leyfi til að eiga vopn í C-flokki til íþróttaiðkunar.

     Í D-flokk skotvopna falla íþróttaskammbyssur og íþróttarifflar. Ráðherra skal setja í reglugerð ákvæði um hvaða skotvopn falla hér undir.
  1. Lögreglustjóra er heimilt að veita einstaklingi skotvopnaréttindi D sem er með og hefur haft skotvopnaréttindi C í tvö ár þar á undan og hefur verið virkur meðlimur í viðurkenndu skotfélagi. Ráðherra er heimilt að setja skilyrði um námskeið og próf sem viðkomandi þarf að hafa lokið.
  2. Einstaklingur sem er með skotvopnaréttindi D hefur heimild til að nota skotvopn sem falla í D-flokk til íþróttaiðkunar.
  3. Lögreglustjóra er heimilt að veita einstaklingi með skotvopnaréttindi D leyfi til að eiga vopn í D-flokki til íþróttaiðkunar.

     Í S-flokk falla skotvopn sem flutt hafa verið inn til landsins á grundvelli undanþágu sökum ótvíræðs söfnunargildis þeirra vegna aldurs eða tengsla við sögu landsins og vopn sem teljast safnvopn af öðrum sérstökum ástæðum.
  1. Lögreglustjóra er heimilt að veita einstaklingi skotvopnaréttindi S sem er með og hefur haft skotvopnaréttindi B í a.m.k. tíu ár þar á undan. Ráðherra er heimilt að setja skilyrði um námskeið og próf sem viðkomandi þarf að hafa lokið.
  2. Lögreglustjóra er heimilt að veita einstaklingi með skotvopnaréttindi S leyfi til að eiga vopn í S-flokki til söfnunar.
  3. Heimilt er samkvæmt leyfi lögreglustjóra að nota slíkt safnvopn tímabundið á ákveðnum svæðum samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur.

     Einstaklingum er heimilt að eiga skotfæri og nauðsynlega íhluti og varanlega óvirk skotvopn í samræmi við skotvopnaréttindi sín og setur ráðherra nánari ákvæði um skotfæri í reglugerð, svo sem um fjölda skotfæra sem heimilt er að eiga.
     Þrátt fyrir 1. mgr. er þeim sem hafa átt skotvopn, nauðsynlega íhluti og skotfæri á grundvelli skotvopnaleyfis heimilt að vera skráðir eigendur þeirra áfram eftir að skotvopnaleyfi rennur út og er ekki endurnýjað meðan þau eru í umboðssölu þar sem heimilt er að versla með slík skotvopn, nauðsynlega íhluti og skotfæri.

12. gr.

     14. gr. laganna orðast svo:
     Lögreglustjóri getur veitt félagi, fyrirtæki eða stofnun leyfi til að eiga skotvopn, nauðsynlega íhluti eða skotfæri ef slíkur aðili þarf nauðsynlega á því að halda vegna starfseminnar, t.d. vegna aflífunar dýra. Skal þá tilnefna einstakling sem má nota skotvopnið fyrir hönd félagsins og skal sá annast vörslu þess, nauðsynlegra íhluta og tilheyrandi skotfæra. Skal sá hinn sami hafa skotvopnaréttindi í B-flokki.
     Lögreglustjóri getur veitt einstaklingi leyfi til að eiga og nota skotvopn, nauðsynlega íhluti og skotfæri af sömu ástæðu og greinir í 1. mgr. Skal viðkomandi hafa skotvopnaréttindi í B-flokki.
     Lögreglustjóri getur veitt félagi, fyrirtæki eða stofnun leyfi til að eiga eftirlíkingu skotvopns ef slíkur aðili þarf nauðsynlega á því að halda vegna starfsemi sinnar, t.d. vegna kvikmyndagerðar. Með eftirlíkingu skotvopns er átt við hvers konar hlut eða tæki sem líkist vopni eða vopnagerð þannig að mögulega sé ekki í fljótu bragði eða úr fjarlægð unnt að greina að ekki sé um raunverulegt vopn að ræða. Skal tilnefna einstakling sem má nota skotvopnið og fara með það fyrir hönd félagsins og skal sá annast vörslu þess. Skal sá hinn sami hafa skotvopnaréttindi í B-flokki og er öðrum heimilt að nota eftirlíkinguna vegna starfs síns, undir stjórn þess sem tilnefndur er til að nota og fara með eftirlíkinguna.

13. gr.

     15. gr. laganna orðast svo:
     Lögreglustjóri getur heimilað samtökum eða opinberu safni að eiga og varðveita skotvopn til söfnunar. Í slíku tilviki skal tilnefna einstakling sem skal annast vörslu vopnsins eða vopnanna og skal sá einstaklingur hafa skotvopnaréttindi í S-flokki.
     Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um þessi atriði, svo sem um hvaða skilyrði samtök eða opinber söfn þurfa að uppfylla til að geta fengið leyfi samkvæmt þessari grein og hversu langan tíma er heimilt að veita slíkt leyfi.

14. gr.

     16. gr. laganna orðast svo:
     Skotvopni, nauðsynlegum íhlutum og skotfærum sem eru hluti dánarbús samkvæmt lögum um skipti á dánarbúum o. fl., nr. 20/1991, skal ráðstafað án tafar til aðila sem hefur leyfi til að eiga eða versla með slík vopn. Hið sama á við um varanlega óvirk skotvopn og nauðsynlega íhluti sem og eftirlíkingar skotvopna.

15. gr.

     17. gr. laganna orðast svo:
     Lögreglustjóri getur heimilað viðurkenndu skotfélagi sem hefur iðkun skotfimi að markmiði leyfi til að eiga skotvopn, nauðsynlega íhluti og skotfæri í flokki A, B, C og D til æfinga og keppni. Í slíku tilviki skal tilnefna einn eða fleiri aðila sem heimilt er að sjá um vörslu skotvopnsins eða skotvopnanna, nauðsynlegra íhluta og tilheyrandi skotfæra. Skal sá aðili sem tilnefndur er hafa skotvopnaréttindi í þeim flokki eða flokkum sem vopnin heyra undir. Félögin skulu jafnframt tilnefna einn eða fleiri skotstjóra fyrir hvert starfsár.
     Ráðherra skal setja í reglugerð ákvæði um hvað telst vera viðurkennt skotfélag og í hversu langan tíma slík heimild gildir og ákvæði um hvaða skilyrði einstaklingur þarf að uppfylla til að teljast virkur meðlimur í slíku félagi. Ráðherra skal sömuleiðis setja í reglugerð ákvæði um atriði sem félag þarf að uppfylla til að fá leyfi, ákvæði um skipun stjórnar og ábyrgð hennar og skilyrði fyrir setu í stjórn og ákvæði um skotstjóra, tilnefningu þeirra og ábyrgð þeirra og skilyrði fyrir því að verða skotstjóri.
     Heimilt er skotfélagi að leyfa einstaklingi að nota skotvopn og skotfæri til íþróttaiðkunar eða keppni undir stjórn skotstjóra þrátt fyrir að viðkomandi sé yngri en 20 ára eða þrátt fyrir að viðkomandi hafi ekki skotvopnaleyfi. Ráðherra skal setja í reglugerð ákvæði um lágmarksaldur til að nota hverja tegund skotvopna til íþróttaiðkunar samkvæmt þessu ákvæði og um önnur skilyrði til slíkrar íþróttaiðkunar.

16. gr.

     18. gr. laganna orðast svo:
     Halda skal sérstaka skotvopnaskrá fyrir landið í heild. Í hana skal skrá öll skotvopn og nauðsynlega íhluti þeirra. Hið sama á við um varanlega óvirk skotvopn og eftirlíkingar.
     Í skotvopnaskrá skal skrá öll skotvopnaleyfi og skotvopnaréttindi. Jafnframt skal skrá öll leyfi sem eru gefin út af lögreglu á grundvelli laga þessara um framleiðslu, innflutning, útflutning, verslun og leigu á skotvopnum, nauðsynlegum íhlutum og skotfærum, eftirlíkingum og varanlega óvirkum skotvopnum og önnur leyfi til að meðhöndla skotvopn.
     Í skotvopnaskrá skal skrá hver er eigandi skotvopna, nauðsynlegra íhluta, skotfæra, varanlega óvirkra skotvopna og eftirlíkinga skotvopna eða hver er ábyrgðarmaður þeirra og vörsluaðili.
     Í skotvopnaskrá skal skrá ef skotvopn er gert varanlega óvirkt og ef skotvopni hefur verið breytt með leyfi lögreglu. Jafnframt skal skrá í skotvopnaskrá þegar skotvopni er fargað.
     Hafi skotvopn týnst eða því verið stolið eða það eyðilagst skal skrá það í skotvopnaskrá.
     Nánar skal kveðið á um skráningu í reglugerð sem ráðherra setur, m.a. um hvaða persónuupplýsingar eigi að koma fram við skráningu.

17. gr.

     Á eftir 18. gr. laganna kemur ný grein, 18. gr. a, svohljóðandi:
     Skráning eftir að skotvopni eða nauðsynlegum íhlutum hefur verið fargað skv. 4. mgr. 18. gr. skal varðveitt í 30 ár. Lögreglustjóri hefur heimild til að fá aðgang að upplýsingum samkvæmt þessari málsgrein í 30 ár vegna refsimáls eða eftirlits. Lögreglustjóri hefur heimild til að fá aðgang að slíkri skrá í 10 ár ef það er vegna afturköllunar leyfis og það sama gildir um tollyfirvöld.

18. gr.

     Við 19. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Týnist skotvopn eða sé því stolið skal eigandi þess tilkynna lögreglu um það þegar í stað. Hið sama á við ef skotvopn eyðileggst.

19. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 21. gr. laganna:
  1. Á eftir 3. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Við burð og flutning á varanlega óvirkum skotvopnum og eftirlíkingum skotvopna skulu þau vera í umbúðum.
  2. Í stað orðsins „þau“ í 4. málsl. kemur: skotvopn, varanlega óvirk skotvopn og eftirlíkingar skotvopna.


20. gr.

     23. gr. laganna orðast svo:
     Eigandi eða vörsluaðili skotvopns, nauðsynlegra íhluta, skotfæra, varanlega óvirkra skotvopna eða eftirlíkinga skotvopna skal ábyrgjast vörslu þeirra þannig að óviðkomandi aðili nái ekki til þeirra.
     Þegar skotvopn, nauðsynlegir íhlutir og/eða skotfæri eru ekki í notkun skulu skotvopn og nauðsynlegir íhlutir annars vegar og skotfæri hins vegar geymd í sérútbúnum vopnaskáp sem samþykktur er af lögreglustjóra. Skotvopn í eigu einstaklinga skulu geymd á lögheimili viðkomandi. Séu skotvopn og skotfæri geymd í sama vopnaskáp skulu skotfærin vera í sérstakri læstri hirslu innan hans. Eftirlíkingar skotvopna skal einnig geyma í sérútbúnum vopnaskáp.
     Hver eigandi eða vörsluaðili skotvopns, nauðsynlegs íhlutar eða eftirlíkingar skotvopns skal hafa yfir að ráða sérútbúnum vopnaskáp skv. 2. mgr. sem rúmar þau tæki sem eru í eigu hans eða hann er ábyrgur fyrir.
     Skotvopn í eigu skotfélaga skulu vera varðveitt í húsnæði sem er búið þjófavörn og vaktað af viðurkenndu öryggisfyrirtæki. Hið sama á við um safnvopn.
     Þeim sem varðveitir skotvopn, nauðsynlega íhluti, skotfæri, varanlega óvirk skotvopn eða eftirlíkingar skotvopna er skylt, þegar lögregla krefst þess, að veita aðgengi að húsnæði eða hverjum öðrum þeim stað þar sem skotvopn, nauðsynlegir íhlutir eða skotfæri eru varðveitt og framvísa skotvopnum, nauðsynlegum íhlutum og skotfærum lögreglu til skoðunar. Lögreglu er heimilt slíkt eftirlit án sérstaks tilefnis, hið minnsta einu sinni á hverju leyfistímabili.
     Ráðherra er heimilt að setja ákvæði í reglugerð um gerð, útfærslu og frágang skotvopnaskápa. Þá er ráðherra einnig heimilt að setja í reglugerð ákvæði um undanþágu frá því að hver einstaklingur eigi skáp fyrir skotvopn sín, nauðsynlega íhluti, skotfæri og eftirlíkingar skotvopna, t.d. þegar einstaklingar á sama lögheimili eiga þessa hluti og geta deilt skáp. Einnig er heimilt að setja í reglugerð undanþágu frá því að skotvopn skuli geymd á lögheimili einstaklinga. Þá er ráðherra heimilt að setja í reglugerð skilyrði um hvað telst vera viðurkennt öryggisfyrirtæki skv. 4. mgr. og um undanþágu frá því að vopn skuli vöktuð af slíku fyrirtæki.

21. gr.

  1. Í stað orðanna „Brunamálastofnun ríkisins“ í 2. mgr. 24. gr. og 2. mgr. 28. gr. laganna kemur: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
  2. Í stað orðanna „Brunamálastofnunar ríkisins“ í 3. mgr. 24. gr. laganna kemur: Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

22. gr.

     25. gr. laganna orðast svo:
     Enginn má gera við skotvopn og nauðsynlega íhluti eða gera skotvopn varanlega óvirk nema að fengnu leyfi lögreglustjóra. Hið sama á við um förgun skotvopna.
     Allar breytingar, svo sem á lásgerð, mögulegum skotfjölda eða aukabúnaði sem hefur áhrif á eiginleika skotvopns eða verkan, eru óheimilar nema með leyfi lögreglustjóra.
     Leyfi til að gera við, gera varanlega óvirk, farga eða breyta skotvopnum og nauðsynlegum íhlutum skv. 1. og 2. mgr. má aðeins veita þeim einstaklingi sem hefur skotvopnaleyfi og sýnir fram á hæfni sína að öðru leyti. Slíkt leyfi skal ekki gefið út til lengri tíma en fimm ára eða til skemmri tíma ef ástæða þykir til að mati lögreglustjóra. Ráðherra setur í reglugerð nánari skilyrði, svo sem um viðurkennt nám eða reynslu.
     Þegar skotvopn hefur verið gert varanlega óvirkt skal fara með vopnið til lögreglu til skoðunar sem skal skoða og fara yfir vopnið og tryggja að það hafi verið gert varanlega óvirkt á sannanlegan hátt. Lögreglu ber að gefa út vottorð þessu til staðfestingar og merkja hið varanlega óvirka skotvopn. Ráðherra hefur heimild til að setja nánari ákvæði í reglugerð um vottorð þessi og merkingar.

23. gr.

     Í stað tilvísunarinnar „skv. 6. mgr.“ í 3. mgr. 27. gr. a laganna kemur: skv. 8. mgr.

24. gr.

     Við 3. mgr. 30. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ríkislögreglustjóra er heimilt að fela öðrum lögreglustjóra að annast framkvæmd þessara leyfisveitinga.

25. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 34. gr. laganna:
  1. Í stað orðsins „leyfisveitandi“ í 1. mgr. kemur: lögreglustjóri.
  2. 2. mgr. fellur brott.
  3. Í stað orðanna „ef brýna nauðsyn ber til“ í 3. mgr. kemur: þegar vafi leikur á að skilyrði fyrir skotvopnaleyfi séu uppfyllt.
  4. Við 3. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Slík ákvörðun skal ekki gilda lengur en þrjá mánuði. Ákvörðunin má þó gilda lengur ef mál til endanlegrar afturköllunar hefur verið tekið til meðferðar eða ef mál sem varð til þess að leyfi viðkomandi var afturkallað til bráðabirgða er til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum.


26. gr.

     1. mgr. 35. gr. laganna orðast svo:
     Þegar leyfi samkvæmt lögum þessum er afturkallað skal sá sem missir leyfið skila án tafar þeim vopnum, efnum og tækjum sem hann hefur í vörslum sínum á grundvelli leyfisins. Að öðrum kosti er lögreglu heimilt að taka í sína vörslu þessi vopn, tæki og efni. Hið sama á við þegar einstaklingur fær synjun um endurnýjun á skotvopnaleyfi sínu. Heimilt er þó með leyfi lögreglu að setja þau vopn, efni og tæki sem viðkomandi á í umboðssölu skv. 4. mgr. 7. gr.

27. gr.

     Í stað orðsins „margítrekuð“ í 2. málsl. 1. mgr. 36. gr. laganna kemur: ítrekuð.

28. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 37. gr. laganna:
  1. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá er heimilt, ef um stórfellt brot á lögum þessum er að ræða, að gera upptæk önnur slík tæki og efni sem lög þessi taka til eða viðkomandi hefur leyfi fyrir.
  2. Tilvísunin „69. gr.“ í 3. mgr. fellur brott.


29. gr.

     38. gr. laganna fellur brott.

30. gr.

     Við 40. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð tímabundin ákvæði um innköllun skotvopna, nauðsynlegra íhluta, skotfæra og annarra vopna þar sem einstaklingum, fyrirtækjum, samtökum, félögum og öðrum er heimilt að skila til lögreglu, þeim að refsilausu, vopnum sem ekki eru skráð í samræmi við lög þessi eða í löglegri vörslu. Jafnframt er ráðherra heimilt að setja í reglugerð tímabundið ákvæði samtímis um skráningu þessara skotvopna í samræmi við lög þessi.

31. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. taka 1.–4. og 6. mgr. 20. gr. gildi fjórum mánuðum eftir gildistöku laga þessara.
     Leyfi skv. 4. mgr. 4. gr., 7., 8., 12., 14., 15. og 17. gr. laganna sem gefin hafa verið út fyrir gildistöku laga þessara halda gildi sínu út leyfistímann.

32. gr.

Breytingar á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
  1. Lög um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991:
    1. Við 1. mgr. 7. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: hvort tilkynnanda sé kunnugt um skotvopn, nauðsynlega íhluti og skotfæri í eigu þess látna og ef svo er, hvar munirnir séu varðveittir og hver hafi eða muni taka við vörslu þeirra; hið sama á við um varanlega óvirk skotvopn sem og eftirlíkingar skotvopna.
    2. 3. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:
    3.      Upplýsingar má ekki veita úr dánarskrá, gerðabók og dánarbúskerfi sýslumanns nema sá sem æskir þeirra hafi lögvarða hagsmuni af því að fá þær eða um sé að ræða upplýsingar og/eða gögn sem eru nauðsynleg opinberum stofnunum og öðrum stjórnvöldum, svo sem Skattinum, embætti landlæknis, Þjóðskrá Íslands, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, ríkislögreglustjóra, Samgöngustofu, Tryggingastofnun ríkisins og Menntasjóði námsmanna, vegna lögbundinna verkefna þeirra. Aðrir sem eiga í viðskiptasambandi við hinn látna, svo sem viðskiptabankar, lífeyrissjóðir, sparisjóðir og tryggingafélög, hafa eingöngu lögvarða hagsmuni af þeim upplýsingum sem eru nauðsynlegar, t.d. vegna innláns- og útlánsviðskipta. Sýslumanni ber að veita framangreindum aðilum rafrænan aðgang að umbeðnum upplýsingum eða gögnum búi hann yfir þeim.
    4. 3. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
    5.      Opinberum stofnunum og öðrum stjórnvöldum, svo sem Skattinum, embætti landlæknis, heilbrigðisstofnunum, Þjóðskrá Íslands, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, ríkislögreglustjóra, Samgöngustofu, Tryggingastofnun ríkisins og Menntasjóði námsmanna, og sýslunarmönnum, svo og viðskiptabönkum, lífeyrissjóðum og sparisjóðum, er skylt að veita sýslumanni þær upplýsingar um málefni þess látna sem hann krefst. Það sama á við um aðra sem geta haft vitneskju um eignir og skuldir dánarbús vegna viðskiptatengsla við þann látna eða af öðrum sambærilegum ástæðum. Framangreindum aðilum ber að veita sýslumanni rafrænan aðgang að umbeðnum upplýsingum eða gögnum búi þeir yfir þeim.
    6. Við 2. mgr. 11. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Séu skotvopn, nauðsynlegir íhlutir og skotfæri meðal eigna dánarbúsins er sýslumanni þó rétt að fela öðrum umráð eignanna tímabundið skv. 1. mgr. 16. gr., yfir þann tíma sem sýslumaður fer með forræði búsins skv. 1. mgr., til einstaklings sem hefur áður aflað tilskilinna leyfa fyrir vörslu þeirra. Hið sama á við um varanlega óvirk skotvopn sem og eftirlíkingar skotvopna.
    7. Við 1. mgr. 25. gr. laganna bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Ef skotvopn, nauðsynlegir íhlutir og skotfæri eru meðal eigna dánarbúsins verða eignirnar ekki framseldar hlutaðeigandi nema hann hafi áður aflað leyfis fyrir vörslu vopnanna. Sýslumanni er þó heimilt að ráðstafa vopnum til annars aðila sem hefur óskað þess og aflað leyfis fyrir vörslu þeirra, liggi fyrir ábending þess aðila sem fær eignirnar að öðru leyti framseldar sér. Hið sama á við um varanlega óvirk skotvopn og eftirlíkingar skotvopna.
    8. Á eftir 1. málsl. 2. mgr. 26. gr. laganna koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Ef skotvopn, nauðsynlegir íhlutir og skotfæri eru meðal eigna dánarbúsins verða eignirnar ekki framseldar hlutaðeigandi nema hann hafi áður aflað leyfis fyrir vörslu vopnanna. Sýslumanni er þó heimilt að ráðstafa vopnum til annars aðila sem hefur óskað þess og aflað leyfis fyrir vörslu þeirra, liggi fyrir ábending þess aðila sem fær eignirnar að öðru leyti framseldar sér. Hið sama á við um varanlega óvirk skotvopn og eftirlíkingar skotvopna.
    9. Við 28. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: ef við á, að erfingjar eða umboðsmenn þeirra, lögráðamenn eða málsvarar, komi sér saman um aðila sem taka mun við vörslu skotvopna, nauðsynlegra íhluta og skotfæra í eigu dánarbúsins; hið sama á við um varanlega óvirk skotvopn og eftirlíkingar skotvopna.
    10. Við 1. mgr. 29. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: ef við á, hvaða skotvopn, nauðsynlegir íhlutir og skotfæri voru eign búsins ásamt nafni og kennitölu aðila sem hefur samþykkt að taka við þeim og hefur leyfi fyrir vörslu þeirra; hið sama á við um varanlega óvirk skotvopn og eftirlíkingar skotvopna.
    11. Á eftir orðinu „sambýlisfólks“ í 3. mgr. 29. gr. laganna kemur: leyfi aðila skv. 2. mgr. 11. gr. fyrir vörslu skotvopna búsins.
    12. Við 1. mgr. 42. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: ef við á, hvaða skotvopn, nauðsynlegir íhlutir og skotfæri voru eign búsins og hver fari með vörslu þeirra; hið sama á við um varanlega óvirk skotvopn og eftirlíkingar skotvopna.
    13. Við 1. mgr. 54. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Séu skotvopn, nauðsynlegir íhlutir og skotfæri meðal eigna dánarbúsins, sem og varanlega óvirk skotvopn, og eftirlíkingar skotvopna, skal skiptastjóri tilkynna tafarlaust um þann sem tekur við umráðum þeirra nema annar aðili hafi aflað leyfis fyrir vörslu þeirra og skiptastjóri telji hættulaust að munirnir verði áfram í vörslu hans.
  2. Erfðalög, nr. 8/1962: Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 10. gr. laganna:
    1. Við 2. málsl. bætist: þar á meðal skotvopn í eigu hins látna og nafn og kennitala þess sem hefur leyfi fyrir vörslu þeirra.
    2. Við bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ef skotvopn, nauðsynlegir íhlutir og skotfæri eru meðal eigna hins látna skal liggja fyrir leyfi þess sem óskar setu í óskiptu búi eða annars aðila ásamt samþykki hans fyrir vörslu þeirra. Hið sama á við um varanlega óvirk skotvopn og nauðsynlega íhluti sem og eftirlíkingar skotvopna.


Samþykkt á Alþingi 7. febrúar 2024.