Ferill 616. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1030  —  616. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um tryggingagjald og lögum um tekjuskatt (náttúruhamfarir í Grindavíkurbæ).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Grindavíkurbæ, Verkalýðsfélagi Grindavíkur og Samtökum atvinnulífsins.
    Nefndinni bárust tvær umsagnir sem eru aðgengilegar á síðu málsins á vef Alþingis.
    Með frumvarpinu er lagt til að heimild launagreiðanda í Grindavíkurbæ til að fresta staðgreiðslu tekjuskatts, útsvars og tryggingagjalds verði framlengd. Jafnframt kveður frumvarpið á um framlengingu til loka aprílmánaðar 2024 á ákvæði til bráðabirgða í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, þess efnis að sérstök eftirgjöf vaxta og verðbóta, af skuldum manna utan atvinnurekstrar, vegna nóvember og desember 2023 og janúar 2024, af lánum sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, teljist ekki til skattskyldra tekna við álagningu opinberra gjalda á árunum 2024 og 2025 að því gefnu að um sé að ræða vexti og verðbætur vegna áhvílandi lána á íbúðarhúsnæði.

Umfjöllun nefndarinnar.
Almennt.
    Frumvarpinu er ætlað að milda neikvæð áhrif á lausafjárstöðu rekstraraðila vegna jarðhræringa og eldsumbrota sem hófust í og við Grindavíkurbæ 10. nóvember 2023. Þá kemur frumvarpið til móts við það að þrír stærstu viðskiptabankar landsins hafa boðið Grindvíkingum að frysta íbúðarlán sín hjá bönkunum í þrjá mánuði til viðbótar og jafnframt að vextir og verðbætur falli niður til aprílloka.
    Meiri hlutinn telur áríðandi að frumvarp þetta nái fram að ganga enda feli það í sér aðgerðir sem ætlað er að koma til móts við þarfir Grindvíkinga og rekstraraðila í bænum vegna þess hættu- og óvissuástands sem þar ríkir. Jafnframt telur meiri hlutinn mikilvægt að úrræðin verði endurskoðuð tímanlega og metið hvort þörf sé á frekari framlengingu á gildistímum.

Breytingartillögur.
Umsókn um frest til Skattsins (c-liður 1. gr.).
    Í c-lið 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um heimild launagreiðanda sem frestað hefur greiðslum til eindaga 15. janúar 2025 að sækja um að fresta þeim greiðslum þannig að þær skiptist á fjóra gjalddaga og verða gjalddagar og eindagar þeirra 15. september, 15. október, 17. nóvember og 15. desember 2025. Umsókn um aukinn frest skal beina til Skattsins eigi síðar en 31. janúar 2025. Í umsögn Samtaka atvinnulífsins segir um ákvæðið að eðlilegast sé að fresturinn verði framlengdur áður en eindagi gangi í garð, enda séu greiðslur launagreiðanda skv. 20. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, eigi inntar af hendi á tilskildum tíma, skal hann sæta álagi til viðbótar upphæð skilafjárins eða til viðbótar því skilafé sem honum bar að standa skil á, sbr. 1. mgr. 28. gr. laganna. Heimilt er þó að fella niður álag ef launagreiðandi færir fyrir því gildar ástæður sér til afsökunar, sbr. 6. mgr. 28. gr. laganna. Að höfðu samráði við ráðuneytið leggur meiri hlutinn því til breytingu þess efnis að umsóknir um aukinn frest skuli berast eigi síðar en 10. janúar 2025 til Skattsins og skal Skatturinn afgreiða umsókn fyrir 15. janúar 2025. Þar af leiðandi yrðu umsóknir afgreiddar fyrir eindaga 15. janúar 2025.
    Þá er lögð til orðalagsbreyting á 3. málsl. c-liðar 1. gr. frumvarpsins. Í umsögn Samtaka atvinnulífsins er bent á að ekki verði litið til arðsúthlutana, kaupa á eigin hlutum á árinu 2025 eða úttekta eigenda innan ársins 2025 við afgreiðslu umsókna um framlengingu á fresti enda verði að afgreiða umsóknir í upphafi árs 2025. Meiri hlutinn fellst á það með ráðuneytinu að óvenjulegt sé að skilyrða heimild til frestunar á greiðslum við atriði sem ekki eru fram komin og gerir því viðeigandi orðalagsbreytingar sem ekki hafa í för með sér efnislega breytingu á skilyrðum.
    Auk þess leggur meiri hlutinn til aðrar tæknilegar breytingar sem þarfnast ekki skýringa.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 1. gr.
                  a.      Á undan orðunum „afdreginni staðgreiðslu“ í a-lið komi: greiðslum á.
                  b.      Í stað orðanna „31. janúar 2025“ í 2. málsl. c-liðar komi: 10. janúar 2025. Skatturinn skal afgreiða umsókn fyrir 15. janúar 2025.
                  c.      3. málsl. c-liðar orðist svo: Ef arði var úthlutað eða eigin hlutir keyptir á árinu 2025 eða úttekt eigenda innan ársins 2025 fór umfram reiknað endurgjald þeirra verður ekki fallist á að skilyrði fyrir frestun greiðslna samkvæmt þessu ákvæði hafi verið uppfyllt.
     2.      Á undan orðunum „staðgreiðslu tryggingagjalds“ í a-lið 2. gr. komi: greiðslum á.
     3.      Í stað „LXXVII“ í 3. gr. komi: LXXVIII.

Diljá Mist Einarsdóttir og Ásthildur Lóa Þórsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 8. febrúar 2024.

Ágúst Bjarni Garðarsson,
1. varaform.
Jóhann Friðrik Friðriksson,
frsm.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir.
Diljá Mist Einarsdóttir. Guðbrandur Einarsson. Steinunn Þóra Árnadóttir.
Guðrún Sigríður Ágústsdóttir. Inger Erla Thomsen.