Ferill 558. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 1040  —  558. mál.
Fyrirsögn.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Moldóvu.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnar G. Kristjánsson, Svölu Davíðsdóttur og Þórð Jónsson frá utanríkisráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Moldóvu sem undirritaður var 27. júní 2023 í Schaan í Liechtenstein.
    Í greinargerð með tillögunni kemur fram að fríverslunarsamningurinn við Moldóvu kveði á um gagnkvæma niðurfellingu, lækkun og bindingu tolla á iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar og óunnar landbúnaðarvörur. Þannig muni tollar á hvers kyns sjávarafurðir og iðnaðarvörur, sem fluttar eru út frá Íslandi til Moldóvu, falla niður frá gildistöku samningsins og sama á við um tilteknar landbúnaðarvörur sem framleiddar eru hér á landi til útflutnings.
    Þá kemur fram í greinargerð að útflutningur frá Íslandi til Moldóvu hafi verið lítill í gegnum tíðina, þótt merkja megi aukningu undanfarin ár sem samanstendur nær alfarið af sjávarafurðum. Innflutningur frá Moldóvu hefur verið lítill. Með gagnkvæmri niðurfellingu og lækkun tolla skapi samningurinn forsendur fyrir auknum viðskiptum milli ríkjanna. Gerð samningsins feli einnig í sér stuðning EFTA-ríkjanna við viðleitni stjórnvalda í Moldóvu til vestrænnar samvinnu.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Birgir Þórarinsson, Bjarni Jónsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Gísli Rafn Ólafsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 12. febrúar 2024.

Diljá Mist Einarsdóttir,
form.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, frsm. Jakob Frímann Magnússon.
Jón Gunnarsson. Magnús Árni Skjöld Magnússon.