Ferill 547. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1055  —  547. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Bergþóri Ólasyni um breytingar á alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni.


     1.      Hefur ráðuneytið unnið greiningu á því hvaða áhrif breytingar á alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni (International Health Regulations, 2005) sem taka eiga gildi 1. desember 2023 fela í sér gagnvart núverandi regluverki á Íslandi?
    Engar breytingar á alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni tóku gildi 1. desember 2023.

     2.      Hverjar eru helstu breytingarnar sem verða?
    Aðildarríki Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) stýra vinnu sem nú er í gangi við breytingar á alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni í samstarfi við WGIHR (Working Group on Amendments to the IHR). Það hafa komið fram rúmlega 300 breytingartillögur frá 16 aðildarríkjum sem lúta meðal annars að gildissviði, áhættumati og upplýsingamiðlun. Verið er að vinna úr þessum breytingartillögum sem á að kynna samkvæmt áætlun og stefnt að því að leggja til breytingar á 77. alþjóðaheilbrigðisþingi WHO í maí nk.

     3.      Hafa verið gerðir fyrirvarar við einhverjar þeirra breytinga sem þar eru gerðar?
    Það hafa ekki verið gerðir fyrirvarar fyrir Íslands hönd við þær breytingartillögur sem eru í vinnslu. Þær tillögur sem fram hafa komið verða bornar undir alþjóðaheilbrigðisþing WHO í maí nk. þar sem þær verða kynntar og hljóta efnislega umfjöllun. Þá gefst tækifæri til að leggja til breytingartillögur og að endingu verða greidd atkvæði um þær á alþjóðaheilbrigðisþinginu. Verði þær samþykktar hefur hvert ríki tækifæri til þess að samþykkja ekki breytingarnar eða tilkynna um slíka andstöðu innan 10 mánaða frá þinginu og þá taka breytingarnar ekki gildi gagnvart viðkomandi ríki. Að öðrum kosti taka þær gildi að þjóðarétti 12 mánuðum síðar.
    Verði breytingartillögur samþykktar geta þær þó engu að síður ekki skuldbundið borgarana án aðkomu löggjafarvaldsins.

     4.      Getur ráðherra ábyrgst að breytingarnar feli ekki í sér skerðingu á stjórnarskrárvörðum rétti Íslendinga og skerði ekki fullveldisrétt íslenska ríkisins samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944?
    Já. Aðkoma Alþingis er nauðsynleg þegar vilji er til að taka þjóðréttarlegar skuldbindingar upp í íslenskan rétt og framselja ríkisvald. Þjóðréttarsamningar, eins og farsóttasáttmáli, geta því ekki skuldbundið borgarana án aðkomu löggjafarvaldsins.
    Samkvæmt 21. gr. stjórnarskrárinnar gerir forseti samninga við önnur ríki. Í reynd er það þó á höndum utanríkisráðherra að gera slíka samninga, í samræmi við 13. gr. stjórnarskrárinnar, þótt þeir öðlist aldrei gildi fyrr en forseti hefur skrifað undir þá með utanríkisráðherra. Þá er venjan sú að slíkir samningar séu ekki fullgiltir fyrr en þingsályktunartillaga um heimild ríkisstjórnar þess efnis hefur verið samþykkt á Alþingi.