Ferill 534. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1072  —  534. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Magnúsi Árna Skjöld Magnússyni um aðgerðir í kjölfar skýrslu umboðsmanns Alþingis um konur í fangelsi.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Til hvaða aðgerða hefur verið gripið af hálfu stjórnvalda til þess að bregðast við tilmælum og ábendingum sem fram koma í skýrslu umboðsmanns Alþingis, Konur í fangelsi – Athugun á aðbúnaði og aðstæðum kvenna í afplánun , frá 3. júlí 2023?

    Skýrsla umboðsmanns Alþingis er unnin á grundvelli OPCAT-eftirlitsins með stöðum þar sem frelsissviptir einstaklingar dvelja og var sjónum sérstaklega beint að aðbúnaði og aðstæðum kvenna í fangelsum hér á landi og hvernig afplánun horfir við þessum hópi samanborið við karla. Eins og staðan er núna eru kvenfangar eingöngu vistaðir í tveimur af þeim fjórum fangelsum sem Fangelsismálastofnun rekur, fangelsinu Hólmsheiði og fangelsinu Sogni. Í skýrslunni er fjallað um aðbúnað, þjónustu og öryggi í framangreindum fangelsum og komið á framfæri ábendingum og tilmælum til viðeigandi aðila.
    Þeim tilmælum er m.a. beint til stjórnvalda að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að kvenfangar hafi í reynd sömu möguleika á að afplána í opnu fangelsi við viðunandi aðstæður og karlar. Ráðuneytið tekur undir nauðsyn þess að bæta aðbúnað kvenna í afplánun, þ.m.t. möguleika þeirra til vistunar í opnum fangelsum. Undirbúningur er hafinn að því að fjölga rýmum um 14 í fangelsinu að Sogni sem er opið fangelsi þar sem bæði karlar og konur afplána dóma sína. Með stækkun á Sogni verða bæði fleiri pláss fyrir konur til að afplána í opnum úrræðum og einnig verður aðskilnaður milli kynja betri en nú er. Þá má geta þess að Fangelsismálastofnun hefur gert samning við Batahús fyrir konur þannig að konur hafi einnig möguleika á afplánun hluta dóms síns þar í stað þess að vera á Vernd þar sem eru líka karlar.
    Almennt er gengið út frá því að atvinna og nám geti gegnt mikilvægu hlutverki við endurhæfingu fanga og stuðlað að betri möguleikum þeirra til að ná fótfestu í lífinu að fangelsisvist lokinni. Er varðar umfjöllun og tilmæli umboðsmanns Alþingis um framboð á atvinnu og virknistarfi fyrir kvenfanga er rétt að taka fram að eitt af þeim verkefnum sem eru stöðugt í vinnslu í fangelsum landsins er að auka vinnu og virkni fyrir alla fanga. Samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun hefur umfang Fangaverks aukist á síðustu misserum en búið er að gera samstarfssamning við ýmis fyrirtæki um vinnu fyrir fanga. Um er að ræða fjölbreytt störf sem nýtast jafnt konum og körlum. Þá er sjálfboðaliðaverkefnið Aðstoð eftir afplánun að eflast og munu sjálfboðaliðar á vegum þess koma reglulega á Hólmsheiði með ýmiss konar hagnýt námskeið sem konur hafa óskað eftir. Enn fremur kemur íþróttakennari einu sinni í viku og er með hóptíma fyrir konur.
    Stór hluti kvenfanga hér á landi glímir við vímuefnavanda og er í skýrslunni fjallað um meðferðaráætlanir en þær hafa það að markmiði að meta þörf fanga fyrir stuðning og þjónustu og vinna að farsælli aðlögun að samfélaginu eftir afplánun. Þeim tilmælum er beint til Fangelsismálastofnunar að hverfa frá beitingu almennra viðmiða eingöngu við ákvörðun um gerð meðferðaráætlunar og leggja þess í stað einnig mat á nauðsyn hennar á grundvelli einstaklingsbundinna þátta í samræmi við fyrirmæli 24. gr. laga um fullnustu refsinga, nr. 15/2016. Samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun er búið að breyta verklagi í tengslum við meðferðaráætlanir en vegna skorts á starfsfólki hjá meðferðarsviði Fangelsismálastofnunar hefur ekki verið unnt að gera meðferðaráætlun fyrir alla fanga. Hins vegar fá þeir engu að síður þjónustu hjá sálfræðingum og félagsráðgjöfum stofnunarinnar auk annarra heilbrigðisstarfsmanna fangelsanna.
    Í skýrslunni er fjallað um kynjahlutföll í starfsliði fangelsa og komið með tilmæli og ábendingar er það varðar, svo sem að kvenföngum verði sýnd nærgætni við reglubundið innlit og að leitast verði við að haga störfum fangavarða þannig að karlkyns fangaverðir fari ekki á deildir þar sem konur eru vistaðar án þess að vera í fylgd með kvenkyns fangaverði. Samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun er því verklagi sem lýst er í skýrslunni varðandi reglubundið innlit fylgt. Þá er reynt að verða við því að karlkyns fangaverðir séu í fylgd með kvenkyns fangavörðum eftir fremsta megni. Á Hólmsheiði starfa margar konur og því er auðvelt að verða við þessum tilmælum þar og er það almennt gert.
    Fangar eiga sama rétt á heilbrigðisþjónustu og aðrir í samfélaginu þótt þeir geti eðli málsins samkvæmt ekki sótt sér hana á eigin vegum. Í skýrslunni er þeirri ábendingu komið á framfæri að taka til skoðunar hvort unnt sé að koma til móts við kvenfanga sem óska eftir því að vera sinnt af heilbrigðisstarfsmanni af sama kyni og hvort unnt sé að tryggja að boðun í krabbameinsskimun berist kvenföngum í fangelsinu Hólmsheiði með skjótum og öruggum hætti. Allir hjúkrunarfræðingar sem starfa í fangelsunum eru konur sem leiðir til greiðs aðgangs kvenfanga að þeim. Þá eru starfandi læknar í fangelsum landsins kven- og karlkyns þannig að konur geta skráð sig hjá þeim lækni sem þær kjósa, óski þær eftir því. Þjónusta hjúkrunarfræðinga á Hólmsheiði hefur aukist til muna og sjá þær m.a. um að tryggja kvenföngum krabbameinsskoðun.
    Samkvæmt skýrslunni standa erlendir fangar oft hallari fæti en aðrir fangar, t.d. vegna áskorana tengdra tungumáli, menningu, fjarlægð við heimahaga og skorti á tengslaneti í vistunarlandi. Umboðsmaður Alþingis beinir þeim tilmælum og ábendingum til Fangelsismálastofnunar og fangelsisins Hólmsheiði að auka aðgengi erlendra kvenfanga að afþreyingu á tungumáli sem þær skilja og að gengið sé úr skugga um að erlendum föngum berist ávallt upplýsingar um að þeir hafi rýmra aðgengi að myndsímtölum en aðrir fangar. Konum sem afplána í fangelsinu Hólmsheiði standa nú til boða fleiri bækur á erlendum tungumálum og Fangelsismálastofnun er meðvituð um þær ábendingar sem birtast í skýrslunni er varðar erlenda fanga og aðgengi þeirra að myndsímtölum.
    Ein af þeim tilmælum sem beint er til Fangelsismálastofnunar eru að útfæra formlega viðbragðsáætlun og verklag ef upp koma tilvik þar sem grunur leikur á ofbeldi eða áreitni í garð fanga. Sérstakt verklag er í gildi um skráningu hótana, áverka og meiðsla á föngum, og meðferð slíkra mála. Fangelsismálastofnun mun yfirfara framangreint verklag með hliðsjón af skýrslu umboðsmanns Alþingis en rétt er þó að taka fram að þeim föngum sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi er boðinn stuðningur, svo sem sálfræðiaðstoð, og þá er jafnframt reynt eftir fremsta megni að tryggja að viðkomandi þurfi ekki að umgangast geranda meðan á afplánun stendur.
    Í skýrslunni er komið á framfæri ábendingu er varðar námsefni Fangavarðaskólans. Fangelsismálastofnun er að þróa nýtt námsefni fyrir Fangavarðaskólann þar sem m.a. verður lögð áhersla á sérstöðu kvenfanga, svo sem áfallasögu o.fl. Þá hefur starfsmönnum nú þegar verið boðið upp á námskeið í áfallamiðaðri nálgun.
    Aðbúnaður í fangelsum þar sem konur vistast þarf að taka mið af sérstökum þörfum þeirra og er í skýrslunni nokkrum tilmælum og ábendingum komið á framfæri við stjórnvöld er það varðar. Þar á meðal er að tryggja aðgengi að tíðavörum og er búið að bregðast við því og tryggja aðgengi í samræmi við það sem kemur fram í skýrslunni. Að auki var þeirri ábendingu komið á framfæri við fangelsið Hólmsheiði að leita leiða til að útisvæði nýttust betur yfir vetrarmánuðina. Snjór á útisvæðum er ruddur þannig að hægt er að komast út í garðana yfir vetrartíma þegar snjóþungt er.
    Dómsmálaráðuneyti er að hefja heildarendurskoðun í fullnustumálum þar sem meðal annars verður skoðað hvernig fullnustu kvenfanga er háttað hér á landi. Við þá vinnu verða tilmæli og ábendingar umboðsmanns Alþingis hafðar til hliðsjónar.