Ferill 27. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1082  —  27. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (málsmeðferð og skilyrði).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, umboðsmanni skuldara, Menntasjóði námsmanna, Persónuvernd, Samtökum fjármálafyrirtækja, ÖBÍ réttindasamtökum og Hagsmunasamtökum heimilanna.
    Nefndinni bárust átta umsagnir auk minnisblaðs frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og eru gögnin aðgengileg undir málinu á vef Alþingis.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, með það að markmiði að betrumbæta úrræðið og gera málsmeðferð skýrari og skilvirkari, umsækjendum til hagsbóta. Frumvarpið hefur að geyma umfangsmiklar breytingar á ýmsum ákvæðum núgildandi laga. Þá er nýjum ákvæðum bætt við og felld brott úrelt ákvæði eða ákvæði sem reynslan hefur sýnt að nýtast ekki sem skyldi.

Umfjöllun.
Almennt.
    Að mati meiri hlutans felur frumvarpið í sér jákvætt skref í þá átt að mæta einstaklingum sem eiga í verulegum greiðsluerfiðleikum þannig að hægt sé að greiða úr skuldavanda þeirra heimila sem eru hvað verst stödd. Úrræðið í gildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga hefur sannað mikilvægi sitt en nauðsynlegt er að gera breytingar á lögunum í ljósi þess að umhverfi og þarfir umsækjanda hafa breyst frá því að lögin voru sett árið 2010.

Meðferð krafna vegna námslána.
    Í 1. mgr. 3. gr. gildandi laga um greiðsluaðlögun einstaklinga er tilgreint hvaða krafna greiðsluaðlögun tekur til. Skv. g-lið ákvæðisins tekur greiðsluaðlögun til krafna Lánasjóðs íslenskra námsmanna vegna námslána að öðru leyti en því að ákveða má við greiðsluaðlögun að afborganir af þeim og vextir falli niður á greiðsluaðlögunartíma. Í e-lið 3. gr. frumvarpsins er lagt til að kveðið verði á um að þeim greiðslum sem falla niður á greiðsluaðlögunartíma ásamt vanskilaþætti kröfunnar, sem var tilkominn við gildistöku samnings, skuli bæta við höfuðstól kröfunnar. Tilgangur breytingarinnar samkvæmt greinargerð er að tryggja skýra meðferð krafna vegna námslána þegar skuldari fær samning um greiðsluaðlögun. Í umsögn Menntasjóðs námsmanna er lagst gegn þessari tillögu frumvarpsins. Bendir Menntasjóður á að í framkvæmd sé það þannig að fari námslán í alvarleg vanskil er undantekningarlaust farið með mál fyrir dómstóla og stefna árituð um aðfararhæfi. Með hliðsjón af því feli ákvæðið í sér að löggjafinn feli ríkisstofnun, umboðsmanni skuldara, sem tekur stjórnvaldsákvarðanir vald til að breyta dómum dómstóla. Brjóti slíkt í bága við þrígreiningu ríkisvaldsins sem mælt er fyrir um í 2. gr. stjórnarskrárinnar.
    Eins og fram kemur í minnisblaði félags- og vinnumarkaðsráðuneytis er með breytingunni verið að lögfesta framkvæmd sem hefur verið viðhöfð lengi. Meiri hlutinn áréttar að áfram er gert ráð fyrir að lögin taki til frjálsrar greiðsluaðlögunar, þ.e. samninga um greiðsluaðlögun og áfram er útfærð tenging við réttarfarsleg úrræði til greiðsluaðlögunar. Þá er áfram gert ráð fyrir að kröfuhafa sé heimilt að lýsa kröfu í kjölfar innköllunar í Lögbirtingablaði og njóti þannig andmælaréttar gagnvart tillögum um meðferð krafna sjóðsins. Náist ekki samningur um greiðsluaðlögun við kröfuhafa getur skuldari lýst því yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamninga til greiðsluaðlögunar eða greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði eða hvors tveggja í senn. Með hliðsjón af því telur meiri hlutinn að ekki gæti ósamræmis milli ákvæðisins og 2. gr. stjórnarskrárinnar.

Meðferð persónuupplýsinga.
    Meðal þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu er að heimildir embættis umboðsmanns skuldara til þess að vinna með viðkvæmar persónuupplýsingar um skuldara við tilteknar aðstæður séu lögfestar. Nánar tiltekið er fjallað um þetta í ákvæðum b-liðar 13. gr., 14. gr., b-liðar 15. gr., c-liðar 16. gr. og 21. gr. frumvarpsins. Í umsögn Persónuverndar er bent á að matskennt getur verið hvaða viðkvæmu persónuupplýsingar ábyrgðaraðili teldi nauðsynlegt að miðla til þriðja aðila hverju sinni og bent er á að slík matskennd lagaákvæði geta falið í sér ákveðna hættu og því ætti að huga að því að setja fram skýrar viðmiðanir um túlkun þeirra. Slíkt hafi einungis verið gert í athugasemd við ákvæði b-liðar 13. gr. frumvarpsins.
    Með hliðsjón af því áréttar meiri hlutinn mikilvægi þess að gætt verði að sjónarmiðum um meðalhóf, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2018, við fyrirhugaða vinnslu persónuupplýsinga skv. 14.–16. gr. og 21. gr. frumvarpsins. Þannig skuli í framkvæmd unnið eftir ströngum vinnureglum við meðferð og miðlun viðkvæmra upplýsinga um skuldara og það skuli gert með þeim hætti að meðalhóf sé ávallt tryggt.

Breytingartillögur.
Frestun greiðslna á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Undantekning (1. efnismgr. f-liðar 9. gr.).
    Með 1. efnismgr. f-liðar 9. gr. frumvarpsins er lagt til að kröfuhafa verði skylt að endurgreiða greidda fjárhæð sem óheimilt er að taka við í greiðsluskjóli, nema um fésekt sé að ræða. Hafi skuldari greitt fésekt meðan á frestun greiðslna varir ber innheimtuaðila þó ekki að endurgreiða greidda fjárhæð í ljósi þess að með greiðslu sektar hefur refsing komið til framkvæmdar. Í umsögn Skattsins er gagnrýnt að undantekningin eigi ekki jafnframt við um vörsluskatta. Í minnisblaði félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins er fallist á þessa athugasemd Skattsins og lagt til að undantekningin nái jafnframt til skaðabótakrafna vegna tjóns sem samkvæmt dómi hefur verið valdið með refsiverðu athæfi enda séu slíkar kröfur sérstaks eðlis líkt og þegar um er að ræða fésektir. Í samráði við félags- og vinnumarkaðsráðuneyti leggur meiri hlutinn til breytingartillögu þess efnis.

Gildistaka (31. gr.).
    Í frumvarpinu er lagt til að lögin öðlist þegar gildi og eigi við um umsóknir sem eru til meðferðar hjá umboðsmanni við gildistöku laganna og hafa ekki verið samþykktar. Í minnisblaði félags- og vinnumarkaðsráðuneytis til nefndarinnar er lagt til að gildistöku verði frestað til 1. apríl 2024 með þeim rökum að gefa þurfi embætti umboðsmanns skuldara svigrúm til að bregðast í starfsemi sinni við þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu. Með vísan til þess leggur meiri hlutinn til að lögin taki gildi 1. apríl 2024.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      1. efnismgr. f-liðar 9. gr. orðist svo:
                 Taki kröfuhafi við greiðslu frá skuldara á kröfu í andstöðu við 1. mgr., á meðan á frestun stendur, ber honum að endurgreiða greidda fjárhæð án nokkurra tafa, nema um kröfur skv. f-lið 1. mgr. 3. gr. sé að ræða.
     2.      1. málsl. 31. gr. orðist svo: Lög þessi öðlast gildi 1. apríl 2024 og eiga við um umsóknir sem eru til meðferðar hjá umboðsmanni skuldara við gildistökuna.

    Guðbrandur Einarsson, áheyrnarfulltrúi, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 19. febrúar 2024.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
form., frsm.
Jóhann Páll Jóhannsson. Ásmundur Friðriksson.
Bryndís Haraldsdóttir. Friðrik Már Sigurðsson. Líneik Anna Sævarsdóttir.
Óli Björn Kárason.