Ferill 27. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1083  —  27. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (málsmeðferð og skilyrði).

Frá 1. minni hluta velferðarnefndar.


    Fyrsti minni hluti fagnar mörgum þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu en telur að ganga ætti lengra í ákveðnum tilvikum.
    Í fyrsta lagi koma til skoðunar breytingar á þeim kröfum sem ættu ekki lengur að vera undanþegnar lögum um greiðsluaðlögun. Skv. 1. mgr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga standa vissar kröfur utan greiðsluaðlögunar, þar á meðal kröfur vegna námslána og skulda við opinbera aðila vegna meðlags. Einstaklingar sem lenda í erfiðleikum í tengslum við skuldir af einkaréttarlegum toga, svo sem vegna húsnæðislána og neytendalána, standa oft einnig frammi fyrir óviðráðanlegum skuldum vegna námslána og meðlagsskulda, enda er augljóst að þegar erfitt er að standa í skilum skiptir engu máli hvers konar skuldir um er að ræða. Þess vegna er 1. minni hluti fylgjandi því að kröfur vegna ábyrgðarskuldbindinga á námslánum falli innan greiðsluaðlögunar eins og áformað er við umrædda endurskoðun.
    Fyrsti minni hluti vill þó leggja til að gengið verði lengra og séð til þess að allar kröfur vegna námslána og meðlagsskulda við opinbera aðila geti fallið undir greiðsluaðlögun til að auka líkur á því að það markmið náist að leysa greiðsluerfiðleika umsækjenda um greiðsluaðlögun.
    Í öðru lagi er lagt til að við 13. gr. laganna, þar sem fjallað er um sölu eigna skuldara, bætist nýr málsliður. Í tillögunni felst að áður en ákvörðun verði tekin um sölu fasteignar skuldara sem er jafnframt heimili hans þurfi að veita skuldara eðlilegt svigrúm til að útvega sér annað viðunandi húsnæði. Að undanförnu hafa verðbólga og vextir hækkað mjög á stuttu tímabili með tilheyrandi áhrifum á húsnæðiskostnað heimilanna, hvort sem um er að ræða leiguhúsnæði eða eigin húsnæði sem er fjármagnað með húsnæðislánum. Þessar hækkanir hafa nú þegar þrengt fjárhagsstöðu margra heimila talsvert. Ljóst er að þeim heimilum mun fjölga á næstunni þegar vextir losna á lánum þeirra sem náðu að semja um að festa þá tímabundið áður en vaxtahækkanir hófust á nýjum lánum og lánum með breytilegum vöxtum. Þannig munu mörg þúsund heimili að óbreyttu standa frammi fyrir stökkbreytingu á greiðslubyrði á næstu misserum. Það sem er ólíkt því ástandi sem skapaðist í kjölfar bankahrunsins þegar þúsundir fjölskyldna misstu heimili sitt er að nú er mikill skortur á húsnæði. Segja má að það sé nánast allt uppselt. 1. minni hluti hefur miklar áhyggjur af því að ef fram heldur sem horfir geti komið upp sú staða að þau sem ráða ekki við stökkbreytta greiðslubyrði og missa húsnæði sitt hefðu raunverulega í engin hús að venda. Þess vegna er lagt til að við 13. gr. laganna verði bætt áskilnaði um að forðast skuli eins og frekast er kostur að knýja umsækjanda um greiðsluaðlögun til að selja húsnæði sitt, nema ef hægt er að sýna fram á að hann geti keypt ódýrara en viðunandi húsnæði í staðinn og leyst þannig úr vandanum.
    Fyrsti minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 3. gr.
                  a.      E-liður orðist svo: G-, h- og i-liður 1. mgr. falla brott.
                  b.      F-liður falli brott.
     2.      Á undan a-lið 11. gr. komi nýr stafliður, svohljóðandi: Á eftir 1. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Umsjónarmaður skal ekki ákveða að selja skuli fasteign skuldara sem er heimili hans án þess að veita honum eðlilegt svigrúm til að útvega sér annað viðunandi húsnæði með hliðsjón af fjölskylduhögum hans og öllum öðrum kringumstæðum.

Alþingi, 19. febrúar 2024.

Guðmundur Ingi Kristinsson.