Ferill 29. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 1141  —  29. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Orkustofnun og raforkulögum (Raforkueftirlitið).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
    Nefndinni bárust þrjár umsagnir um málið auk minnisblaðs frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti en skjölin eru aðgengileg á síðu málsins á vef Alþingis.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á raforkulögum og lögum um Orkustofnun sem lúta að því að styrkja og tryggja betur sjálfstæði raforkueftirlits, með innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/72/EB frá 13. júlí 2009 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku og um niðurfellingu á tilskipun 2003/54/EB.

Umfjöllun nefndarinnar.
Almennt.
    Frumvarpið var áður flutt á 153. löggjafarþingi og var málið afgreitt frá nefndinni með áliti meiri hluta ásamt breytingartillögu (þskj. 1993, 983. mál) en náði ekki fram að ganga. Þá bárust nefndinni fimm umsagnir vegna málsins auk tveggja minnisblaða frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti. Málið er nú endurflutt með breytingum, bæði hvað varðar efni þess og heiti. Þar hefur m.a. verið tekið mið af þeim breytingum sem meiri hlutinn lagði til í áliti sínu þegar málið var flutt á 153. löggjafarþingi. Að öðru leyti vísar meiri hlutinn til þess nefndarálits sem var lagt fram á 153. löggjafarþingi vegna 983. máls.
    Í umsögn Samorku er vísað til þess að í greinargerð með frumvarpinu segi enn að embættismaður muni bera faglega og stjórnunarlega ábyrgð á rekstri Raforkueftirlitsins sem og öðrum verkefnum sem orkumálastjóri felur honum. Jafnframt er í umsögninni réttilega ályktað að um sé að ræða texta úr fyrra frumvarpi þar sem gert var ráð fyrir að orkumálastjóri skipaði skrifstofustjóra. Meiri hlutinn bendir á að þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpi þessu er ætlað að kveða skýrar á um sjálfstæði Raforkueftirlitsins þegar það sinnir störfum sínum lögum samkvæmt. Í því felst m.a. að ákvarðanir þess við raforkueftirlit séu teknar án áhrifa frá orkumálastjóra, ráðherra orkumála eða öðrum aðilum, svo sem Orkustofnun eða öðrum stofnunum ríkisins eða einkaaðilum. Með frumvarpinu sé einnig brugðist við því að Eftirlitsstofnun EFTA hafi haft til skoðunar hvernig staðið hafi verið að innleiðingu á þeim kröfum tilskipunar 2009/72/EB sem varða sjálfstæði raforkueftirlits. Í 35. gr. tilskipunarinnar er kveðið á um sjálfstæði eftirlitsyfirvalda. Í a-lið 4. mgr. ákvæðisins segir að eftirlitsyfirvald sé lagalega aðgreint og óháð öllum öðrum opinberum aðilum eða einkaaðilum að því er varðar starfsemi. Þá er í sömu grein kveðið á um óhæði starfsfólks og stjórnenda frá bæði opinberum aðilum og einkaaðilum við ákvarðanatöku, auk þess sem fjárhagsleg aðgreining og sjálfræði um fjármál eigi að tryggja sjálfstæði.
    Með 1. efnismgr. 3. gr. frumvarpsins er m.a. lögð til breyting á lögum um Orkustofnun þess efnis að ráðherra skipi skrifstofustjóra Raforkueftirlitsins að undangengnu mati hæfnisnefndar. Meiri hlutinn lagði til í áliti sínu um málið á 153. löggjafarþingi að slíku ákvæði yrði bætt við frumvarpið. Við meðferð málsins nú ræddi nefndin mikilvægi sjálfstæðis Raforkueftirlitsins í samhengi við að lagt er til að ráðherra skipi skrifstofustjóra þess. Meginmarkmið með frumvarpinu er að tryggja sjálfstæði Raforkueftirlitsins en ákvarðanir þess skulu sem fyrr greinir teknar án utanaðkomandi áhrifa frá t.d. ráðherra, ráðuneyti, Orkustofnun eða öðrum aðilum, sbr. einnig fyrirmæli tilskipunar 2009/72/EB. Skrifstofustjóri ber skv. 1. efnismgr. 3. gr. faglega og stjórnunarlega ábyrgð á rekstri Raforkueftirlitsins.
    Meiri hlutinn telur að sú ráðstöfun sem hér er lögð til um skipan skrifstofustjóra Raforkueftirlitsins eigi ekki að skerða sjálfstæði hans. Nokkuð algengt sé að svo hátti til um skipanir innan stjórnsýslunnar og hefur ekki verið talið að það hafi áhrif á sjálfstæði stofnunar í störfum. Í því samhengi vísast í dæmaskyni til skipunar forstjóra Fjarskiptastofu. Skv. 1. gr. laga um Fjarskiptastofu, nr. 75/2021, er Fjarskiptastofa sjálfstæð stofnun sem heyrir stjórnarfarslega undir ráðherra. Hann skipar forstjóra Fjarskiptastofu til fimm ára í senn, skv. 1. mgr. 4. gr. laganna. Í greinargerð með frumvarpi til laganna var rakið að kröfur um sjálfstæði frá hvers kyns utanaðkomandi áhrifum og pólitískum þrýstingi væru komnar frá regluverki Evrópusambandsins, þ.e. að ráðherra hefði fyrst og fremst eftirlitshlutverki að gegna með starfrækslu, fjárreiðum og eignum stofnunarinnar. Eftirlit ráðherra tæki hins vegar hvorki til málsmeðferðar né ákvarðana í einstökum málum. Þannig gæti ráðherra ekki gefið stofnuninni fyrirmæli um afgreiðslu einstakra verkefna nema það leiði af lögum. Meiri hlutinn telur að breyttu breytanda að hið sama eigi við þegar kemur að skipun skrifstofustjóra Raforkueftirlitsins, enda er sérstaklega kveðið á um það í 2. efnismálsl. 1. gr. og í 1. efnismgr. b-liðar 4. gr. frumvarpsins að eftirlitið sé sjálfstætt í störfum sínum.
    Í 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um hlutverk Raforkueftirlitsins samkvæmt lögum um Orkustofnun og er sjálfstæði eftirlitsins ítrekað, þ.e. að það starfi sem sjálfstæð eining innan vébanda Orkustofnunar. Þá er með 1. efnismgr. b-liðar 4. gr., til breytingar á raforkulögum, kveðið sérstaklega á um sjálfstæði eftirlitsins og að hvorki ráðherra né orkumálastjóri geti gefið fyrirmæli um framkvæmd þess. Af því leiðir að skrifstofustjóri lýtur hvorki boðvaldi ráðherra né orkumálastjóra við eftirlit. Með hliðsjón af framangreindu telur meiri hlutinn að skýrt sé að Raforkueftirlitið sé sjálfstætt stjórnvald þegar það sinnir hlutverki sínu samkvæmt raforkulögum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra. Ráðherra fari hins vegar með eftirlitshlutverk á grundvelli efnismgr. a-liðar 4. gr. þar sem kveðið er á um að hann fari með yfirstjórn þeirra mála er falla undir gildissvið raforkulaga.

Breytingartillögur meiri hlutans.
    Í efnismgr. b-liðar 4. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að bæta við raforkulög ákvæði um starfshætti Raforkueftirlitsins, m.a. hvað varðar sjálfstæði og samráð. Í umsögn sinni um málið leggur Landsnet til að gerðar verði breytingar á ákvæðinu, m.a. með vísan til áherslu á jafnræði og gagnsæi um störf Raforkueftirlitsins. Í 4. mgr. 35. gr. tilskipunar 2009/72/EB segir í 1. málsl. að aðildarríkin skuli ábyrgjast sjálfstæði eftirlitsyfirvaldsins og skuli tryggja að það beiti valdi sínu af óhlutdrægni og á gagnsæjan hátt. Meiri hlutinn tekur undir sjónarmið Landsnets og leggur til breytingu þess efnis. Sambærileg breyting verði einnig gerð á 2. gr. frumvarpsins til samræmis en þar er vísun til starfsreglna Raforkueftirlitsins.
    Enn fremur leggur meiri hlutinn til nokkrar breytingar sem eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi:

BREYTINGU:


     1.      Á eftir orðunum „sjálfstæði sitt“ í 2. efnismgr. 2. gr. komi: gagnsæi og jafnræði.
     2.      Í stað tilvísunarinnar „2. mgr.“ í 1. málsl. 1. efnismgr. 3. gr. komi: 3. mgr.
     3.      Á eftir orðinu „sjálfstæði“ í 3. efnismgr. b-liðar 4. gr. komi: gagnsæi og jafnræði.
     4.      Í stað orðanna „orðsins „Orkustofnun“ í öllum beygingarföllum“ í 6. gr. komi: orðanna „Orkustofnun“ og „Orkustofnunar“.
     5.      Í stað orðanna „orðsins „stofnunin“ í öllum beygingarföllum“ í 7. gr. komi: orðanna „stofnunin“ og „stofnuninni“.
     6.      Í stað tilvísunarinnar „3. málsl.“ í c-lið 11. gr. komi: 4. málsl.
     7.      Á eftir orðinu „kemur“ í 15. gr. komi: í viðeigandi beygingarfalli.
     8.      Í stað orðanna „orðsins „Orkustofnun“ í öllum beygingarföllum“ í a-lið 17. gr. komi: orðanna „Orkustofnun“ og „Orkustofnunar“.

    Birgir Þórarinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 22. febrúar 2024.

Þórarinn Ingi Pétursson,
form.
Ásmundur Friðriksson,
frsm.
Birgir Þórarinsson.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Friðrik Már Sigurðsson. Gísli Rafn Ólafsson.
Óli Björn Kárason. Tómas A. Tómasson.