Ferill 483. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1173  —  483. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru og lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr (EES-reglur o.fl.).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá matvælaráðuneyti, Bændasamtökum Íslands, Matvælastofnun og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Nefndinni bárust fjórar umsagnir um málið sem eru aðgengilegar á síðu málsins á vef Alþingis.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem ætlað er að tryggja Matvælastofnun valdheimildir vegna opinbers eftirlits með aukaafurðum dýra sem ekki eru ætlaðar til manneldis. Þá er lagt til að veitt verði lagastoð fyrir reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/4 um lyfjablandað fóður og að gerðar verði afleiddar breytingar á lyfjalögum vegna innleiðingarinnar. Jafnframt er lagt til að gjaldtökuheimild fyrir Matvælastofnun verði bætt við lög um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, nr. 66/1998. Meginmarkmið frumvarpsins er að koma í veg fyrir dýrasjúkdóma og útbreiðslu þeirra.

Umfjöllun nefndarinnar.

    Í frumvarpinu er að finna ákvæði um söfnun, flutning, meðhöndlun, markaðssetningu, vinnslu og notkun eða förgun á afurðum frá dýrum sem ekki eru ætlaðar til manneldis, auk ákvæða um förgun dauðra dýra, úrgang sem fellur til við flutningsstarfsemi og um almennan eldhúsúrgang. Frumvarpinu er ætlað að færa eftirlit með aukaafurðum dýra að öllu leyti til Matvælastofnunar og þar með ná fram því markmiði að lágmarka áhættu sem stafar af þessum afurðum fyrir heilbrigði manna og dýra. Lagt er til að veita stofnuninni sams konar valdheimildir á þessu sviði og hún hefur á grundvelli annarra laga þar sem hún sinnir opinberu eftirliti, svo sem laga um matvæli. Matvælastofnun geti þannig gripið til viðeigandi aðgerða, með hliðsjón af alvarleika brots, svo sem stöðvað starfsemi að hluta eða í heild eða eftir atvikum beitt sektum séu ekki gerðar úrbætur í samræmi við ábendingar.

Breytingartillögur meiri hlutans.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að ljóst væri að ekki væru til viðeigandi úrræði um allt land til að tryggja förgun á aukaafurðum dýra. Til þessa hefur aukaafurðum dýra verið ráðstafað með förgun á urðunarstöðum víða um land. Ljóst er að bæði þarf að gera ráð fyrir að einhvern tíma taki að koma upp viðeigandi aðstöðu til förgunar auk þess sem tilkostnaður er nokkur. Meiri hlutinn telur því brýnt að veittur sé aðlögunartími til að tryggja að ekki komi til sekta þegar aðstæður við förgun uppfylla ekki skilyrði frumvarpsins enda sé gert ráð fyrir að það taki þegar gildi verði það samþykkt. Telur meiri hlutinn að tveggja ára frestur ætti að tryggja svigrúm til uppbyggingar förgunarstaða um landið og leggur því til breytingu á frumvarpinu þess efnis að gildistöku sektarákvæða e-liðar 3. gr. verði frestað í 24 mánuði frá gildistöku laganna.
    Meiri hlutinn bendir á að matvælaráðuneyti og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, í samstarfi við Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, hafa sett af stað vinnu við útfærslu fyrir samræmt söfnunarkerfi dýraleifa á landsvísu í áhættuflokki 1 með það að markmiði að koma þeim í viðeigandi úrvinnslu eða förgun. Áætlað er að sú vinna skili tillögum sem meiri hlutinn bindur vonir við að liggi fyrir sem fyrst.
    Aðrar breytingar sem meiri hlutinn leggur til eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.

    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á eftir 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                 Orðin „sbr. 13. gr.“ í 14. gr. laganna falla brott.
     2.      1. mgr. a-liðar 2. gr. (15. gr. a) orðist svo:
                 Aukaafurðir dýra sem ekki eru ætlaðar til manneldis skal meðhöndla, geyma, flytja, vinna eða eyða á þann hátt að ekki valdi hættu á útbreiðslu smitefna eða annarra skaðlegra efna. Þeir sem meðhöndla, geyma, flytja eða vinna aukaafurðir dýra skulu tilkynna starfsemi sína til Matvælastofnunar eða sækja um leyfi Matvælastofnunar áður en starfsemin hefst. Kveða skal á um skyldur aðila til að tilkynna starfsemi eða afla starfsleyfis í reglugerð sem ráðherra setur.
     3.      Við 3. gr.
                  a.      Orðið „eðli“ í 1. málsl. 2. mgr. a-liðar (15. gr. c) falli brott.
                  b.      Í stað orðsins „starfar“ í 2. málsl. 2. mgr. a-liðar (15. gr. c) komi: er starfrækt.
                  c.      Í stað orðanna „hún hefur aflað“ í 4. mgr. g-liðar (15. gr. i) komi: aflað hefur verið.
     4.      Við 6. gr.
                  a.      A-liður orðist svo: Í stað orðanna „lyfjablönduðu fóðri, fóðuraukefnum og forblöndum þeirra“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: og lyfjablönduðu fóðri.
                  b.      Í stað orðanna „heimilt að ákveða með reglugerð nánari ákvæði“ í 2. mgr. c-liðar komi: heimilt í reglugerð að setja nánari ákvæði.
     5.      Við 7. gr.
                  a.      Í stað orðanna „að innleiða með reglugerð“ í 1. málsl. 1. efnismgr. komi: með reglugerð að innleiða.
                  b.      Í stað orðanna „frá 1. maí 2010“ í 1. málsl. 1. efnismgr. komi: frá 26. október 2007.
                  c.      Í stað orðanna „að innleiða með reglugerð reglugerð“ í 1. málsl. 2. efnismgr. komi: með reglugerð að innleiða reglugerð.
     6.      Við 9. gr.
                  a.      Á undan „3. tölul. 2. mgr. 11. gr.“ komi: 18. tölul. 1. mgr. 6. gr.
                  b.      Í stað „32. gr.“ komi: VIII. kafli ásamt fyrirsögn.
     7.      Við 11. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó öðlast ákvæði e-liðar 3. gr. gildi 24 mánuðum eftir gildistöku laganna.
     8.      Fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og fleiri lögum (EES-reglur o.fl.).

    Birgir Þórarinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 22. febrúar 2024.

Þórarinn Ingi Pétursson,
form.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Birgir Þórarinsson. Friðrik Már Sigurðsson. Hanna Katrín Friðriksson.
Óli Björn Kárason. Tómas A. Tómasson.