Ferill 641. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1204  —  641. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar.


     1.      Hversu margir einstaklingar búsettir á Gaza hafa fengið úthlutað íslensku dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar undanfarið? Hver er samsetning hópsins eftir kyni og aldri?
    Úthlutun dvalarleyfa á grundvelli fjölskyldusameiningar fellur ekki undir valdsvið utanríkisráðuneytis samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

     2.      Hverjar eru helstu hindranir í ferli fjölskyldusameiningar fyrir Palestínumenn frá Gaza og hvernig hyggst ráðuneytið takast á við þessar áskoranir?
    Úthlutun dvalarleyfa á grundvelli fjölskyldusameiningar fellur ekki undir valdsvið utanríkisráðuneytis samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

     3.      Hver er ástæða þess að íslensk stjórnvöld hafa ekki séð til þess að þessir einstaklingar komist út af Gaza? Skýrist það af því að ráðuneytið telur sig ekki hafa fullnægjandi upplýsingar um hvað þurfi að gera til að hjálpa til við fjölskyldusameiningar, eða skortir pólitíska stefnumörkun til að utanríkisþjónustan beiti sér í málinu?
    Engir íslenskir ríkisborgarar eru á svæðinu og borgaraþjónusta nær eingöngu til ríkisborgara lögum samkvæmt. Þegar einstaklingar fá dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar er það á þeirra ábyrgð að komast til Íslands af eigin rammleik. Engin almenn skylda hvílir þannig á íslenskum stjórnvöldum til að greiða för þeirra, nema í undantekningartilfellum. Málið var til umfjöllunar í ráðherranefnd um málefni innflytjenda og flóttafólks frá því að beiðni barst frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti um atbeina utanríkisráðuneytisins hinn 21. desember 2023. Í ljósi þeirra einstöku aðstæðna sem voru á svæðinu var ákveðið að leggja upp í sérstakt verkefni hvað þetta varðar og fulltrúar ráðuneytisins þannig sendir til Egyptalands í byrjun febrúar til að greiða fyrir för fólksins.
    Úthlutun dvalarleyfa á grundvelli fjölskyldusameiningar fellur ekki undir valdsvið utanríkisráðuneytis samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

     4.      Hvaða leiðir hafa stjórnvöld skoðað til að aðstoða þessa einstaklinga á leið sinni til Íslands og hvernig hefur samráði verið háttað við nánustu samstarfsríki Íslands í utanríkismálum? Hvaða samstarf hefur verið við alþjóðastofnanir eða hjálparsamtök til að stuðla að fjölskyldusameiningu fólks frá Gaza?
    Utanríkisþjónustan hefur átt ríkt samráð við hin Norðurlöndin um hvernig brottflutningi fólks frá Gaza hefur verið háttað af þeirra hálfu. Upplýsinga hefur sömuleiðis verið aflað frá Evrópusambandinu, öðrum samstarfsríkjum og Alþjóðlegu fólksflutningastofnuninni. Þannig hefur ferlið verið kortlagt en ljóst er að árangur aðgerða fer að mestu leyti eftir afgreiðslu og afstöðu stjórnvalda ríkjanna á staðnum. Íslenskum stjórnvöldum ber að vinna samkvæmt þeim löglegu opinberu ferlum sem ísraelsk og egypsk stjórnvöld hafa sett um framkvæmd þessara mála. Að undangengnu samþykki ísraelskra og egypskra stjórnvalda fyrir ferðum dvalarleyfishafanna veittu íslensk stjórnvöld þeim aðstoð við landamæri Gaza og Egyptalands.

     5.      Hvernig og í hvaða mæli hefur utanríkisþjónusta annarra ríkja á Norðurlöndunum aðstoðað fólk með tengsl við einstaklinga í viðkomandi ríki til að komast út af Gaza?
    Í janúar höfðu hin Norðurlöndin aðstoðað samanlagt um 850 einstaklinga, þar af um 750 ríkisborgara. Einhver hluti þeirra um hundrað dvalarleyfishafa sem hin Norðurlöndin höfðu samanlagt aðstoðað yfir landamærin höfðu fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar, líkt og þeir dvalarleyfishafar sem um ræðir í tilfelli Íslands.

     6.      Hvaða samskipti hefur utanríkisþjónustan átt við þau stjórnvöld sem þarf til að koma fólkinu yfir landamærin á milli Gaza og Egyptalands? Hvaða aðgerðir þyrfti til að koma þessum einstaklingum á lista þeirra sem er heimil för yfir landamærin?
    Nauðsynlegt er að fá samþykki ísraelskra og egypskra stjórnvalda fyrir för dvalarleyfishafa yfir landamærin eins og áður er nefnt. Listi sem sendur hafði verið stjórnvöldum hlaut afgreiðslu fyrir nokkrum dögum, en utanríkisráðherra átti símafund með Israel Katz, utanríkisráðherra Ísraels, þriðjudaginn 27. febrúar síðastliðinn til að greiða fyrir afgreiðslu málsins.
    Í samskiptum við stjórnvöld á svæðinu kom fram að listi Íslands væri einstakur þar sem þar væru einungis dvalarleyfishafar, en engir íslenskir ríkisborgarar. Önnur ríki hafa þannig í mestum mæli veitt eigin ríkisborgurum og fjölskyldum þeirra liðsinni í þessum efnum. Eftir að för hluta 72 dvalarleyfishafa var heimiluð var þeim komið til Kaíró þar sem Alþjóðlega fólksflutningastofnunin tekur við og skipuleggur ferðir þeirra áfram til Íslands.

     7.      Hvernig hyggst ráðherra beita sér til að einstaklingar með samþykkt dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar komist út af Gaza? Hvaða tímalínu sér ráðherra fyrir sér þar að lútandi?
    Sendinefnd stjórnvalda hefur nú liðsinnt þeim einstaklingum á fyrrnefndum lista dvalarleyfishafa sem fengu heimild til farar yfir landamærin og ekki höfðu þegar komist yfir þau án aðkomu sendinefndarinnar. Gert er ráð fyrir því að hópurinn komi til Íslands í 8. mars 2024.