Ferill 584. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1252  —  584. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024–2027.

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kvenréttindafélagi Íslands, Landssamtökunum Þroskahjálp, Grænum skátum og ÖBÍ réttindasamtökum. Þá mættu á fund nefndarinnar Haraldur Líndal Haraldsson og Arnar Haraldsson.
    Nefndinni bárust 10 umsagnir auk minnisblaðs frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og eru gögnin aðgengileg undir málinu á vef Alþingis.
    Með þingsályktunartillögunni er lögð fram framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024–2027, sem er byggð á þeirri framtíðarsýn og þeim meginreglum sem fram koma í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Framkvæmdaáætlunin felur í sér 57 aðgerðir til að koma í framkvæmd ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Umfjöllun nefndarinnar.
Almennt.
    Meiri hlutinn telur framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólk fyrir árin 2024–2027 vera jákvæðan og mikilvægan lið í lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í samningnum eru mannréttindi fatlaðs fólks, sem eru þau sömu og annarra, viðurkennd, og jafnframt réttur fatlaðs fólks til að njóta þeirra réttinda.
    Við áframhaldandi vinnu og innleiðingu þeirra aðgerða sem tilgreindar eru í áætluninni leggur meiri hlutinn áherslu á að það verði gert í samráði við hagsmunaaðila. Auk þess leggur meiri hlutinn áherslu á mikilvægi þess að aðgerðum verði tryggt fjármagn, líkt og bent var á í umsögnum um málið.
    Við umfjöllun málsins bárust nefndinni ábendingar um að betur færi á því að framkvæmdaáætlun sem þessi væri einnig gefin út í auðlesnara formi í samráðsferlinu og við þinglega meðferð. Með því væri aðgengi betur tryggt að slíku efni þannig að sem flestir hefðu tök á því að taka þátt í samráðsferlinu. Meiri hlutinn tekur undir þær ábendingar og hvetur ráðuneytið til þess að horfa til þess í framtíðinni.
    Þá bendir meiri hlutinn á tengsl aðgerðar B.3. Miðstöð um auðlesið efni við aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu fyrir árin 2023–2026 sem er til umfjöllunar á Alþingi. Þar er aðgerðum m.a. ætlað að auka framboð af námsefni/námsgögnum, námskeiðum, textun á íslensku o.fl., en auðlesið efni getur einmitt aukið aðgengi ólíkra hópa að íslenskunni.

Breytingartillögur.
Aukin þátttaka fatlaðs fólks í menningarlífi.
    Í nefndinni var rætt um aðgengi fatlaðs fólk að menningarlífi, bæði hvað varðar aðgengi að listum og menningu og ekki hvað síst að listsköpun. Í 30. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er kveðið á um að aðildarríki skuli viðurkenna rétt fatlaðs fólks til þess að taka þátt í menningarlífi til jafns við aðra og tryggi því tækifæri til að þróa og nota sköpunargáfu sína og listræna getu, ekki einvörðungu í eigin þágu, heldur einnig í því skyni að auðga samfélagið.
    Gott aðgengi að listum og menningararfi er einn af meginþáttum menningarstefnu ríkisins, sem sett var árið 2013. Eitt markmiða hennar er að aðgengi að menningu verði sem best tryggt fyrir alla þjóðfélagshópa. Í 8. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, kemur fram að fötluðu fólki skuli standa til boða stoðþjónusta sem er nauðsynleg þátttöku þess í samfélaginu án aðgreiningar þannig að það standi til jafns við aðra. Stoðþjónusta skal meðal annars miðast við þarfir fatlaðra einstaklinga fyrir félagslegt samneyti, þ.m.t. ástundun tómstunda og menningarlífs.
    Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að fötluðu fólki sé tryggð þátttaka í menningarlífi, til jafns við aðra. Þá sé mikilvægt að stutt verði við listsköpun fatlaðs fólks. Með vísan til þess leggur meiri hlutinn til að við þingsályktunartillöguna bætist nýr liður sem feli í sér aðgerð með það að markmiði að auka þátttöku fatlaðs fólks í menningarlífinu. Lagt er til að stofnaður verði vinnuhópur sem skoði leiðir til þess að auka þátttöku fatlaðs fólks í menningarlífi og listsköpun. Þátttaka í menningarlífi felur í sér tækifæri til að mæta á sýningar, tónleika og viðburði til að njóta listar á hvaða formi sem er og til að starfa sem listafólk. Auk þess verði horft til þess að auka aðgengi fatlaðs fólks að listnámi, sbr. einnig aðgerð D.6.

Þróun og nýsköpun í þjónustu við fatlað fólk.
    Í 4. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks kemur fram að til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk skuldbindi aðildarríkin sig til að framkvæma eða gangast fyrir rannsóknum og þróun á nýrri tækni, og sjá til þess að hún sé tiltæk og notuð.
    Hinn 15. desember 2023 undirrituðu félags- og vinnumarkaðsráðherra, innviðaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga samkomulag um breytingu á fjármögnun þjónustu við fatlað fólk. Samkomulagið kveður meðal annars á um að skipa skuli sérstakan framtíðarhóp með fulltrúum ríkis og sveitarfélaga til að vinna að þróun og nýsköpun í þjónustu við fatlað fólk með það að markmiði að auka gæði og hagkvæmni í þjónustu. Samhliða veiti ríki og sveitarfélög tímabundið framlag til þróunarkostnaðar. Það framlag verði háð skilyrðum sem taka mið af framgangi og árangri verkefna.
    Meiri hlutinn leggur til að starfshópurinn ráðist í fjölbreytta greiningarvinnu og tilraunaverkefni sem taki m.a. mið af tillögum starfshóps um kostnaðar- og ábyrgðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga í þjónustu við fatlað fólk sem fram koma í áfangaskýrslu I. Miðar aðgerðin við að hópurinn skili tillögum fyrir árslok 2025 og áfangaskýrslu á árinu 2024.

Samræmdari þjónusta við fatlað fólk og betri nýting fjármuna.
    Í 5. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er kveðið á um jafnrétti og bann við mismunun. Í því felst viðurkenning á að allar manneskjur séu jafnar fyrir og samkvæmt lögum og eigi rétt á jafnri vernd og jöfnum ávinningi af lögum án nokkurrar mismununar.
    Ljóst er að töluverður munur getur verið á þeirri þjónustu sem stendur fötluðu fólki til boða eftir búsetu. Í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf er kveðið á um að tryggja þurfi jafnræði í þjónustu við fatlað fólk, m.a. með samráði ríkis og sveitarfélaga um endurmat á kostnaði við málaflokk fatlaðs fólks. Sumarið 2022 skipaði félags- og vinnumarkaðsráðherra starfshóp sem var falið að vinna að mótun tillagna um kostnaðar- og ábyrgðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk. Hópurinn lauk fyrsta áfanga með gerð stöðuskýrslu og tillagna í janúar 2024. Til þess að ná öðrum áfanga verkefnisins hefur hópnum verið falið að vinna tillögur að fyrirkomulagi og nýtingu samræmds mats á þjónustuþörfum, framkvæmd þriðja stigs þjónustu, stærð þjónustusvæða og uppbyggingu húsnæðisúrræða til framtíðar.
    Meiri hlutinn leggur til að starfshópnum verði einnig falið að meta þörf fyrir laga- og reglugerðabreytingar í því skyni að gera stjórnvöldum betur kleift að veita betri og samræmdari þjónustu á hagkvæman hátt og eftir atvikum undirbúa drög að lagafrumvörpum og reglugerðum þess efnis. Lagt er til að starfshópurinn skili tillögum sínum í júní 2024.

    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á eftir lið B.11 komi nýr liður, svohljóðandi:
         B.12. Aukin þátttaka fatlaðs fólks í menningarlífi.
                  Stofnaður verði vinnuhópur sem skoði leiðir til þess að auka þátttöku fatlaðs fólks í menningarlífi, bæði hvað varðar aðgengi að listum og menningu og listsköpun.
                  Tímaáætlun: 2024.
                  Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
                  Dæmi um samstarfsaðila: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, List án landamæra, Listvinnzlan, BÍL, FÍH, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
                  Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 30. gr.
                  Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4, 10 og 16.
     2.      Á eftir lið E.12 komi tveir nýir liðir, svohljóðandi:
                  a.      E.13. Þróun og nýsköpun í þjónustu við fatlað fólk.
                     Starfshópur fulltrúa sveitarfélaga, félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, innviðaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis, mennta- og barnamálaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og hagsmunasamtaka fatlaðs fólks móti tillögur að nýrri nálgun í þjónustu til þess að auka gæði og hagkvæmni í þjónustu.
                     Tímaáætlun: 2025.
                     Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
                     Dæmi um samstarfsaðila: Innviðaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtök fatlaðs fólks.
                     Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 4. gr.
                     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 16 og 17.
                  b.      E.14. Samræmdari þjónusta við fatlað fólk og betri nýting fjármuna.
                     Starfshópur um kostnaðar- og ábyrgðarskiptingu ríkisins móti tillögur að bættu fyrirkomulagi þjónustu við fatlað fólk með það að leiðarljósi að gera stjórnvöldum kleift að veita betri og samræmdari þjónustu á sem hagkvæmastan hátt. Starfshópurinn líti m.a. til útfærslu tillagna úr samkomulagi ríkis og sveitarfélaga frá desember 2023 og skýrslu um greiningu á kostnaðarþróun í þjónustu við fatlað fólk frá janúar 2024, þ.m.t. að samræmt mat á stuðningsþörf (SIS-mat) verði grundvöllur þjónustu. Starfshópurinn meti einnig hvort nauðsynlegt sé að grípa til laga- eða reglugerðabreytinga og undirbúi eftir atvikum drög að lagafrumvörpum og reglugerðum.
                     Tímaáætlun: 2024.
                     Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
                     Dæmi um samstarfsaðila: Innviðaráðuneyti, forsætisráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
                     Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 5. gr.
                     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 10.

Alþingi, 13. mars 2024.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
form., frsm.
Bryndís Haraldsdóttir. Óli Björn Kárason.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir. Jóhann Páll Jóhannsson.