Ferill 834. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1255  —  834. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um bann við veðmálastarfsemi í tengslum við íþróttakappleiki ósjálfráða ungmenna og skipulagningu hennar.


Flm.: Steinunn Þóra Árnadóttir, Kári Gautason, Þórarinn Ingi Pétursson, Brynhildur Björnsdóttir, Orri Páll Jóhannsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Bjarni Jónsson, Oddný G. Harðardóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að undirbúa frumvarp sem kveði á um að veðmálastarfsemi í tengslum við íþróttakappleiki ósjálfráða ungmenna og skipulagning hennar verði bönnuð og gerð refsiverð. Ráðherra leggi frumvarpið fram eigi síðar en á vorþingi 2025.

Greinargerð.

    Með tillögu þessari er kallað eftir því að dómsmálaráðherra leggi fram frumvarp sem kveður skýrt á um að veðmálastarfsemi og skipulagning hennar sé ólögleg í tengslum við íþróttakappleiki í flokkum þar sem iðkendur hafa ekki náð átján ára aldri að jafnaði, með hertum viðurlögum. Slík veðmál eiga sér nú þegar stað í talsverðum mæli og eru vaxandi vandamál að mati þeirra sem best þekkja til.
    Veðmálastarfsemi í tengslum við íþróttakappleiki á sér langa sögu, jafnt lögleg sem ólögleg. Á Íslandi hefur íþróttahreyfingin haft einkaleyfi til reksturs íþróttagetrauna um áratugaskeið, en sérlög hafa verið í gildi um hestakappreiðar og veðmálastarfsemi í tengslum við kappróðra á sjómannadaginn til stuðnings hestamannafélögum og Dvalarheimili aldraðra sjómanna.
    Á síðustu árum hefur veðmálahegðun Íslendinga tekið miklum breytingum. Fjöldi erlendra vefsíðna gefur Íslendingum færi á að veðja á allt milli himins og jarðar, en þó fyrst og fremst íþróttaúrslit. Sumar þessara síðna ganga mjög langt í að markaðssetja sig sérstaklega gagnvart íslenskum þátttakendum, svo sem með íslensku viðmóti og auglýsingum á íslensku, þótt starfsemin sé í raun ólögleg hér á landi. Í skýrslu starfshóps um happdrættismál, sem skilað var til dómsmálaráðherra 1. desember 2022, er áætlað að Íslendingar eyði á bilinu 10,5 til 12 milljörðum kr. á erlendum veðmálasíðum á ári hverju.
    Meðal þess sem hægt er að veðja um á þessum erlendu síðum eru íslenskir íþróttakappleikir, ekki síst knattspyrnuleikir. Ástæðan er sú að íslenska knattspyrnutímabilið fer að mestu fram yfir hásumarið þegar flestar aðrar deildarkeppnir eru í fríi. Af því leiðir að erlendir aðilar veðja fjárhæðum á íslenskar íþróttir langt umfram það sem vænta mætti miðað við íbúafjölda hér á landi. Samningar við erlend veðmálafyrirtæki eru því drjúg tekjulind fyrir knattspyrnuhreyfinguna.
    Ekki verður litið fram hjá því að veðmálastarfsemi á sér ýmsar skuggahliðar. Spilafíkn er þekktur vandi og hafa sérfræðingar áætlað að á Norðurlöndum glími um 3% mannfjöldans við fjárhættuspilavanda af einhverjum toga en ekki nema lítill hluti þessa hóps leitar sér aðstoðar. Spilavandi tengdur íþróttaveðmálum er talinn vera vaxandi vandamál og eru ungir karlmenn líklegri en aðrir til þess að glíma við hann.
    Með tillögu þessari er spjótunum beint að einum afmörkuðum anga ólöglegu starfseminnar; veðmálastarfsemi í flokkum þar sem iðkendur hafa ekki náð átján ára aldri að jafnaði. Á erlendum vefsíðum er mögulegt að veðja á viðureignir í 2. og 3. flokki hér á landi. Þar er um að ræða keppni barna allt niður í fjórtán ára að aldri. Ýmsar hættur felast í þessu fyrirkomulagi. Í fyrsta lagi er augljóst að með því að bjóða upp á veðmál um úrslit unglingakappleikja er verið að höfða til ungmenna að leggja undir fjármuni á viðureignir vina sinna og kunningja. Kann það að ýta undir þátttöku í fjárhættuspilum í gegnum veðmál og að einstaklingur þrói með sér spilafíkn. Í öðru lagi getur þessi staða skapað freistnivanda fyrir óharðnaða unglinga þegar kemur að hagræðingu úrslita eða jafnvel sett þá í hættulega stöðu gagnvart aðilum sem kunna að vilja hafa áhrif á niðurstöðu leikja, en oft eru háar fjárhæðir undir í veðmálum erlendis á leiki íslenskra unglingaliða.
    Víða í nágrannalöndum okkar gilda sérstök bönn við veðmálum á kappleiki barna. Í Bretlandi er strangt bann við að bjóða upp á veðmál á keppni í flokkum yngri en átján ára og árið 2021 var sænskt veðmálafyrirtæki sektað um 1 milljón sænskra króna fyrir að hafa boðið upp á veðmál um kappleik þar sem flestallir leikmenn voru undir átján ára aldri, þótt um meistaraflokksleik væri að ræða.
    Með tillögu þessari er kallað eftir því að dómsmálaráðherra leggi fram frumvarp sem kveður skýrt á um það að veðmálastarfsemi og skipulagning hennar sé ólögleg í tengslum við íþróttakappleiki hér á landi í flokkum þar sem iðkendur hafa ekki náð átján ára aldri að jafnaði með það að markmiði að vernda ungmenni fyrir þeim hættum sem starfseminni kunna að fylgja. Ljóst er að þar sem veðmálasíður þær sem um ræðir eru erlendar er lögsaga íslenskra yfirvalda í málum þeirra óljós. Engu að síður má ætla að erlendir aðilar yrðu hikandi við að brjóta gegn fortakslausu banni við því að bjóða upp á veðmál um íslenska unglingakappleiki. Auk þess tíðkast það hjá mörgum veðmálafyrirtækjum og tengdum úrslitasíðum að hafa útsendara sína á kappleikjum til að skrá upplýsingar í rauntíma til að endurskoða stuðla, en slíkt yrði ólöglegt með lagasetningunni.