Ferill 399. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1308  —  399. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um staðfestingu ríkisreiknings 2022.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.


    Fyrsti minni hluti telur ámælisvert að Ríkisendurskoðun geti ekki svarað því af hverju gefin er áritun án fyrirvara þrátt fyrir allar ábendingar og athugasemdir sem Ríkisendurskoðun gerir á ríkisreikningi 2022. Miðað við athugasemdir Ríkisendurskoðunar, sérstaklega varðandi skort á greinargóðum upplýsingum um lífeyrisskuldbindingar og óvissu um eignir og eignamat, er augljóst að ríkisreikningur 2022 gefur ekki glögga mynd af stöðu ríkissjóðs.
    Ein ábending Ríkisendurskoðunar finnst 1. minni hluta sérstaklega áhugaverð, er varðar umfjöllun Ríkisendurskoðunar um það hvernig ákvæðum laga um opinber fjármál hefur ekki verið fylgt: „Vísað er til endurskoðunarskýrslna Ríkisendurskoðunar árin 2017–2021 um nánari útlistun á hvaða ákvæðum LOF er ekki fylgt við gerð ríkisreiknings.“ 1. minni hluti telur hins vegar að hér sé ekki um tæmandi umfjöllun að ræða þar sem til dæmis ákvæðum 20. gr. laga um opinber fjármál hefur ekki verið fylgt frá innleiðingu laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, sérstaklega 1. mgr. 20. gr. laganna, þar sem fram kemur að í „stefnunni skal lýsa áherslum og markmiðum, þ.m.t. gæða- og þjónustumarkmiðum, um fyrirkomulag, þróun og umbætur á þeirri starfsemi sem fellur undir viðkomandi málefnasvið. Í stefnunni skal gerð grein fyrir hvernig markmiðum verði náð, ábyrgðarskiptingu, tímasetningum, nýtingu fjármuna og áherslum við innkaup. Þá skal gerð grein fyrir fyrirhuguðum lagabreytingum.“ Í greinargerð frumvarps til laga um opinber fjármál er nánar fjallað um hvernig skuli uppfylla þetta ákvæði með kostnaðar- og ábatagreiningu, forgangsröðun og valkostagreiningu. Ríkisendurskoðun hefur enn ekki fjallað um framkvæmd þessarar lagagreinar í endurskoðunarskýrslum sínum.
    Fyrsti minni hluti mælir með því að ríkisreikningur 2022 verði ekki samþykktur.

Alþingi, 20. mars 2024.

Björn Leví Gunnarsson.