Ferill 874. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1310  —  874. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á innheimtulögum og lögum um lögmenn (hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar).

Flm.: Jóhann Páll Jóhannsson, Kristrún Frostadóttir, Logi Einarsson, Dagbjört Hákonardóttir, Oddný G. Harðardóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


I. KAFLI

Breyting á innheimtulögum, nr. 95/2008.

1. gr.

    Við 12. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir 1. mgr. skal heildarfjárhæð innheimtukostnaðar aldrei nema hærri fjárhæð en höfuðstól kröfunnar sem er til innheimtu að viðbættum áunnum vöxtum og dráttarvöxtum samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.

II. KAFLI

Breyting á lögum um lögmenn, nr. 77/1998.

2. gr.

    Við 24. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Heildarfjárhæð innheimtukostnaðar samkvæmt innheimtulögum, nr. 95/2008, auk kostnaðar vegna löginnheimtu, skal aldrei nema hærri fjárhæð en höfuðstól kröfunnar sem er til innheimtu að viðbættum áunnum vöxtum og dráttarvöxtum samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var lagt fram á 153. löggjafarþingi (959. mál) en náði ekki fram að ganga og er nú lagt fram að nýju.
    Markmið frumvarpsins er að verja lántakendur gegn ósanngjörnum aðferðum innheimtufyrirtækja við innheimtu á smærri kröfum og koma í veg fyrir að kostnaður lántakanda vegna innheimtukostnaðar og löginnheimtu verði hærri en höfuðstóll kröfunnar sem til innheimtu er. Gildistaka innheimtulaga, nr. 95/2008, fól í sér mikla réttarbót fyrir lántakendur en í kjölfarið var sett reglugerð nr. 37/2009 um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar o.fl. Árið 2013 voru jafnframt settar leiðbeinandi reglur fyrir lögmenn um endurgjald vegna kostnaðar af löginnheimtu. Hvergi er þó kveðið á um eiginlegt þak á heildarinnheimtukostnaði en Neytendasamtökin hafa um árabil barist fyrir því að sett verði þak á heildarinnheimtukostnað líkt og til að mynda hefur verið gert í Svíþjóð og Danmörku.
    Í dag rukka smálánafyrirtæki jafnvel hærri fjárhæðir í gegnum innheimtugjöld en þau gerðu með okurvöxtum áður en þak var sett á vexti með breytingum á lögum um neytendalán. Fjölmörg dæmi eru um að smálánafyrirtæki skipti kröfu upp í fleiri smærri kröfur og nýti sér þannig heimildir í reglugerð um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar o.fl. nr. 37/2009 til þess að hækka innheimtukostnaðinn langt umfram þau markmið sem leitast er við að ná í innheimtulögum. Taka má dæmi um einstakling sem tekur 60.000 kr. lán hjá smálánafyrirtæki. Smálánafyrirtæki getur skipt slíkri kröfu upp í fimm sjálfstæðar kröfur að fjárhæð 12.000 kr. Í stað þess að lántakanda sé sent eitt innheimtubréf sem innheimtufyrirtækinu er heimilt að rukka 950 kr. fyrir líkt og kveðið er á um í reglugerðinni eru lántakanda send fimm bréf, hvert um sig vegna innheimtu á 12.000 kr. skuld. Greiði lántakandi ekki fær hann send fimm milliinnheimtubréf og er heimilt að rukka 3.700 kr. fyrir hvert þeirra. Greiði lántakandi ekki er innheimtufyrirtæki heimilt að senda tvær ítrekanir milliinnheimtubréfs að fjárhæð 3.700 kr., sem í þessu dæmi yrðu tíu bréf. Heimilt er að rukka 550 kr. fyrir eitt símtal í milliinnheimtu. Hringi innheimtufyrirtækið eitt símtal vegna hverrar kröfu er innheimtukostnaður vegna 60.000 kr. kröfu orðinn 63.000 kr. að viðbættum virðisaukaskatti þegar krafan er enn í milliinnheimtu. Innheimtufyrirtækjum er heimilt að rukka 2.700 kr. fyrir skriflegt samkomulag um greiðslu kröfu. Geri fyrirtækið fimm slík samkomulög verður kostnaður vegna þeirra 13.500 kr. auk virðisaukaskatts. Heildarinnheimtukostnaður verður því 76.500 kr. Fari krafan í löginnheimtu bætist svo tugþúsunda kostnaður ofan á. Samkvæmt leiðbeinandi reglum fyrir lögmenn um endurgjald sem þeim er hæfilegt að áskilja umbjóðendum sínum úr hendi skuldara vegna kostnaðar af löginnheimtu peningakröfu er hæfilegt endurgjald af fjárhæð þeirrar kröfu sem til innheimtu er 6.000 kr. að viðbættu 25% af fyrstu 50.000 kr. Í dæminu hér að framan bættust því við 35.000 kr. í grunngjald auk 15.000 kr. Ofan á það bætist endurgjald fyrir ritun greiðsluáskorunar að fjárhæð 6.000 kr. fyrir hverja kröfu. Við fyrstu greiðsluáskorun í löginnheimtu er heildarinnheimtukostnaður af 60.000 kr. kröfu því orðinn 161.500 kr. Við þetta getur bæst ýmiss kostnaður til að mynda vegna aðfararbeiðni, nauðungarsölubeiðni eða mætingar lögmanns hjá sýslumanni. Með þessu móti getur innheimtukostnaður vegna innheimtu á lágum upphæðum hæglega orðið mun hærri en höfuðstóll kröfunnar.
    Það er mat flutningsmanna að með því að setja þak á innheimtukostnað yrði komið í veg fyrir ósanngjarnar innheimtuaðferðir. Þak á innheimtukostnað myndi alla jafna ekki hafa teljanleg áhrif á innheimtukostnað hærri krafna enda er þakið mun hærra en það sem gengur og gerist þegar um er að ræða hærri kröfur. Með frumvarpinu er hins vegar ætlað að loka fyrir glufur í innheimtulöggjöfinni sem hafa gert smálánafyrirtækjum kleift að skipta kröfum upp í margar smærri kröfur og rukka sérstaklega fyrir innheimtu á hluta kröfunnar með þeim afleiðingum að innheimtukostnaður verður mun hærri en höfuðstóll kröfunnar. Í samræmi við hugmyndir Neytendasamtakanna er hér lagt til að hámark innheimtukostnaðar nemi sömu upphæð og upphaflegur höfuðstóll neytendaláns. Þá er lagt til að samanlagður kostnaður við frum-, milli- og löginnheimtu verði aldrei hærri en höfuðstóll kröfunnar.