Ferill 901. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1340  —  901. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988 (sjálfstætt starfandi leikskólar).

Flm.: Bryndís Haraldsdóttir, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Óli Björn Kárason, Vilhjálmur Árnason.


1. gr.

    Á eftir 42. gr. A laganna kemur ný grein, 42. gr. B, svohljóðandi:
    Endurgreiða skal leikskóla, sem fengið hefur leyfi til reksturs leikskóla skv. 25. gr. laga um leikskóla, nr. 90/2008, virðisaukaskatt sem hann hefur greitt af innflutningi eða kaupum á þjónustu eða vöru skv. 1.–5. tölul. 3. mgr. 42. gr.
    Endurgreiða skal sjálfstætt reknum grunnskóla, samkvæmt ákvæðum X. kafla laga um grunnskóla, nr. 91/2008, virðisaukaskatt sem hann hefur greitt af innflutningi eða kaupum á þjónustu eða vöru skv. 1.–5. tölul. 3. mgr. 42. gr.
    Það er skilyrði endurgreiðslu skv. 1. mgr. að leikskólinn hafi, á grundvelli ákvæða 2. mgr. 27. gr., sbr. lokamálslið 2. mgr. 25. gr. laga um leikskóla, nr. 90/2008, gert samning um fyrirkomulag gjaldtöku og þjónustu við sveitarfélag og njóti fjárframlaga frá sveitarfélaginu.
    Það er skilyrði endurgreiðslu skv. 2. mgr. að sveitarfélag hafi, á grundvelli ákvæða 43. gr. a. laga um grunnskóla, nr. 91/2008, gert þjónustusamning um rekstur skólans við rekstraraðila.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Samkvæmt gildandi lögum um virðisaukaskatt skal endurgreiða ríki, sveitarfélögum og stofnunum þeirra virðisaukaskatt sem þau hafa greitt af innflutningi eða kaupum á tiltekinni þjónustu eða vöru. Ákvæði þess efnis er að finna í 3. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988. Í því ljósi geta sveitarfélög t.d. krafist endurgreiðslu vegna kaupa á vörum og þjónustu vegna sorphreinsunar, ræstingar, snjómoksturs og hálkueyðingar og þjónustu sérfræðinga. Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna slíkra kaupa sveitarfélaga kemur til lækkunar rekstrarkostnaðar í bókum sveitarfélaga, m.a. vegna rekstrar leik- og grunnskóla sveitarfélaga.
    Útlit er fyrir að allir sjálfstætt starfandi leikskólar hafi gert samninga við sveitarfélög um fyrirkomulag þjónustu og gjaldtöku. Í samningunum er kveðið á um réttindi og skyldur samningsaðila hvað varðar aðra þætti en þá sem falla undir lögbundið eftirlit sveitarfélags með starfsemi leikskóla. Eftir því sem næst verður komist njóta allir sjálfstæðir leikskólar fjárframlaga af hendi sveitarfélags til að standa undir hluta af kostnaði við rekstur þeirra, þar á meðal kostnaði við húsnæði leikskólans. Á sama tíma er þar kveðið á um hámarksgjaldtöku vegna dvalar hvers leikskólabarns í leikskólanum. Algengt er að í slíkum samningum sé fengist við það viðfangsefni að láta rekstrarkostnað sveitarfélagsins, vegna eigin leikskóla, endurspeglast í fjárhæð framlaga til sjálfstætt rekinna leikskóla.
    Allir sjálfstætt reknir grunnskólar sem falla undir ákvæði X. kafla laga um grunnskóla, nr. 91/2008, njóta lögbundinna fjárframlaga frá sveitarfélögum. Hefur Hagstofu Íslands verið fengið það verkefni, lögum samkvæmt, að reikna vegið meðaltal heildarrekstrarkostnaðar allra grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögum í landinu á hvern nemanda og birta það með reglubundnum hætti. Fjárframlög til sjálfstætt rekinna grunnskóla nema að lágmarki 70–75% af hinu vegna meðaltali.
    Þar sem sveitarfélög fá virðisaukaskatt endurgreiddan skv. 3. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, lækkar rekstrarkostnaður leik- og grunnskóla sveitarfélaga sem endurgreiðslunni nemur, að því leyti sem hún varðar þjónustu eða vöru sem nýtt hefur verið í skólum sveitarfélaga. Sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla hafa hins vegar ekki fengið endurgreiddan virðisaukaskatt af slíkum kaupum. Fyrir vikið endurspegla framlög sveitarfélaga til sjálfstætt rekinna leik- og grunnskóla í raun ekki þann kostnað sem myndast við rekstur þeirra.
    Löggjafinn hefur lagt ríka áherslu á jafna stöðu leik- og grunnskólabarna með tilliti til fjármagns sem veitt er til þjónustu leik- og grunnskóla. Þessi áhersla sést m.a. í nefndaráliti menntamálanefndar Alþingis (þskj. 1011 í 287. máli á 135. löggjafarþingi) við setningu laga um leikskóla, nr. 90/2008, og í greinargerð með frumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra sem varð að lögum nr. 76/2016, sem breyttu lögum um grunnskóla, nr. 91/2008.
    Á grundvelli upplýsinga frá Hagstofu Íslands um fjölda barna í sjálfstætt reknum leik- og grunnskólum árin 2019–2022 og upplýsinga um umfang endurgreiðslna virðisaukaskatts af þjónustu við leikskóla sveitarfélags af stærra tagi sömu ár má gera ráð fyrir því að áhrif á ríkissjóð vegna þeirrar viðbótar sem felst í endurgreiðslu virðisaukaskatts til sjálfstætt rekinna leik- og grunnskóla verði neikvæð sem nemur á bilinu 77,5–104,5 millj. kr. á ári hverju, miðað við verðlag í febrúar 2024.
    Að mati flutningsmanna frumvarps þessa er greiðfærasta leiðin til að tryggja að jafnræðissjónarmið að baki ákvæðum laga nr. 90/2008 og 91/2008 og sjónarmið um að draga úr skattbyrði sveitarfélaga sem liggja að baki ákvæðum 3. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1998 nái fram að ganga sú að tryggja sjálfstæðum leik- og grunnskólum sem gert hafa þjónustusamninga við sveitarfélög rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts skv. 3. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988.