Ferill 933. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 1380  —  933. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar


um íslenska sendiskrifstofu á Spáni.


Flm.: Gísli Rafn Ólafsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Logi Einarsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson, Tómas A. Tómasson.


    Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að koma á fót sendiskrifstofu á Spáni á árinu 2025.

Greinargerð.

    Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að ráðherra undirbúi og setji á laggirnar sendiskrifstofu Íslands á Spáni á árinu 2025. Þrátt fyrir náin tengsl og mikla utanríkisverslun milli landanna hefur Ísland ekki sendiskrifstofu í Madríd.
    Í lok árs 2022 áttu tæplega 900 Íslendingar lögheimili á Spáni, en í þeim löndum þar sem jafnmargir eða fleiri Íslendingar eru búsettir er starfrækt íslensk sendiskrifstofa. Við þetta bætist að ríflega 60.000 Íslendingar heimsækja Spán árlega sem ferðamenn, sem gerir Spán að einum vinsælasta áfangastað Íslendinga. Spánn er sjötti stærsti útflutningsmarkaður Íslands, aðallega með fiskafurðir, og tólfta stærsta landið þegar kemur að þjónustuútflutningi. Vöruskiptajöfnuður við Spán hefur verið mjög jákvæður sökum útflutnings á fiski, en þjónustujöfnuður aftur á móti neikvæður vegna sterkrar stöðu Spánar meðal íslenskra ferðamanna. Fjárfestingar frá Spáni á Íslandi eru ekki miklar, um 0,2% af erlendri fjárfestingu, en fjárfestingar Íslendinga á Spáni eru um 0,8% af íslenskum fjárfestingum erlendis.
    Mikil tækifæri felast í auknum menningartengslum milli Íslands og Spánar. Mikill fjöldi Íslendinga hefur stundað nám í spænsku og mjög hátt hlutfall þjóðarinnar heimsækir Spán á ferðalögum sínum. Sendiskrifstofa Spánar á Íslandi hefur undanfarin ár staðið ötullega að kynningu á spænskri menningu, til dæmis á sviði kvikmyndagerðar, með eflingu spænskrar tungu og með stuðningi við listafólk. Sendiráð Íslands í París, sem nú fer með málefni Spánar, hefur gert slíkt hið sama í einhverjum mæli, en telja má víst að sendiskrifstofa í Madríd hefði frekari tækifæri til þess.
    Spánn opnaði sendiskrifstofu í Reykjavík árið 2019 til að efla tvíhliða samskipti ríkjanna. Ríkisstjórn Íslands hefur ekki enn gert slíkt hið sama í Madríd, en í skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál frá árinu 2022 er greint frá aukinni þörf fyrir borgaraþjónustu og þjónustu kjörræðismanna á Spáni vegna langdvala þúsunda Íslendinga á Spáni.
    Flutningsmenn telja bæði brýna þörf og gjöful tækifæri mæla með opnun sendiskrifstofu Íslands í Madríd.