Ferill 939. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1386  —  939. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um samvinnufélög, lögum um Evrópufélög og lögum um evrópsk samvinnufélög (fjöldi stofnenda, slit, reglugerðarheimild).

Frá menningar- og viðskiptaráðherra.



I. KAFLI

Breyting á lögum um samvinnufélög, nr. 22/1991.

1. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 3. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. mgr. 4. gr. laganna:
     a.      Í stað tölunnar „15“ í 2. málsl. kemur: þrír.
     b.      4. málsl. fellur brott.

3. gr.

    Við 8. tölul. 5. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Fjárhæð aðildargjalds skal ekki vera hærra en 10.000 kr. í samvinnufélögum þar sem félagsmenn eru fleiri en 100, en breyta má fjárhæðinni miðað við 1. júní ár hvert í samræmi við vísitölu neysluverðs.

4. gr.

    Í stað orðsins „hluthafafundi“ í 3. málsl. 1. mgr. 36. gr. laganna kemur: félagsfundi.

5. gr.

    Við 1. mgr. 37. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Í samvinnufélögum þar sem félagsmenn eru fleiri en 100 skal óheimilt að ráðstafa hærra hlutfalli en 1% af hagnaði hvers árs til greiðslu í A-deild stofnsjóðs, þó þannig að fjárhæðin verði aldrei hærri en 50.000 kr. á hvern félagsmann. Fjárhæðin breytist miðað við 1. júní ár hvert í samræmi við vísitölu neysluverðs.

6. gr.

    61., 61. gr. a og 61. gr. b laganna falla brott.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 62. gr. a laganna:
     a.      Við 1. tölul. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Í samvinnufélögum þar sem félagsmenn eru fleiri en 100 skal ályktun um slit samþykkt með ¾ atkvæðisbærra fundarmanna á tveimur félagsfundum með a.m.k. tólf mánaða millibili. Í félagi, sem skiptist í deildir, skulu deildarfundir fjalla um og samþykkja ályktun um slit með ¾ atkvæðisbærra fundarmanna áður en til félagsfundar kemur.
     b.      2. tölul. orðast svo: Félagsaðilar samvinnufélags eða samvinnusambands verða færri en þrír eða ef félagið fullnægir ekki ákvæðum laga þessara.
     c.      6. tölul. fellur brott.

8. gr.

    Í stað 4. málsl. 3. mgr. 65. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Í samvinnufélögum þar sem félagsmenn eru fleiri en 100 og eigið fé er að lágmarki 750.000.000 kr. skulu félagsaðilar sem eiga hlut í A-deild stofnsjóðs aldrei fá greidda til sín hærri fjárhæð en sem nemur eign þeirra í sjóðnum, með að hámarki 15% álagi. Jafnframt skal í tillögunni um slit félagsins kveðið á um stofnun sjálfseignarstofnunar sem til skulu falla allar óráðstafaðar eftirstöðvar af eigin fé félagsins, sem skal hafa það að verkefni að styðja við samfélagsverkefni til almannaheilla á fyrrum félagssvæði hins slitna félags samkvæmt nánari ákvæðum í hinni samþykktu tillögu um slitin.

9. gr.

    Fyrirsögn XII. kafla laganna verður: Slit samvinnufélaga.


10. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða II í lögunum fellur brott.

II. KAFLI

Breyting á lögum um Evrópufélög, nr. 26/2004.

11. gr.

    Á eftir 28. gr. laganna kemur ný grein, 28. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, sbr. þó 2. mgr. 8. gr.

III. KAFLI

Breyting á lögum um evrópsk samvinnufélög, nr. 92/2006.

12. gr.

    Á eftir 29. gr. laganna kemur ný grein, 29. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, sbr. þó 2. mgr. 9. gr.

13. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í menningar- og viðskiptaráðuneytinu og hefur að geyma tillögur til breytinga á lögum um samvinnufélög, nr. 22/1991, lögum um Evrópufélög, nr. 26/2004, og lögum um evrópsk samvinnufélög, nr. 92/2006.

1.1. Breyting á lögum um samvinnufélög, nr. 22/1991.
    Í byrjun árs 2024 voru 28 samvinnufélög starfrækt hér á landi. Samvinnufélagaformið er þannig lítið notað en frá árinu 2010 hafa einungis fimm slíkt félög verið stofnuð. Stefnt er að því að ráðast í heildarendurskoðun á lögum um samvinnufélög á næstu árum en ráðuneytið hefur einnig haft til skoðunar tiltekin ákvæði laganna, m.a. ákvæði um fjölda stofnenda/félagsmanna, heimild til að breyta samvinnufélagi í hlutafélag og ákvæði laganna um slit félags. Í frumvarpinu er að finna tillögur að nokkrum breytingum á lögum um samvinnufélög sem rétt þykir að leggja til nú með hliðsjón af breyttum aðstæðum og tíðaranda. Auk samvinnufélaganna 28 eru starfrækt sjö húsnæðissamvinnufélög og tvö byggingarsamvinnufélög. Lög um húsnæðissamvinnufélög, nr. 66/2003, gilda um slík félög en skv. 2. mgr. 1. gr. laganna gilda ákvæði laga um samvinnufélög um húsnæðissamvinnufélög eftir því sem við á. Lög um byggingarsamvinnufélög, nr. 153/1998, gilda um slík félög en skv. 1. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna gilda ákvæði laga um samvinnufélög um félagsstofnun, skrásetningu, félagsstjórn og félagsslit byggingarsamvinnufélags eftir því sem við getur átt, sbr. þó 2. og 3. mgr. 2. gr.
    Í frumvarpinu eru lagðar til þríþættar breytingar á lögum um samvinnufélög en viðamesta breytingin lýtur að því að takmarka möguleika á því að við slit félags komi eigið fé þess til útgreiðslu til félagsmanna. Einnig eru lagðar til breytingar á lágmarksfjölda stofnenda samvinnufélaga til að auðvelda stofnun slíkra félaga. Þá er í frumvarpinu að finna minni háttar lagfæringar á löggjöfinni.

1.2. Breyting á lögum um Evrópufélög, nr. 26/2004, og lögum um evrópsk samvinnufélög, nr. 92/2006.
    Með lögum um Evrópufélög, nr. 26/2004, voru innleidd ákvæði reglugerðar ráðsins (EB) nr. 2157/2001 frá 8. október 2001 um samþykktir fyrir Evrópufélög (SE) og hafa ákvæði reglugerðarinnar lagagildi hér á landi í samræmi við bókun I um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest. Reglugerðin um Evrópufélög er prentuð sem fylgiskjal með lögunum. Með lögum nr. 26/2004 er framangreindri reglugerð þannig veitt lagagildi og sett nánari ákvæði um Evrópufélög í samræmi við reglugerðina. Ákvæðin taka eingöngu til Evrópufélaga sem skráð eru hér á landi nema annað sé tekið fram í lögunum. Í lögum um Evrópufélög er ekki að finna almenna reglugerðarheimild ráðherra eins og almennt er í félagalöggjöfinni hérlendis og er því í frumvarpinu lagt til að kveðið verði á um slíka heimild í lögunum.
    Með lögum um evrópsk samvinnufélög, nr. 92/2006, voru innleidd ákvæði reglugerðar ráðsins (EB) nr. 1435/2003 frá 22. júlí 2003 um samþykktir fyrir evrópsk samvinnufélög (SCE) og hafa ákvæði reglugerðarinnar lagagildi hér á landi í samræmi við bókun 1 um altæka aðlögun að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest. Reglugerðin er prentuð sem fylgiskjal með lögunum. Með framangreindum lögum eru sett nánari ákvæði um evrópsk samvinnufélög en ákvæðin ná eingöngu til evrópskra samvinnufélaga sem skráð eru hér á landi nema annað sé tekið fram í lögunum. Í lögum um evrópsk samvinnufélög er ekki að finna almenna reglugerðarheimild ráðherra eins og almennt er í félagalöggjöfinni hérlendis og er því í frumvarpinu lagt til að kveðið verði á um slíka heimild í lögunum.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
2.1. Breyting á lögum um samvinnufélög, nr. 22/1991.
    Umræða hefur undanfarið átt sér stað milli fyrirsvarsmanna samvinnufélaga á Íslandi um nauðsyn þess að uppfæra lögin með hliðsjón af breyttum aðstæðum og tíðaranda. Eins og fyrr segir er samvinnufélagaformið lítið notað hér á landi en frá árinu 2010 hafa einungis fimm slík félög verið stofnuð. Þannig er ekki hægt að halda því fram að félagsformið njóti vinsælda þegar horft er til nýskráninga félaga í samvinnufélagaskrá. Hvað veldur þessari þróun liggur ekki fyrir en mörg þeirra samvinnufélaga sem eru starfrækt í dag hafa vaxið og dafnað síðustu áratugi og mörg orðið hryggjarstykkið í atvinnulífinu á félagssvæði sínu og samfara því byggt upp verulegt eigið fé.
    Segja má að þessi uppsöfnun eigin fjár hafi orðið til þess að skapa nýja hættu í starfsemi félaganna, sem lög um samvinnufélög taka ekki á. Sá möguleiki er fyrir hendi að hópur félagsmanna geti freistað þess að taka félagið yfir til að leggja það niður og úthluta til félagsmanna öllu eigin fé þess. Slík ráðstöfun væri í beinni andstöðu við þau sjónarmið sem liggja að baki lögum um samvinnufélög, sérstaklega þegar horft er til þess að almennir félagsmenn hafa yfirleitt ekki komið að beinni eignasöfnun þess.
    Samvinnufélagaformið er í eðli sínu opið og oft er um að ræða almenningsfélag sem lætur sig varða hagsmuni margra/allra á starfssvæði eða starfssviði félagsins með fjölbreyttum hætti. Venjan er sú að allir sem eiga lögheimili innan félagssvæðisins eða starfa á starfssviði viðkomandi samvinnufélags geti gerst þar félagsmenn. Áður fyrr báru samvinnufélög meira yfirbragð framleiðslusamvinnufélaga, sem gættu þá beinna hagsmuna framleiðenda, en á því hefur orðið breyting í seinni tíð. Öflugustu samvinnufélögin á Íslandi í dag eru almenningsfélög á sínu félagssvæði, þar sem langflestir félagsmenn hafa ekki annarra hagsmuna að gæta en sem almennir borgarar á félagssvæðinu. Með hliðsjón af þessu þykir rétt að með löggjöfinni sé einnig horft til almennra hagsmuna á starfssvæði eða starfssviði félagsins.
    Tilgangur þessa frumvarps er fyrst og fremst að sporna við því að félagsmenn í samvinnufélagi geti tekið félagið yfir og útdeilt eignum þess til félagsmanna í stað þess að styðja áframhaldandi uppbyggingu á starfssvæði eða starfssviði félagsins. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fjárhæð aðildargjalds í stærri félögum, hversu stórri hlutdeild hagnaðar hvers árs megi ráðstafa til stofnfjáreigenda, og síðast en ekki síst að settar verði takmarkanir við því hversu mikið eigin fé stofnfjáreigendur geti greitt til sín ef félagsmenn eru fleiri en 100. Hluti af breytingunni er að sporna við því að hægt sé að breyta samvinnufélögum í hlutafélög. Jafnframt er lagt til að fjölda þeirra sem geta stofnað samvinnufélag verði fækkað úr fimmtán niður í þrjá til að láta reyna á hvort stofnendafjöldinn geti verið fyrirstaða fyrir framvindu þessa félagsforms, auk nokkurra annarra smávægilegra breytinga á lögum um samvinnufélög.

2.1.1. Heimild til að breyta rekstrarformi samvinnufélags felld brott.
    Í XII. kafla laga um samvinnufélög er að finna ákvæði um breytingu á rekstrarformi samvinnufélags og um slit samvinnufélaga. Í 61. gr. laganna er kveðið á um heimild félagsstjórnar til að samþykkja að breyta samvinnufélagi í hlutafélag geri félagsstjórn tillögu um slíkt. Tillaga félagsstjórnar telst samþykkt ef hún hlýtur . greiddra atkvæða. Í 2.–6. mgr. 61. gr., 61. gr. a og 61. gr. b er að finna nánari ákvæði um hvernig breyting rekstrarforms fer fram sé tillaga félagsstjórnar samþykkt.
    Framangreindum ákvæðum um heimild til að breyta rekstrarformi samvinnufélags var bætt við löggjöfina með lögum nr. 22/2001, um breytingu á lögum um samvinnufélög (rekstrarumgjörð). Jafnframt var heiti XII. kafla laganna breytt til að endurspegla framangreinda heimild til breytinga á rekstrarformi samvinnufélaga. Þá var kveðið á um heimild hlutafélaga, sem stofnuð eru skv. XII. kafla laganna, til að halda orðinu kaupfélag óstyttu í heiti sínu til að varðveita hugsanlega viðskiptavild er tengist starfsemi viðkomandi kaupfélags. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 22/2001 segir m.a. að breytingin hafi verið liður í að auka svigrúm laganna til að breyta rekstrarumgjörð samvinnufélaga þar sem heimildir laganna til útgáfu B-deildarhluta til að afla félaginu fjármagns á markaði hafi ekki reynst félögunum eins vel og ætlunin var. Því hafi þáverandi viðskiptaráðherra skipað nefnd til að gera tillögur að lagabreytingum til að auka svigrúm félaganna til breytinga á rekstrarumgjörð sinni. Frumvarp það er varð að lögum nr. 22/2001 er afrakstur nefndarstarfsins.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að heimild til að breyta rekstrarformi samvinnufélags í hlutafélag verði felld brott. Þannig er lagt til að ákvæði 61. gr., 61. gr. a og 61. gr. b laga um samvinnufélög verði felld brott. Jafnframt er lagt til að ákvæði 1. mgr. 3. gr. laganna verði fellt brott og fyrirsögn XII. kafla laganna verði breytt til að endurspegla brottfall heimildar til að breyta rekstrarformi samvinnufélags.
    Breytingatillaga þessi er liður í því að sporna við þeim möguleika að hópur félagsmanna í samvinnufélagi geti tekið félagið yfir og útdeilt eignum þess til félagsmanna í stað þess að styðja áframhaldandi uppbyggingu félagsins.

2.1.2. Fjárhæð aðildargjalds í samvinnufélögum og ráðstöfun hagnaðar til greiðslu í A-deild stofnsjóðs.
    Í 8. tölul. 5. gr. laga um samvinnufélög er kveðið á um að í samþykktum félags skuli fjallað um fjárhæð aðildargjalds, sem breyta má til samræmis við almennar verðlagsbreytingar, gjalddaga þess og greiðsluform. Í tilkynningu til samvinnufélagaskrár um stofnun félags skal greina fjárhæð aðildargjalds, gjalddaga þess og greiðsluform, sbr. 7. tölul. 11. gr. laganna. Þá segir í 18. gr. að félagsaðilar beri ekki ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins umfram greiðslu aðildargjalds og með eignaraðild að sjóðum félagsins. Í lögunum er þannig ekki kveðið á um lágmark eða hámark aðildargjalds. Þegar höfð eru í huga sjónarmið um að tryggja eigi sem flestum aðild að samvinnufélagi á sínu félagssvæði, ef þeir óska, þá er æskilegt að fjárhæð aðildargjalds sé ekki úr hófi. Hátt aðildargjald gæti leitt til fækkunar félagsmanna þar sem óeðlileg sjónarmið gætu legið að baki, svo sem um fækkun félagsmanna til að tryggja færri félagsmönnum stjórn þess. Þannig er í frumvarpinu lagt er til að fjárhæð aðildargjalds skuli ekki vera hærra en 10.000 kr. í samvinnufélögum þar sem félagsmenn eru fleiri en 100, sem breyta má miðað við 1. júní ár hvert í samræmi við vísitölu neysluverðs.
    Í VII. kafla laganna, 37.–52. gr., er að finna ákvæði um stofnsjóð og útgáfu samvinnuhlutabréfa. Í 1. mgr. 37. gr. er kveðið á um að stofnsjóður samvinnufélags sé myndaður af séreignarhlutum félagsaðila og að í hann skuli leggja aðildargjald félagsaðila, sbr. 8. tölul. 5. gr. Í stofnsjóð skal enn fremur leggja þann hluta hagnaðar sem aðalfundur ákveður, eftir að dregið hefur verið frá tap sem ekki hefur verið jafnað, og fé lagt í sjóði félagsins samkvæmt lögum eða félagssamþykktum. Með ákvæðum í samþykktum samvinnufélags má nefna stofnsjóð samkvæmt framanskráðu A-deild stofnsjóðs og jafnframt mynda sérstaka B-deild með sölu hluta samkvæmt nánari ákvæðum í þessum kafla. Einungis félagsaðilar geta átt séreignarhluta í A-deild stofnsjóðs en í B-deild þeir sem keypt hafa hlutana og fengið í hendur samvinnuhlutabréf í samræmi við það. Í 2. mgr. 37. gr. laganna er kveðið á um að árlega skuli vaxtareikna og verðbæta séreignarhluta félagsmanna í óskiptum stofnsjóði eða A-deild hans, þó með fyrirvara um ákvæði 40. og 41. gr. Skal að jafnaði miða við almenna sparisjóðsvexti og verðbætur í samræmi við almennar verðbreytingar og bætast vextir og verðbætur við höfuðstól séreignarhlutans.
    Í 1. mgr. 38. gr. er kveðið á um að nota skuli stofnsjóð, A-deild stofnsjóðs, við rekstur félagsins, en að við andlát félagsmanns komi séreignarhluti í stofnsjóði til útborgunar. Sama gildir við slit félags sem er félagsaðili í samvinnufélaginu ef lögaðilum er heimiluð aðild að því. Í 2. mgr. 38. gr. laganna er kveðið á um útgreiðslu að ósk félagsaðila ef hann flyst af félagssvæði eða af landi brott enda gangi hann úr félaginu og þegar félagsmaður hefur náð 70 ára aldri enda þótt hann haldi áfram þátttöku í félaginu.
    Í frumvarpinu er lagt til að skorður verði settar við tillögum um greiðslu hagnaðar í A-deild stofnsjóðs í samvinnufélögum sem eru burðarás atvinnulífs síns starfsfélagssvæðis og/eða með mjög sterkan efnahag, og félagsmenn fleiri en 100. Þess vegna er lagt til að aðeins megi verja að hámarki 1% af hagnaði hvers árs til greiðslu í stofnsjóði.
    Framangreindar breytingatillögur eru liður í því að sporna við þeim möguleika að hópur félagsmanna í samvinnufélagi geti tekið félagið yfir og útdeilt eignum þess til félagsmanna í stað þess að styðja áframhaldandi uppbyggingu félagsins.

2.1.3. Slit stærri samvinnufélaga.
    Samkvæmt 1. tölul. 62. gr. a laga um samvinnufélög skal slíta félagi ef ályktun þar að lútandi er samþykkt af tveimur lögmætum félagsfundum í röð og henni eru fylgjandi eigi færri en . atkvæðisbærra fundarmanna. Í deildarskiptu félagi skal bera ályktunina undir deildarfundi milli félagsfunda og þarf hún að hljóta þar samþykkt með einföldum meiri hluta greiddra atkvæða. Hafi félagsslit verið samkvæmt framansögðu getur félagsfundur annaðhvort afhent félagsbúið héraðsdómara til meðferðar eða kosið skilanefnd til þess að fara með mál félagsins meðan á félagsslitum stendur. Hafi skilanefnd verið kosin og hún löggilt í samræmi við ákvæði 62. gr. b skal nefndin birta tvívegis í Lögbirtingablaði auglýsingu um félagsslit ásamt áskorun til lánardrottna um að þeir lýsi kröfum sínum á hendur félaginu innan tiltekins tíma.
    Þegar kröfulýsingarfrestur er liðinn skal skilanefnd gera skrá um þær kröfur sem henni hafa borist og skal nefndin láta í ljós álit sitt á því hvort eða að hvað miklu leyti hún telji að viðurkenna skuli hverja kröfu. Telji skilanefnd ekki unnt að viðurkenna kröfu, að nokkru leyti eða öllu eins og henni hefur verið lýst, skal hún tilkynna hlutaðeigandi kröfuhafa um það á sannanlegan hátt og boða hann sérstaklega til þess fundar þar sem fjallað verður um lýstar kröfur. Að loknum slíkum fundi og þegar nægilegum eignum félagsins hefur verið komið í verð skal skilanefnd greiða viðurkenndar kröfur á hendur félaginu og taka frá fé til greiðslu umdeildra krafna, sbr. 1. mgr. 65. gr. laganna. Í 3. mgr. 65. gr. segir að þegar lokið er greiðslu krafna og fé hefur verið sérgreint til greiðslu umdeildra krafna skv. 1. mgr. og þegar fram er komin afstaða félagsaðila til þess að hverju leyti eignum félagsins skuli komið í verð skuli skilanefndin gera frumvarp til úthlutunargerðar til eigenda stofnsjóðs og lokareikninga félagsins. Skulu eigendur hluta í B-deild stofnsjóðs hafa forgangsrétt til greiðslu fram yfir eigendur A-deildar þar til nafnverð hluta í B-deild er að fullu greitt. Í samþykktum má ákveða að auka þennan forgangsrétt. Í samþykktunum má einnig ákveða að fé í óskiptum stofnsjóði eða í A-deild skuli renna til annarra en félagsaðila við félagsslit.
    Í frumvarpinu er lagt til að felld verði brott heimild til að kveða á um það í samþykktum félags að fé í óskiptum stofnsjóði eða í A-deild skuli renna til annarra en félagsaðila við félagsslit. Einnig er lagt til að sérstakar reglur verði settar um greiðslu fjár í óskiptum stofnsjóði eða í A-deild við slit samvinnufélags þar sem félagsmenn eru fleiri en 100 og eigið fé félagsins er að lágmarki 750.000.000 kr. Lagt er til að í tilvikum slíkra stærri félaga skuli félagsaðilar sem eiga hlut í A-deild stofnsjóðs aldrei fá greidda til sín hærri fjárhæð en sem nemur eign þeirra í sjóðnum, með að hámarki 15% álagi. Jafnframt er lagt til að í tillögu um slit félagsins skuli kveðið á um stofnun sjálfseignarstofnunar sem til skulu falla allar óráðstafaðar eftirstöðvar af eigin fé félagsins. Sjálfseignarstofnunin skal hafa það að verkefni að styðja við samfélagsverkefni til almannaheilla á fyrrum starfssvæði félagsins sem slitið er samkvæmt nánari ákvæðum í hinni samþykktu tillögu um slitin.
    Breytingatillögurnar eru liður í því að sporna við þeim möguleika að hópur félagsmanna í samvinnufélagi geti tekið félagið yfir og útdeilt eignum þess til félagsmanna í stað þess að styðja áframhaldandi uppbyggingu félagsins.

2.1.4. Fjöldi stofnenda/félagsmanna samvinnufélags.
    Samkvæmt gildandi 5. mgr. 4. gr. laganna þurfa stofnendur samvinnufélags að vera fimmtán talsins að lágmarki. Ráðherra, eða sá sem hann framselur vald sitt til, getur þó heimilað frávik frá lágmarksfjölda stofnenda samvinnufélags. Því hefur verið velt upp hvort framangreind skilyrði lágmarksfjölda stofnenda og félagsmanna hafi áhrif á val rekstraraðila á félagaformi. Því er lagt til í frumvarpinu að rýmka skilyrði um fjölda stofnenda/félagsmanna samvinnufélags til að auðvelda aðilum stofnun samvinnufélags. Með því er þeim aðilum sem hafa hug á að sameinast um rekstur á ákveðnu sviði eða ákveðnu svæði gert auðveldara að stofna félag á samvinnugrundvelli um rekstur. Óbreytt er sú hugsun að í samvinnufélögum er félagatala óbundin, stofnfé ekki fastákveðin fjárhæð, félagsmenn og aðrir félagsaðilar bera ekki persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins þó að stofnendur geti verið þrír. Í frumvarpinu er lagt til að stofnendur samvinnufélags geti fæstir verið þrír. Í því sambandi er horft til þess að ekki þarf nema einn aðila til að stofna einkahlutafélag, stofnendur hlutafélaga þurfa að lágmarki að vera tveir, og sama gildir um sameignarfélög. Einnig er lagt til að heimild ráðherra til að veita undanþágu frá lágmarksfjölda stofnenda verði felld brott.

2.1.5. Aðrar breytingar.
    Í frumvarpinu eru einnig lagðar til þrjár aðrar breytingar á lögum um samvinnufélög.
    Í fyrsta lagi er lagt til að í stað þess að vísa til hluthafafundar í 1. mgr. 36. gr. laganna verði vísað til félagsfundar. Ákvæði 36. gr. laganna á sér fyrirmynd í 57. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995. Um augljósa misritun í ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um samvinnufélög er að ræða þar sem fundir félagsmanna í samvinnufélögum eru félagsfundir en ekki hluthafafundir.
    Í öðru lagi er lagt til að 6. tölul. 62. gr. a laganna verði felldur brott. Í ákvæðinu er kveðið á um að samvinnufélagi skuli slitið ef endurskoðaðir og samþykktir ársreikningar hafa ekki verið sendir ársreikningaskrá fyrir þrjú síðustu reikningsár, sbr. ákvæði laga um ársreikninga um skil á ársreikningum. Í 120. gr. laga um ársreikninga, nr. 3/2006, er að finna ákvæði um stjórnvaldssektir vegna skila á ársreikningi. Í ákvæðinu er ársreikningaskrá m.a. gert að leggja stjórnvaldssekt á félög sem falla undir gildissvið laganna standi þau ekki skil á ársreikningi eða samstæðureikningi til opinberrar birtingar innan þeirra tímamarka sem kveðið er á um í 109. gr. laganna. Almennur skilafrestur ársreikninga og samstæðureikninga samkvæmt ákvæði 109. gr. er eigi síðar en átta mánuðum frá lokum reikningsárs en eigi síðar en fjórum mánuðum eftir lok reikningsárs hjá félögum sem hafa hlutabréf sín eða skuldabréf skráð á skipulegum markaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, sem og félögum sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum samkvæmt heimild í 92. gr. laganna. Í 121. gr. laga um ársreikninga er svo kveðið á um skipti á búi félags sem ekki hefur skilað ársreikningi eða samstæðureikningi innan sex mánaða frá því að frestur skv. 109. gr. til skila á ársreikningi eða samstæðureikningi er liðinn eða frá því að ársreikningaskrá hefur komist að þeirri niðurstöðu að skýringar eða upplýsingar með ársreikningi eða samstæðureikningi sem lagður hefur verið fram til opinberrar birtingar hafi ekki verið fullnægjandi. Er ársreikningaskrá þá gert að krefjast skipta á búi félagsins. Ákvæði 120. og 121. gr. um sektarákvörðun og ákvörðun um að krefjast skipta eru ítarleg hvað ákvörðunartökuna og málsmeðferð varðar og er þar kveðið á um strangari kröfur en gert er í lögum um samvinnufélög. Þykir því rétt fella ákvæði 6. tölul. 62. gr. a laganna brott og er það í samræmi við þær breytingar sem áður hafa verið gerðar á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög.
    Í þriðja lagi er lagt til að ákvæði til bráðabirgða II í lögunum um sértækt endurmat verði fellt brott. Í ákvæðinu er kveðið á um heimild samvinnufélags til að endurmeta séreignarhluti félagsaðila í A-deild stofnsjóðs félagsins fyrir árslok 2004. Skal endurmatið þá byggt á verðmæti hreinnar eignar félags í árslok 1996, samkvæmt lögum um ársreikninga, að teknu tilliti til opinberra gjalda, sem tengd eru því ári, og varasjóðs eða fjárfestingarsjóðs sem myndaður hefur verið samkvæmt eldri skattalögum og ekki verið leystur upp og tekjufærður fyrir þann tíma. Þá er kveðið á um að ákvæði 7. mgr. 61. gr. gildi um innbyrðis skiptingu félagsmanna og að ákvæði 4.–6. mgr. 38. gr. laganna gildi um ákvörðun samkvæmt greininni. Í ákvæðinu er þannig kveðið á um heimild til sértæks endurmat sem er frábrugðið því endurmati sem kveðið er á um í 38. gr. laganna um hækkun séreignarhluta félagsaðila í A-deild stofnsjóðs. Ákvæði til bráðabirgða II kom nýtt inn í lög um samvinnufélög með lögum nr. 22/2001. Hygðist samvinnufélag nýta sér heimild um sértækt endurmat samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II skyldi það fara fram fyrir árslok 2003. Ákvæðið hefur því ekki raunhæft gildi lengur og er því lagt til að það verði fellt brott.

2.2. Breyting á lögum um Evrópufélög, nr. 26/2004, og lögum um evrópsk samvinnufélög, nr. 92/2006.
    Eins og fyrr segir voru með lögum um Evrópufélög, nr. 26/2004, innleidd ákvæði reglugerðar ráðsins (EB) nr. 2157/2001 frá 8. október 2001 um samþykktir fyrir Evrópufélög (SE) og hafa ákvæði reglugerðarinnar lagagildi hér á landi. Í framangreindum lögum er ekki að finna almenna reglugerðarheimild ráðherra eins og almennt er í félagalöggjöfinni hérlendis og er því í frumvarpinu lagt til að kveðið verði á um slíka heimild í lögunum.
    Sama á við um lög um evrópsk samvinnufélög, nr. 92/2006, en með þeim lögum voru innleidd ákvæði reglugerðar ráðsins (EB) nr. 1435/2003 frá 22. júlí 2003 um samþykktir fyrir evrópsk samvinnufélög (SCE) og hafa ákvæði reglugerðarinnar lagagildi hér á landi. Í löggjöfinni er ekki að finna almenna reglugerðarheimild ráðherra eins og almennt er í félagalöggjöfinni hérlendis og er því í frumvarpinu lagt til að kveðið verði á um slíka heimild í lögunum.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið felur að meginstefnu til í sér fjórþættar breytingatillögur.
    Í fyrsta lagi er í frumvarpinu að finna tillögur sem miða að því að þrengja reglur um slit á samvinnufélagi með það að markmiði að tryggja starfsemi félags með almenna hagsmuni á starfssvæði eða starfssviði viðkomandi félags að leiðarljósi. Er þannig í 1. og 6. gr. frumvarpsins lagt til að felld verði brott heimild til að breyta samvinnufélagi í hlutafélag og jafnframt er í 9. gr. frumvarpsins lagt til að fyrirsögn XII. kafla laganna verði breytt til samræmis og orðin „Breyting á rekstrarformi samvinnufélaga“ felld brott í fyrirsögn kaflans. Í 3. gr. er lagt til að þak verði sett á fjárhæð aðildargjalds hjá samvinnufélögum með yfir 100 félagsmenn til að auðvelda þeim sem vilja að taka þátt í starfsemi samvinnufélags á sínu starfssvæði eða starfssviði. Í 5. gr. er lagt til að þak verði sett á ráðstöfun hagnaðar til greiðslu í A-deild stofnsjóðs. Í a-lið 7. gr. er lagt til að í samvinnufélögum með fleiri en 100 félagsmenn þurfi samþykki ¾ hluta atkvæðisbærra fundarmanna til, á tveimur félagsfundum með a.m.k. tólf mánaða millibili, til að samþykkja slit félags. Þar sem við á skal deildarfundur fjalla um og samþykka tillögu um slit félags áður en tillagan kemur til umræðu og atkvæðagreiðslu á félagsfundi.
    Í öðru lagi er í frumvarpinu að finna tillögur að breytingum á fjölda stofnenda og félagsmanna samvinnufélaga þar sem lagt er til stofnendur og félagsmenn geti verið þrír hið fæsta. Þykir óþarflega íþyngjandi að kveða á um að stofnendur geti fæstir verið 15 en að heimilt sé að veita undanþágu þar frá, sbr. 2. gr. og b-lið 7. gr. frumvarpsins.
    Í þriðja lagi er í frumvarpinu að finna þrjár tillögur að breytingum á lögunum til lagfæringar, sbr. 4. gr., c-lið 7. gr. og 10. gr. frumvarpsins. Þannig er m.a. lagt til að ákvæði um skipti á búi félags sem ekki skilar ársreikningi eða samstæðureikningi til ársreikningaskrár í samræmi við lög um ársreikninga verði fellt brott þar sem í lögum um ársreikninga er að finna ítarleg ákvæði um stjórnvaldssektir og kröfu um skipti á búi félags sem ekki sinnir skilaskyldu samkvæmt lögunum. Einnig er lagt til að ákvæði um sértækt endurmat í ákvæði til bráðabirgða II verði fellt brott þar sem það hefur ekki lengur efnislega þýðingu.
    Í fjórða lagi er í frumvarpinu að finna tillögur að breytingum á ákvæðum laga um Evrópufélög, nr. 26/2004, og laga um evrópsk samvinnufélög, nr. 92/2006, þar sem lagt er til að kveðið verði á um heimild ráðherra til að setja reglugerð um framkvæmd laganna, sbr. 11. og 12. gr. frumvarpsins.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið þykir ekki fela í sér álitaefni sem kalli á sérstaka umfjöllun um samræmi við stjórnarskrá.
    Í II. og III. kafla frumvarpsins er að finna tillögur að breytingum á lögum um Evrópufélög og lögum um evrópsk samvinnufélög en með framangreindum lagabálkum voru innleidd ákvæði reglugerða ráðsins (EB) nr. 2157/2001 og nr. 1435/2003 um framangreind félagaform. Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu á framangreindum lagabálkum eru í samræmi við ákvæði EES-samningsins, eins og viðauka XXII við samninginn hefur verið breytt með upptöku gerðanna í samninginn. Að öðru leyti þykir frumvarpið ekki kalla á sérstaka umfjöllun um samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir fyrst og fremst samvinnufélög sem skráð eru í samvinnufélagaskrá samkvæmt lögum nr. 22/1991 og félagsmenn þeirra. Tillögur frumvarpsins um takmörkun á útgreiðslu til félagsmanna við slit félags og um hámarksfjárhæð aðildargjalds taka eingöngu til stærri félaga, þ.e. samvinnufélaga þar sem félagsmenn eru 100 eða fleiri.
    Frumvarpið var kynnt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is dagana 11.–19. mars 2024, mál nr. S-82/2024. Tvær umsagnir bárust um frumvarpið og fjölluðu þær annars vegar um rýmkun stofnendaskilyrða laganna og hins vegar um ákvæði 37. gr. frumvarpsins. Hvað umsögn um stofnendaskilyrði laganna varðar þá lýsti umsagnaraðili yfir ánægju með tillögur frumvarpsins um að skilyrði um stofnun samvinnufélags verði rýmkuð. Hvað umsögn um 37. gr. frumvarpsins varð þá gerð athugasemd við þá tillögu að stærri samvinnufélögum sé einungis heimilað að ráðstafa 1% af hagnaði hvers árs til greiðslu í A- deild stofnsjóðs félags en þó aldrei hærri fjárhæð en 50.000 kr. á hvern félagsmann. Telur umsagnaraðili að hætt sé við því að tillagan leiði til þess að þær vaxtagreiðslur sem eigendur A-deildar í ákveðnum samvinnufélögum fái séu í engu samræmi við þau vaxtakjör sem í boði eru hjá innlánsstofnunum og því sé töluverð hætt á að séreign félagsmanna rýrni við ákveðið vaxta- og verðbólgustig.
    Markmiðið með frumvarpinu er eins og fyrr segir fyrst og fremst að sporna við því að félagsmenn í samvinnufélagi geti tekið félagið yfir og útdeilt eignum þess til félagsmanna í stað þess að styðja áframhaldandi uppbyggingu á starfssvæði eða starfssviði félagsins. Tillaga 37. gr. frumvarpsins er ein af tillögum frumvarpsins sem settar eru fram til að ná framangreindu markmiði en tillagan tekur eingöngu til samvinnufélaga með fleiri en 100 félagsmenn. Eins fram kemur í kafla 2 í greinargerð frumvarpsins eru öflugustu samvinnufélögin á Íslandi í dag almenningsfélög á sínu félagssvæði, þar sem langflestir félagsmenn hafa ekki annarra hagsmuna að gæta en sem almennir borgarar á félagssvæðinu. Með hliðsjón af þessu þykir rétt að með löggjöfinni sé einnig horft til almennra hagsmuna á starfssvæði eða starfssviði félagsins. Með vísan til þessa hefur viðmiðum ákvæðisins ekki verið breytt. Rétt er að taka fram að breytingin sem lögð er til á 1. mgr. 37. gr. hefur ekki áhrif á ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna þar sem kveðið er á um að árlega skuli vaxtareikna og verðbæta séreignarhluta félagsmanna í óskiptum stofnsjóði eða A-deild hans og að jafnaði skuli hafa til viðmiðunar almenna sparisjóðsvexti og verðbætur í samræmi við almennar verðbreytingar í þjóðfélaginu og skulu vextir og verðbætur bætast við höfuðstól séreignarhlutans. Til skýringar hefur verið hnykkt á því í greinargerð með frumvarpinu að ákvæði 2. mgr. 37. gr. gildi um höfuðstól séreignahlutans.

6. Mat á áhrifum.
    Eins og fyrr segir eru með frumvarpinu lagðar til breytingar á lögum um samvinnufélög, nr. 22/1991, lögum um Evrópufélög, nr. 26/2004, og lögum um evrópsk samvinnufélög, nr. 92/2006. Markmiðið með þeim breytingum sem lagðar eru til er fyrst og fremst að renna tryggari stoðum undir rekstur samvinnufélaga, sem og að auðvelda stofnun slíkra félaga. Tillögur frumvarpsins miða þannig að því að sporna við því að félagsmenn í samvinnufélagi geti tekið félagið yfir og útdeilt eignum þess til félagsmanna og að lækka lágmarksfjölda stofnenda samvinnufélaga. Jafnframt er í frumvarpinu lagt til að almenn reglugerðarheimild verði sett í lög um um Evrópufélög og lög um evrópsk samvinnufélög, auk annarra minni háttar breytinga á lögum um samvinnufélög. Ekki er gert ráð fyrir að lagasetningin hafi í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð.
    Lagasetningin hefur í för með sér samfélagslegan ávinning en eins og fyrr segir er markmiðið með lagasetningunni fyrst og fremst að renna tryggari stoðum undir rekstur samvinnufélaga en þau hafa mörg hver orðið hryggjarstykkið í atvinnulífinu á félagssvæði sínu.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að fellt verði brott ákvæði um að félagi sem breytt er úr samvinnufélagi í hlutafélag skv. XII. kafla laga um samvinnufélög sé heimilt að halda orðinu „kaupfélag“ í heiti sínu, skrifað fullum fetum, eftir breytinguna. Framangreindri heimild var bætt við lögin með lögum nr. 22/2001 og var tilgangurinn að gera slíkum félögum kleift að varðveita hugsanlega viðskiptavild sem tengdist starfsemi viðkomandi kaupfélags.
    Eins og fram kemur kafla 2.1 er tilgangur þessa að sporna við því að hópur félagsmanna í samvinnufélagi geti tekið það yfir og útdeilt eignum þess til félagsmanna í stað þess að styðja áframhaldandi uppbyggingu félagsins. Er ákvæði 1. gr. hluti af þeim breytingum sem gerðar eru til að ná framangreindu markmiði frumvarpsins.

Um 2. gr.

    Samkvæmt gildandi lögum þurfa stofnendur samvinnufélags að vera fimmtán talsins að lágmarki. Ráðherra, eða sá sem hann framselur vald sitt til, getur þó heimilað frávik frá lágmarksfjölda stofnenda samvinnufélags. Í 2. gr. er lagt til að lágmarksfjöldi stofnenda samvinnufélags geti verið þrír. Í því sambandi er horft til þess að ekki þarf nema einn aðila til að stofna einkahlutafélag, stofnendur hlutafélaga þurfa að lágmarki að vera tveir, og sama gildir um sameignarfélög. Einnig er í ákvæði 2. gr. lagt til að fellt verði brott ákvæði um heimild ráðherra til að veita undanþágu frá lágmarksfjölda stofnenda samvinnufélags.

Um 3. gr.

    Í 8. tölul. 5. gr. laganna er kveðið á um að í samþykktum samvinnufélags eigi að ákveða fjárhæð aðildargjalds, sem breyta megi til samræmis við almennar verðlagsbreytingar, gjalddaga þess og greiðsluform. Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að takmörk verði sett á fjárhæð aðildargjalds í samþykktum samvinnufélags þar sem félagsmenn eru 100 eða fleiri. Með tillögunni er horft til hags allra félagsmanna í stærri samvinnufélögum þar sem gera má ráð fyrir að félagsaðild sé almennari og hafi þýðingu fyrir almenna hagsmuni á hinu skilgreinda starfssvæði eða starfssviði félags.
    Með hliðsjón af sjónarmiðum um að tryggja eigi sem flestum aðild að samvinnufélagi á sínu félagssvæði, ef þeir óska, þá er æskilegt að fjárhæð aðildargjalds sé ekki úr hófi. Hátt aðildargjald gæti leitt til fækkunar félagsmanna, þar sem óeðlileg sjónarmið gætu legið að baki, svo sem um fækkun félagsmanna til að tryggja færri félagsmönnum stjórn félags. Í þeim samvinnufélögum sem geta kallast almenningsfélög þá er félagsaðild einvörðungu bundin því að umsækjandi eigi lögheimili á félagssvæðinu og að hann greiði uppsett aðildargjald. Yfirleitt er aðildargjaldið lágt. Önnur sjónarmið geta átt við um fámennari samvinnufélög sem helga sig ákveðinni framleiðslu eða viðskiptahugmynd.

Um 4. gr.

    Lagt er til að orðinu „hluthafafundi“ í 3. málsl. 1. mgr. 36. gr. laganna skuli breytt í „félagsfundi“. Ákvæði 36. gr. laganna á sér fyrirmynd 57. gr. laga um hlutafélög. Um augljósa misritun er að ræða í lagatextanum þar sem fundir félagsmanna í samvinnufélögum eru félagsfundir en ekki hluthafafundir.

Um 5. gr.

    Stofnsjóður samvinnufélags, í dag oftast kallaður A-deild stofnsjóðs til aðgreiningar frá B-deild stofnsjóðs, er myndaður af séreignarhlutum félagsaðila eins og segir í 37. gr. laganna. Í stofnsjóðinn er lagt andvirði aðildargjalds félagsmanns, en auk þess skal leggja í sjóðinn „þann hlut hagnaðar, sem aðalfundur ákveður, eftir að dregið hefur verið frá tap, sem ekki hefur verið jafnað, og fé lagt í sjóði félagsins samkvæmt lögum eða félagssamþykktum.“ Lög um samvinnufélög gera ráð fyrir að árlega skuli séreignarhluti félagsmanna í óskiptum stofnsjóði vaxtareiknaður og verðbættur, sjá 2. mgr. 37. gr. Horfa skal til almennra sparisjóðsvaxta og almennra verðbreytinga í þjóðfélaginu í því sambandi.
    Í reynd hefur framkvæmdin verið sú, að stofnsjóðsinneign félagsmanna í óskiptum stofnsjóði er árlega vöxtuð og verðbætt, en óvenjulegt er ef aðalfundir/félagsfundir leggja til frekari greiðslur til stofnsjóðs félagsmanna.
    Nokkur samvinnufélög hérlendis, með mörgum félagsmönnum, standa mjög vel fjárhagslega og eru með sterkan efnahag. Sú hætta er raunverulega fyrir hendi, að óbreyttum lögum, að sumir félagsmenn taki sig saman um að leggja til að verulegar fjárhæðir verði greiddar til félagsmanna í óskiptan stofnsjóð þeirra. Að vísu getur sú fjárhæð aldrei orðið hærri en stjórn leggur til, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna, en væntanlega gætu slík áform einnig endurspeglast í stjórnarkjöri samvinnufélags.
    Til að sporna við slíkum hugmyndum er lagt til að skorður verði settar við tillögum um greiðslu hagnaðar í A-deild stofnsjóðs í samvinnufélögum sem eru burðarás atvinnulífs síns starfssvæðis og/eða með mjög sterkan efnahag, og félagsmenn fleiri en 100. Þess vegna er lagt til að aðeins megi verja að hámarki 1% af hagnaði hvers árs til greiðslu í stofnsjóð þó aldrei hærri fjárhæð en 50.000 kr. á hvern félagsmanna. Þeirri fjárhæð skal breytt miðað við 1. júní ár hvert í samræmi við vísitölu neysluverðs. Þrátt fyrir þessa fyrirhuguðu breytingu stendur óbreytt ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna og gildir það áfram um óskiptan stofnsjóð eða A-deild hans. Í ákvæðinu er kveðið á um að árlega skuli vaxtareikna og verðbæta séreignarhluta félagsmanna í óskiptum stofnsjóði eða A-deild hans. Í ákvæðinu er kveðið á um að jafnaði skuli hafa til viðmiðunar almenna sparisjóðsvexti og verðbætur í samræmi við almennar verðbreytingar í þjóðfélaginu og vextir og verðbætur skuli bætast við höfuðstól séreignarhlutans.

Um 6. gr.

    Í 6. gr. er lagt til að ákvæði 61. gr., 61. gr. a og 61. gr. b verði felld brott en í þeim er kveðið á um heimild til breytinga á rekstrarformi samvinnufélags í hlutafélag. Ekki er vitað til þess að heimild 61. gr. laganna um að breyta samvinnufélagi í hlutafélag hafi verið nýtt. Af þeirri ástæðu er lagt til að heimildin verði felld brott úr lögunum, en tilgangur breytingarinnar tengist einnig hugmyndum um að setja skorður við útgreiðslu eigin fjár til eigenda stofnsjóðs, sem opnað er á með því að breyta samvinnufélagi í hlutafélag.

Um 7. gr.

    Í a-lið 7. gr. er lagt til að kveðið verði á um það í 1. tölul. 62. gr. a laganna að í samvinnufélögum þar sem félagsmenn eru fleiri en 100 skuli ályktun um slit samþykkt með ¾ atkvæðisbærra fundarmanna á tveimur félagsfundum með a.m.k. tólf mánaða millibili. Einnig er lagt til að í félagi, sem skiptist í deildir, skuli fyrir félagsfundina á deildarfundi fjalla um ályktun um slit og samþykkja með sama aukna meirihlutanum. Í gildandi 1. tölul. 62. gr. a er kveðið á um að formleg slit samvinnufélags samkvæmt ákvörðun félagsmanna sé aðeins gild að hún sé samþykkt á tveimur lögmætum félagsfundum í röð og tillögunni séu fylgjandi a.m.k. . atkvæðisbærra fundarmanna. Ef til slita samvinnufélags kemur ber að greiða allar skuldir fyrst, en síðan ber að gera frumvarp til úthlutunargerðar til eigenda stofnsjóðs og lokareikningur félagsins gerður. Með öðrum orðum þá eiga allar eignir að falla til félagsmanna við slit. Ekki er líklegt að umræða um slit komi upp í samvinnufélagi sem gengur vel og er í arðbærum rekstri. Hins vegar getur í öflugu samvinnufélagi með sterkan efnahag verið ákveðin freisting til að slíta félagi og komast þannig yfir óráðstafað eigið fé félagsins. Til að koma í veg fyrir þankagang í framangreinda veru, sérstaklega þegar í hlut eiga sterk samvinnufélög, sem eru almenningsfélög á sínu félagssvæði, þykir rétt að sníða þennan möguleika úr lögum um samvinnufélög og þrengja framkvæmd og úthlutun eigna samvinnufélags við slit. Þótti einnig rétt að leggja til að gerð yrði krafa um að ákveðinn tími líði á milli hinna lögmætu félagsfunda sem taka ákvörðun um slit. Sem og að takmarka útgreiðslu eigin fjár samvinnufélaga til félagsmanna sinna við slit þeirra, en í þess stað verði eigin fé sem út af stendur, þegar gert hefur verið upp við eigendur stofnsjóða, komið fyrir í sjálfseignarstofnun með skýrum tilgangi, sem tilgreindur er í samþykktum viðkomandi samvinnufélags, til samfélagsverkefna og almannaheilla á félagssvæði samvinnufélagsins. Það mætti hugsa sér að það færi eftir fjárhæð eigin fjár sem út af stendur hversu langan tíma sjálfseignarstofnunin ætlaði í þau verkefni sem henni verða falin. Hér er gerð tillaga um að tólf mánuðir hið minnsta skuli líða á milli félagsfunda þar sem fjallað er um slit félags og að hlutfall samþykkjenda verði hækkað upp í ¾ þar sem félagsmenn eru 100 eða fleiri.
    Í 8. gr. frumvarpsins eru lagðar til frekari takmarkanir á útgreiðslu til félagsmanna stærri samvinnufélaga. Þar er lagt til að þar sem félagsmenn eru fleiri en 100 og eigið fé félagsins er a.m.k. 750.000.000 kr., skuli félagsaðilar sem eiga hlut í A-deild stofnsjóðs aldrei fá greidda til sín hærri fjárhæð en sem nemur eign þeirra í sjóðnum, með að hámarki 15% álagi, og að sjálfseignarstofnun taki við óráðstöfuðu eigin fé til varðveislu og ávöxtunar til styrktar samfélagsverkefnum á sviði almannaheilla á starfssvæði félagsins sem slitið er í samræmi við ákvæði í sjálfri tillögunni sem fjallar um slit félagsins. Segja má að sjónarmiðum, sem tilgreind hafa verið hér að framan, svipi til ákvæða í VIII. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, þar sem með sambærilegum hætti er spornað við því að stofnfjáreigendur hluta í sparisjóðum geti selt þá á hærra verði en nafnverði þeirra.
    Í b-lið 7. gr. er lagt til að verði félagsmenn í samvinnufélagi færri en þrír skuli félaginu slitið. Tillagan er í samræmi við 2. gr. frumvarpsins um lágmarksfjölda stofnenda samvinnufélags. Áfram er gert ráð fyrir að félagsaðilar samvinnusambands geti að lágmarki verið þrír.
    Í c-lið 7. gr. er lagt til að ákvæði 6. tölul. 62. gr. a laganna verði felld brott. Í ákvæðinu er kveðið á um að samvinnufélagi skuli slitið ef endurskoðaðir og samþykktir ársreikningar hafa ekki verið sendir ársreikningaskrá fyrir þrjú síðustu reikningsár, sbr. ákvæði laga um ársreikninga um skil á ársreikningum. Í 120. gr. laga um ársreikninga, nr. 3/2006, er að finna ákvæði um stjórnvaldssektir vegna skila á ársreikningi. Í ákvæðinu er ársreikningaskrá m.a. gert að leggja stjórnvaldssekt á félög sem falla undir gildissvið laganna, þ.m.t. samvinnufélög, standi þau ekki skil á ársreikningi eða samstæðureikningi til opinberrar birtingar innan þeirra tímamarka sem kveðið er á um í 109. gr. laganna. Almennur skilafrestur ársreikninga og samstæðureikninga skv. 109. gr. er eigi síðar en átta mánuðum frá lokum reikningsárs en eigi síðar en fjórum mánuðum eftir lok reikningsárs hjá félögum sem hafa hlutabréf sín eða skuldabréf skráð á skipulegum markaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, sem og félögum sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum samkvæmt heimild í 92. gr. laganna. Í 121. gr. laga um ársreikninga er svo kveðið á um skipti á búi félags sem ekki hefur skilað ársreikningi eða samstæðureikningi innan sex mánaða frá því að frestur skv. 109. gr. til skila á ársreikningi eða samstæðureikningi er liðinn eða frá því að ársreikningaskrá hefur komist að þeirri niðurstöðu að skýringar eða upplýsingar með ársreikningi eða samstæðureikningi sem lagður hefur verið fram til opinberrar birtingar hafi ekki verið fullnægjandi. Er ársreikningaskrá þá gert að krefjast skipta á búi félagsins. Ákvæði 120. og 121. gr. laga um ársreikninga um sektarákvörðun og ákvörðun um að krefjast skipta eru ítarleg hvað ákvörðunartökuna og málsmeðferð varðar og er þar kveðið á um strangari kröfur en gert er í lögum um samvinnufélög. Þykir því rétt fella ákvæði 6. tölul. 62. gr. a laga um samvinnufélög brott og er það í samræmi við þær breytingar sem áður hafa verið gerðar á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög.

Um 8. gr.

    Lagt er til að við slit samvinnufélags þar sem félagsmenn eru fleiri en 100 og eigið fé félagsins er a.m.k. 750.000.000 kr. skuli félagsaðilar sem eiga hlut í A-deild stofnsjóðs aldrei fá greidda til sín hærri fjárhæð en sem nemur eign þeirra í sjóðnum auk 15% álags að hámarki og að stofna skuli sjálfseignarstofnun sem allar óráðstafaðar eftirstöðvar af eigin fé félagsins skulu renna til. Skal tilgangur sjálfseignarstofnunar vera að styðja við samfélagsverkefni til almannaheilla á starfssvæði hins slitna samvinnufélags samkvæmt samþykktri tillögu um slit félagsins. Þannig er lagt til að sjálfseignarstofnun taki við óráðstöfuðu eigin fé hins slitna samvinnufélags til varðveislu og ávöxtunar til styrkar samfélagsverkefnum á sviði almannaheilla á félagssvæði hins slitna félags í samræmi við ákvæði í sjálfri tillögunni sem fjallar um slit félagsins. Segja má að sjónarmiðum, sem tilgreind hafa verið hér að framan, svipi til ákvæða í VIII. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, þar sem með sambærilegum hætti er spornað við því að stofnfjáreigendur hluta í sparisjóðum geti selt þau á hærra verði en nafnverði þeirra. Sjá einnig skýringu við a-lið 7. gr.

Um 9. gr.

    Lagt til að fyrirsögn XII. kafla laganna verði breytt. Fyrirsögn kaflans er nú „Breyting á rekstrarformi samvinnufélaga og slit samvinnufélaga“ en lagt er til að fyrirsögnin verði „Slit samvinnufélaga“.

Um 10. gr.

    Lagt er til að ákvæði til bráðabirgða II um sértækt endurmat skuli fellt brott. Ákvæðið hefur ekki raunhæft gildi í dag þar sem í því er kveðið á um að hið sértæka endurmat skyldi framkvæmt fyrir árslok 2004.

Um 11. gr.

    Með lögum um Evrópufélög, nr. 26/2004, er reglugerðar ráðsins (EB) nr. 2157/2001 frá 8. október 2001, um samþykktir fyrir Evrópufélög (SE), veitt lagagildi hér á landi og sett nánari ákvæði um Evrópufélög í samræmi við reglugerðina. Ákvæðin taka eingöngu til Evrópufélaga sem skráð eru hér á landi nema annað sé tekið fram í lögunum. Í lögum um Evrópufélög er ekki að finna almenna reglugerðarheimild ráðherra eins og almennt er í félagalöggjöfinni hérlendis og er því í 11. gr. frumvarpsins lagt til að kveðið verði á um slíka heimild í lögunum.

Um 12. gr.

    Með lögum um evrópsk samvinnufélög, nr. 92/2006, voru innleidd ákvæði reglugerðar ráðsins (EB) nr. 1435/2003 frá 22. júlí 2003, um samþykktir fyrir evrópsk samvinnufélög (SCE) og hafa ákvæði reglugerðarinnar lagagildi hér á landi í samræmi við bókun 1 um altæka aðlögun að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, þar sem bókunin er lögfest. Reglugerðin er prentuð sem fylgiskjal með lögunum. Með lögunum voru innleidd ákvæði reglugerðar ráðsins (EB) nr. 1435/2003 frá 22. júlí 2003, um samþykktir fyrir evrópsk samvinnufélög (SCE) og sett nánari ákvæði um slík félög. Lögin taka eingöngu til evrópskra samvinnufélaga sem skráð eru hér á landi nema annað sé tekið fram í lögunum. Í lögum um evrópsk samvinnufélög er ekki að finna almenna reglugerðarheimild ráðherra eins og almennt er í félagalöggjöfinni hérlendis og er því í 12. gr. frumvarpsins lagt til að kveðið verði á um slíka heimild í lögunum.

Um 13. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi.