Ferill 943. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1390  —  943. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008 (heimavistir í opinberum framhaldsskólum).

Flm.: Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Ágúst Bjarni Garðarsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Þórarinn Ingi Pétursson.


1. gr.

    Við 46. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ef tveir eða fleiri framhaldsskólar koma saman að stofnun heimavistar er þeim heimilt að móta stjórn um starfsemi heimavistarinnar og færa daglega umsýslu og rekstur hennar til þriðja aðila.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Á Íslandi bjóða 38 skólar upp á nám á framhaldsskólastigi. Mesta fjölbreytni í námi er að finna á höfuðborgarsvæðinu en þar má finna fjölbreytta sérskóla á framhaldsskólastigi, má þar nefna Menntaskóla í tónlist, en auk hans eru margar námsbrautir einungis í boði í Reykjavík, t.d. tilteknar iðn- og listgreinar. Því er skiljanlegt að margir nemendur leiti þangað til að stunda nám við framhaldsskóla. Nemendum á landsbyggðinni stendur víða til boða að búa á heimavist eða nemendagörðum gegn vægu gjaldi. Á landinu öllu eru 11 skólar sem bjóða upp á heimavist en Hússtjórnarskólinn í Reykjavík er eini skólinn á höfuðborgarsvæðinu sem býður upp á heimavist.
    Húsnæðisvandi ungs fólks sem flytur af landsbyggðinni til að stunda nám í framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu hefst gjarnan að loknum grunnskóla við 16 ára aldur. Algengt er að foreldrar þeirra ungmenna leiti á náðir ættingja og vinafólks. Þeir sem eru ekki í aðstöðu til þess verða að leigja á almennum markaði með tilheyrandi kostnaði.
    Húsnæðisvandi ungs fólks einskorðast ekki við stúdenta og barnafjölskyldur því hann á einnig við um ungt fólk sem flytur utan af landi til að stunda nám í framhaldsskóla. Lög um húsnæðisbætur, nr. 75/2016, kveða á um skilyrði fyrir húsnæðisbótum, m.a. að „um sé að ræða íbúðarhúsnæði hér á landi sem felur í sér venjulega og fullnægjandi heimilisaðstöðu þar sem að lágmarki er eitt svefnherbergi ásamt séreldhúsi eða séreldunaraðstöðu, sérsnyrtingu og baðaðstöðu“, sbr. c-lið 2. mgr. 9. gr. laganna.
    Samkvæmt lögum um námsstyrki, nr. 79/2003, eiga nemendur á framhaldsskólastigi, sem uppfylla tiltekin skilyrði, rétt á námsstyrk til að jafna fjárhagslegan aðstöðumun vegna búsetu. Réttar til námsstyrkja njóta íslenskir ríkisborgarar eða tilteknir erlendir ríkisborgarar sem stunda reglubundið framhaldsskólanám hér á landi eða erlendis ef ekki er unnt að stunda sambærilegt nám frá lögheimili hér á landi eða öðrum jafngildum dvalarstað.
    Enn fremur eiga þeir nemendur rétt á námsstyrk sem ekki hafa náð 18 ára aldri og stunda reglubundið nám sem miðar að skilgreindum námslokum við fræðasvið háskóla sem hlotið hefur viðurkenningu ráðherra samkvæmt lögum um háskóla. Réttar til námsstyrks njóta þeir sem er torvelt um nám sökum efnaleysis eða þeir sem verða að dveljast fjarri fjölskyldu sinni vegna námsins, enda sé ekki unnt að stunda sambærilegt nám frá lögheimili eða öðrum dvalarstað.
    Styrkurinn skiptist í dvalarstyrk, skólaakstursstyrk og sérstakan styrk fyrir efnalitla nemendur, sbr. 3. gr. laganna. Akstursstyrkur er ætlaður nemendum sem keyra daglega í skólann frá lögheimili sínu og sömuleiðis þeim sem búa ekki í foreldrahúsum en geta ekki sýnt fram á leigugreiðslur. Dvalarstyrkur er ætlaður nemendum sem flytja a.m.k. 30 km frá lögheimili sínu til að geta stundað nám. Samkvæmt 46. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, er heimilt að kveða á um rekstur heimavistar við framhaldsskóla í samningum milli ráðuneytis og framhaldsskóla. Enn fremur segir í greininni: „Ráðherra leitar heimilda í fjárlögum til þess að mæta kostnaði við umsjón og almennan rekstur. Nemendur bera sjálfir hluta sérgreinds kostnaðar í heimavistum sem skilgreindur er í reglugerð sem ráðherra setur. Skólameistari ber ábyrgð á starfsemi heimavistar, en getur með samningi falið öðrum að annast daglega umsýslu og rekstur.“
    Í núverandi fyrirkomulagi á nemandi á höfuðborgarsvæðinu betri möguleika á að stunda nám hvar sem er á landinu en nemandi af landsbyggðinni sem ákveður að stunda nám á höfuðborgarsvæðinu. Mikilvægt er að bæta stöðu aðfluttra framhaldsskólanema á höfuðborgarsvæðinu. Samhliða afgreiðslu frumvarpsins er mikilvægt að leitast verði við að stofna heimavist á höfuðborgarsvæðinu. Nærtækast er að mennta- og barnamálaráðherra leiði vinnu við að stofna heimavist á svæðinu í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu og Samband íslenskra framhaldsskólanema. Heimavistinni verði falið að taka aðallega við nemendum sem hafa búsetu úti á landi en stunda nám í framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu.
    Með því að heimila sameiginlegan rekstur heimavista má ætla að fleiri skólar geti boðið upp á slíka þjónustu fyrir nemendur. Það eykur möguleika þeirra sem búa á landsbyggðinni til að stunda fjölbreytt nám óháð efnahag. Samþykkt frumvarpsins hefði því ótvírætt þau áhrif að auka fjölbreytni í flóru þeirra nemenda sem sækja nám við framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu. Þeir nemendur sem hefðu heimild til dvalar á heimavistinni væru innritaðir nemendur framhaldsskóla sem stæðu saman að heimavistinni. Nemandi væri á ábyrgð þess skóla sem hann er innritaður í á heimavistinni, rétt eins og á heimavistum þar sem einungis einn skóli er með heimavist.
    Mikilvægt er að koma á fót heimavist á höfuðborgarsvæðinu fyrir framhaldsskólanema af landsbyggðinni til þess að bæta húsnæðisöryggi og fjárhagslegt öryggi framhaldsskólanema.