Ferill 514. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1393  —  514. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Rögnu Sigurðardóttur um eftirlit með framkvæmd frávísana og brottvísana.


     1.      Hvernig hefur eftirliti með framkvæmd frávísana og brottvísana samkvæmt lögum um útlendinga, nr. 80/2016, verið háttað frá árinu 2016? Hver fer nú með eftirlitið?
    Í XII. kafla laga um útlendinga, nr. 80/2016, er fjallað um frávísun við komu til landsins og brottvísun útlendings sem dvelst hér á landi. Er þar greint frá skilyrðum þess að beita megi þeim aðferðum auk þess hvaða sjónarmið skulu lögð til grundvallar við að framfylgja slíkum ákvörðunum. Í 5. mgr. 104. gr. laganna kemur fram að ef útlendingur fer ekki úr landi svo sem fyrir hann er lagt, ef frestur til sjálfviljugrar heimfarar er ekki veittur eða líkur eru á að hann muni ekki fara sjálfviljugur, megi lögregla færa hann úr landi. Með því er átt við það sem í daglegu máli nefnist flutningur í fylgd lögreglu.
    Við framkvæmd flutnings í fylgd er mikilvægt að til staðar sé virkt eftirlit enda er um íþyngjandi aðgerð að ræða gagnvart einstaklingi í viðkvæmri stöðu. Þá hefur Ísland, í gegnum þátttöku í Schengen-samstarfinu, skuldbundið sig að þjóðarétti til að hafa slíkt eftirlit, sbr. 6. mgr. 8. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2008/115/EB um sameiginleg viðmið og skilyrði fyrir brottvísun og endursendingum ríkisborgara utan EES sem dveljast ólöglega á yfirráðasvæði aðildarríkjanna. Þótt umrætt ákvæði sé ekki ítarlegt og veiti aðildarríkjum töluvert svigrúm við útfærslu á eftirliti (e. Member States shall provide for an effective forced-return monitoring system) hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins almennt litið svo á að eftirfarandi atriði skuli höfð til hliðsjónar:
     1.      Eftirlit nær til allra athafna ríkisins við flutning, þ.e. frá undirbúningi hans til afhendingar einstaklings í viðtökuríki, en tekur ekki til eftirlits við afhendingu.
     2.      Eftirlitsaðili skal vera sjálfstæður og ótengdur því stjórnvaldi sem framkvæmir flutning.
     3.      Opinberir aðilar mega vera eftirlitsaðilar að því gefnu að þeir falli ekki undir skipurit þess stjórnvalds sem framkvæmir flutning.
     4.      Það eitt að réttarúrræði séu til staðar á landsvísu vegna kvartana við framkvæmd flutnings í fylgd telst ekki fullnægjandi eftirlit í skilningi tilskipunarinnar.
     5.      Það hvílir ekki afdráttarlaus skylda á aðildarríkjum að fjármagna öll útgjöld eftirlitsaðila vegna eftirlits með flutningum í fylgd, svo sem kostnað vegna starfsmanna. Ríkjum er aftur á móti skylt að sjá til þess að til staðar sé skilvirkt eftirlitskerfi.
     6.      Ekki er skylt að hafa eftirlit með hverjum einasta flutningi í fylgd. Það telst jafnan fullnægjandi að hafa eftirlit með einstökum flutningum af handahófi að því gefnu að tíðnin tryggi nægilega að eftirlitið sé skilvirkt.
     7.      Útlendingur sem sætir flutningi á ekki sjálfstæðan rétt til þess að eftirlit sé með framkvæmd á flutningi hans.
    Um nokkurra ára skeið sinnti Mannréttindaskrifstofa Íslands eftirliti í sameiginlegum aðgerðum sem Ísland tók þátt í á vegum Landamærastofnunar Evrópu (Frontex). Sumarið 2020 sagði Mannréttindaskrifstofan sig frá verkefninu. Eftir að Mannréttindaskrifstofan sagði sig frá verkefninu má segja að eftirlit með brottvísunum og frávísunum hafi verið í lágmarki og eingöngu með ferðum sem skipulagðar hafa verið í leiguflugi eða á vegum Frontex. Frá árinu 2020 hefur einn einstaklingur sinnt eftirlitinu sem verktaki í eigin nafni. Umræddur verktaki hefur hlotið sérstaka þjálfun fyrir eftirlitsaðila á vegum Frontex.
    Frá því að Mannréttindaskrifstofan sagði sig frá verkefninu hefur ráðuneytið unnið að því að skoða varanlegri farveg fyrir eftirlit með framkvæmdinni, þá einnig eftirlit með framkvæmd lögreglu á ákvörðunum um brottvísanir og frávísanir sem ekki fara fram á vettvangi sameiginlegra aðgerða Frontex. Hefur ráðuneytið m.a. skoðað hvernig önnur þátttökuríki í Schengen-samstarfinu hafa komið eftirlitinu fyrir í sínum stjórnkerfum. Algengast er að ýmis frjáls félagasamtök eða umboðsmenn þjóðþinganna eða aðrir sjálfstæðir umboðsmenn sinni eftirlitinu. Fyrst um sinn stóð til að sjálfstæð innlend mannréttindastofnun, sem fyrirhugað var að yrði stofnuð árið 2021, tæki við umræddu hlutverki. Þar sem stofnun hennar hefur tafist hóf ráðuneytið að leita annarra lausna en við þá skoðun var talið að það gæti fallið að hlutverki umboðsmanns Alþingis að sinna eftirlitinu.
    Með bréfi til forseta Alþingis, dags. 4. apríl 2022, fór ráðuneytið þess á leit að forseti Alþingis tæki til skoðunar að eftirlit og framkvæmd brottvísana og frávísana yrði falið umboðsmanni Alþingis. Forseti Alþingis óskaði eftir nánari upplýsingum með bréfi, dags. 16. júní 2022, sem ráðuneytið svaraði með bréfi, dags. 18. nóvember 2022. Með bréfi forseta Alþingis, dags. 31. maí 2023, var ráðuneytinu tilkynnt að það væri afstaða forsætisnefndar Alþingis að ekki færi vel á því að fela umboðsmanni Alþingis eftirlit með framkvæmd brottvísana og frávísana útlendinga frá landinu. Eins og áður greinir er framkvæmdin í dag því sú að sjálfstæður verktaki sinnir verkefninu hér á landi.

     2.      Telur ráðherra þörf á að koma á fót sjálfstæðu eftirlitskerfi með frávísunum og brottvísunum samkvæmt lögum um útlendinga, nr. 80/2016?
    Eins og rakið er í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar er núverandi fyrirkomulag ekki heppilegt enda sinnir einungis einn verktaki eftirliti með brottvísunum og frávísunum frá landinu. Ráðuneytið er enn með til skoðunar hvaða möguleikar eru í stöðunni varðandi tilhögun eftirlits með frávísunum og brottvísunum frá landinu.

     3.      Stendur til að setja ákvæði um eftirlit með framkvæmd frávísana og brottvísana í reglugerð líkt og kveðið er á um í 8. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016?
    Það er stöðugt verkefni innan ráðuneytisins að vinna að reglugerðarbreytingum en slíkt tekur eðli málsins samkvæmt mið af forgangsröðun verkefna. Vinna við setningu reglugerðarákvæðis skv. 8. mgr. 104. gr. laga um útlendinga er ekki hafin innan ráðuneytisins og ekki er fyrirhugað að hefja slíka vinnu fyrr en það skýrist betur hvaða aðila verði falið að framkvæma eftirlit með framkvæmd brottvísana og frávísana til frambúðar.