Ferill 590. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1395  —  590. mál.




Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Bjarna Jónssyni um uppbyggingu aðstöðu til jarðræktarrannsókna á Hvanneyri.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hefur fjármagn verið tryggt til uppbyggingar á aðstöðu til jarðræktarrannsókna á Hvanneyri fyrir Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) og hvenær verður hafist handa við verkefnið?
     2.      Verður LbhÍ gert kleift að nota söluandvirði Korpu eins og var kynnt til að reisa jarðræktarmiðstöð?
     3.      Hvenær hyggst ráðherra heimila byggingu húss á Hvanneyri til jarðræktarrannsókna og kennslu sem byggja á fyrir þær 200 millj. kr. sem Magnús Óskarsson ánafnaði skólanum m.a. til þessa og hvenær eru verklok áætluð?


    Landbúnaðarháskóli Íslands hafði til langs tíma aðstöðu til jarðræktartilrauna að Korpu við Úlfarsá og rannsóknar- og kennsluaðstöðu að Reykjum í Ölfusi á sviði umhverfisvísinda með aðkomu um 70 erlendra vísindamanna og 15 doktorsnema. Þær breytingar hafa orðið að Korpulandi hefur verið ráðstafað til verkefnisins Betri samgöngur (borgarlína) og við flutning starfsmenntanáms í garðyrkju og skyldum greinum til Fjölbrautaskóla Suðurlands missti Landbúnaðarháskólinn aðgang að gróðurhúsum, kennslustofum og aðstöðu fyrir útiræktun að Reykjum.
    Borgarbyggð hefur þegar samþykkt nýtt deiliskipulag fyrir Hvanneyri þar sem gert er ráð fyrir uppbyggingu jarðræktarmiðstöðvar sem ætlað er að koma í stað aðstöðunnar í Korpulandi og að Reykjum. Fyrir liggur frumathugun Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna (FSRE) frá árinu 2022 á uppbyggingu jarðræktarmiðstöðvar þar sem gert er ráð fyrir því að reist verði jarðræktarhús og tvö gróðurhús. Gert var ráð fyrir þriggja ára framkvæmdatíma og kostnaði allt að 600 millj. kr. Þarfagreining og framkvæmdaáætlun vegna byggingar gróðurhúss hefur einnig verið unnin á vegum Landbúnaðarháskólans. Þar er gert ráð fyrir byggingu eins gróðurhúss sem yrði um 1.000 m2 og myndi kosta um 1/ 3 af upphaflegri áætlun FSRE. Til greina kemur að Landbúnaðarháskólinn komi með beinum hætti að fjármögnun slíks gróðurhúss. Vaxandi þörf er fyrir slíka aðstöðu til ýmissa rannsókna, m.a. til þróunar á kornyrki fyrir íslenskar aðstæður, plöntukynbætur og plöntuerfðafræði. Talið er að aðstaða til jarðaræktarrannsókna og kennslu sé afar mikilvæg til að auka gæði og uppskeru á byggi, höfrum og hveiti. Uppbygging aðstöðu til jarðræktarrannsókna að Hvanneyri styður við skuldbindingar Landbúnaðarháskólans á sviði rannsókna í ylrækt og umhverfisvísindum. Í framkvæmdaáætlun LbhÍ er gert ráð fyrir að 612 millj. kr. framkvæmdakostnaður skiptist niður á þrjú ár: 343 millj. kr., 82 millj. kr. og 187 millj. kr. Arfshluti Landbúnaðarháskólans úr dánarbúi er um 230 millj. kr. og er gert ráð fyrir að verja 100 millj. kr. til stofnkostnaðar og eftirstöðvum að fjárhæð 130 millj. kr. til tækjakaupa, búnaðar og innréttinga.
    Söluandvirði Korpulands rennur í ríkissjóð og hefur ekki verið eyrnamerkt jarðræktarmiðstöð sérstaklega.
    Við fjármögnun framkvæmdanna er gert ráð fyrir að dregið verði á ónýttar fjárheimildir Landbúnarháskólans frá árinu 2022 sem nema um 191 millj. kr. og 73 millj. kr. eftirstöðvum ársins 2023, auk framlags af stofnkostnaðarlið háskóla í fjárlögum. Frekari ákvarðanir um framkvæmdir og fjármögnun verða teknar samhliða útgáfu fjármálaáætlunar fyrir árin 2025– 2029 og undirbúningi fjárlaga fyrir árið 2025. Gangi framangreind áform eftir má gera ráð fyrir að aðstaða fyrir jarðræktarrannsóknir verði tilbúin árið 2027.