Ferill 782. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1400  —  782. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur um nafnalista dvalarleyfishafa á Gaza.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða dag voru listar með nöfnum handhafa íslenskra dvalarleyfa sem staddir eru á Gaza-ströndinni í Palestínu sendir erlendum stjórnvöldum sem liður í undirbúningi að för þeirra til Íslands? Svar óskast sundurliðað eftir því hvaða stjórnvöldum listi var sendur og hvenær.

    Hinn 20. desember 2023 sendi utanríkisráðuneyti sendiráði Egyptalands í Ósló lista með nöfnum þeirra sem þá höfðu fengið dvalarleyfi á Íslandi og voru stödd á Gaza-ströndinni. Var það liður í undirbúningi mögulegra frekari aðgerða íslenskra stjórnvalda. Ísraelskum stjórnvöldum var sendur sami listi 28. desember 2023 til að óska frekari upplýsinga um aðkomu þeirra að ákvörðunartöku varðandi ferðir fólks frá Gaza-ströndinni. Uppfærður listi með nöfnum þeirra 106 sem fengið höfðu dvalarleyfi fyrir 1. febrúar 2024 var sendur til egypskra stjórnvalda 5. febrúar sama árs, til ísraelskra stjórnvalda 8. og 10. febrúar sama árs og til skrifstofu Sameinuðu þjóðanna sem samræmir aðgengi að hernumdum svæðum Palestínu (e. Access Coordination Unit) 10. febrúar sama árs. Listi með nákvæmari upplýsingum um þá 97 dvalarleyfishafa sem þá voru enn staddir á Gaza-ströndinni var sendur öllum þessum aðilum 16. febrúar 2024.
    Alls fór ein vinnustund í að taka svarið saman.