Ferill 1074. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1562  —  1074. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um sparnað í gulli.


Flm.: Indriði Ingi Stefánsson, Björn Leví Gunnarsson.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leggja til breytingar á skatta- og tollalöggjöf svo að gull sem steypt er í stangir verði undanþegið virðisaukaskatti og tollum með það fyrir augum að fjölga sparnaðarmöguleikum almennings. Ráðherra leggi fram frumvarp til laga sem miði að þessu á vorþingi árið 2025.

Greinargerð.

    Almenningur víða um heim leitar í sparnað í gulli til að dreifa áhættu. Vegna íslenskrar skatta- og tollalöggjafar er slíkt í raun ómögulegt þar sem strax verður nokkurt tap. Ekki verður séð að hægt sé að færa rök fyrir því að sparnaður í gulli ætti ekki að standa Íslendingum til boða. Ekki þarf að vernda neina íslenska gullvinnslu og ekki verður til verulegur virðisauki í íslensku hagkerfi þegar gull er unnið í skartgripi, borðbúnað eða aðra vöru. Hér er lögð til sjálfsögð breyting sem ætti að veita almenningi frelsi til sparnaðar til jafns við aðrar þjóðir.