Ferill 691. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 1564  —  691. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, lögum um meðferð einkamála og lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. (miðlun og form gagna, fjarþinghöld, birting ákæra, o.fl.).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá dómsmálaráðuneyti, dómstólasýslunni, embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, embætti lögreglustjórans á Vesturlandi, embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum, héraðssaksóknara, Lögmannafélagi Íslands, Lögreglustjórafélagi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands, réttarfarsnefnd, ríkissaksóknara og ÖBÍ – réttindasamtökum. Þá bárust nefndinni níu umsagnir auk minnisblaðs frá dómsmálaráðuneyti, en þau gögn eru aðgengileg undir málinu á vef Alþingis.
    Frumvarpið felur í sér breytingar á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, og lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, sem einkum miða að því að gera réttarfarslöggjöf hlutlausa um afhendingarmáta gagna, nýta tæknilausnir í ríkara mæli í réttarvörslukerfinu, festa í sessi heimildir til að nýta fjarfundarbúnað við rekstur einka- og sakamála fyrir dómi og heimila stafræna birtingu ákæra og annarra skjala við rannsókn og meðferð sakamála fyrir dómi.

Umfjöllun nefndarinnar.
Málsmeðferð verði tæknilega hlutlaus.
    Umsagnaraðilar voru almennt jákvæðir í garð frumvarpsins og fagna þeim breytingum sem þar eru fyrirhugaðar. Þeir telja frumvarpið í heild sinni stórt framfaraskref í átt að aukinni skilvirkni og hagkvæmni innan réttarvörslukerfisins, auk þess sem það skapi forsendur fyrir því að nýta tæknilausnir í ríkara mæli og færi málsmeðferð fyrir dómi í nútímalegra horf.
    Líkt og gerð er grein fyrir í frumvarpinu miðast málsmeðferðarreglur réttarfarslaga og venjur við framkvæmd þeirra að miklu leyti við að gögn séu afhent á pappírsformi og oft í ákveðnum fjölda eintaka, að samskipti af ýmsum toga séu bréfleg og að skjöl séu undirrituð með eigin hendi. Meðal helstu breytinga sem lagðar eru til með frumvarpinu er að reglur þar að lútandi verði einfaldaðar, til að mynda verði ekki lengur áskilið í lögum að gögn séu lögð fram í tilteknum fjölda eintaka eða skjöl undirrituð með eigin hendi. Þá verði almennt miðað að því að málsmeðferð verði gerð tæknilega hlutlaus um þá aðferð sem beitt er hverju sinni við miðlun og framlagningu gagna, sem og undirritun skjala. Í stað þess að ítarlega sé mælt fyrir um miðlunar- og afhendingarmáta gagna fyrir dómi verði dómstólasýslunni jafnframt falið að setja nánari reglur um það efni með almennum reglum, auk þess sem Hæstarétti og Landsrétti verði heimiluð nánari reglusetning fyrir dómstigin tvö. Einnig verði tekin upp ákvæði bæði í lög um meðferð einkamála og lög um meðferð sakamála sem leggi málsmeðferð á stafrænan og rafrænan máta að jöfnu við málsmeðferð sem miðast við pappír, líkt og nú er meginregla.
    Meiri hlutinn telur brýnt að þær reglur sem gilda um miðlun gagna milli aðila innan réttarvörslukerfisins og framlagningu gagna fyrir dómi séu til þess fallnar að stuðla að einfaldari samskiptum og skilvirkari vinnubrögðum, auk þess að vera í betra samræmi við þau vinnubrögð sem tíðkist í nútímaþjóðfélagi. Meiri hlutinn telur þær breytingar sem frumvarpið hefur í för með sér þannig mikilvægan lið í því að gera réttarvörslukerfið allt í senn nútímalegra, einfaldara og notendavænna, líkt og stefnt er að með framlagningu frumvarpsins.

Bráðabirgðaheimild um nýtingu fjarfundarbúnaðar gerð varanleg.
    Í frumvarpinu er lagt til að gildandi bráðabirgðaheimildir lögreglu og dómstóla verði gerðar varanlegar, sbr. lög nr. 98/2023, til að nýta rafrænar lausnir og fjarfundarbúnað við rannsókn sakamála og við meðferð einka- og sakamála fyrir dómi, svo sem til að heyja þinghöld og taka skýrslu í gegnum fjarfundarbúnað. Bráðabirgðaheimildum þessum var komið á fót í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru og hafa þær reynst vel, líkt og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu, en þær falla að óbreyttu úr gildi 30. júní nk. Markmið þess að festa þær varanlega í sessi er að veita dómstólum og lögreglu við rannsókn máls meira svigrúm en áður til að ákveða að þinghald verði háð með notkun fjarfundarbúnaðar, þ.m.t. skýrslugjafir.
    Í frumvarpinu er rakið að við breytingar sem þessar sé nauðsynlegt að gætt sé að meginreglum um réttláta málsmeðferð, sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá hafi sérstaklega verið litið til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem þinghald hefur að hluta til verið háð með notkun fjarfundarbúnaðar og réttindi ákærða til umfjöllunar í tengslum við það, sem og til leiðbeininga Evrópuráðsins frá 2021 um notkun fjarfundarbúnaðar við meðferð mála fyrir dómi. Þar sem nauðsynlegt sé að horfa til ýmissa atriða við ákvörðun um hvort þinghald verði haldið í gegnum fjarfundarbúnað sem og við framkvæmd þess verði dómstólasýslunni falið að setja leiðbeinandi reglur þar um, þar á meðal um skýrslugjöf fyrir dómi með notkun fjarfundarbúnaðar, sbr. nánari skýringar við 3. gr. og 52. gr. frumvarpsins um heimildir dómstólasýslunnar þess efnis og hvað geti falist í þeim.
    Umsagnaraðilar lýsa almennt ánægju með framangreinda breytingu og telja hana til bóta en benda þó á nokkur atriði sem vert er að huga að. Að mati Lögmannafélags Íslands er lögð áhersla á að meginregla verði eftir sem áður að aðilar máls, jafnt sem vitni, mæti fyrir dóm og að litið verði á heimild til að leyfa skýrslutökur með notkun fjarfundarbúnaðar sem þrönga undantekningarreglu frá meginreglu um milliliðalausa málsmeðferð fyrir dómi. Það sé einkum mikilvægt í málum þegar um er að ræða skýrslutökur af sakborningum eða brotaþolum, sem alla jafna teljast lykilvitni í málum. Í umsögn dómstólasýslunnar er áréttað að í ljósi réttaröryggissjónarmiða sé enn þörf á ítarlegri fyrirmælum í lagatexta um til hvaða atriða dómara beri að líta þegar ákvörðun er tekin um notkun fjarfundarbúnaðar fyrir dómi og við setningu leiðbeinandi reglna dómstólasýslunnar þar um þrátt fyrir að tekið hafi verið tillit til ábendinga stofnunarinnar við samningu frumvarpsins þar um að nokkru leyti.
    Þá bendir embætti ríkissaksóknara á að tilefni sé til að víkja nánar að ákveðnum atriðum í lagatexta eins og að vitni eða sérfræðingur verði ekki fyrir óeðlilegum þrýstingi eða áhrifum við skýrslugjöf í gegnum fjarfundarbúnað og jafnframt að skýrslugjafi sé í einrúmi og við aðstæður sem hæfa. Auk þess er gerð athugasemd við að í 2. efnismgr. 3. gr. frumvarpsins, um að sakborningi verði ekki gert að taka þátt í þinghaldi í gegnum fjarfundarbúnað gegn vilja sínum, sé ekki gerður greinarmunur á því um hvers konar þinghöld sé að ræða, þ.e. hvort taka eigi fyrir mál er varða þvingunarráðstafanir líkt og kröfu um gæsluvarðhald eða hvort um þingfestingu eða aðalmeðferð máls sé að ræða. Mikilvægt er að tryggja réttindi sakbornings að þessu leyti þegar um t.d. þingfestingu máls og aðalmeðferð er að ræða.
    Í minnisblaði dómsmálaráðuneytis, dags. 26. mars 2024, kemur fram að í frumvarpinu sé mælt fyrir um heimild til að nýta fjarfundarbúnað við meðferð einka- og sakamála fyrir dómi, en eftir sem áður sé meginreglan sú að málsaðilar og vitni gefi skýrslu við meðferð mála fyrir dómi í eigin persónu á dómþingi. Þá er áréttað að þeim reglum sem dómstólasýslunni er ætlað að setja sé ætlað að vera leiðbeinandi og einkum til að stuðla að samræmi um framkvæmd þess þegar mætt er til þinghalds með notkun fjarfundarbúnaðar. Sem fyrr yrði það á forræði dómara að gæta að réttindum hlutaðeigandi við meðferð mála lögum samkvæmt, þar á meðal samkvæmt stjórnarskránni og mannréttindasáttmála Evrópu.
    Meiri hlutinn tekur undir þetta og telur rétt að umrædd bráðabirgðaheimild verði fest varanlega í sessi og að dómstólum og lögreglu við rannsókn mála verði þannig tryggt varanlega frekara svigrúm til að ákveða við tilteknar aðstæður að þinghöld verði háð og skýrslur gefnar með notkun fjarfundarbúnaðar. Meiri hlutinn leggur jafnframt áherslu á að meginreglan verði áfram sú að þingfesting máls, aðalmeðferð og skýrslutökur fari fram í eigin persónu, enda sé fyrst og fremst um að ræða heimild sem beita má við tilteknar aðstæður og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sbr. einnig það sem fram kemur í skýringum við 3., 20., 21., 52. og 59. gr. frumvarpsins. Þá tekur meiri hlutinn undir röksemdir ráðuneytisins í þá veru að það sé almennt á ábyrgð dómara að gæta að réttindum málsaðila þegar slíkum búnaði er beitt þótt dómstólasýslunni sé falið að setja leiðbeinandi reglur um notkun hans, sbr. ábendingar um inntak slíkra reglna í skýringum við 3. og 52. gr. frumvarpsins.
    Meiri hlutinn beinir því jafnframt til ráðuneytisins að fylgjast með reynslu af framkvæmd laganna og eftir atvikum kanna hvort tilefni sé til að tiltaka nánar í lagatexta ýmis atriði er varða notkun fjarfundarbúnaðar.

Birting ákæru og annarra gagna í stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda.
    Í 32. gr. frumvarpsins er lagt til að við lög um meðferð sakamála bætist nýtt ákvæði þar sem gert sé heimilt að birta ákæru, ásamt fyrirkalli, fyrir ákærða í stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda (Ísland.is) og teljist hún þá réttilega birt þegar ákærði hafi staðfest móttöku hennar. Hið sama gildi um önnur gögn sem birta skal á sama hátt og ákærur, nánar tiltekið kvaðningu vitnis, birtingu sektarboðs, birtingu dóms og birtingu áfrýjunarstefnu, sbr. það sem nánar kemur fram í greinargerð með frumvarpinu. Líkt og þar er einnig rakið komu fyrst og fremst þrjár leiðir til greina við birtingu framangreindra gagna í stafrænu pósthólfi, nánar tiltekið að gagn teldist réttilega birt þegar a) það hefði verið gert aðgengilegt í stafrænu pósthólfi, b) þegar það hefði verið gert aðgengilegt í stafrænu pósthólfi og viðkomandi hefði skráð sig inn í pósthólfið eftir það og c) þegar það hefði verið gert aðgengilegt í stafrænu pósthólfi, viðkomandi hefði skráð sig inn í pósthólfið og jafnframt opnað gagnið. Í frumvarpinu kemur fram að gerð sé tillaga um að velja leið sem lýsa megi sem samblandi af leiðum b og c, nánar tiltekið að ákæra teljist réttilega birt í stafrænu pósthólfi þegar viðkomandi hafi staðfest móttöku hennar þar. Ekki sé hins vegar gerð krafa um að viðkomandi hafi kynnt sér efni ákæru eða að efni hennar hafi komist til vitundar hans. Framkvæmd birtingar er nánar lýst í kafla 3.4 í greinargerð með frumvarpinu. Þessi leið hafi verið valin þar sem hún þótti sameina kosti þess að gera birtingar stafrænar, svo sem varðandi kostnað og tímasparnað, án þess að vega að réttaröryggi.
    Umsagnaraðilar voru að mörgu leyti jákvæðir í garð þessarar breytingar og telja að hún tryggi betur friðhelgi einkalífs og persónuvernd þeirra sem birta þarf fyrir. Þá töldu umsagnaraðilar almennt tímabært að stíga skref í átt að því að koma birtingu umræddra gagna í stafrænan farveg. Á hinn bóginn gerðu einhverjir umsagnaraðilar athugasemdir við þá leið sem lagt er til að farin verði í frumvarpinu varðandi mat á því hvenær ákæra teljist réttilega birt. Bent er á að fyrirhuguð leið sé í andstöðu við 7. gr. laga nr. 105/2021, um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, þar sem fram kemur að skjal teljist réttilega birt þegar það sé gert aðgengilegt í stafrænu pósthólfi. Í umsögn embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er t.d. bent á að með því að ganga eins skammt og gert er ráð fyrir sé í raun verið að búa til tvöfalt kerfi á birtingum ákæra með tilheyrandi kostnaði, óhagræði og þyngri málsmeðferð. Þá væri til bóta að viðtakandi gagna fengi ávallt send SMS-skilaboð þegar mikilvæg skjöl líkt og ákærur væru sendar í hið stafræna pósthólf til að auka líkur á því að hann yrði þess var að skjal lægi þar til birtingar.
    Embætti ríkissaksóknara gerir athugasemdir við fyrirhugaðan birtingarmáta og telur hann leiða til þess að óþarfa kvaðir séu lagðar á ákærendur um að fylgjast með því hvort viðkomandi hafi skráð sig inn í pósthólfið eftir að gagn hafi verið gert aðgengilegt þar. Einnig er dregið í efa að þær auknu kröfur sem leið b hafi í för með sér, umfram hinar tvær leiðirnar, þjóni hagsmunum borgarans eða að meiri ávinningur verði af henni, auk þess sem þessi leið geti orðið tæknilega erfið í framkvæmd. Að mati embættisins er birting ákæru í stafrænu pósthólfi þó mun tryggari og vænlegri kostur fyrir viðtakanda heldur en þær birtingarleiðir sem lögin gera nú þegar ráð fyrir en mikilvægt er að gæta samræmis við ákvæði laga nr. 105/2021 þannig að réttaráhrif birtingar miðist í öllum tilvikum við það tímamark þegar skjal telst aðgengilegt.
    Þá benda nokkrir umsagnaraðilar á að ekki sé gerð krafa um að sá sem birta eigi fyrir hafi kynnt sér efni ákæru eða að efni hennar hafi komist til vitundar hans og telja ótækt að hægt sé að komast hjá birtingu með því að viðkomandi sé í sjálfsvald sett hvort hann staðfesti móttöku gagnanna eða ekki og komi sér þannig undan rafrænni birtingu gagna. Að mati embættis héraðssaksóknara er réttast að horfa til leiðar b og samhliða því yrði hið stafræna pósthólf forritað þannig að ákærandi fengi tilkynningu í tölvupósti þegar viðtakandi gagna hefði skráð sig inn í pósthólfið eftir að skjal yrði gert aðgengilegt þar.
    Í minnisblaði dómsmálaráðuneytis kemur fram að mikilvægt sé að gæta fyllstu varfærni vegna réttinda viðtakanda þegar gögn af þessu tagi eru birt í stafrænu pósthólfi stjórnvalda, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar um réttláta málsmeðferð fyrir dómi og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um rétt sakaðs manns til að taka til varna. Meginregla laga um meðferð sakamála sé sú að birta skuli ákæru og fyrirkall fyrir ákærða sjálfum og við frávik frá þeirri meginreglu skuli ekki ganga lengra en nauðsyn krefur svo að viðhalda megi eðlilegri hagkvæmni og skilvirkni í réttarvörslukerfinu. Þá er áréttað að sú birtingarleið sem fyrirhugað er að fara samkvæmt frumvarpinu, sbr. kafla 3.4 í greinargerð, feli í sér að þegar viðkomandi skráir sig inn í hið stafræna pósthólf eftir að ákæra hefur verið gerð aðgengileg þar birtist honum gluggi þar sem gerð sé grein fyrir því að verði pósturinn opnaður verði birtingaraðila send staðfesting á móttöku skjalsins. Jafnframt verði í glugganum að finna nánari upplýsingar um að opni viðkomandi ekki póstinn verði annarra leiða leitað til birtingar gagnsins, eftir atvikum með aðkomu lögreglu. Ákveði ákærði á hinn bóginn að opna póstinn berst birtingaraðila sjálfkrafa staðfesting á móttöku án þess að vakta þurfi það sérstaklega. Jafnframt birtast þá nánari leiðbeiningar um rétt til aðstoðar verjanda eigi það við, auk frekari upplýsinga um málsmeðferð, sem og fyrirkall er greini stað og stund þingfestingar máls o.fl. Þykir þessi leið einkum sameina þá kosti að tryggja vitneskju ákærða um birtingu ákæru og auka skilvirkni við birtingar án þess að vegið sé að réttindum sakaðra manna. Með þessu yrði einnig komist hjá því að vakta hið stafræna pósthólf og að leggja þær byrðar á herðar borgurunum sem kynni að leiða af réttaráhrifum sakadóma og því að þurfa að leita endurupptöku dóma. Að mati ráðuneytisins þykir sú leið sem lagt er til að verði valin ganga eins langt í skilvirkum birtingarmáta og tækt þykir gagnvart réttindum sakaðra manna. Um er að ræða nýja leið en eftir sem áður verður heimilt að birta ákæru og gögn samkvæmt þeim birtingaraðferðum sem núgildandi lög heimila, sbr. 156. gr. laga um meðferð sakamála.
    Þá gerðu sumir umsagnaraðilar athugasemdir við að ekki væri gert ráð fyrir breytingum á 83. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, í sömu veru hvað birtingu stefnu varðaði og ekki útskýrt hvers vegna ekki væri ráðist í slíkar breytingar. Í minnisblaði ráðuneytisins, sem og í kafla 5.3 í greinargerð með frumvarpinu, kemur á hinn bóginn fram að birtingar á stefnum hefðu ekki verið til umfjöllunar við undirbúning þess og einkaaðilar hefðu enn sem komið er ekki aðgang að hinu stafræna pósthólfi. Ekki væri því mælt fyrir um birtingu stefnu við meðferð einkamála í stafrænu pósthólfi stjórnvalda. Ekki væri þó útilokað að breyttur birtingarháttur stefna kæmi til athugunar síðar meir.
    Meiri hlutinn tekur undir framangreindar röksemdir ráðuneytisins og telur með vísan til þeirra, sem og annarra röksemda sem að framan eru raktar, að þessar breytingar feli almennt í sér réttarbót. Þá leggur meiri hlutinn áherslu á að um nýja aðferð við birtingu téðra gagna sé að ræða sem sé viðbót við hinar hefðbundnu birtingarleiðir sem tíðkast samkvæmt gildandi lögum en ekki sé ætlunin að afnema aðra birtingarhætti, líkt og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu. Að mati nefndarinnar er einnig tímabært að birtingu umræddra gagna verði beint í þann farveg sem stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda býður upp á og þá á þann hátt sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Það hafi enda marga kosti í för með sér eins og lýst hefur verið og sé einnig í samræmi við þá þróun sem á sér almennt stað hvað stafræna birtingu opinberra skjala varðar. Þá telur meiri hlutinn að um varfærna leið sé að ræða sem tryggi rétt sakaðra manna eins og kostur er og stuðli að frekari vernd friðhelgi einkalífs þeirra og persónuvernd. Meiri hlutinn beinir því þó til ráðuneytisins eftir því sem tilefni er til að umrætt ákvæði verði endurskoðað innan tveggja ára með hliðsjón af fenginni reynslu og framangreindum athugasemdum og ábendingum umsagnaraðila.
    Þá telur meiri hlutinn brýnt að huga vel að réttindum þeirra sem ýmist kjósa að vera ekki með rafræn skilríki og standa þannig fyrir utan kerfi stafrænnar birtingar opinberra skjala eða eru í viðkvæmri stöðu og er af ýmsum ástæðum erfitt eða ómögulegt að nýta sér þann birtingarkost, svo sem vegna tungumálaörðugleika, fötlunar eða veikinda. Mikilvægt er að ákæruvaldinu sé gert viðvart við skráningu skjals á kennitölu í þeim tilvikum þegar einstaklingur er ekki skráður fyrir rafrænum skilríkjum og geti þá notað aðrar færar leiðir til að birta ákæru og önnur gögn fyrir þeim einstaklingum. Meiri hlutinn áréttar í ljósi framangreinds mikilvægi þess að almennt verði gætt að réttindum þessara hópa við framkvæmd stafrænnar birtingar.
    Að lokum leggur meiri hlutinn til nokkrar breytingar á frumvarpinu sem eru tæknilegs eðlis, m.a. í því skyni að samræma orðalag og gera aðrar smávægilegar lagfæringar, og þarfnast ekki frekari skýringa.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 11. gr.
                  a.      Á undan orðinu „kemur“ í a-lið komi: í 1. málsl.
                  b.      Í stað orðanna „3. málsl.“ í c-lið komi: 4. málsl.
     2.      C-liður 39. gr. orðist svo: Í stað orðanna „afrit af greinargerðinni og nýjum gögnum“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: eintak greinargerðarinnar og nýrra gagna.
     3.      43. gr. orðist svo:
                      Í stað orðanna „afrit af henni, svo og af gögnum sem fylgja henni“ í 4. málsl. 1. mgr. 203. gr. laganna kemur: eintak hennar, sem og eintak af gögnum sem fylgja henni.
     4.      49. gr. orðist svo:
                      Í stað orðanna „afrit af henni, svo og af gögnum sem fylgja henni“ í 4. málsl. 1. mgr. 220. gr. laganna kemur: eintak hennar, sem og eintak af gögnum sem fylgja henni.
     5.      A-liður 57. gr. orðist svo: Í stað orðanna „eftirrit af málsskjölum og úr þingbók eða dómabók“ í 1. mgr. kemur: eintak málsskjala og eintök úr þingbók eða dómabók.
     6.      C-liður 58. gr. orðist svo: Í stað orðanna „endurritum af dómum og úr þingbók“ í f-lið kemur: dómum og þingbókum.
     7.      Í stað orðsins „afritum“ í 62. gr. komi: myndritum.
     8.      A-liður 80. gr. orðist svo: Í stað orðanna „í þeim fjölda eintaka sem Landsréttur ákveður en til þeirra teljast endurrit, þar á meðal“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: en til þeirra teljast dómur, úrskurðir og þingbók, uppritun.
     9.      Á eftir orðunum „og í þeim fjölda“ í a-lið 85. gr. komi: eintaka.
     10.      Í stað orðanna „3. málsl.“ í a-lið 86. gr. komi: 4. málsl.
     11.      Á undan orðinu „dómur“ í a-lið 90. gr. komi: málsskjöl.
     12.      Við 92. gr. bætist nýr liður sem verði b-liður, svohljóðandi: Í stað orðanna „þau málsskjöl og endurrit“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: málsskjöl, dómur, úrskurðir, þingbók og uppritanir.
     13.      Í stað tilvísunarinnar „84. gr.“ í inngangsmálsgrein 93. gr. komi: 184. gr.
     14.      Í stað orðanna „hvort heldur sem er“ í 94. gr. komi: ýmist.

    Bergþór Ólason og Eyjólfur Ármannsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 18. apríl 2024.

Bryndís Haraldsdóttir,
form.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir,
frsm.
Dagbjört Hákonardóttir.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Jódís Skúladóttir. Líneik Anna Sævarsdóttir.