Ferill 698. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1565  —  698. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins árið 2023.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Steinunni Þóru Árnadóttur, formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, og Hildi Edwald, ritara Íslandsdeildar.
    Með tillögunni er skorað á ríkisstjórnina að vinna að framkvæmd fjögurra ályktana Vestnorræna ráðsins sem samþykktar voru á ársfundi ráðsins 29.–30. ágúst 2023.
    Í ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 1/2023, um hafið sem matarkistu okkar, eru leiðtogar ríkisstjórna og þjóðþinga landanna þriggja hvattir til að útbúa heildræna áætlun um það hvernig vestnorræn lönd geti unnið saman og staðið vörð um hafið sem matarkistu okkar og þannig komið í veg fyrir að auðlindir fari til spillis og um leið tryggt fæðuöryggi.
    Í ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 2/2023, um vestnorrænar næringarráðleggingar, eru ríkisstjórnir landanna hvattar til að kanna möguleika á að koma á sameiginlegum vestnorrænum næringarráðleggingum. Í þeim ráðleggingum yrði áhersla lögð á staðbundna matarmenningu og fæðu úr nærumhverfi.
    Í ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 3/2023, um að draga úr matarsóun og auka matvælaöryggi, eru vestnorrænir umhverfisráðherrar hvattir til að halda fund árið 2024 og skiptast á reynslu og hugmyndum um hvernig löndin geti dregið úr matarsóun og aukið matvælaöryggi á Vestur-Norðurlöndum.
    Í ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 4/2023 eru stjórnvöld hvött til að kanna möguleika á auknu samstarfi í tengslum við lýðskóla (d. efterskole) og athuga hvort nemendur slíkra skóla geti sótt um styrk til uppihalds meðan á slíku námi stendur. Með lýðskóla er hér átt við skólastig fyrir nemendur á aldrinum 14–18 ára.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Birgir Þórarinsson og Bjarni Jónsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Gísli Rafn Ólafsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 17. apríl 2024.

Diljá Mist Einarsdóttir,
form.
Logi Einarsson,
frsm.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir.
Jón Gunnarsson. Katrín Sif Árnadóttir. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.