Ferill 511. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.









Þingsályktun



um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu fyrir árin 2024–2026.


________




    Alþingi ályktar að samþykkja eftirfarandi aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu fyrir árin 2024–2026.

1. Þekkingaröflun og ráðgjöf.
    Áhersla verði lögð á öflun þekkingar á máltöku ólíkra aldurshópa og um kennslufræði íslensku sem annars máls og kennslu nemenda sem búa við fjölbreytt tungumálaumhverfi í daglegu lífi. Niðurstöðum rannsókna verði miðlað til kennara á starfsþróunarnámskeiðum og með ráðgjöf til kennara á öllum skólastigum.
    Tímaáætlun: 2024–2026.
    Ábyrgð: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Mennta- og barnamálaráðuneyti, Háskólinn á Akureyri, Háskóli Íslands, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.

2. Starfstengt íslenskunám fyrir innflytjendur samhliða vinnu.
    Aðgengi og fjölbreytni íslenskunáms fullorðinna innflytjenda verði aukin með eflingu starfstengdrar íslenskufræðslu og talþjálfunar samhliða starfi. Áhersla verði lögð á starfstengdan orðaforða á einstaklingsmiðaðan og sveigjanlegan hátt. Fyrirtæki og stofnanir geti sótt um stuðning til að útfæra íslenskunám á vinnustað og jafnframt verði metið á hvaða starfssviðum brýnust þörf sé fyrir aukna íslenskukunnáttu. Samráð verði við aðila á vinnumarkaði og fræðsluaðila um sérstöðu úrræðisins, ávinning og fjármögnunarleiðir.
    Tímaáætlun: 2024 2026.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Aðilar á almennum og opinberum vinnumarkaði, svo sem félagasamtök fyrirtækja, stéttarfélög, hagsmunasamtök fólks með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn, fræðsluaðilar, stofnanir og starfsmenntasjóðir.

3. Bætt gæði íslenskukennslu fyrir innflytjendur.
    Byggt verði á nýjum gæðaúttektum á íslenskukennslu fyrir innflytjendur og fyrirkomulag náms og kennslu þróað svo það taki betur mið af væntingum nemenda og fjölbreyttum námsþörfum óháð búsetu. Gagnsærra og skilvirkara kerfi verði mótað þar sem gæðastarf fræðsluaðila verði m.a. tengt markvissar við fjármögnun. Hvatt verði til aukins samstarfs fræðsluaðila og skýrð afstaða til hæfni kennara sem kenna íslensku sem annað mál og hvort bæta þurfi starfsaðstæður þeirra.
    Tímaáætlun: 2024–2026.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila : Samstarfshópur um heildarendurskoðun framhaldsfræðslukerfis og laga um framhaldsfræðslu, stýrihópur um stefnu í málefnum innflytjenda og flóttafólks, fræðsluaðilar, þ.m.t. Háskóli Íslands og aðrir háskólar sem bjóða upp á íslensku sem annað mál.

4. Virkjun Samevrópska tungumálarammans.
    Rafræn próf í íslensku, sem byggjast á Samevrópska tungumálarammanum, verði þróuð ásamt uppfærðri þrepaskiptri hæfnilýsingu í íslensku sem öðru máli sem leysi af hólmi núverandi námskrár um íslensku fyrir útlendinga. Innleiðing muni eiga sér stað að þróun lokinni. Virkjun tungumálarammans stuðli að auknu samræmi milli náms og kennslu í íslensku sem öðru máli á öllum skólastigum, innan framhaldsfræðslu og í sjálfsnámi og skýri kröfur til annarsmálshafa og fræðsluaðila.
    Tímaáætlun: 2024–2026.
    Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila:
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, menningar- og viðskiptaráðuneyti, Háskóli Íslands, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.

5. Fjarnám í íslensku á BA-stigi.
    Aðgengi að námi í íslensku á háskólastigi verði bætt með því að bjóða upp á fjarnám í íslensku til BA-prófs. Nýlega var komið á samstarfi milli Hugvísindasviðs og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Háskólann á Akureyri, sem sameiginlega munu bjóða upp á fjarnám, með það að markmiði að fjölga BA-nemum í íslensku.
    Tímaáætlun: 2024–2025.
    Ábyrgð: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri.

6. Sameiginlegt fjarnám í íslensku sem öðru máli.
    Innflytjendum standi til boða fjarnám í hagnýtri íslensku sem öðru máli á háskólastigi. Námið verði þróað í samvinnu Háskóla Íslands, Háskólans á Bifröst og Háskólaseturs Vestfjarða og miðist að nemendum sem ekki hafa grunn í íslensku. Nemendum standi til boða staðlotur í öllum landshlutum.
    Tímaáætlun: 2024–2026.
    Ábyrgð: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Háskóli Íslands, Háskólinn á Bifröst, Háskólasetur Vestfjarða, Háskólinn á Akureyri, fræðsluaðilar.

7. Háskólabrú fyrir innflytjendur.
    Aðgengi að almennu háskólanámi fyrir innflytjendur verði bætt með þróun nýrrar námsleiðar fyrir nemendur sem hafa grunn í íslensku máli en þurfa stuðning til þess að sækja frekara háskólanám á íslensku. Markmiðið verði að auðvelda innflytjendum að aðlagast samfélagslegri og akademískri menningu, auka aðgengi að háskólamenntun og fjölga atvinnutækifærum að námi loknu.
    Tímaáætlun: 2024–2025.
    Ábyrgð: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Háskólinn á Akureyri, Háskóli Íslands, Háskólinn á Bifröst.

8. Viðhorf til íslensku.
    Aflað verði reglubundinna upplýsinga um viðhorf landsmanna til íslenskrar tungu til að meta árangur og þörf fyrir frekari þróun aðgerða í þágu tungumálsins. Enn fremur verði gerðar reglulegar viðhorfskannanir um málefni íslenskrar tungu meðal kennara og annars fagfólks í skólastarfi. Niðurstöðum verði miðlað í skýrslum ráðherranefndar um málefni íslensku.
    Tímaáætlun: 2024–2026.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Íslensk málnefnd, Háskóli Íslands, Kennarasamband Íslands.

9. Mikilvægi lista og menningar.
     Allir sem sinna hvers kyns miðlun séu meðvitaðir um þátt sinn í að efla íslenska tungu. Mikilvægi íslenskunnar verði ávallt haldið á lofti í samhengi listsköpunar og miðlunar menningar, ekki síst fyrir börn og ungmenni. Leitast verði við að skapa skilyrði fyrir fólk á öllum aldri og hvar sem það stendur í máltileinkun til að skapa og miðla list sinni á fjölbreyttri íslensku og njóta lista og menningar.
    Tímaáætlun: 2024–2026.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Fagfélög og félagasamtök á sviði menningar og skapandi greina, kynningarmiðstöðvar, menningarstofnanir, Listaháskóli Íslands, sveitarfélög.

10. Aukin talsetning og textun á íslensku.
    Greining verði gerð á umfangi og möguleikum fyrir aukna talsetningu og textun myndefnis á íslensku, með áherslu á börn og ungmenni og heyrnar- og sjónskerta, með það fyrir augum að setja á laggirnar sjóð sem styrki talsetningu og textun, svo sem á vegum framleiðenda, fjölmiðlaveitna og kvikmyndahúsa.
    Tímaáætlun: 2025–2026.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Mennta- og barnamálaráðuneyti, fjölmiðlanefnd, Ríkisútvarpið,
Samstarf um íslenska máltækni (SÍM), Heimili og skóli – landssamtök foreldra .

11. Íslenskugátt.
    Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum þrói og viðhaldi upplýsingagátt með aðgengi að orðabókum og aðgengilegum máltæknilausnum. Gáttin miði sérstaklega að notkun yngri málnotenda og/eða málnotenda sem ekki hafa íslensku að móðurmáli.
    Tímaáætlun: 2024–2026.
    Ábyrgð: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
    Dæmi um samstarfsaðila: Mennta- og barnamálaráðuneyti, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

12. Öflug skólasöfn.
    Kortlagning verði á safnkosti og starfsemi skólasafna með hliðsjón af markmiðum laga um grunnskóla og laga um framhaldsskóla. Í kjölfarið verði sett viðmið um gæði og starf safnanna til að efla þjónustu við fjölbreyttan nemendahóp.
    Tímaáætlun: 2024–2026.
    Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Menningar- og viðskiptaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, rekstraraðilar skóla, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, Landskerfi bókasafna, Upplýsing – félag bókasafns- og upplýsingafræða, Félag fagfólks á skólasöfnum, bókasafnaráð.

13. Vefgátt fyrir rafræn námsgögn.
    Þróaðir verði innviðir fyrir miðlun rafræns námsefnis fyrir leik-, grunn- og framhaldsskólastig sem bæti aðgengi að fjölbreyttum námsgögnum á íslensku og stuðli að hraðari þróun þess og uppfærslum.
    Tímaáætlun: 2024–2026.
    Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.

14. Samræmt verklag um móttöku, kennslu og þjónustu.
    Mótað verði samræmt verklag um móttöku, kennslu og þjónustu við börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn þar sem sérstök áhersla verði lögð á íslensku sem annað mál. Lögð verði áhersla á íslenskukennslu við hæfi, viðeigandi stuðning í námi og inngildingu í íslenskt samfélag sem allra fyrst eftir komu til landsins. Verklagið verði innleitt þvert á skólastig og þjónustukerfi.
    Tímaáætlun: 2024–2026.
    Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Samband íslenskra sveitarfélaga, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, önnur ráðuneyti, svo sem menningar- og viðskiptaráðuneyti og félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, Kennarasamband Íslands, Ísbrú – félag kennara sem kenna íslensku sem annað mál.

15. Efling íslenskuhæfni starfsfólks í leik- og grunnskólum og frístundastarfi.
    Mótuð verði viðmið um íslenskuhæfni starfsfólks sem vinnur við uppeldi og menntun sem hvorki er með íslensku að móðurmáli né með leyfisbréf til kennslu í leik- og grunnskólum. Hæfniviðmið byggist á markmiðum laga um leikskóla, laga um grunnskóla og aðalnámskrám viðkomandi skólastiga og taki mið af hæfniþrepi B samkvæmt Samevrópska tungumálarammanum. Jafnframt verði framboð á námskeiðum í íslensku fyrir þennan hóp aukið.
    Tímaáætlun: 2024 2025.
    Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Háskólar, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti,
Kennarasamband Íslands, fræðsluaðilar, Samband íslenskra sveitarfélaga, Móðurmál – samtök um tvítyngi.

16. Samþætting íslensku og erlendra móðurmála á fagtengdum grunnnámskeiðum starfsfólks í heilbrigðis-, félags- og umönnunargreinum.
    Tekist verði á við áskoranir í velferðar- og heilbrigðisþjónustu þar sem stór hluti starfsmanna er með annað móðurmál en íslensku. Fagtengd grunnnámskeið, sem í boði eru fyrir erlenda starfsmenn sem vinna með öldruðum, sjúkum eða fötluðu fólki á sjúkrastofnunum, dvalarheimilum og/eða í heimahúsum, verði endurskipulögð. Unnið verði tilraunaverkefni þar sem kennt verði á tveimur tungumálum. Jafnframt verði þróaður jafningjastuðningur.
    Tímaáætlun: 2024 2026.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Heilbrigðisráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, fræðsluaðilar og Samband íslenskra sveitarfélaga.

17. Framtíð máltækni.
    Unnið verði að mótun nýrrar máltækniáætlunar sem miðli forgangsröðun stjórnvalda um áframhaldandi þróun, viðhald og innleiðingu máltæknilausna. Áhersla í máltækniverkefnum til ársins 2026 verði m.a. á lausnir og verkefni sem nýtast almenningi.
    Tímaáætlun: 2024–2026.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, Samstarf um íslenska máltækni (SÍM), Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, háskólar og atvinnulíf.

18. Íslenska handa öllum.
    Lögð verði áhersla á að innflytjendur öðlist grunnfærni í íslensku og þróaðir hvatar sem stuðla að því. Grunnfærni verði skilgreind og kortlagt með hliðsjón af norrænum fyrirmyndum hvernig tryggja megi að ákveðnir hópar innflytjenda sæki nám í íslensku og nái árangri í náminu. Markmiðið verði að koma í veg fyrir jaðarsetningu, stuðla markvisst að inngildingu og treysta stöðu íslenskrar tungu til framtíðar.
    Tímaáætlun: 2024 2026.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Forsætisráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, menningar- og viðskiptaráðuneyti og innviðaráðuneyti ásamt samstarfsstofnunum þeirra.

19. Íslenska er sjálfsagt mál.
    Stuðlað verði að auknum sýni- og heyranleika íslensku í almannarými í breiðri samvinnu atvinnulífs og stjórnvalda. Kallað verði eftir samráði og aðgerðum, m.a. frá félagasamtökum, fyrirtækjum og stofnunum.
    Tímaáætlun: 2024 2026.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Íslensk málnefnd, Samtök atvinnulífsins, Ferðamálastofa, Samtök ferðaþjónustunnar, Samband íslenskra sveitarfélaga, almannaheillafélög.

20. Starfsþróun og hæfni þeirra sem kenna íslensku sem annað mál.
    Hæfnikröfur þeirra sem kenna fullorðnum innflytjendum íslensku sem annað mál verði endurskoðaðar og stuðlað að aukinni starfsþróun með hliðsjón af innleiðingu Samevrópska tungumálarammans og niðurstöðum gæðaúttekta. Leitað verði leiða til að fjölga kennurum með fagþekkingu í kennslu íslensku sem annars máls fyrir fullorðna, bæta námsframboð á því sviði og auka miðlæga ráðgjöf.
    Tímaáætlun: 2024–2026.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Mennta- og barnamálaráðuneyti, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, Ísbrú – félag kennara sem kenna íslensku sem annað mál, Símennt, fræðsluaðilar, Kennarasamband Íslands, Hugvísindasvið Háskóla Íslands.

21. Fræðsla um máltöku og málþroska barna.
    Átak verði gert í fræðslu til foreldra og fagfólks í skólastarfi um mikilvægi þess tungumáls sem börn læra fyrst fyrir málþroska og máltöku barna og ungmenna.
    Tímaáætlun: 2025–2026.
    Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, heilsugæslan, Kennarasamband Íslands, Heimili og skóli – landssamtök foreldra og Samband íslenskra sveitarfélaga.

22. Fræðsla og ráðgjöf handa innflytjendum þegar börn þeirra hefja skólagöngu í íslenskum skólum.
    Útfærðar verði leiðir til að tryggja foreldrum úr hópi innflytjenda fræðslu og ráðgjöf þegar börn þeirra hefja nám í íslenskum skólum. Markmiðið verði að finna leiðir til að miðla upplýsingum um skólastarfið og tryggja foreldrum kennslu í íslenskum orðaforða sem tengist skólagöngu barnanna.
    Tímaáætlun: 2024–2026.
    Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Miðstöð menntunar- og skólaþjónustu, Móðurmál – samtök um tvítyngi, fræðsluaðilar, Samband íslenskra sveitarfélaga og Heimili og skóli – landssamtök foreldra.



_____________








Samþykkt á Alþingi 8. maí 2024.