31.01.1983
Neðri deild: 31. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1623 í B-deild Alþingistíðinda. (1374)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það var ljóst þegar 21. ágúst á s.l. ári, þegar þau brbl. sem nú eru hugsanlega að koma til endanlegrar atkvgr. í þessari hv. deild voru sett, að vafi lék á hvort þau nytu meiri hl. í annarri deild þingsins, þ.e. þessari, þar sem þau nú eru til 2. umr. Þetta vekur auðvitað spurningar um hvað heimildir til útgáfu brbl., sem kunna að hafa verið eðlilegar fyrir öld eða rúmlega það þegar þau ákvæði voru sett, eru hæpin ákvæði á árinu 1983. En allt um það. Ljóst er samkv. þjóðskipan landsins að þessi ákvæði eru til staðar og þessi ákvæði nýtti sér núv. hæstv. ríkisstj.

Vitaskuld verður að ætla það siðferðisskyldu ríkisstj., þó svo slík ákvæði sé hvergi að finna í lögum eða stjórnarskrá, að þegar hún beitir ákvæði eins og þessu hafi hún einhverja lágmarkstryggingu fyrir því að lögin, sem út eru gefin, njóti meiri hl. þar sem krafist er raunar öflugri meiri hl., þ.e. 32 hv. þm. af 60 í þessu húsi. Það mun reyna á það, sennilega seinna í dag, hvort slíkur meiri hl. er til staðar.

Það er auðvitað ljóst að allmargir hv. þm. eru brbl. andvígir og m.a. sá sem hér stendur. Hann hefur frá öndverðu verið andvígur þessum lögum og þá þeirri meginhugsun þeirra að gripið skuli inn í kjarasamninga með þeim hætti sem gert var í framhaldi af þessum lögum hinn 1. des. s.l., enda er það alveg margsannað í íslenskri hagsögu undanfarinna ára að þessi leið dugir skammt. Hún dugir ekki og hún undirstrikar það botnlausa ábyrgðarleysi í allri samningsgerð í þjóðfélaginu sem er orðið hér meiri háttar vandamál.

Við vitum að á árinu 1983 eru heimildir til útgáfu brbl. gamaldags og úr sér gengnar. Við vitum þess utan, að eins og þessi mál eru í pottinn búin gerist það, og ríkisstj. getur með hegðan sinni orsakað það, að lögin taka í raun gildi 1. des. þó svo umfjöllun um þau hafi ekki farið fram á Alþingi. Menn eru þannig að greiða atkv. um lög, hver þegar hafa verið framkvæmd.

Samt er það svo, að hæstv. ríkisstj. hefur haft ástæðu til að ætta að hún nýti stuðnings hluta af stjórnarandstöðunni við þessa lagasetningu. Hæstv. ríkisstj. hefur aldrei getað reiknað með þeim sem hér stendur í þeim efnum. Sú afstaða hans hefur verið ljós alveg frá upphafi og er auðvitað svo enn. En ég vísa í blaðaviðtal t.d., sem flutt var og birt í Morgunblaðinu miðvikudaginn 10. nóv. 1982, þar sem til að mynda hv. þm. Magnús H. Magnússon var spurður um afstöðu sína og síns flokks til þessara brbl. Ég vísa, með leyfi forseta, í þetta blaðaviðtal um afstöðu til laganna:

„Það þori ég nú ekki að segja. Við þurfum náttúrlega ekki að fara í eina sæng með þeim til þess að hjakka þessum brýnustu málum í gegn. Það er nóg að veita hlutleysi á mjög takmörkuðu sviði til þess. Það má náttúrlega segja að það hjálpi þeim til þess að stjórna þessa mánuði — til þess að skrölta áfram.“

Ég verð að segja að mér er fullkunnugt um að þetta eru ummæli sem féllu ekki af neinni tilviljun. Umræður um þetta höfðu farið fram og þessar skoðanir höfðu heyrst. Hvert sambandið var við núv. hæstv. ríkisstj. hef ég ekki hugmynd um. En ég geri ráð fyrir að hæstv. forsrh. sé læs — ég geri ekki aðeins ráð fyrir því, mér er fullkunnugt um að svo er — og lesi væntanlega Morgunblaðið best allra blaða. Ég veit ekki hvort það var þetta eða eitthvað annað sem reiknað var með í þessum efnum. En því undirstrika ég þetta og rifja þetta upp, að auðvitað er átakanlegt að horfa á þetta stjórnkerfi, sem er úr sér gengið, horfa á það engjast vegna þessarar afgreiðslu þessa máls, segjandi eitt í dag og annað á morgun.

Enn er það svo, eftir því sem mér hefur skilist, að allstór hópur, ef ekki meiri hluti hv. alþm., hefur ekki hugmynd um hvort þessi lög muni falla á jöfnum atkv. eða hvort einhver önnur leið verði farin. Þetta er ástandslýsing á hv. Alþingi á því herrans ári 1983.

Mér er ekki kunnugt um hvort þessi yfirlýsing frá 10. nóv. 1982 stendur enn þann dag í dag. Mér er ekki heldur kunnugt um hvað kynni að hafa breyst, ef hún stendur ekki. Og ég veit ekki hvort hæstv. forsrh. er kunnugt um hvort eitthvað hefur breyst eða hefur ekki breyst í þessum efnum. Hæstv. forsrh., sem eðli málsins samkvæmt hefur áhuga á því að þessi lög komist í gegn, geri ég ráð fyrir, hefur ekki þurft að vaða í villu og svima t.d. um afstöðu þm., sem hér stendur, til þessa máls. En ég fæ ekki betur séð af þessari yfirlýsingu og mörgum öðrum yfirlýsingum, en svo hafi verið um þessa hnúta búið að eðlilegt sé að menn hafi vaðið í villu og svima um hver yrðu örlög þessara laga. Þetta er það sem þjóðinni hefur verið sagt. Þjóðinni er auðvitað fullkomlega ókunnugt um t.d. hvort sú yfirlýsing, sem hér hefur verið vitnað í, stendur eða stendur ekki.

Þetta er mikið alvörumál og ekki síst vegna þess að auðvitað hangir fleira á þessari spýtu en það eitt, hvort þessi lög falla eða falla ekki. Nokkrir hv. þm. eru af prinsippstæðum andvígir því að gripið sé inn í frjálsa samninga, það er auðvitað alveg ljóst. Hér er líka allstór hópur hv. þm., og hann er því miður sennilega stærri, sem er nákvæmlega sama hvort og hvernig millifært er þarna og alls staðar annars staðar, og það er líka ljóst. Að vísu hef ég ekki haft aðstæður til að fylgjast með nákvæmlega síðustu vikur hvað hér er að gerast, en mér sýnist að raunverulega sé verið að leika ljótan leik. Auðvitað veit þjóðin öll að ef þessi lög falla gæti það gerst, að teknar væru allt annars konar ákvarðanir, sem fylgi þegar í kjölfarið. Og hverjar eru þær? Þær eru að þing verði rofið hið fyrsta. Og hvað þýðir það? Það þýðir að úrlausnum í stjórnarskrár — og þar með kjördæmamálum verður slegið á frest og guð einn veit hvað lengi, kannske í fjögur ár. Þetta er vitaskuld einnig kjarni þessa máls.

En það sem hér er að gerast er að flokkakerfið, þetta gamla flokkakerfi, er ekki aðeins gersamlega úrlausnalaust í efnahagsmálum og kann engar aðrar leiðir en að fitla við vísitölu viðmiðun launa á þriggja mánaða fresti, heldur er það líka þverklofið í kjördæmamálunum, hver og einn einasti flokkur af þeim gömlu. Það er óravegur milli skoðana hæstv. forseta þessarar deildar, Sverris Hermannssonar, annars vegar og hv. þm. Péturs Sigurðssonar í kjördæmamálum. Það er óravegur á milli hv. þm. Sighvats Björgvinssonar annars vegar og hv. þm. Jóns Hannibalssonar hins vegar í kjördæmamálum. Svona má taka flokkakerfið upp og niður þvert og endilangt. Og vandinn er sá, að það sem gömlu flokkarnir vilja forðast er að sýna þjóðinni með hverjum hætti þetta hefur átt sér stað og á sér stað, að flokkakerfið er á flótta frá fólkinu. Leikurinn snýst fyrst og fremst um að menn ræða þessi lög og virðast ekki hafa hugmynd um hvort þau falla eða falla ekki. Menn leika sér að þingrofi og ákvörðun nýrra kosninga alveg gersamlega án tillits til hagsmuna þess fólks sem í landinu býr.

Kjarni málsins er einfaldlega sá, að flokkakerfið í landinu er að þessu leytinu til öndvert við hagsmuni fólks sem landið byggir, því að ef svo væri ekki mundu menn tala um það bæði af ábyrgð og hreinskilni hvað það hefði í för með sér, ekki bara efnahagslega heldur stjórnkerfislega, ef þessi lög féllu. Ætla menn að rjúfa þing í kvöld? Ætla menn að rjúfa þing á morgun?

Við lesum í fjölmiðlum boðskap frá skörungum Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu. Ég vísa í forsíðu Dagblaðsins í dag. Þar segir, með leyfi forseta: „Sjálfstæðismenn í stjórnarandstöðu á Alþingi hafa boðið stjórnarliðum að ganga til allsherjarsamkomulags“. — Og ég spyr, herra forseti: Um hvaða allsherjarsamkomulag er verið að tala? Ég á ekki þátt í því og telst ég þó vera 1/60 af þingliðinu. Þykjast þessir herramenn vera að gera eitthvert samkomulag fyrir hönd stjórnarandstöðunnar allrar? Ég veit t.d. ekki hvort hv. þm. Alþfl. eru hluti af því allsherjarsamkomulagi sem hér er verið að tala um. Ég veit ekki með hvaða rétti hv. þm. Ólafur G. Einarsson gengur fram fyrir skjöldu með þessum hætti. Og um hvað er verið að versla? Um hvað er verið að versla? (Gripið fram í: Fiskverð.) Ég sé að hv. þm. Albert Guðmundsson bendir á sig líka. Hann veit greinilega ekkert um þetta. En alla vega er talað um afgreiðslu þingmála og þingrof. Það er hvorki meira né minna. Allsherjarsamkomulag um þingrof! Í nafni hvers? Tvímenninganna sennilega. Kosningadag og samkomulag nýs þings. „Í slíku samkomulagi eru brbl. innifalin, nema brtt. sjútvrh. um ráðstöfun 100 millj-. gengismunar af óseldum skreiðarbirgðum.“

Nú skyldi maður halda að þetta væri uppspuni blaðamannsins, en svo er ekki. Hér segir: „„Það er rétt, við höfum boðið þetta,“ sagði Ólafur G. Einarsson, formaður þingflokks sjálfstæðismanna. „En þeir hafa ekki sinnt þessu enn sem komið er.““

Nei, hugsa sér hvað ríkisstj. í landinu er ókurteis, hefur ekki sinnt þessu enn sem komið er! Sannleikurinn er sá, að sé þessi útlagning rétt, að hér sé um að ræða eitthvert allsherjarsamkomulag, þá lýsi ég það sem helber ósannindi, þó ekki væri nema þegar af þeirri ástæðu að sá sem stendur hér á ekki þátt í samkomulagi af þessari tegund.

Af forsíðufréttinni í Dagblaðinu í dag má ráða að þeir eru að reyna að semja á bak við tjöldin, og enginn á um það að vita, um brbl. Og um hvað semja þeir? Kosningadag. Eru þeir að tala um kjördæmamál? Eru þeir að tala um hagsmuni fólksins? Nei, nei, bara um kosningadag. Og fyrir hverja? Fyrir sig. Þeir eru að tala um þingrof. Þingrof fyrir hverja? Fyrir fólkið í landinu? Nei, fyrir sig. (Gripið fram í: Þig?) Ég tilheyri ekki þessu flokkakerfi lengur og það er mikil breyting.

Það er þetta, herra forseti, sem er kjarni þessa máls. Formaður þingflokks Sjálfstfl. segir það og staðfestir í fjölmiðlum í dag, að hann hafi farið — ég veit ekki til hverra — og boðið upp á samkomulag, ég veit ekki í nafni hverra, en lýsir því sem allsherjarsamkomulagi. Það er rangt. Það er ekkert allsherjarsamkomulag gert. Sé um að ræða lausnir á kjördæmamálum og öðrum þáttum stjórnarskrárinnar, sem sá sem hér stendur teldi t.d. eðlilegt að kæmi í kjölfar þessarar umr., með hverjum hætti sem atkv. fara að öðru leyti hér í dag, þá er það auðvitað skylda Alþingis að sjá svo til að slíkt eigi sér stað. En þessir herramenn eru ekki að semja um það og ætla sér ekki að semja um það. Þeir eru að hugsa um hvernig óbreytt völd fjórflokkanna í landinu, sem að vísu æ fleiri einstaklingar hrekjast frá, verði. tryggð óbreytt til skamms tíma.

Hér er verið að gera samsæri gegn þjóðinni í þessu landi. Það er beinlínis óhugnanlegt að það skuli gerast með þessum hætti. Þegar Cicero, hv. þm. Matthías Á. Mathiesen, hélt hér sína löngu og „elegant“ ræðu áðan og skýru að öllu leyti, þá minntist hann ekki á afleiðingarnar af því ef þessi lög falla. Okkur getur greint á efnislega. Mér er alveg ljóst að þeir sem styðja stjórnina ætla að greiða þeim atkv. Ég ætla að greiða atkv. á móti þeim og fleiri. En það sem menn þurfa auðvitað að átta sig á er eftirleikurinn — og ekki eftirleikurinn aðeins efnahagslega, heldur eftirleikurinn stjórnarfars- og stjórnkerfislega, en það neita menn að ræða hér fyrir opnum tjöldum. Og af hverju er það? Af hverju er það ekki rætt, því að vitaskuld skiptir máli hvað það þýðir? Það skiptir máli stjórnarskrárlega, það skiptir máli að því er varðar jöfnun atkvæðisréttar og það skiptir máli að öllu leyti. En það er ekki rætt, heldur eru menn að hóta hver öðrum bak við tjöldin með þingrofi, svo vafasamur sem sá réttur vissulega er, þingrofsrétturinn, og með hverjum hætti því verði beitt.

Það vil ég segja, að að þessu leytinu til hef ég fyllstu samúð með hæstv. forsrh. Hann hefur marglýst því yfir að hans vilji stendur til þess að Alþingi hrökklist ekki frá með skít og skömm, eins og nú gæti staðið til að gerðist, fyrr en það hefur lokið við að afgreiða hin brýnustu mál, og þá verða stjórnarskrár- og kjördæmamálin fyrst og fremst. En upp gæti komið sú staða að í kjölfar þess að þessi lög falla yrði hæstv. forsrh. nauðbeygður til þess af flokkavaldinu, sem óttast umr. um kjördæmamálin, sem óttast aðrar umr. sem af því mundu leiða, að láta Alþingi hrökklast frá með þingrofi til að koma í veg fyrir breytingar og umr. Þetta er, hv. alþm., mjög alvarlegt mál ef það þróast með þessum hætti. Það er þetta sem er kjarni þessa máls.

Nú veit auðvitað enginn hvað gerist. Gerist það hér að þessi lög falla, sem allt lítur út fyrir að gerist, virðast ekki nema örfáir menn hafa um það hugmynd — ég fullyrði að allur þorri alþm. hefur ekki þá hugmynd — hver eftirleikurinn verður í kvöld eða á morgun. Það eina get ég þó fullyrt, að innan flokkanna fjögurra, þessa flokkakerfis, sem er að ganga sér til húðar, sem samsvarar ekki lengur þeim lífsskoðunum sem fólk hefur í þessu landi, stendur sameiginlega vilji til eins, og þó raunar svo margs, að láta afleiðingarnar verða með þeim hætti að engar breytingar verði gerðar á stjórnarskrá lýðveldisins, að aðstaða þeirra, völd þeirra, verði tryggð enn um sinn. Þetta, herra forseti, verðum við, sem reynum þó að hugsa svolítið lengra en um stofnanir þessa fjórhöfða kerfis, að reyna að koma í veg fyrir, sé það mögulega hægt. En flokkarnir hugsa auðvitað ekki svona. Vörnin fyrir hagsmunina er auðvitað ofar öllu öðru í þessu samfélagi.

Ég vil, herra forseti, enn rifja upp það sem ég vísaði til áðan. Ég geri ráð fyrir að hæstv. ríkisstj. hafi reynt að fylgjast með hvernig mál þróuðust á hinum kanti þessa stjórnkerfis, þ.e. meðal þeirra sem í stjórnarandstöðu eru. Ég vísaði hér í ummæli sem féllu í viðtali við Morgunblaðið hinn 10. nóv. 1982. Ég er ekki að vísa í þessi ummæli vegna þess að ég finni að því að menn skipti um skoðun. Allir skynsamir menn hljóta að skipta um skoðun öðru hverju. Ég er að vísa í þessi ummæli vegna þess að afstaðan til þessara laga var þarna gerð að verslunarvöru. — Ég sé að hv. þm. er farinn úr salnum. Það mundi ég líka gera í hans sporum. — Í þessu viðtali var verið að lýsa því að afstaðan til þessara laga kynni að vera til sölu og kaups. Og því spyr ég núna, fjórum mánuðum seinna: Kynni að vera að eitthvað slíkt væri líka uppi á teningnum nú og ástæðan fyrir þessum sinnaskiptum, sem mér sýnist hér hafa átt sér stað, sé líka kaup og sala, en bara með öðrum hætti? Þetta, herra forseti, kynni að vera alvarlegt mál.

Auðvitað skipta annars vegar höfuðmáli efnisatriði málsins. Efnisatriði málsins eru þau, að fram fór helmingslækkun verðbóta á laun. Sú helmingslækkun tók gildi 1. des. Þeim aðferðum hlýt ég að vera andvígur og af þeim ástæðum greiði ég atkv. gegn þessum lögum, þó svo mér sé ljóst að allur aðdragandi þeirra og allur aðdragandi þessa máls er auðvitað hjákátlegur, að vera að greiða atkv. um lög mörgum mánuðum eftir að þau hafa raunverulega tekið gildi. Engu að síður er það prinsipafstaða að samningar skuli vera frjálsir og án inngripa ríkisvalds, þ.e. sömu ástæður t.d. og ollu því að ég var andvígur inngripum ríkisstjórnar hv. þm. Geirs Hallgrímssonar á sínum tíma í samninga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, svo að nokkuð sé nefnt. Þessi prinsipafstaða ræður því að þessi lög er ekki hægt að styðja.

Annað atriði þessara laga var það, að láglaunabætur sem námu 50 millj. kr. voru greiddar út í des. Við vitum náttúrlega af dapurri reynslu að þær útborganir mistókust meira og minna, lentu allt annars staðar en þeim var ætlað o.s.frv. Þetta er auðvitað búið og gert, en engu að síður vittaus aðferð. (Gripið fram í.) (Forseti: Ekki samtal á fundinum.) Olíusjóður er allt annað mál, hv. þm. Olíusjóður er allt annað mál og kemur þessu máli ekkert við. (Forseti: Ég þykist vita að hv. ræðumaður eigi langt eftir af máli sínu og vildi þess vegna fara fram á það við hann að hann frestaði ræðu sinni við fyrstu hentugleika.) Ég skal bara fresta henni núna. –[Fundarhlé.]

Herra forseti. Í ræðu minni hér fyrr í dag var ég í raun og veru aðeins að endurtaka röksemdir, sem hér hafa margoft verið fluttar mánuðum og árum saman, andstöðu við það inngrip í frjálsa samninga sem 1. gr. þessa frv. gerði og gerir ráð fyrir. En um leið var ég að lýsa bæði áhyggjum mínum og ábyrgð á hendur fjórflokkakerfinu hér á hinu háa Alþingi og í landinu vegna þess ábyrgðarleysis, sem gætir í meðferð þessa frv., með því að engin umr. hefur farið um það hvað við taki í stjórnkerfislegu og stjórnarfarslegu tilliti.

Mér sýnist að þingrofshótanir svífi hér um sali. Ég endurtek þær fullyrðingar mínar frá því fyrr í dag. að ástæðan fyrir þessu kemur auðvitað ekkert efni þessa máls við, heldur er það staðreynd, sem þjóðin verður að fá um að vita og mun fá um að vita, að fjórflokkarnir hafa ekki komið sér saman í kjördæmamálinu. Allar upplýsingar um það með hverjum hætti það mál gengur fyrir sig sýna flokkakerfi sem er klofið niður í rót.

Ef þessir sömu fjórflokkar ætla sér að nota þetta mál til þess í raun og veru að sprengja stjórnarfarið hér í loft upp, í kjölfar þess að þessi lög kunni að falla, þá er það þyngri ábyrgð en stjórnmálaflokkarnir fjórir fá risið undir.

Af þessum ástæðum vildi ég í þessari umr. fá svör við því frá hæstv. forsrh. eða öðrum talsmanni hæstv. ríkisstj., hvað menn, í kjölfar þess að þessi lög hafa fallið, hyggist fyrir í stjórnarfarslegum efnum. Ég tel skylt að þjóðin fái um það að vita, því að ef að jafn alvarlegum þætti stjórnkerfisins sem þingrof auðvitað er, að ekki sé talað um við aðstæður eins og þær sem nú eru ef til þess kann að koma innan ekki margra klukkustunda, sem vel getur verið, þá verða menn auðvitað að fá til þess tækifæri og hafa til þess aðstöðu að vega það og meta í heild sinni. Það breytir að ég hygg engu um afstöðu mína eða annarra til frv. efnislega.

En kjarni málsins er þessi, að rök með slíkri gerð, ef hún stendur fyrir dyrum, verða að heyrast og þar með einnig rökin á móti, því að öðrum kosti er hér um að ræða samsæri flokkakerfisins í landinu, allra flokkanna fjögurra. Og af hvaða ástæðum? Vegna þess að kerfið kemur sér ekki saman. Það á ekki við eingöngu um efnahagsmálin, heldur miklu frekar um kjördæmamálið. Þetta er slíkur kjarni málsins, að á svig við hann má ekki ganga í þessari umr.

Af þeirri ástæðu er hæstv. forsrh. eða annar talsmaður hæstv. ríkisstj. spurður hér og nú: Hvað mun fall þessara laga, sem hugsanlega er ljóst að muni falla, hafa í för með sér á næstu klukkustundum eða dögum í stjórnarfarslegum efnum? Þetta er auðvitað aðalatriði málsins og það ber að ræða samtímis því sem verið er að ræða örlög þessa máls. Ég ítreka þessa spurningu til hæstv. forsrh.

Í annan stað vil ég leggja þá spurningu fyrir hv. formann þingflokks Sjálfstfl., Ólaf G. Einarsson, eða annan talsmann Sjálfstfl., ef hann er ekki viðlátinn þessa stundina, hvað þau ummæli á forsíðu Dagblaðsins í dag tákni að boðið hafi verið upp á allsherjarsamkomulag, eins og það er orðað, um afgreiðslu þingmála, þingrof og kosningadag, sem og samkomudag nýs þings. Þetta er staðfest í blaðinu í dag og haft beint eftir hv. þm. Ólafi G. Einarssyni.

Í fyrsta lagi er þetta rangt. Hér er ekki um allsherjarsamkomulag að ræða, þó ekki væri nema af þeirri ástæðu, að sá sem hér stendur er ekki aðili að því. Mér er ekki kunnugt um að hv. þm. Alþfl. séu heldur aðilar að slíku tilboði. En ég vildi fá upplýsingar um hvort svo er. Því spyr ég: Hvað er hér á seyði? Hvers konar samninga er verið að gera á bak við fólkið í landinu?

Vitaskuld hefur fólkið í landinu áhuga á örlögum þessa frv., sem flestir eru eflaust á móti. En það hefur líka áhuga á öðru. Það hefur áhuga á því hvort Alþingi gegnir skyldum sínum. Það hefur áhuga á því að fá að vita hvort og þá hvernig stjórnarskrá eða kjördæmaþáttur hennar einn verður afgreiddur. Þessi þjóð á ekki skilið það samsæri gegn henni sem hér er hugsanlega verið að framkvæma af flokkakerfi þverklofnu upp og niður.

Ég vil ítrekað spyrja hv. talsmann Sjálfstfl., í tilefni af þessum ummælum í dag, um hvaða allsherjarsamkomulag sé hér verið að tala og í hvaða umboði þessir menn hafi farið til ríkisstj., sem skýrt var frá í dag, og boðið upp á eitthvert allsherjarsamkomulag. Í hvaða umboði hafa þeir gert það? Ég krefst þess, herra forseti, vegna þess að þessi ummæli eru höfð eftir hv. þm. stjórnarandstöðuarms Sjálfstfl., að þeir upplýsi í hverra umboði þeir buðu upp á slíkt allsherjarsamkomutag. Mér þætti einnig vænt um ef mín fyrri flokkssystkin vildu upplýsa hvort þau eru aðilar að þessu allsherjarsamkomulagi, sem ég satt að segja efast um. Og um hvað er þá verið að tala?

Ég nefndi það í þriðja lagi í framsögu minni, þeirri ræðu sem ég hélt hér í dag, að einn af hv. þm. Alþfl., Magnús H. Magnússon, hefði lýst því í viðtali við Morgunblaðið hinn 10. nóv. s.l. að hann vildi semja við ríkisstj. að uppfylltum tilteknum skilyrðum um að þessi lög færu í gegn. Nú veit ég ekki hvort það var þetta viðtal eða önnur ummæli, sem að baki því kunna að hafa búið, sem orsökuðu það að aftur og aftur lýsti hæstv. forsrh. því yfir að hann gerði sér vonir um meiri hluta.

Það er undarlegur umsnúningur andans að mælast til þess að lög séu samþykkt eða þeim veitt brautargengi með hlutleysi, áður en þau komast til framkvæmda, en ætla síðan að fella þau eftir að þau hafa verið framkvæmd. Það væri út af fyrir sig fróðlegt bæði fyrir þingið og þjóðina að fá að heyra það frá talsmönnum Alþfl., hv. þm., hverju þessi umsnúningur sætir, því að mér er kunnugt um það, að þetta blaðaviðtal varð ekki til á mínútuupphlaupi eða fyrir tilviljanir. Við skulum hafa það alveg klárt að viðtalið varð ekki til með þeim hætti.

Upp á þetta var boðið 10. nóv. Það virðist ekki standa ennþá. Þjóðin á heimtingu á að fá að vita hvort staða málsins hafi um eitt skeið verið þannig, að hæstv. ríkisstj. hafi talið sig hafa meiri hl. fyrir brbl.

Ég endurtek það sem sagt var hér í dag, að því aðeins nefni ég þetta, að vitaskuld er það fyrir neðan allar hellur að mál eins og þetta gangi kaupum og sölum. Það er það sem er kjarni málsins. Og ég endurtek það, að að því er sjálfan mig varðar og allmarga hv. þm. aðra, þar á meðal allnokkra af mínum fyrri flokkssystkinum, þá hefur ekki verið um neina slíka sölustefnu að ræða.

Það var alveg ljóst frá upphafi að ekki stóð til að styðja þessi lög af prinsipástæðum. En ég fullyrði að það gildir ekki t.d. um alla mína fyrri flokksbræður. Ég vísa enn í þetta viðtal frá 10. nóv. og því spyr ég. Ég mundi ekki vera að rifja þessa leiðindasögu upp af öðrum ástæðum en þeim að ég fæ ekki betur séð en sömu hlutir séu að gerast núna, en með öfugum formerkjum.

Nú eigi nefnilega að hegða sér svo gagnvart þessum lögum, ekki vegna efnis málsins, enda væru þá orðnar breyttar niðurstöður, heldur vegna þess að flokkakerfið vilji koma í veg fyrir það að þjóðin — og flokkakerfið notast þá auðvitað við sína fjölmiðla og það fjölmiðlavald sem það hefur — fái að vita hve það sjálft er úrræðalaust í kjördæma- og stjórnarskrármálum. Þá er verið að leika svo ljótan leik að engu tali tekur. Þá er þessi stofnun að fremja óhæfuverk gagnvart fólkinu í landinu. Ef leikurinn er til þess eins gerður að fara framhjá efnisatriðum málsins og keyra þjóðina út í kosningar til þess að hún fái ekki um það að vita, að flokkakerfið er ekki aðeins ónýtt í efnahagsmálum, heldur í kjördæma- og stjórnarskrármálum. Og þess vegna væri hægt að fara yfir flokkakerfið þvert og endilangt. Ég fullyrði að það er eins mikill munur á milli hv. þm. Karvels Pálmasonar og Jóns Hannibalssonar í kjördæmamálum eins og á milli dags og nætur. Þetta er ekki sagt um þá sem einstaklinga, það er verið að lýsa stjórnmálaflokkunum. (Gripið fram í: Hvor er nóttin?) Þú ert nóttin. Það er verið að lýsa flokkakerfinu alveg eins og það leggur sig. Þetta á ekki við um þennan flokk sérstaklega, þetta á við um þá alla. Það er það sem er kjarni þessa máls. Áður en þessi lög koma til atkv., sennilega til þess að falla, ber að upplýsa þjóðina um þessi aðalatriði málsins.

Herra forseti. Ég hef varpað fram fsp. í fyrsta lagi til hæstv. forsrh. eða annars talsmanns ríkisstj. um þær fyrirætlanir sem uppi hljóta að vera í stjórnarfarslegum efnum að þessum lögum föllnum. Í öðru lagi — og þá gef ég mér þá forsendu sem ég auðvitað get þó ekki sagt um með vissu en tel þó að sé nokkuð borðliggjandi — í öðru lagi hef ég varpað fram fsp. til hv. þm. Ólafs Einarssonar eða annars talsmanns Sjálfstfl. um þá furðulegu frétt, sem er að finna á forsíðu Dagblaðsins í dag. Ég spyr einfaldlega: Í hvaða umboði er maðurinn að tala? Ég skýt því hér inn, að það er a.m.k. ekki í mínu umboði. Síðan í þriðja lagi hef ég spurt hv. þm. Alþfl., sem lýstu yfir um miðjan nóv. allt annars konar afstöðu, þá voru þeir tilbúnir að semja, með hverjum hætti þessi sinnaskipti hafi átt sér stað.

Ég segi svo í lok þessa máls míns, að ef það sem stendur til að gera er að rjúfa hér þing með snöggum hætti, í kjölfar þess að þessi lög eru fallin, og í fyrsta lagi auðvitað að hlaupast frá efnahagsmálum, í annan stað að hlaupast frá kjördæma- og stjórnarskrármálum, þar sem þetta flokkakerfi hefur a.m.k. undanfarin misseri reynst vera á hvorum vettvanginum um sig gersamlega óhæft, þá er engu að síður augljóst að það er gert af þeim ástæðum einum, að í þessari örvæntingarfullu stöðu halda þeir að með þeim hætti helst geti þeir teygt sig með bestum hætti. Það eru þá hagsmunir flokkanna, sem eru öndvert við hagsmuni fólksins í landinu. Ég vara alvarlega við því að slík óhæfuverk verði framin andspænis fólkinu í landinu, andspænis þeim málefnum sem um er að tefla bæði í efnahagsmálum og í stjórnarskrármálum.

Auðvitað vill maður ekki trúa því, að það sé þetta ábyrgðarleysi, þessir samtvinnuðu og sameiginlegu hagsmunir flokkanna fjögurra, sem meginmáli skipti í þessum efnum. Ég óska, herra forseti, mjög eftir því, að þeim spurningum sem hér hafa verið bornar fram verði svarað áður en þessi lög koma til endanlegrar afgreiðslu.