02.02.1983
Sameinað þing: 45. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1673 í B-deild Alþingistíðinda. (1412)

91. mál, hvalveiðibann

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. hefur nú lokið máli sínu og lesið m. a. upp þá yfirlýsingu ríkisstj. sem hann hyggst munu senda í nafni hennar, verði niðurstaða Alþingis sú að mótmæla beri þessu allsherjarbanni Alþjóðahvalveiðiráðsins. Ég hlýt að segja að eðlilegra hefði mér þótt að vilji Alþingis hefði verið kannaður fyrr að því er varðar þáltill. hv. þm. Eiðs Guðnasonar um það að mótmæla bæri þessu allsherjarbanni fremur en að ríkisstjórn Íslands verði hugsanlega að ganga í sig með yfirlýsingu sem hún þegar hefur gefið frá sér. Mér segir svo hugur um, að sú yfirlýsing, sem hæstv. sjútvrh. las upp, verði ekki send í því formi sem hún var kynnt nú, einfaldlega vegna þess að ég sé ekki betur en líkur séu á að meiri hluti Alþingis mótmæli ekki.

Þetta er vissulega stórt mál og viðurhlutamikið og viðkvæmt fyrir okkur Íslendinga. Ég verð að segja, að fyrir mig, og ég get ímyndað mér fyrir fleiri, er þetta sannkallað kvalræðismál, — að þurfa, eins og mér sýnist málin horfa nú, að beygja sig undir hótanir frá erlendu stórveldi sem byggir afstöðu sína á öfgafullri afstöðu náttúruverndarmanna. Nú vil ég ekkert slæmt segja um náttúruvernd og hef fulla samúð með þeim sem vilja hlífa náttúrunni við óhæfilegum ágangi manna. En ég hlýt að láta það álit í ljós að málið allt, einmitt fyrir tilverknað náttúruverndarmanna, er byggt á veikum og heldur ankannalegum forsendum. Það hefur verið talað um og rökstutt með allöruggum vísindalegum rökum að hér sé ekki fyrst og fremst spurningin um ofveiði og útrýmingarhættu hvala, þó að engin vísindaleg vissa liggi raunar fyrir í hvoruga áttina. Hér séu fremur að verki tilfinningalegar ástæður ákafra manna sem sjást lítt fyrir í ákafa sínum. Þetta kemur þannig út, að veist er að smáþjóð sem á svo til alla sína afkomu undir veiði sjávarfangs. Enda þótt þáttur hvalveiða og þeirra afurða sem við flytjum út af hvölum nemi aðeins 1–2% af útflutningi er þó hér um að ræða atvinnu sennilega um 250 manna á Íslandi og framtíð og starfrækslu vel rekins atvinnufyrirtækis er stefnt í voða.

Ég verð að segja það, að mér finnst hart að við þurfum að hlíta ákvörðun og áhrifum einhverra „græningja“ úti í heimi, sem ekki hafa nokkra aðstöðu til að meta þær ráðstafanir, sem þeir standa fyrir, og hvaða áhrif það hefur á líf þeirrar þjóðar sem í hlut á. Íslendingar eru vissulega þar á meðal. Hér eru tilfinningarnar látnar ráða. Ekki skal ég amast við því að fólk hafi heitar tilfinningar fyrir málum sem það hefur sannfæringu fyrir. En m. a. kemur það harla furðulega fyrir þegar vitnað er í greind hvala umfram önnur spendýr. Ég veit ekki til að vísindamenn hafi haft aðstöðu til að mæla greindarvísitölu hvalanna í sjónum. En hitt er annað mál, að við vitum að við lifum á og erum sífellt að ráða af dögum bráðgreind spendýr með heitu blóði hér allt í kringum okkur. Mér dettur nú í hug refurinn, sem við notum til nytja með því að selja loðskinn. Ég get nú eiginlega sagt að ég sé alin upp með refum því að heima í Vigur vestur frá rákum við refabú um langt skeið og ég kynntist þar árum saman skemmtilegum vitsmunum tófunnar. Vinfengi og jafnvel kærleikar voru með refnum og manninum á þeim bæ. En eins og ég segi: Hér er sýndarmennska og óyfirvegaðar tilfinningar látnar ráða allt of miklu og hafa stórskaðleg áhrif á hagsmuni þjóða sem í hlut eiga.

Ég lýsi því yfir hér, og það mun koma síðar fram, að ég hef við skulum segja heykst á að mótmæla hvalveiðibanninu einfaldlega af því að ég met það svo, að með því að mótmæla væri ég að fórna smáum hagsmunum fyrir aðra margfalt stærri. Ég þori einfaldlega ekki að taka þá áhættu að við stefnum okkar aðalútflutningsmörkuðum í hættu með því að það er búið að heilaþvo bandaríska neytendur þannig að með einhverjum ráðum verður þeim bægt frá því að kaupa íslenskan fisk, ekki hvað síst, eins og hér kom raunar fram, að sölumerki Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna er einmitt „Icelandic“ sem aðalmerki svo að það er engum blöðum um það að fletta hvaðan fiskurinn kemur.

Ég veit að hér er ekki ótakmarkaður tími til stefnu, en með tilliti til þess sem kemur fram í báðum nál. hv. utanrmn. og kom raunar fram í máli hæstv. sjútvrh. líka, þá vil ég leggja áherslu á það og tjá það sem mína skoðun, að það sé óþarfi að vera vonlaus um að hvalveiðimálin muni á ný snúast okkur í vil. Ég vænti þess fastlega að af krafti verði unnið að frekari vísindalegum rannsóknum, sem hugsanlega geti komið vitinu fyrir þá menn sem hér ganga fram í broddi fylkingar í því er ég vil kalla skemmdarstarfsemi gagnvart atvinnulífi smáþjóðar sem við Íslendingar erum.

Hér hefur verið gengið fram af óþolandi offorsi. Ég vil að lokum segja það, að ég hlýt að láta í ljós undrun mína og vanþóknun á framkomu bandarískra stjórnvalda í þessu efni. Bandaríkjamenn eru okkur vinveitt bandalagsþjóð. Mér finnst fara illa á því, að í frammi séu hafðar hótanir um viðskiptaþvinganir verði ekki farið að óskum Bandaríkjastjórnar um að við mótmælum hér ekki, en þegjum og hlýðum.

Ég vil jafnframt benda á að það væri fullkomin ástæða til þess að við Íslendingar bærum fram á vettvangi Sameinuðu þjóðanna umkvörtun, mótmæli og jafnvel kæru á hendur þeim sem þannig fara að gagnvart okkur. Auk þess vil ég benda á, að þeir 66 starfsbræður okkar í öldungadeild Bandaríkjaþings, sem senda okkur undirskriftaskjal, ættu skilið að við svöruðum þeim í sama dúr, sendum okkar greinargerð eins harðorða og við höfum tilefni til og þeir fengju að hugsa sinn gang og reyna að setja sig inn í okkar sjónarmið og skilja þá hagsmuni, sem við höfum hér að gæta.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, en nauðug viljug mun ég greiða atkv. með því að mótmæta ekki þessu hvalveiðibanni.