07.02.1983
Neðri deild: 35. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1765 í B-deild Alþingistíðinda. (1506)

Umræður utan dagskrár

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Mér er að vísu ljóst að stjórnmálaflokkarnir gömlu nálgast þetta svokallaða kjördæmamál með sama hætti og hugarfari og ránfuglinn nálgast ránsfeng sinn. Hér fara fram, segja fjölmiðlar sama ríkisvalds, dag eftir dag fundarhöld fyrir luktum dyrum um eitthvað sem kallað er lausn á svokölluðum kjördæmamálum. Öllu þinginu er kunnugt um að það starfar maður að því að láta þm. í té gögn um þessa svokölluðu lausn þessara fjögurra stjórnmálaflokka og eins hitt, að verið er að vinna að drögum að frv. Þessu skipta þeir með sér og láta ganga á milli sín og halda fundi fyrir luktum dyrum svo vart getur eðlilegt talist.

Ég vil, herra forseti, gera þá kröfu, þó svo að ég standi hér einn að sinni sem talsmaður samtaka, að ég fái að fylgjast með og fái gögn þau sem unnin eru, þó ekki væri nema af þeirri ástæðu einni að þessi gögn eru ekki unnin á vegum stjórnmálaflokkanna og kostuð af þeim. Þau eru unnin af manni, sem starfar með beinum eða óbeinum hætti á vegum þingsins og er kostaður af almannafé, svo sem eðlilegt getur talist.

Herra forseti. Ég mótmæli þessari lokuðu leynistarfsemi stjórnmálaflokkanna fjögurra sem eru að skipta með sér ránsfeng og hegða sér þannig að einn þm. eða fleiri fá þar ekki með að fylgjast. Það er skylda mín sem alþm. og það er skylda mín gagnvart öðrum umbjóðendum að fá að fylgjast með þessum gögnum jafnskjótt og þau verða til. Ég geri þá kröfu, herra forseti, að forseti deildarinnar eða einhver annar gangi fram í því að Bandalag jafnaðarmanna fái að fylgjast með þessari umr. eins og önnur samtök sem hér eiga fulltrúa. Ég fæ ekki betur séð en hér sé verið að fremja eitt samsærisverkið til. Við eigum eins og allir aðrir rétt á að fá að fylgjast með þeirri vinnu sem hér fer fram. Vitaskuld munum við halda trúnað, sé til þess mælst, en við neitum því að við fáum ekki þau gögn sem unnin eru á vegum almennings og kostuð af almannafé.