13.10.1982
Sameinað þing: 2. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í B-deild Alþingistíðinda. (21)

Um þingsköp

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég vil nú ekki hafa um þetta mörg orð eða stór, en þó verð ég að gera aths. við stjórn forseta á fundinum. Hann lýsir því hér yfir, að þegar menn gera grein fyrir atkv. sinu megi þeir ekki fjalla um efnisatriði málsins. En það er augljóslega ekki sama hverjir í hlut eiga og hvað þeir eru að segja, því að hér hafa menn gert þannig grein fyrir atkv. sínu að lýsa sig andvíga efni fsp. Það er ekki gerð aths. við það. Það er aðeins gerð aths. við efnisatriði ef þau falla ekki forsetanum. Finnst ekki fleirum en mér þetta alvarlegt, með hverjum hætti þessi valdníðsla fer fram?

Ég skil ekki hvað hv. 10. þm. Reykv. er yfir höfuð að skipta sér af þessu máli, sem hann augljóslega veit ekkert um. Og hvað er hann með derring að vaða hér upp á dekk? Hann fer að vísa í einhver einkasamtöl mín og forseta. Hvaðan í ósköpunum kemur honum vitneskja um það? Það er rétt, að forseti hafði samband við mig í gær og bað mig að umorða spurninguna, sem ég gerði. Forseti kallaði mig enn á fund til sín í morgun, svo að ég skýri satt og rétt frá, og lagði fyrir mig handrit að nýrri spurningu, sem hann sagði að hann mundi fallast á að ég flytti. Og ég sagði honum að hann gæti látið hv. þm. Þórarin Sigurjónsson flytja þessa spurningu, ef honum væri umhugað um að fá hana fram. Ég flyt hana ekki. Ég var að flytja fsp. um allt annað mál. Er þetta að rétta fram hönd til samkomulags? Þetta er bull, herra þm. — Og hann notar orðalagið, að hér standi hv. 4. þm. Reykv. og sé að baða sig í einhverju ljósi. Hvers konar mannasiðir eru þetta? Ég hef borið fram fsp., eins og hann hefur margoft gert sjálfur. Ég hef orðið fyrir því að neitað er að ég fái að ræða hana. Var það ég sem var að baða mig í einhverju ljósi? Ég sé ekki betur en það séu einhverjir aðrir sem þeim ljóskösturum stýri, satt að segja. Ég skil ekki hvað þessi lögfræðipiltur úr Heimdal!i er að skipta sér af málum sem hann augljóslega hefur ekkert vit á. Hann hefði getað greitt atkv. og þá hefði lítið borið á þessum aths.

Herra forseti. Fundarstjórn þín á þessum fundi hefur verið hlutdræg. Það hafa verið gerðar aths. við efnisatriði, þegar forsetanum hafa ekki fallið þau. Hér lýstu þm. sig hins vegar andvíga, ég veit ekki hvort það var, fsp. eða flm. — við erum orðnir ýmsu vanir — og þá eru engar aths. gerðar við það úr forsetastóli. Ég er rétt kjörinn þm. þangað til kjósendur ákveða annað og ég krefst þess, þrátt fyrir róttækar skoðanir mínar, að fá að hafa hér sama rétt og aðrir. Og ég krefst þess, að fyrirspurnir um svona efni eða Framkvæmdastofnun ríkisins og íbúðakaup á Akureyri megi koma hér fram og þær séu ekki hindraðar. Því nefni ég þetta, að þetta varðar forsetann sem í morgun taldi sig þess umkominn að neita fsp.

Herra forseti. Ég er að tala um þingsköp, fundarstjórn forseta sem kosinn var af þingmönnum allra flokka í gær. Hún hefur verið hlutdræg. Það hefur auðvitað ekki farið fram hjá nokkrum manni. Hann bannaði sumum mönnum umr. um efnisatriði og hann leyfði aths. um efnisatriði ef þær voru af hinu taginu. Auðvitað sjá þetta allir. Og svo sitja þeir hér, kerfisfólkið, og segja: Nei, ekki umr. um þetta. Það er ekki furða þó að ástandið í þjóðlífinu sé eins og það er. Það er ekki furða þegar fólkið, sem ábyrgðina ber, hagar sér svona. Og það er eina ósk mín, að allir fái um þetta að vita. Það er eina ósk mín. Og, herra forseti, sú vitneskja nógu margra verður þér ekki til mikils sóma.