01.03.1983
Sameinað þing: 59. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2374 í B-deild Alþingistíðinda. (2122)

Um þingsköp

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Hv. 11. þm. Reykv. nefndi hér eitthvað sem hann kallaði vörn mína. Til þess að í einhverju máli sé vörn þarf að vera sókn, og þau undurfurðulegu rök, sem hv. 11. þm. Reykv. hefur haft uppi, kalla ég ekki sókn í nokkru máli. Hér er verið að þyrla upp einhverju fúkyrðaregni. Þetta er ekki sókn og það var ekki um neina vörn að ræða. Það er aðeins verið að lýsa staðreyndum. Það er allt og sumt.

Ég hef greint frá því hér, og ég held að það hvorki hafi farið á milli mála né muni fara á milli mála, að ef eftir því hefði verið leitað eða eftir því mun verða leitað að sá sem hér stendur afsali sér nefndarsætum í menntmn. og allshn. — sem hafa nú ekki þótt vera virkustu nefndir þingsins — þá er það sjálfgefið. En kjarni málsins er sá, að eftir engu slíku hefur verið leitað.

Hv. 2. þm. Reykn. flutti hér nokkuð prestleg orð um það sem menn þyrftu að gera upp við samvisku sína. Ég hef aldrei heyrt það fyrr en nú að rætt hafi verið í þingflokki Alþfl. að slíka hluti yrði ég að gera upp við samvisku mína. Ég hefði talið það alveg sjálfgefið, að niðurstöður kosninga miðað við það sem kosið er þegar kosið er, giltu um þessa hluti eins og alla aðra. Það er kjarni málsins. Og ég greini frá því, að það gekk auðvitað til beggja átta. Það er ekki aðeins það að ég tæki sæti í þessum tveimur nefndum fyrir þessi atkv., heldur tóku aðrir sæti í nefndum vegna þess hvernig ég greiddi atkv. Og það hvarflar ekki að mér, þó að aðstæður hafi breyst í millitíðinni, að vera að vefengja þær niðurstöður í skjóli þess sem síðar gerðist. Það er þetta sem er kjarni málsins. Og, herra þm., til þess að um vörn sé að ræða þarf sókn. En þessi ræfilslegu rök eru ekki sókn í nokkru máli.

Ég hef, herra forseti, vakið athygli á því, eins og hv. 6. þm. Norðurl. e. hefur einnig bent á, að það er litið mál sem hér er um að ræða. Hitt væri miklu stærra, ef menn vefengdu seturétt á Alþingi, sem er auðvitað sama mál en stærra í umfangi sínu. Það er út af fyrir sig a. m. k, fræðileg spurning til að velta fyrir sér, með hverjum hætti skal með það fara. Og vitaskuld var það gert í nóvembermánuði s. l. Látum ráðleggingar löglærðra manna liggja á milli hluta, en hins vegar var niðurstaðan sú, að í þeim efnum sem og öðrum þarf þm. að hlýða samvisku sinni. Þessir hlutir hafa marggerst í þingsögunni áður, að menn hafa verið kosnir til þings á vegum tiltekinna samtaka og á ferlinum hefur orðið þar aðskilnaður. Í þessum efnum hefur hegðunin verið nákvæmlega eins og fordæmi eru fyrir.

Hv. þm. notaði enn og bætti við u. þ. b. 10 sinnum orðinu siðleysi við hin 20 fyrri skipti. Látum það allt liggja á milli hluta. En kjarni málsins er sá, að ef eftir því er óskað þá mundi vitaskuld verða við því orðið.

Vegna þeirra fsp. sem fram komu hér í hita umr. um einhver allt önnur mál, fiskverð minnir mig, frá hv. 3. þm. Vestf., vil ég aðeins skýra frá því, að gangurinn að því er þessar tvær nefndir varðar hefur verið nákvæmlega eins og hann hefur verið árum saman. Ég veit ekki til þess að á nokkurn hátt hafi þar verið legið á neinum upplýsingum. Hins vegar hefur hlutum verið komið áleiðis hafi eftir því verið óskað, án þess að ég sé að fara í smáatriðum út í það. Þetta er ekki kjarni málsins. Kjarni málsins er hinn, að menn kjósa ákveðinn mann til trúnaðarstarfa á einhverju gefnu augnabliki. Forsendur kunna að breytast í millitíðinni, en kosningaúrslitum er ekki hnekkt fyrir bragðið. Þetta er hin almenna regla. En ég segi enn hér og nú — og hygg að menn hafi vitað um slíkt áður og það gildir auðvitað, hefur gilt í fortíð og mun gilda í framtíð — í ljósi þess hvernig þessum málum er háttað: Sé óskað eftir breytingum á því, þá er auðvitað sjálfsagt að verða við þeim. Það er það sem er kjarni málsins.

En ég vil enda með þeirri vörn fyrir minn gamla flokk, að ekki veit ég hvert hann er leiddur, en þangað er hann ekki leiddur að hann þurfi á þessum málsvara og þessari tegund af málsvörn að halda. Svo mikið fullyrði ég.