01.03.1983
Sameinað þing: 59. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2375 í B-deild Alþingistíðinda. (2124)

Um þingsköp

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég vona að forseti taki það ekki illa upp þó að ég lýsi því hér og nú, að ég fer ekki að taka upp á því á gamals aldri að taka hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson alvarlega. Ég hef ekki gert það áður og fer ekki að taka upp á því nú. En ræða síðasta ræðumanns, herra forseti, er merkileg vegna þess, að þetta er í fyrsta skipti sem fyrrum flokksbróðir minn gerir aths., með þeim hætti sem hér hefur verið gert, við setu mína í þessum tveimur nefndum. Það hefur enginn gert áður, hvorki með formlegum né óformlegum hætti. Og þar sem þessi ís hefur verið brotinn, herra forseti, af hv. þm. Eiði Guðnasyni, þá er alveg augljóst að mér er ekki fær nema einn kostur. Hér og nú segi ég af mér störfum í menntmn. og í allshn. Það er málið. Og ég vil þakka fyrir. Ég hef ekki vitað að svona hafi kraumað í krötunum út af þessu máli. Mér var fyrirmunað að vita um það, því að enginn hefur sagt það.

Hér talaði hv. þm. Árni Gunnarsson áðan og talaði til allt annarrar áttar. En það er málið að nú í fyrsta skipti hefur það skeð að kratarnir hafa komið upp á yfirborðið. Ég veit ekki hvort vel heppnuð fundarferð um Snæfellsnes skiptir einhverju máli í þessu sambandi, en af einhverjum ástæðum hefur þetta skeð. Hv. þm. Eiður Guðnason hefur gert aths. við það siðferði mitt að sitja í þessum tveimur nefndum. Þær röksemdir hef ég ekki áður heyrt frá mínum fyrri flokkssystkinum hér innan þessa húss. En svarið er auðvitað afar einfalt. Þar sem þetta hefur komið fram frá hv. 5. þm. Vesturl., Eiði Guðnasyni, þá, herra forseti, segi ég mig hér og nú úr menntmn. og allshn. Nd.

Ég fellst alveg á það að ég var kosinn þar af sjálfum mér og sex öðrum þm. Nd. Það er augljóst að þær forsendur hafa breyst með þessum hætti. Ég vil alls ekki af persónulegum ástæðum sitja þar gegn vilja þessara manna. En þetta er í fyrsta skipti sem það hefur komið í ljós, að vísu aðeins frá einum af þeim þremur hv. Alþfl.-mönnum, sem hér hafa tekið til máls. En gott og vel. Við skulum lúta þessum leikreglum að þessu sinni. Fyrir þessu munu að vísu ekki vera fordæmi, en við erum þá að búa þau til og það er aldeilis ágætt. En ræða hv. þm. Eiðs Guðnasonar brýtur ís að því leytinu til í þessu máli, að þessa aths. hefur ekkert af mínum fyrri flokkssystkinum gert fyrr.

Herra forseti. Þar sem ég er ekki lengur í þessum tveimur þingnefndum verður að kjósa til þeirra aftur. Ég vil aðeins óska eftir því að farið sé að réttum formum í þeim efnum. Þessi aths. hefur komið fram frá mínum fyrri flokkssystkinum. Ég hafði satt að segja vonast til þess, og við höfum reynt að gæta þess held ég, báðir aðilar, að viðskilnaður við gamla flokkinn væri með fremur kurteislegum hætti. En nú hafa mál vissulega þróast út á nýjar brautir. Ég hlýt að hegða mér samkv. því og ég þakka fyrir mig.