03.11.1982
Neðri deild: 7. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

55. mál, orlof

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það skulu aðeins vera nokkur orð í framhaldi af orðum hv. 10. þm. Reykv. um orlofsmál og frv. það sem flutt var á 104. löggjafarþinginu og hefur nú verið endurflutt. Hann greindi auðvitað efnislega alveg rétt frá því sem gerðist hér s.l. vetur, en ég vil þó aðeins bæta nokkrum atriðum við.

Í fjölmörgum málum er það auðvitað svo að þó að allir þeir hv. þm. sem hann nefndi hér áðan og sennilega miklu fleiri séu — misjafnlega þó — kannske í prinsippinu menn frjálsra samninga, þá kemur iðulega upp ágreiningur um það hvenær samningar milli tveggja aðila skuli vera frjálsir og hvenær réttlætanlegt er að grípa inn með löggjöf. Ég er út af fyrir sig alveg sammála því að í þessum efnum beri löggjafanum að fara sér mjög hægt. En hitt verður þó að undirstrika, að atriði eins og stytting vinnuviku hafa í gegnum tíðina verið löggjafaratriði. Þegar hér er á s.l. þingi flutt lítið mál um orlof, sem gekk út á það að atvinnurekandi gæti ekki ákveðið orlof launþega á tímabilinu 2. maí til 31. maí og 1. sept. til 15. sept. öðruvísi en að sérstakt samþykki launþega komi til, tel ég þess vegna alveg fáránlegt að kalla slíkt frv. með einhverjum hætti inngrip í frjálsa samninga.

Þetta er í sjálfu sér litið mál, snertir að ég hygg fáa vinnustaði og einkum þá stærri. Ég nefni sérstaklega, þar sem ég þekki nokkuð aðstæður, álverið í Straumsvík, þar sem það hefur valdið launafólki miklum óþægindum að vera skikkað gegn vilja sínum í orlof snemma í maí eða fram undir miðjan september. Og þó svo ég vilji taka undir það með hv. 10. þm. Reykv., og raunar hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni hér í fyrra, að í slíkum efnum beri okkur af prinsippstæðum að fara ákaflega hægt og varlega, þá verðum við engu að síður að draga markalínur. Hjá því verður aldrei komist. Það er því að ég held fáránlegt og út í hött að frv. sem þetta, og þá er ég að tala líka vítt og breitt um orlofsmálin, geti kallast inngrip í frjálsa samninga. Það er aðeins um það að ræða að í maí og sept. sé ekki hægt að skikka launafólk í sumarleyfi gegn vil ja sínum. Og ég vil að því leyti, án þess að ég vilji vera að halda hér uppi neinni ögrandi umr., taka undir það með hv. 10. þm. Reykv. að afstaða hv. þm., sem nefndur var, var í senn furðuleg og átakanleg í þessu máli, að þetta gæti kallast inngrip í frjálsa samninga.

Þetta frv. hefur verið endurflutt af þm. allra flokka og ég á von á því að það muni að þessu sinni renna hér nokkuð auðveldlega í gegn. Því að hversu varfærinn sem ég vil vera í þessum efnum — og er auðvitað þar áð lýsa samstöðu með margyfirlýstum röksemdum félagsmálahreyfingar eins og verkalýðshreyfingarinnar, að samningsréttur skuli í grundvallaratriðum vera frjáls, hann á að vera það og við eigum að ganga lengra til þeirrar áttar aftur en verið hefur að undanförnu — þá verður engu að síður að vera einnig til staðar skilningur á því að atriði eins og þessi hafa ævinlega unnist, og geta sennilega ekki öðruvísi unnist en með löggjöf.

Ég treysti því að hv. þm. sem nefndur hefur verið, taki ljúflegar á þessu máli heldur en gert var. Samningar eiga að vera frjálsir. Frv. eins og þetta er hins vegar á engan hátt brot á þeirri grundvallarreglu.