04.03.1983
Neðri deild: 51. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2515 í B-deild Alþingistíðinda. (2331)

158. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka fyrir það umburðarlyndi að umr. um þetta mál var frestað í sólarhring til þess að færi gæfist á að kanna möguleika á flutningi brtt.brtt. hefur verið flutt á þskj. 462 og er flutt af okkur hv. þm. Pétri Sigurðssyni.

Þessi brtt. felur í sér, að þau lög, sem hér um ræðir, sem eru lög um bann við ofbeldiskvikmyndum, jafnframt því sem þau þegar öðlist gildi, svo sem venja er í flestum tilvikum, falli úr gildi við árslok 1987. M. ö. o., beitt sé því sem stundum er kallað „sólarlagsaðferð“ við lagasetningu.

Ástæðan, eins og hér kom fram í gær, fyrir flutningi þessarar brtt. er auðvitað ekki sú, að menn hafi við það að athuga, vegna þeirra sérstæðu aðstæðna sem skapast hafa með tæknibyltingu í myndvarpi, að þetta frv. sé flutt. Því valda sérstæðar aðstæður og við þeim þarf að bregðast, svo sem bæði hæstv. ráðh. og hv. flm. á vegum menntmn. hafa gert ráð fyrir. En engu að síður, þegar menn eru að leggja til boð og bönn af þessu tagi, sem ævinlega eru hættuleg, t. d. á sviði menningarmála. þá verða menn auðvitað að fara sér afar hægt og verða að vera varir um sig vegna þeirrar hættu að fyrr en varir hafi hinn upphaflegi tilgangur lagasetningarinnar gleymst, en í staðinn séu komin kannske opinber ráð eða nefndir, sem fari jafnvel býsna geyst í því að skilgreina hvað kunni að vera ofbeldi, svo að nokkuð sé nefnt.

Það er auðvitað deginum ljósara hvað fyrir lagasmiðum vakir að þessu sinni, en þegar þær sérstæðu aðstæður, sem þessu valda, eru liðnar hjá kann hinn upphaflegi tilgangur að hafa gleymst og lögin öll að fá á sig aðra mynd. Þetta geta menn og eiga menn að óttast og af þeim ástæðum, herra forseti, er hér lagt til að 5. gr. frv., þ. e. gildistökugrein þess, orðist svo:

„Lög þessi öðlast þegar gildi og gildi til ársloka 1987.“