07.03.1983
Neðri deild: 53. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2615 í B-deild Alþingistíðinda. (2464)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Vilmundur Gylfason (frh.):

Herra forseti. Í ljósi síðustu upplýsinga, sem fram komu, er auðvitað ekki að spyrja að þeirri áráttu flokkavaldsins í landinu að reyna að loka umr. á Alþingi frá fólkinu í þessu landi, reyna að loka fyrir að fólkið í landinu fái réttar upplýsingar um með hverjum hætti þetta fer fram.

En herra forseti. Nú er verið að ræða frv. til stjórnskipunarlaga. Flm. eru hv. þm. Geir Hallgrímsson, Steingrímur Hermannsson, Svavar Gestsson og Magnús H. Magnússon. Ég held þessari ræðu ekki áfram nema eins og helmingur flm. sé viðstaddur. Þetta nær ekki nokkurri átt, þá á ég við 1. flm. fyrst og fremst. (Forseti: Gera svo vel og aðgæta hvort í húsinu eru Geir Hallgrímsson, Steingrímur Hermannsson, Svavar Gestsson og Magnús H. Magnússon — einn er nú hér í salnum sé ég er. Segja þeim að þeirra sé óskað hér vegna þess að þeir eru flm. stjórnskipunarlagafrv.)

Herra forseti. Ég held þá áfram máli mínu. Það er ljóst af þeim upplýsingum sem hæstv. forseti hefur gefið um það, með hverjum hætti þetta mál verði kynnt fyrir þjóðinni, að ekki hefur verið orðið við óskum okkar hv. þm. Geirs Hallgrímssonar um að umr. um þetta mál yrði útvarpað. Mér er í raun óskiljanlegt og þess utan sársaukaefni að það skuli vera farið að með þessum hætti, einnig vegna þess að fleiri hv. þm. höfðu eftir slíku óskað. En það fellur mjög vel að þeirri kenningu að þeir sem bera ábyrgð á þessu frv. og það hafa flutt, af ástæðum sem kannske blasa við hér innan húss, vilja vitaskuld ekki umfjöllun um málið. Þeir vilja fá að halda þeirri goðsögn að fólkinu í þessu landi að eitt og hið sama sé frv. og fskj. Og því er nú ver og miður að stærstu og áhrifamestu fjölmiðlarnir að því er skoðanamyndun varðar hafa auðvitað leikið þessa leiki með því kerfi sem greiðir þeim laun. Þetta er auðvitað óhugnanleg lýsing á íslenskum aðstæðum, að þær skuli vera með þessum hætti. En herra forseti, svona er það.

Allt um það. Herra forseti hefur kynnt niðurstöður við óskum og við því er svo sem ekkert að segja að öðru leyti.

Ég var þar kominn, herra forseti, í ræðu minni í dag að ég var að tala fyrir fyrstu brtt. sem ég hef flutt og er liður í stefnumörkun Bandalags jafnaðarmanna. Það er till. á þskj. 498, 206. mál, um breytingu á stjórnskipunarlögum o. s. frv. Hún fjallar um það, að þegar við erum að ákvarða fjölda þm., jafnvel skiptingu þeirra milli kjördæma, sem fært er inn í stjórnarskrá lýðveldisins, sem ég vil taka undir að er mjög umdeilanleg aðferð að ekki sé meira sagt, þá skiptir líka máli aðferðin, sem þeir eru kosnir eftir, og hitt, hvert á að vera eðli starfanna og verkanna sem viðkomandi kosnir fulltrúar almennings í landinu eiga að inna af hendi. Þær brtt. sem ég hef flutt við þessa umr. málsins fjalla allar um þetta efni, ekki aðeins um fjölda þm. heldur er bætt við breytingum í stjórnskipan landsins um eðli þeirra þingstarfa sem menn leysa af hendi og um aðferðina sem almenningur í landinu hefur rétt til að beita þegar hann kýs sér fulltrúa. Og ég hef lýst því, herra forseti, að við leggjum til að aftan við þá grein sem fjallar um fjölda þm., sem er hin 31. í núgildandi stjórnarskrá, bætist ný grein, sem sé svohljóðandi, að „við kosningar til Alþingis skal kjósandi eiga þess kost að merkja við listabókstaf eða einstakling eða einstaklinga á listum allt upp í tölu kjörinna alþm. í viðkomandi kjördæmi. Nánari ákvæði um þessa kosningatilhögun skulu sett í kosningalögum.“

Ég gerði í dag, herra forseti, þá grein fyrir þessari till., að ekki aðeins er þetta skynsamleg, lýðræðisleg og valddreifð kosningaaðferð og ekki aðeins er hér verið að taka höfuðkosti svokallaðra prófkjara eða forvala, eða hvað menn vilja kalla það, og innleiða þær aðferðir inn í kosningakerfið sjálft, heldur er einnig verið að koma í veg fyrir það sem einkum alveg upp á síðkastið hefur komið í ljós að eru gallar við þetta kerfi, og vil ég þar t. d. vísa í grg. með frv. til kosningalaga, sem hv. þm. Magnús Magnússon o. fl. hafa flutt. En aðalatriðið er þó hitt, fyrir utan hinar almennu röksemdir, að hér sé um skynsamlega tilhögun að ræða, dreift vald til þess einstaklings sem greiðir atkv., hann hafi leyfi til að kjósa lista eða einstakling eða einstaklinga á einum eða fleiri listum. Þá er verið að svara félagslegum kröfum og félagslegum þörfum fólks í þessu landi. Ef konur sjá ástæðu til þess að bjóða fram til sveitarstjórna eða til Alþingis er það vegna þess að sú félagslega þörf er til staðar, a. m. k. hjá þeim sem bjóða fram og hjá hinum sem greiða atkv. Menn getur greint á um aðferðirnar, um málefnið eða um hvað annað, en þessir einstaklingar eiga sér auðvitað rétt fyrir vikið, hvað sem mönnum annars finnst, og fullkomna ástæðu til að gera slíkt.

En af hverju hefur blanda af stjórnkerfinu og flokkakerfinu þvingað fram sérlista utan um einstök sérsjónarmið, sem fólki kann að þykja mikils virði það og það sinnið og hefur fullan rétt til auðvitað? Það er vegna þess að fjórflokkakerfið í landinu, sem stendur fyrir einhver almenn sjónarmið, sem mótuðust á árunum frá fyrri heimsstyrjöld og fram í heimskreppu og stendur auðvitað ekki fyrir neinar meginskoðanir í landinu lengur, stendur beinlínis gegn þeim nýju félagslegu sjónarmiðum, kröfum og þörfum sem uppi kunna að vera í landinu það og það sinnið. Síðan koma fram hópar fólks sem leggja áherslu á ný markmið og nýjar leiðir. Það er t. d. bæði markmið og leið ef mönnum þykir að ekki sé nóg af konum á löggjafarsamkomunni og menn vilja fleiri konur. Það er markmið og leið ef mönnum þykir að húsfriðunarsjónarmiðum eða hverjum öðrum sjónarmiðum, umhverfisverndarsjónarmiðum eða hvalaverndunarsjónarmiðum, sé ekki gert nægilega hátt undir höfði.

Þau sjónarmið sem flestir einstaklingar greiða atkv. sitt eru auðvitað merkilegust það og það sinnið í augum löggjafans. Það er ákaflega einföld regla. En gegnt allri slíkri hugmyndafræði stendur flokkakerfið. Ef menn vilja kjósa sjónarmið sem hv. þm. Geir Hallgrímsson aðhyllist þurfa þeir að kjósa einhverja tíu aðra í leiðinni sem þeir kannske vilja hvorki sjá eða heyra og aðhyllast eitthvað allt annað. Kjarninn er þessi: Flokkakerfið í landinu stendur ekki lengur fyrir neinu meginsjónarmiði, sem einhverjir aðrir standa ekki fyrir.

Dæmi er ruglingurinn á ríkisafskiptum og einkarekstri, þar sem flokkakerfið heldur blekkingarmyndum að öllum almenningi í landinu í ljósi sinnar fjölmiðlaaðstöðu. Það er alveg sama hvar við berum niður hvað snertir þær meginlínur sem skiptu fólki í fylkingar fyrir svo eða svo mörgum áratugum. Þessi sjónarmið eru ekki til staðar lengur. Fyrir þeim staðreyndum á löggjafinn auðvitað að beygja sig, vegna þess að hættan er sú, að ef menn halda þessu flokkamynstri að fólki hvað sem tautar og raular, taka af þeim réttinn til að velja öðruvísi, þá eru flokkarnir orðnir þvingun en ekki tæki.

Við segjum: Ef eitthvert sinnið er uppi í þjóðfélaginu ósk um það frá konum eða körlum eða þeim saman að það skuli vera fleiri konur, þá á fólki að vera frjálst að kjósa konur af því flokkamynstri sem boðið er upp á. Sem sagt: Ef minnihlutahópar telja sig órétti beitta í það og það skiptið, sem oft kemur auðvitað upp, hvaða sjónarmið sem uppi kunna að vera, hvað á þá að þýða að flokkakerfið haldi því mynstri að landinu að ef einhver kjósandi í Reykjavík vill greiða hv. þm. Geir Hallgrímssyni atkv. sitt sé hann að kjósa yfir sig Framkvæmdastofnun ríkisins? Þannig er það í raun í því þrönga kerfi sem upp á er boðið. Það er þetta sem við sjáum og það er þetta kerfi sem er orðið skakkt, sem er orðið afmyndað. Réttlætingin fyrir þessu kerfi er í raun og veru engin önnur en einhver söguleg verðmæti: Af því að Alþfl. kom á vökulögunum á þriðja áratugnum eða var virðulegur í tryggingamálum 1934 eiga menn að kjósa hann í dag. Kjarni málsins er að þetta kerfi stendur allri heilbrigðri skoðanamyndun beinlínis fyrir þrifum.

Við verðum að skoða sögu þessa máls. Hún er sú, að frá því að heimastjórn kom mn í landið og þangað til 1959 var íslenskt kosningakerfi í raun og veru þrefalt. Það var þannig: Að uppistöðu til voru einmenningskjördæmi. Nokkur kjördæmi voru tvímenningskjördæmi. Eitt kjördæmi var stærra, hlutfallskosningakjördæmi. Það var beitt þremur aðferðum við að kjósa. Þessu var breytt að vísu 1942 í stórum dráttum, en að uppistöðu til stendur þetta fyrirkomulag frá heimastjórn og til 1959.

Það hafði í sér og innibyggðar augljósar skekkjur af alls konar tagi. Sögulega vil ég segja að breytingin sem gerð er 1959 var í alla staði bæði eðlileg og skynsamleg í ljósi þeirra aðstæðna sem hún var gerð við. En hinu er ekki að neita, að einmenningskjördæmin höfðu auðvitað vissa kosti fram yfir það fyrirkomulag sem við búum við í dag. Þau höfðu þá augljósu ókosti að það gat orðið mikil skekkja milli manna annars vegar og samtaka þeirra hins vegar. Og við þekkjum að á þessu tímabili vann einmenningskjördæmakerfið mjög með Framsfl. og á móti öðrum stjórnmálasamtökum. Þetta þekkja menn. En engu að síður hafði einmenningskjördæmakerfið óneitanlega vissa kosti. Það hafði þá kosti að inn í það var byggð meiri valddreifing, heldur minna flokksræði og þegar um var að ræða marga fulltrúa smárra eininga, eins og þá mynduðu a. m. k. stóra hluta af hv. Alþingi, tókst annars konar og að mörgu leyti eðlilegri samvinna, vegna þess að einn er einstaklingurinn svo sem lítils megnugur, en í félagi við aðra meira megnugur, og það á auðvitað við löggjafarsamkomu eins og í öllum öðrum mannanna verkum.

En allt um það. 1959 er horfið frá þessu kerfi og tekin upp átta stór hlutfallskosningakjördæmi, að vísu misstór eins og menn þekkja, og við það kerfi höfum við búið fram til þessa dags. Þetta var skiljanleg breyting að mörgu leyti eins og hún var fram sett, en aðalatriðið er þó hitt, að inn í þetta kerfi voru byggð annars konar óþægindi, rangindi getum við beinlínis sagt, eða það sem stundum hefur verið nefnt flokksræði. Gegn þessu gerðu menn svo uppreisn með öðrum hætti. Það má segja að þegar krafa um prófkjör eða forval eða slíkt kom fram fyrir nokkrum árum hafi það verið uppreisn gegn þessu flokksræði, en að vísu ekki nema hluta af því vegna þess að í öðrum ákvörðunum, sem oft skiptu meira máli, héldu pýramídar flokkavaldsins velli.

Þessi till., sem ég hér er að mæla fyrir, er uppskurður á verstu agnúum og veikleikum þessa fyrirkomulags, nefnilega það að sumpart sé horfið til baka til hugsunar einmenningskjördæmanna, nefnilega að einstaklingurinn hafi til þess leyfi að hegða sér með atkvæði sínu óháð þeim samtökum, sem flestir fulltrúarnir í þessu húsi standa fyrir með einum eða öðrum hætti, og samtökin sem slík séu ekki lengur neitt aðalatriði þessa máls, enda eiga þau ekki að vera það, heldur þau sjónarmið sem einstaklingurinn, hver sem hann er, stendur fyrir með einum eða öðrum hætti. Þetta er kjarni málsins í þeirri till. sem hér er verið að leggja fram.

Ég geri ráð fyrir að fyrsta kastið muni hv. alþm., sem standa fyrir flokkavaldið, vilja halda þeirri hugsun að fólkinu í landinu að flokkarnir standi fyrir eitthvað sérstakt, sem einhverjir aðrir standi ekki fyrir, sem eru auðvitað meginmistök, kann að hafa verið rétt í kreppunni og alllengi á eftir, en eru meginmistök eins og málum háttar á því herrans ári 1983. En þetta er kjarni málsins, að sá sem greiðir atkv. eða sú og með hverjum hætti sem viðkomandi kýs að verja því að öðru leyti sé ekki bundinn af þeim fyrir fram formúlum sem flokkavaldið og fjölmiðlarnir, sem þeir gefa út, halda að fólki og oftar en ekki ranglega. Því er, herra forseti, lagt til að við séum ekki aðeins í þessu frv. til l. að ákvarða tölu hv. alþm., sem við leggjum til að sé óbreytt, 60, eins og hún hefur verið, heldur einnig hitt, að kosningarrétturinn sé útfærður, valddreifður og í raun og veru færður frá flokkunum og til fólksins. Svokallaðir stjórnmálaflokkar hafi ekki einkarétt á því að bjóða upp á valkosti sem okkur ber annaðhvort að taka í heilu lagi eða hafna í heilu lagi.

Horfi menn á mynstrið í landinu. Í Norðurl. v. er Framsfl. væntanlega að fara að bjóða fram í tvennu lagi — og af hverju? Velti menn því fyrir sér og velti menn fyrir sér þeirri kosningaaðferð sem við erum að leggja til. Ég vil undirstrika að ég ber fulla virðingu fyrir þeim mismunandi skoðunum sem þar koma fram, en því ekki að láta kjósendur með einföldum hætti ákvarða á kjördag hvor þeirra skoðana, sem einstaklingar standa fyrir sumir, hafi meiri hl. eða minni hl. á því tiltekna svæði? Hinum megin í flokkakerfiínu, hjá Sjálfstfl., í því hinu sama kjördæmi eru í 1. og 2. sæti listans sennilega mestu fjandmenn íslenskra stjórnmála nú um stundir. Þetta hefur komið fram, meira að segja í fjölmiðlunum sem flokkarnir gefa út. Og menn þekkja þetta. (FrS: Hvenær verður prófkjörið hjá þér?) Við erum hér að mæla fyrir, hv. þm., þeirri aðferð að aðferðir prófkjörsins séu færðar inn í alþingiskosningakerfið sjálft. Það sýnist mér skipta meira máli en hitt, sem um var spurt.

En kjarni málsins er þessi: Þessar tillögur, eins og aðrar tillögur sem við erum að leggja til, ganga út á að þessi réttur og þetta vald sé fært til þess sem atkv. greiðir það og það sinnið. Það er kjarni fyrstu brtt. sem ég hér mæli fyrir.

Í annan stað, herra forseti, er flutt brtt. á þskj. 499 við þetta sama frv. Á eftir 3. gr. þessa frv. komi ný grein sem orðist svo:

„Á eftir 48. gr. komi ný grein, 48 A, svohljóðandi: Löggjafarvald og framkvæmdavald skulu aðskilin. Alþingismenn setja lög og hafa eftirlit með framkvæmd laga, en er óheimilt að vinna umboðsstörf hjá framkvæmdavaldinu og stofnunum þess.“ Það er öllum ljóst að þetta er eitt af meginstefnumálum þeirra samtaka sem eru að reyna að afla málstað sínum fylgis og m. a. með undirstrikun á nauðsyn þess sem hér er lagt til. Það skiptir fólkið í þessu landi ekki höfuðmáli í sjálfu sér hvað þm. eru margir. Það skiptir það miklu meira máli hvað þeir eru að gera og hvað þeir eru ekki að gera. Og ef og úr því að fjórflokkakerfið er búið að stilla því upp sem einhverju aðalatriði þessa máls hvort þm. eru 60 eða 63, og þar eru þeir alveg sammála hv. þm. Geir Hallgrímsson og Svavar Gestsson, alveg sammála eins og í býsna mörgu upp á síðkastið, þá segjum við: Þetta er ekkert aðalatriði þessa máls og má einu gilda hvort þeir eru 60 eða 63 ef þeir eru allir að vinna til vitlausrar áttar. Hitt skiptir miklu meira máli, hvað mennirnir og konurnar eru að gera í þessu húsi og hvort þau eru að vafra hér um ganga með úttroðnar töskur af víxlum eða hvort þau eru að setja lög. Það er það sem auðvitað skiptir höfuðmáli.

Þegar við leggjum til að löggjafarvald og framkvæmdavald skuli aðskilið og að alþm. setji lög og hafi eftirlit með framkvæmd laga, en sé óheimilt að vinna umboðsstörf hjá framkvæmdavaldinu og stofnunum þess, þá er í stjórnarskránni verið að taka afstöðu fyrst til þess hve þm. séu margir, en þó er hitt miklu meira virði, að það er verið að taka afstöðu til þess, í hverju störf þeirra skuli vera fólgin að því er meginhugmyndir varðar. Þessi hugmynd hangir auðvitað saman við mjög róttækar hugmyndir um breytingar á stjórnkerfinu. Hluti af þeim er kynntur við 2. umr. þessa máls, en annar hluti verður kynntur við 3. umr.

Þetta er sú almenna hugmynd, sem ég hef oft og ævinlega talað hér fyrir, að þessi „lausn“, sem fjórflokkarnir eru hér að kynna snertir hvergi á meginvanda þessa máls af þeim meginástæðum að engin tilraun er gerð til að kanna hvort samhengi kunni að vera á milli annars vegar þess sem kallað hefur verið ójafn kosningarréttur og hins vegar þeirra efnahagslegu og félagslegu skekkja sem í landinu er að finna. Það er auðvitað efnahagslegt ójafnvægi og efnahagsleg skekkja þegar verðbólga er komin sennilega á 8. tuginn stiganna og þegar skuldir erlendis nema kannske á 6. þúsund Bandaríkjadala á mannsbarn í landinu. Þá er eitthvað verulega mikið að.

Við sem fyrir þessum hugmyndum höfum talað álítum að eitt af þeim meginvandamálum, sem við er að etja, sé að þó svo að einstaklingar séu kosnir inn á löggjafarsamkomuna séu þeir ekki fyrst og fremst, ekki allir, ekki margir a. m. k., kosnir til að setja landinu almennar leikreglur, sem gildi þá jafnt fyrir alla, hvar sem menn búa og hverjir sem menn eru að öðru leyti, heldur séu þeir kosnir inn á þing til að koma sér eða sínum nánustu fyrir í þeim stofnunum framkvæmdavaldsins sem útvegar fjármuni og skili þá fjármunum til baka eftir þeim sömu rásum og atkvæðin komu eftir.

Auðvitað segja menn að þetta sé allt gott og elskulegt því að þetta fyrirtækið og hinn einstaklingurinn hafi nú fengið fyrirgreiðslu út úr þessu kerfi árið 1977 eða 1979 eða hvenær sem það var, og auðvitað eru það margir, bæði fyrirtækin og einstaklingarnir, sem hafa notið góðs af með einum eða öðrum hætti til skamms tíma með þessum hætti. En það er ekki kjarni málsins. Kjarni málsins er sá, að þetta hefur boðíð heim skökkum leikreglum, rangindum, mismunun, en umfram allt sóun, svo endalausri sóun.

Við höfum sagt mjög einföld sannindi. Það er alveg ljóst, að eitt af því sem löggjafarvaldinu hefur gersamlega mistekist við er að setja landinu almennar leikreglur t. d. að því er varðar vexti. Nú er ljóst að kannske yfir 70–80% af útlánakerfinu eru þjóðnýtt með einum eða öðrum hætti. Um það hefur í sjálfu sér ekki verið ágreiningur í þessu landi. Annar hluti þess er minni, en hins vegar rekinn með frjálsum hætti, sem stundum er svo kallað. Málið er að Alþingi hefur mistekist við að setja þær einföldu grundvallarleikreglur, að þegar lán eru fengin skuli þau vera greidd til baka í þeim verðmætum sem á bak við þau standa í það og það sinnið. En við segjum: Skýringuna á þessu er ekki að finna í mannvonsku eða neinu slíku. Hana er að finna í kerfinu sjálfu. Hvernig má það vera að einstaklingur sé að setja um það leikreglur milli 2 og 4 t. d. hver eigi að vera hæð vaxta í landinu miðað við verðbólgustig, sem snertir auðvitað með einum eða öðrum hætti allan fyrirtækjarekstur og alla einstaklinga, en fari síðan niður í banka eða upp í Framkvæmdastofnun eða í einhvern sjóðinn morguninn eftir og sé að lána sértækum fyrirtækjum eða einstaklingum út úr þessu sama kerfi? Vitaskuld er það svo, að svokölluð völd eða hagsmunir þess einstaklings sem hlut á að máli hanga saman við að greiðinn sé til staðar, að lánin séu niðurgreidd. Þeim mun meiri skömmtun sem hér á sér stað, þeim mun meiri verða hin svokölluðu völd og þeim mun meiri verður greiðinn til þess einstaklings sem hlut á að máli, en því meira verður óréttlætið gagnvart þeim vaxandi fjölda sem hvergi kemur nálægt þessu kerfi.

Það er þetta sem við segjum: Engum í þessu landi dettur í hug að maður skuli setja leikreglur milli 2 og 4, fara síðan upp í Hæstarétt á morgun og dæma eftir þeim. Það er eitthvað inni í okkur sem segir að það fari ekki saman. Þarna verður hagsmunaárekstur. En með sama hætti — segjum við — fer það ekki saman að maðurinn setji leikreglur á milli 2 og 4 og eigi síðan að framkvæma þær daginn eftir. Þarna viljum við algerlega skilja á milli. En það skal undirstrikað að það hangir saman við annars konar hugmyndafræði, nefnilega þá, að þetta svokallaða kjördæmamál og stjórnarskrármál, þ. e. hvað snertir kjördæma- og kosningaþátt þessa máls, svo sem þetta frv. fjallar um, sé leyst með allt öðrum hætti, og ekki þessari gervilausn, sem engin lausn er og þetta frv. fjallar um, heldur verði kosningarréttur í landinu jafnaður með þeim hætti að að því er framkvæmdavaldið varðar, og þá skiptir ekki öllu máli hvort við köllum það ríkisstjórn eða forsrh. eða hvað annað, að kosið sé þannig kosningu í tvöfaldri umferð, og þar er farið að franskri fyrirmynd, að sérhver maður, hvar sem hann býr, hver sem hann er, hafi eitt og jafnt atkvæði. Þetta er í raun og veru, ef menn fást til að hugsa eftir þeim brautum, mjög róttæk jöfnun atkvæðisréttar. En þessi pappír hér, herra forseti, fjallar ekki um neitt slíkt. Og það er það sem er svo ómerkileg blekking við fólkið í þessu landi.

Við höfum sagt að þegar þetta er gert og síðan hitt, sem þessi till. hér fjallar um og stenst fullkomlega þó að við séum að tala um óbreytt stjórnkerfi að öðru leyti, þegar það fyrra hefur verið gert og það síðara, þ. e. valdþættirnir hafa verið aðskildir, sé rétt að varðveita jafnvægi í byggð landsins, því að þetta land er þannig, að það eru sameiginlegir hagsmunir að þéttasta þéttbýli og dreifðasta dreifbýli lyndi vel saman. Það verðum við að viðurkenna, einnig þau sem sitjum fyrir hið þéttasta þéttbýli á þessari samkomu. Þess vegna leggjum við til að að þessu gerðu sé kjördæmaskipanin óbreytt og kosningaaðferðin, með þeirri undantekningu þó sem ég mælti hér fyrir sem minni fyrstu till. Og því, herra forseti, er ég að setja hér á langa ræðu um þetta mál að ég vil a. m. k. fá umr. um þær hugmyndir sem hér eru til. Ég vil heyra með hvaða rökum þessum hugmyndum er andmælt, en slíkt hef ég ekki heyrt hér, ef frá er talin röksemdafærsla hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar.

Við segjum að með þessum tillögum sé verið að leggja til raunverulegar lausnir á þessum vanda. Fjórflokkakerfið setti á stjórnarskrárnefnd fyrir fimm árum. Allan þennan tíma hefur stjórnatskrármálinu verið lýst sem einhverjum meginvanda sem verði að leysa og hamast á því í blöðunum og fjölmiðlunum, Morgunblaðinu, Þjóðviljanum og hvað þetta heitir allt saman, að hér sé vandi sem verði að leysa. Svo leysa þeir vandann og þá er það þessi pappír sem kemur, fjölgun um þrjá og ekkert annað, og reyna að koma í veg fyrir útvarpsumr. þrátt fyrir ítrekaðar óskir okkar hv. þm. Geirs Hallgrímssonar þar um. Eftir alla fimm ára vinnuna og allt hjakkið er það þetta sem boðið er upp á og lagt er til. Nei, herra forseti. Þetta snertir hvergi á vandanum.

Ég vil taka undir með fjórflokkakerfinu að því leytinu til að stjórnarskrárvandinn hangir vissulega saman við önnur vandamál sem eiga að vera til úrlausnar í þessu húsi, bæði efnahagslegs og félagslegs eðlis. Hann hangir saman við með hvetjum hætti við skipuleggjum byggð úti um landið vítt og breitt. Hann hangir saman við uppbyggingu fjármálakerfis og félagskerfis að öðru leyti, enda skárra væri það ef fjöldi þm., skipting milli kjördæma og landshluta og aðferðir sem þm. eru kosnir eftir héngju ekki saman við hin stærri vandamál efnahagslegs, félagslegs og byggðalegs eðlis.

Vitaskuld er það rétt röksemdafærsla hjá fjórflokkakerfinu núna í fimm ár að þessi vandi sé mikill og hann hangi saman við önnur og stærri mál sem menn eru hér við að fást. En hvernig má það vera, sé það rétt hjá þeim að þeir hafi verið að fjalla um og þykjast leysa raunverulegan vanda, að þetta plagg er allt og sumt sem verið er að leggja til, fjölgun um þrjá og ekkert annað og hitt er skilið eftir fyrir Gunnar Schram og aðra þá, sem verða á næsta Alþingi, að leysa? Það er verið að gera. Það er ekki þetta þing, sem nú situr, sem á að greiða úr þeirri flækju sem hér er lögð upp í hendurnar á okkur. Það eru væntanlega Gunnar Schram og aðrir, svo að ég nefni mann sem væntanlega mun sitja á næsta virðulega Alþingi. Til hvers er þetta þing að semja frv. fyrir Gunnar Schram og Árna Johnsen og aðra ágæta menn, sem væntanlega koma til með að skipa hið næsta Alþingi?

Það sem er vandi einnig er virðingarleysi fyrir leikreglum lýðræðisins, sem felst í því að gefa út frv. til stjórnskipunarlaga og hafa í grg. með því drög að einhverju frv., sem næsta þing kannske mun fjalla um, um kosningalög. Allur ferill þessa máls er með þeim eindæmum að niðurstaðan enn og aftur er aðeins ein: að fjórflokkakerfið ætlar núna að hlaupa fram á vígvöllinn og segja: Við gátum leyst þetta. Við gátum komið okkur saman. Sjáið þið hvað við getum. Við getum ýmislegt annað líka. — Þetta er bara engin lausn. En til þessa eins er leikurinn gerður. Og þeir treysta því, þegar þeir eru að koma í veg fyrir útvarpsumr., að um þá þm. sem hér tala munu fæstir vita utan þessa húss. Það er reynt að halda aftur af því sem mest má verða að við fáum að kynna þjóðinni af hverju við erum andvígir þessu. Svo á þjóðin að halda: Nú gátu fjórflokkarnir, sem hafa valdið verðbólgunni og erlendu skuldunum og öllu þessu á undanförnum árum, loksins leyst eitthvað. Fjölgun um þrjá var lausnin. Og er það furða þó að einhverjum blöskri!

En herra forseti. Þrátt fyrir ítrekaðan vilja til hins gagnstæða, hafi ég skilið rétt í dag, átti að böðla þessu frv. fram á þessum degi, hafa 3. umr. í kvöld og væntanlega böðla frv. í gegnum Ed. á morgun eða miðvikudag. Svo áttu talsmenn fjórflokkakerfisins að standa upp og segja: Sjáið þið hvað við getum, eins og Ketill séra Matthíasar orðaði það á sinni tíð.

En herra forseti. Við erum mörg sem erum vægast sagt hikandi vegna þess sem hér er að gerast. Þetta frv. er ekki aðeins lítið og slakt og lítils virði. Ég vil taka undir að óskilyrt fjölgun um þrjá, eins og raunverulega er, leysir engan vanda. Hún veldur svo sem engum vanda heldur. Hún er ekki neitt neitt. En það sem er hættulegt í þessu er að þeirri blekkingariðju er haldið að fólki að þetta sé eitthvað. Hvað er verið að gera? Ég held að þeim takist það ekki. En vandinn er sá, að þetta frv. kann að vera komið hér í gegn fyrr en varir, en vegna upplýsingaleysis sem snýr að öllum almenningi veit hann ekki hvernig í öllu liggur fyrr en einhvern tíma seint og um síðir.

Herra forseti. Ég er satt að segja hissa á ábyrgum manni, sem ég taldi vera, sem er hv. 1. þm. Reykv., sem vinnur sín þingstörf venjulega af mikilli samviskusemi eins og allir vita og er ekki að taka þátt í þeirri sukksömu iðju, sem ég hef svo oft verið að lýsa hér og enn núna, heldur verið að sinna sínum löggjafarstörfum. Ég er alveg hissa á því að slíkur maður skuli vera 1. flm. og fyrirliði þeirrar stórskrýtnu sveitar sem fyrir þessu máli er. Það er langt fyrir neðan hans virðingu að vera að taka þátt í þessum leikaraskap, langt fyrir neðan hans virðingu að vera að reyna að blekkja þjóðina með þeim hætti sem hér er verið að reyna.

Svo, herra forseti, hangir þetta saman við að þetta samansúrraða og sammála fjórflokkakerfi hefur verið að deila um það hér í öllum baksölum, eins og allir vita, hvort eigi að kjósa einu sinni eða tvisvar. Það hefur ekki látið sér koma saman um neitt nema fjölga þm. um þrjá, ekki einu sinni það hvort ætti að kjósa einu sinni eða tvisvar. Okkur leikur grunur á að það verði komið undir kosningaúrslitum og kannske niðurstöðu þeirra sem fyrir utan þetta flokkakerfi munu bjóða fram, hvort þeir kjósa einu sinni eða tvisvar.

Uppi voru hugmyndir um að setja í þennan einskis verða pappír ákvæði til bráðabirgða um að það skyldi kjósa tvisvar. Nú eru þeir fallnir frá því. Það er auðvitað jafnfáránlegt og hitt því að þessir hv. þm. leysa ekki löggjafarsamkomu með Gunnari Schram og Árna Johnsen upp. Það verða þeir sjálfir að gera. Þeir munu hafa nákvæmlega sömu réttindi þá og þeir þm. sem hér sitja nú, ef þeir verða kjörnir.

Öll þessi hugsun rekur sig til flokkaveldisins eins og það var fyrir 20 árum, að þetta þing geti sett lög og leikreglur og ákvæði til bráðabirgða í stjórnarskrá fyrir hið næsta þing, sem kemur saman að afloknum kosningum síðla í apríl eða snemma í maí. Það er augljóst að þeir sem fyrir þessu standa skilja ekki hvaða breytingar eru að verða á öllu umhverfi þeirra. Það er mikill kjarni þessa máls.

Herra forseti. Sú brtt. sem ég er að mæla fyrir, önnur í röðinni sem nefnd hefur verið, fjallar um algeran aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Finnst nú ekki einhverjum hér inni fleiri en mér að það skipti meira máli en hvort þm. eru 60 eða 63 hvað þeir eru að bauka hér allan daginn? Er ekki mikilsverðara að sjálf stjórnarskrá lýðveldisins Íslands hafi eitthvað um það að segja hvað menn eru hér að gera?

Eins og allir vita fer þessi skömmtunarstarfsemi fjármagns og jafnvel menningar og alls þess sem þar er á milli fram í gegnum sjóða- og stofnanavald með einum eða öðrum hætti. Hvergi skal ég draga úr því að mörg góðverkin hafi verið unnin með þessum hætti. Það var góðverk að einhver fékk að tala um daginn og veginn sem kannske hefði aldrei annars fengið það. Og það var góðverk að einhver maður fékk lán sem kannske hefði aldrei annars fengið það. Slíkt getur auðvitað orðið þannig að það kalli beinlínis fram tár á hvörmum þegar lýst er hvílík góðverk hafi verið unnin. En þessi góðverk eiga ekki að vera unnin af þeim sem eru að afla sér eða málstað sínum fylgis með atkvæðum, því að pólitískur málstaður er að menn móti hinar almennu leikreglur, sem þar með gildi jafnt fyrir alla. Pólitískur málstaður er t. d. það, með hverjum hætti menn setja almennar leikreglur um mismunandi verð á orku eða jafnt verð á orku eða hvað annað. Eftir því skulu menn og samtök þeirra dæmd. En pólitískur málstaður er ekki hitt, hvort þessi maðurinn á Þórshöfn eða hinn í Vestmannaeyjum eða sá þriðji í Reykjavík hafi fengið lán sem maður í næsta húsi fékk ekki. Dómurinn á ekki að vera um það. Hér á að setja hinar almennu leikreglur og hér á að hafa eftirlit með því að hinum almennu leikreglum sé fylgt. Það á að vera kjarni þessarar starfsemi.

Auðvitað er fullljóst að nú hegða hv. alþm. sér með mjög misjöfnum hætti. Sumir vinna eftir þeim almennu reglum og háttum sem hér er verið að lýsa. Hinir eru því miður fleiri sem ekki gera það og hafa engan áhuga á lagasetningu yfir höfuð að tala. Það er gefið mál. Þetta er auðvitað áhyggjuefni vegna þess að svo mikið af sóuninni, svo mikið af rangindunum, svo mikið af misbeitingunni má beinlínis rekja til þessa. Menn benda á góðverkin og segja: Þarna var gert góðverk. En hugsi menn um alla hina, sem ekki urðu þessara góðverka aðnjótandi. Þeir eru miklu fleiri. Þeir vita bara síður af sér sem fá að vita hvað þeir fá, en hinir sem vita lítið og oftast ekkert. En það sem við eigum að bera skynbragð á, sem hér erum til að setja landinu almennar leikreglur, eru hagsmunir þessarar heildar og öll hin gegndarlausa sóun, öll hin gífurlega verðmætaeyðsla sem fram fer í þessu kerfi.

Í forustugrein í Morgunblaðinu ekki alls fyrir löngu var fjallað um þessar hugmyndir. Þar sagði leiðarahöfundur: Það er auðvitað alveg rétt í gagnrýni Bandalags jafnaðarmanna að það eru allt of mikil brögð að því að hv. alþm. séu ekki að setja landinu lög, heldur að stússa í framkvæmdavaldinu — eða einhvern veginn í þá veru var það orðað. En — sagði svo leiðarhöfundurinn að hætti íhaldssamra manna allra tíma í vondum skilningi þess orðs — það er auðvitað mikill misskilningur að það þurfi að breyta lögum eða stjórnarskrá til að koma í veg fyrir þetta. Menn eiga bara að hætta að hegða sér svona.

Sannleikurinn er sá, að þetta er það sama og þeir hafa sagt um skattsvikin í áratugi og svarta hagkerfið, neðanjarðarhagkerfið. Jú, jú, þeir koma og segja: Það er alveg rétt að það er alltof mikið af þessu. En það þarf ekki að breyta lögum. Bara að menn hætti að svíkja undan skatti. Ekkert gerist með þeim hætti. Röksemdafærsla af þessu tagi — við skulum taka skattsvikin fyrst — er auðvitað röksemdafærsla til varnar nefndum gerðum. Með sama hætti er það að þegar Morgunblaðið segir annars vegar, sem ég tel málpípu a. m. k. hluta af Sjálfstfl.: Þetta er réttmæt gagnrýni, það er allt of mikið af þessu samkrulli, en hins vegar þarf ekki að breyta reglunum, þá er það auðvitað í ósvífinni vörn fyrir þetta kerfi þó að það við fyrstu sýn líti öðruvísi út. Það er þetta sem er kjarni málsins.

Nú á þessum vetri hefur þjóðin horft upp á óvenjuósvífna útgáfu af þessu samkrulli. Þar á ég við hv. þm. Eggert Haukdal. Þjóðin hefur í senn gamnað sér og verið furðu lostin yfir því að svona nokkuð skuli vera hægt. Menn hafa sagt sem svo, að hér gengju að því er þetta efni varðar atkvæði kaupum og sölum — og þá vísa ég til t. d. viðtals í Ríkisútvarpi við nefndan hv. þm. En kjarninn er sá, og þessi orð vil ég segja honum til varnar: Ég tek það svo, að hann sé að ósekju tekinn sem dæmi um þessa starfsemi, sem hér fer fram í þessu hv. húsi og hefur orðið okkur svo dýr og kostað beinlínis svo mikla sóun að verðmætum hefur verið kastað á glæ. Ég held að það sé að ósekju að þessi hv. þm. sé tekinn til dæmis um þessa starfsemi. Það er aðeins að hann orðar hluti hreinskilnislegar og vinnur kannske meira fyrir opnum tjöldum en menn þó kannske meira og minna, allstór hópur, eru að gera hér daginn út og daginn inn, eins og ég veit að hv. þm. Stefán Valgeirsson gerþekkir. Og það er þetta sem er kjarni málsins.

Það sem við viljum gera er að ganga þannig frá stjórnarskrá lýðveldisins að það sé gert alveg ljóst að eins og dómararnir dæma, en hvorki setja lögin né framkvæma þau, þá setji löggjafarvaldið lögin, en hvorki dæmi eftir þeim né framkvæmi þau og framkvæmdavaldið framkvæmi lögin, en hvorki setji þau né dæmi eftir þeim. Þessi hugsun er raunar til staðar í 2. gr. okkar gömlu og að mörgu leyti úreltu stjórnarskrár. Henni hefur ekki verið framfylgt hér frá því í upphafi heimastjórnar og raunar aldrei, en skaðvaldurinn hefur svo orðið þeim mun augljósari sem verðmætatilfærslur hafa orðið auðveldari vegna verðbólgu, eins og allir hv. þm. gerþekkja. Um það mætti hafa, herra forseti, langt mál hvernig þetta hefur valdið skaða. En við segjum, og því flytjum við þessa brtt., að miklu mikilvægara en hvort þm. eru 60 eða 63 er hvað þeir eru að bardúsa hér daginn út og daginn inn. Og ef menn vilja vera að setja sérstök stjórnarskrárákvæði um þm. skulu menn setja stjórnarskrárákvæði um það sem skiptir máli, en ekki um hitt, sem engu máli skiptir. Það skiptir engu máli hvort við erum 60 eða 63. Hitt skiptir máli, hvað verið er að gera í megindráttum. Eru þm. að úthluta niðurgreiddu og þess vegna eftirsóttu lánsfé eða eru þeir að setja lög fyrir landið? Eru þeir að skammta takmörkuð verðmæti, og skömmtun á sér ekki stað nema vegna þess að verðmætið sem um ræðir er takmarkað, eða eru þeir að setja hinar almennu leikreglur? Það er þetta, sem við segjum að sé kjarni málsins og um þetta fjallar brtt. á þskj. 499.

Þá kem ég, herra forseti, að brtt. á þskj. 496, en hún er svohljóðandi:

„Á eftir 3. gr. komi ný grein sem orðist svo: 39. gr. orðist svo:

Fastanefndir Alþingis hafa rétt til að heimta hvers konar skýrslur, bæði af embættismönnum og einstökum mönnum.

Fundir nefnda Alþingis skulu haldnir í heyranda hljóði.“

Þetta er, herra forseti, liður í nákvæmlega sömu hugmyndafræðinni. Þótt hv. alþm. séu ekki að skammta takmörkuð verðmæti og þótt það sé ekki meginstarfi þeirra, þótt það sé klippt á afganginn af sjóðunum, hvort það heita ríkisbankar eða eitthvað annað, þá hefur löggjafinn engu að síður grundvallarverkefni að gegna í stjórnskipan okkar. Þessi grundvallarverkefni eru annars vegar að setja lögin og hafa til hlítar og setja þá almennar leikreglur sem gildi jafnt fyrir þá sem leikreglurnar eru settar fyrir, nefnilega alla þegnana í þjóðfélaginu. En löggjafinn á að okkar mati að hafa annað mjög veigamikið hlutverk. Hann á að hafa eftirlit með því að lögunum í landinu sé framfylgt, því það er ósköp lítils virði að setja lög ef enginn fer eftir þeim. Það er kjarni málsins.

Víða erlendis, herra forseti, hefur þess gætt, sem hér hefur einnig gætt, að löggjafarsamkomurnar hafa verið að missa völd sín og áhrif til sérfræðinga. Þetta vitum við vegna þess að í iðnvæddum ríkjum verður lagasetning flóknari og þeir sem lögin eiga að setja eru að mörgu leyti vanbúnir til þess, ekki til að hugsa hinar almennu hugsanir og setja hinar almennu hugmyndir fram, heldur til að vinna hina tæknilegu vinnu. Þetta er auðvitað alþekkt meira og minna í öllum lýðræðisríkjum. Það sem hefur gerst til mótvægis þessu er að starfslið og ráðgjöf þjóðþinganna hafa verið aukin, en umfram allt hefur verið aukið það starf sem fram fer í þingnefndum sem starfa fyrir opnum tjöldum, þannig að þeir sem áhuga hafa á viðkomandi störfum geti komið og fylgst með því sem þar fer fram. Þar fer fram eftirlit í formi þess sem á vondri íslenskri þýðingu úr ensku er kallað yfirheyrslur eða hearings upp á enska tungu — sú starfsemi sem í senn er lýðræðisleg, sem er trygging borgaranna fyrir almennum leikreglum og sem heldur uppi viðamikilli og dýnamískri umræðu í samfélaginu um það, til hvers leikreglur séu, í hvers þágu þær séu settar og hverra hagsmuna þær gæta í það og það sinnið.

Eins og við þekkjum kunna leikreglur að verða settar eitt árið til að gæta tiltekinna hagsmuna. Árin líða, leikreglurnar standa, en eru í raun orðnar vörn fyrir allt aðra hagsmuni en þá sem þeim var upphaflega ætlað að vernda. Þetta gjörþekkjum við. Þess vegna, bæði vegna þróunar þessa samfélags, sem hér hefur orðið og er auðvitað alveg samhliða þróun í svipuðum samfélögum í nálægum löndum, en eins vegna hins, að þegar þessi sértæku verkefni eru ekki lengur á höndum hv. alþm., þegar hv. alþm. verður ekki framkvæmdastjóri í Framkvæmdastofnun, þegar hv. alþm. sitja ekki lengur í skömmtunarráðinu þar, þegar hv. alþm. sitja ekki lengur í bankaráðum ríkisbankanna, þegar hv. alþm. sitja ekki lengur í útvarpsráði og svo mætti telja enda- og þindarlaust, leggjum við til að eftirlit þingnefnda sé komið á. Það er ekki með slíku verið að draga úr þeirri starfsemi sem fram fer á Alþingi. Það er þvert á móti verið að leggja til að hún sé aukin, en að hún sé aukin með þeim hætti að sjóðavöldin, sem af því eru tekin, verði að eftirlitsvöldum, að vald Alþingis verði í því fólgið að setja lögin, en hafa eftirlit.

Setjum svo að einstaklingar úr heilbrigðisstéttum eða einhverjir aðrir hafi á því skoðun að hinar almennu leikreglur í heilbrigðismálum séu brotnar, t. d. að læknar gefi út of mikið af lyfseðlum eða eitthvað slíkt. Eins og menn þekkja hafa oft verið uppi umr. um slíkt. Alþingi hefur á hinn boginn sett ákveðin lög um hvað er leyfilegt og hvað óleyfilegt í slíkum efnum. Þá er í verkahring heilbrigðisnefnda hjá upplýstu þjóðþingi að ganga úr skugga um hvað hæft sé í slíkum sögusögnum, sem við skulum vona að ekki sé, en í annan stað má gera annaðhvort að herða á viðurlögum eða því um líkt, ef það er niðurstaðan, eða að breyta lögunum til skynsamlegrar áttar, verði niðurstaðan sú. En umræðan og upplýsingin, sem af slíku verklagi hlýst, er lýðræðinu til góða og upplýstu samfélagi óneitanlega til mikilla þarfa.

Þetta mál, herra forseti, hefur áður verið flutt og þá sem frv. til l. um breytingar á tiltekinni grein þingskapa. Margir þeir, sem mér hafa ráðlagt í þessum efnum og hugað að þessum málum, hafa jafnvel á það bent að það kunni að vera of veikt að hafa eftirlitsákvæðin í þingsköpum, enda hefur það komið fram í umr. hér undanfarin ár um þetta. En aðalatriðið er þó hitt, að málið hefur ekki náð fram að ganga.

Við verðum að átta okkur á því, að menn segja að slíkt ákvæði sé til staðar í 39. gr. stjórnarskrárinnar. Þetta er rangt. Þar er ákvæði sem hefur inni í sér byggða vörn valdsins vegna þess að það þarf meirihlutasamþykkt Alþingis til þess að mál séu tekin upp. (Forseti: Má ég spyrja hv. þm. hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni?) Ég á allmikið eftir, já. (Forseti: Og er ekki hægt að ná samkomulagi um það við hv. þm. að hætta nú flutningi ræðunnar og hefja hana þegar fundur hefst að nýju?) Með mikilli ánægju. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Með mikilli ánægju held ég áfram ræðu minni þar sem frá var horfið. Þetta er frv. til stjórnskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 3311944. 1. flm. að því er hv. þm. Geir Hallgrímsson og þrír aðrir þm. einnig, forustumenn úr flokkakerfinu fjórfalda, þeir Steingrímur Hermannsson, Svavar Gestsson og Magnús H. Magnússon. Er auðvitað velkomið að halda áfram ræðu minni þegar einhver af þessum herramönnum er mættur. Ég hlýt að óska eftir því, eins og margoft hefur verið gert hér áður þegar ráðherrar t. d. eru að mæla fyrir frv. (Forseti: Ég mun að sjálfsögðu gera tilraun.) Já, ég skal hinkra við. (Forseti: Því miður er enginn af þessum hv. þm. mættur í húsið, en það verður reynt að gera tilraun til að athuga hvort þeir muni mæta hér. Við þessu er ekkert að gera. En hér er mættur í salnum formaður nefndarinnar. Ef hv. þm. vill hins vegar fresta ræðu sinni, þá . . . )

Herra forseti. Það kemur ekki til nokkurra mála. Á viðreisnartímanum átti það sér einu sinni stað að þáv. hv. þm. Hannibal Valdimarsson var í ræðustól og gerði kröfu um það að flm. frv., sem þá var ráðh., væri viðstaddur. Ráðh. voru hins vegar í veislu í ráðherrabústað og forseti frestaði fundi, sem þekkt var á þeirri tíð. Ég hélt að fjórflokkarnir hefðu áhuga á að koma þessu máli fram. Sjálfur varð ég að fresta fundi, sem hafði verið boðaður í Keflavík fyrir þremur vikum, vegna þess að ég var hér á mælendaskrá. Ég tek þessu ekki, en bíð í ræðustól þangað til þessir herramenn mæta. Fyrir þessu eru fordæmi. Ég vísa í fordæmi Hannibals Valdimarssonar um þetta. Þegar þm. þarf að fresta fundi boðuðum í öðru bæjarfélagi með löngum fyrirvara getur þetta valdakerfi sýnt þá mannasiði sem því ber. Ég skal bíða. (Forseti: Forseti hefur gert ráðstafanir til þess að láta nálgast þessa menn og við verðum að sjá hvað setur. Ræðumanni er heimilt að haga orðum sínum eða þögn eins og hann vill.) Ég minni herra forseta á fordæmi sem beitt var gagnvart hv. þm. Hannibal Valdimarssyni og ég veit að hv. þm. Matthías Bjarnason man eftir.

Herra forseti. 1. flm. þessa máls er mættur og þá verður málinu haldið áfram þar sem það var látið niður falla.

Ég hef, herra forseti, í alllöngu máli í dag vakið athygli á þeirri skoðun minni að í fyrsta lagi snúist þetta mál efnislega ekki um neitt. Það snýst um fjölgun þm. um þrjá og ekki um annað og vegna innri sundrungar fjórflokkakerfisins hafa þeir ekki komið sér saman um skiptingu þessara 63 þm. nema að óverulegu leyti og ætla að láta hitt eftir því Alþingi sem á að fara að kjósa og enginn veit hvernig saman verður sett. Og ég hef, herra forseti, vakið athygli á því, að það sé verið að blekkja þjóðina með því að prenta hér sem fskj. I drög að frv. til l. sem kemur þessu máli nákvæmlega ekkert við. Með engum hætti verður komandi Alþingi, hvernig sem það annars verður saman sett, bundið af einhverjum drögum til laga sem prentuð eru sem fskj. Það skiptir nákvæmlega engu máli og gæti þess vegna eins verið blaðagrein í Morgunblaðinu. Þetta er kjarni málsins. En því miður hefur það skeð, að þjóðinni hefur verið haldið í gegnum þetta forstokkaða vald óupplýstri um þessi efnisatriði. Við andstæðingar þessa frv. óttumst, að vegna þessa upplýsingaleysis og vegna þess augljósa vilja fjórflokkakerfisins eða forustumanna þeirra, þrátt fyrir einn og einn undanvilling á hverjum stað, sem mun víst ekki fylgja þessu, sé meiningin að þröngva þessu upp á Alþingi og síðan upp á þjóðina og vænta þess að andstaðan verði ekki fyrr en seinna þegar efnisatriði þessa máls eru lýðum ljós svo lítil og rýr sem þau eru.

Herra forseti. Það er augljóst að kominn er kosningaskjálfti í þetta veiklundaða lið. Og það marka ég einnig af öðru, og ég vil gera þar lítinn útúrdúr í minni ræðu, sem þó er náskylt þessu. Ég hef, eins og hv. þm. er kunnugt, flutt á sérstöku þskj. till. til þál. um mjög róttækar breytingar á stjórnkerfinu. Það eru hinar sömu breytingar og verið er að leggja til hér á fimm brtt., sem ég er að mæla fyrir. Hér er um afar veigamiklar breytingar á stjórnkerfinu að ræða. Ég hef fengið þetta prentað sem þskj. og prentað í stærra upplagi en venja er til til þess að dreifa til þeirra sem áhuga kynnu að hafa á málinu, eins og þm. vinna. En ég er, herra forseti, að lesa um það í blöðum og haft eftir skrifstofustjóra þessarar stofnunar, sem væntanlega talar þar í nafni forseta, að þessar vinnuleiðir þyki athugunarverðar og sé í ráði hjá forsetum að breyta reglum vegna þessara gerða. (Gripið fram í: Það er búið að breyta þeim.) Og búið að breyta þeim, er hér kallað fram í.

Það hefur enginn haft samband við mig vegna þessa máls, enginn, aldrei. Hins vegar hefur verið unnið hér árum saman á þennan máta. Að vísu tilheyrði maður þá þessu úrkynjaða fjórflokkakerfi og þá þóttu slík vinnubrögð ekki athugaverð, en nú allt í einu, þegar kosningar eru að nálgast og þegar vera kann að almenningur vilji fá að heyra um aðrar hugmyndir í þessu máli, er verið að búa til lágkúrulegan málflutning af þessu tagi og embættismanni þessa húss beitt — og ég vísa í viðtal á forsíðu Tímans á laugardaginn var. Ég mun, herra forseti, gera að umræðuefni hér á öðrum vettvangi með hverjum hætti þessu kerfi er beitt. En því nefni ég þetta að þetta er nákvæmlega sami leikurinn og liggur að baki þessu litla frv. hér, sem hér er til umr.

Ég mun vitaskuld, herra forseti, gera við þetta aths. á réttum vettvangi, í umr. um þingsköp. Öll þessi vinna og þessi vinnubrögð eru óskiljanleg nema þau séu skoðuð sem skjálfti þessa fjórflokkakerfis. Ef það er orðið athugunarefni að þm. sendi hugsanlegum stuðningsmönnum þingmál, sem hér er verið að vinna að, þá er flest athugunarefni í þessu samfélagi. Ætli kostnaðurinn, sem af þessu leiðir, sé ekki eins og 1/60 hluti af þingveislu, ef það er skoðað. En látum það allt liggja á milli hluta. Þetta verður tekið upp á þeim vettvangi sem við á — og það að embættismanni þingsins sé beitt í einu af þessum dagblöðum, sem gefið er út af þessu lágkúrulega fjórflokkakerfi, svo sem gerst hefur. Forsetarnir sjálfir eru náttúrlega í baklandinu, auk Framkvæmdastofnunar eða hvar þeir sitja, en embættismönnunum er beitt og dregnar þær ályktanir að þetta sé vegna verka eins þm. En málið er það, herra forseti, að auðvitað er sama kerfið að bregðast til varnar gegn ytri hættum, sem þeim finnst vera, með þessum hætti. Það verður væntanlega ekki þingrof svo fljótt að þessi mál fái ekki frekari umr. hér í þessari virðulegu stofnun, sem sumum finnst vera. En látum það allt vera.

Ég hef í dag, herra forseti, mælt fyrir nokkrum af þeim brtt. sem hér eru fluttar. Í fyrsta lagi mælti ég fyrir brtt. um að 1. gr. frv. væri felld. M. ö. o. að þingmannatalan væri 60, en ekki 63, og í öðru lagi að þm. væri skipt með sama hætti og nú et gert sem ákvarðast raunar af kosningalögum.

Í annan stað mælti ég fyrir brtt. um breytta kosningaaðferð, um að einstaklingunum væti gert kleift að greiða atkv. uppröðuðum lista, sem einhverjir hafa raðað upp, í annan stað einstaklingi af lista og í þriðja lagi einstaklingum af einum lista eða fleiri listum, allt að tölu þeirra kjörinna fulltrúa sem kjósa skal. Ég nefndi til rökstuðnings mínu máli hina væmnu yfirlýsingu, sem finnst á bls. 3 í þessu þskj., en þar, herra forseti, stendur hvorki meira né minna:

„Þingflokkar Alþb., Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl.,“— og minna má nú ekki gagn gera — „sem að frv. þessu standa, hafa auk þess orðið ásáttir um eftirfarandi.“

Og ég nefndi atriði nr. 2, herra forseti, sem er hvorki meira né minna, og stórt skal það vera, en að beita sér fyrir aukinni valddreifingu og virkara lýðræði samhliða afgreiðslu nýrrar stjórnarskrár. Þar eru þessir háu herramenn, sem vitaskuld eru að vinna þjóðinni gagn hér og ekki sjálfum sér, aldeilis þeirrar skoðunar að nú eigi að stefna að aukinni valddreifingu og virkara lýðræði samhlíða afgreiðslu nýrrar stjórnarskrár. En þá spyr ég: Af hverju ekki að gera þetta í stjórnarskránni frekar en vera með þessar almennu yfirlýsingar um að gera það samhliða henni? Það er hægt að gera þetta í stjórnarskránni. Það er það sem við erum að leggja til, að inn í stjórnarskrána og aftan við ákvæði sem kveður á um tölu þm. sé bætt því ákvæði að kjósandinn sjálfur fái að kjósa eins og hann lystir, en ekki eins og flokkana lystir, og það sýnist mönnum nú ekki vera nein smávalddreifing. Þessir fjórir flokkar lýsa yfir í biblíustíl að þeir ætli samfara nýrri stjórnarskrá að beita sér fyrir valddreifingu. Þetta er, herra forseti, ekki brandari. Þetta er fúlasta alvara, það er meint þannig, en ég teldi að skynsamlegra væri að fella þessa valddreifingu inn í stjórnarskrána sjálfa. Það er það sem ég hef verið að leggja til.

Í þriðja lagi, herra forseti, mæli ég í dag fyrir brtt. á þskj. 496 um fastanefndir Alþingis og með þeim almennu rökum að þegar sjóðavaldið er tekið af hv. alþm. sé þeim falið eftirlitsvald í staðinn samkv. stjórnarskrá. Sýnist það bæði upplýstari og skynsamlegri leið.

Í fjórða lagi var mælt fyrir brtt. sem felur í sér að löggjafarvald og framkvæmdavald skuli aðskilin. Það er mikið aðalatriði þeirrar heimspeki, sem ég almennum orðum hef verið að tala fyrir, að alþm. setji lög og hafi eftirlit með framkvæmd laga, en að þeim sé óheimilt að vinna umboðsstörf hjá framkvæmdavaldinu og stofnunum þess. Fyrir þessu mælti ég ennfremur í dag.

Loks í fimmta lagi, og þangað var ég ekki kominn í dag, er brtt. á þskj. 497 sem segir einfaldlega: „Ráðherrar eiga ekki atkvæðisrétt á Alþingi.“

Ég vil sérstaklega taka fram að þetta er liður í þeirri áætlun sem við erum að mæla fyrir. Það er að vísu svo, að í sumum löndum, sem búa við það sem stundum er kallað þingræðisskipulag, sem er vont orð, erlent mál, heldur ætti að nota parlamentarisskipulag, hefur verið tekin upp þessi regla og nefni ég Noreg sem dæmi þar um. En aðalatriðið er það, að þegar við höfum skilið á milli, þegar ráðherrar og framkvæmdastjórar ríkisstofnana eru að framkvæma lögin, en löggjafaraðilar að setja lögin, leiðir af sjálfu sér að ráðherrar hafa rétt til að flytja frv. og taka allan almennan þátt í þingstörfum, en þeir greiða ekki atkv. Sú stjórnkerfisbreyting sem við erum almennt að leggja til og munum gera í ríkara mæli við 3. umr. er þannig: Ef til þess kemur við myndun ríkisstjórnar, þegar framkvæmdavaldið hefur verið kosið beint í tvöfaldri umferð, ef þurfa þykir, að svo artast með mál að þm. þykja heppilegir sem ráðherrar, sem auðvitað getur verið sjálfsagt eða ekki, taki varamenn sæti þeirra. Ég vil aðeins undirstrika það með þessa reglu að hún á við í grundvallaratriðum í þeirri róttæku stjórnkerfisbreytingu sem við erum að leggja til, en hún á einnig við í parlamentarísku kerfi, eins og dæmi hefur verið tekið í Noregi.

Ég vil, herra forseti, nefna eitt mikið aðalatriði þessa máls. Það kom fram í þingræðu hjá hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni. Þegar hann við fyrri umr. í Sþ. mælti öndvert við þá þáltill. sem flutt hefur verið um þetta stjórnkerfi, og aðalatriði ræðu hans voru endurprentuð í forustugreinum í Morgunblaðinu daginn eftir svo sem vera ber, þá gerði hann orðaleik að aðalatriði í sínu máli og það skiptir máli. Hann sagði: Með þessum tillögum er verið að leggja til að þingræðið sé afnumið. — Ég spái því að þennan orðaleik eigi íhaldspressan í landinu og aftaníossar hennar eftir að leika æ fastar. Sannleikurinn er sá, að orðið þingræði er vond íslenskun á allt öðru orði, sem allt annað merkir, og þar breytir engu um þó að virðulegur fyrrv. forsrh. og löggjafi, dr. Bjarni Benediktsson, hafi notað þetta orð. Málið er að þetta orð er, eins og sagt hefur verið, þýðing á allt öðru orði, sem rekur sig til Bretlands, og það þýðir það og hugsunin í því er sú, að ríkisstjórn sé mynduð út frá löggjafarsamkomunni og að löggjafarsamkoman geti vikið sömu ríkisstjórn frá. Orðið þýðir nákvæmlega ekkert annað.

Hér hafa íhaldsmenn af öllum sortum verið að leika sér að því að setja stöðugt samasemmerki á milli lýðræðis og þingræðis. M. ö. o. að annað standi með hinu og annað falli með hinu. Þetta er útúrsnúningur, sem er fyrir neðan virðingu þeirra sem þann útúrsnúning ástunda, því að mörg af fremstu lýðræðisríkjum veraldarinnar búa ekki við parlamentarisma í þessum skilningi. Það eru einkum lönd þar sem mjög ólíkt háttar til um þéttasta þéttbýli annars vegar og dreifðasta dreifbýli hins vegar — m. ö. o. lönd sem eðli málsins samkvæmt eru byggð upp frekar sem bandalög landshluta en sem þjóðríki í þröngasta skilningi orðsins. Og það er mikill, mikill misskilningur þegar menn eru farnir að leika sér að því að nota erlend stóryrði úr sögunni, sem sé að ráðast að þingræðinu sjálfu, og þegar það er svona óskýrt sagt og þokukennt er búin til sú leikaðferð með því að segja nógu lítið þó, að hér sé sjálfum lýðréttindunum í voða stefnt. Þetta er auðvitað mikill misskilningur og hróplegur útúrsnúningur þess utan.

Eina breytingin sem verður, verði sú aðferð farin að framkvæmdavaldið sé kosið beinni kosningu í tvöfaldri umferð, er sú, að í staðinn fyrir þingræði á þessu eina einfalda sviði, þ. e. sem varðar myndun ríkisstjórnar, taki við þjóðræði, ef menn vilja halda sig við þennan orðaleik. En eftir sem áður er þingræði, sem ég endurtek að er vont orð allra hluta vegna í fræðilegum skilningi, að því er varðar lagasetningu og þar með talin fjárlög og það er þingræði að því er varðar allt eftirlit með lögum. En það er hins vegar ekki þingræði að því er varðar myndun ríkisstjórnar eða oddvita hennar, heldur et þar tekið upp þjóðræði í staðinn með aðferðinni: einn maður — eitt atkvæði. Þetta er kjarni málsins og þetta er hin rétta útlagning, en ekki sú ruglingslega útlagning sem fram kom að þessu leytinu til, því er nú verr og miður, hjá hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni og í forustugrein Morgunblaðsins, þar sem hans ummæli voru tekin upp krítiklaus eins og stundum áður.

Þessari aths., herra forseti, er nauðsynlegt að koma á framfæri, vegna þess einnig að ég spái því, vegna þess að það hefur oft gerst áður, að íhaldssömu öflin í þjóðfélaginu, í vondum skilningi orðsins, sem óttast að við þetta rofni hin pólitíska aðstaða í bankakerfinu, rofni hin pólitíska aðstaða í hinum opinberu sjóðum, rofni yfirráðin yfir fjölmiðlunum — Ríkisútvarpinu o. s. frv. — muni hefja sönginn: Hér eru komnir einhverjir hálfgildings fjórða áratugs menn, skulum við segja, sem vilja afnema sjálft þingræðið. Í þessum skilningi er þingræðið valdatæki þessara sömu manna, því er nú verr og miður. Í gegnum svona þingræði eru yfirráðin yfir útvarpi okkar o. s. frv. Það vita þeir. Og það er þarna sem gífurlega mikill áherslumunur liggur. Við erum að leggja til að að því er framkvæmdavaldið varðar taki við þjóðræði af þingræði.

Ég vil gjarnan að þegar hv. þm. Geir Hallgrímsson talar hér á eftir svari hann einni spurningu í framhaldi af þessari umr. og þeim till. sem hér er verið að leggja til: Við kusum 2. og 3. des. 1979, svo sem menn vita. Það voru kosningaúrslit. Sumum líkuðu þau og öðrum líkaði ekki, sem menn einnig vita. En ég spyr: Hver kaus dr. Gunnar Thoroddsen, hæstv. forsrh., til slíkrar stöðu? Varla hann sjálfur einu sinni? En hverju sætti það þá að þetta gerist? Það er þetta sem við segjum að sé fullkomin ranghverfa á einhverju sem við köllum þingræði í þessum skilningi orðins. Það er kosið til Alþingis. Ég fullyrði einnig, og tek dæmi, að að afloknum kosningum 1978 voru menn nánast reknir til ríkisstjórnar vegna þess að flokkskerfin gripu í taumana hvert á sínum stað. Einn flokkurinn var farinn úr henni aftur eftir 13 mánuði. Eitthvað var því skakkt í ákvörðuninni sem var tekin í upphafi, en látum það allt vera. Það er mynduð ríkisstjórn algerlega á skjön við kosningaúrslit. Ég met það svo, að það hafi gerst sumarið 1978, og ég met það ennfremur svo, að það hafi kyrfilega gerst á tímabilinu des. 1979 til jan. 1980.

Það er þetta kerfi sem við segjum að sé orðið svo ótrúlega skakkt. En þá verða menn að huga að því að það er ekki furða þó að þessar skekkjur verði því að þegar Alþingi er kosið með mjög svo ójöfnum atkvæðisrétti, eins og gerist í dag, býr það auðvitað til skekkju öðrum megin, og við segjum að svo verði að vera vegna sérstöðu landsins, en þegar þessar skekkjur veltast í sömu hlutföllum yfir á framkvæmdavaldið erum við komin með stjórnkerfi sem við ráðum ekki við. Það er málið. Maður hefur séð þetta gerast. Menn túlka þetta ekki sem skyldi sem raunverulegar félagslegar skekkjur, sem aftur verða efnahagslegar, en það er þetta stjórnkerfi sem í raun og veru er sprungið eða er við að springa í loft upp. Af þessum ástæðum, herra forseti, eru þessar brtt. fluttar. Ég fellst á að í hinu stóra samhengi er brtt. á þskj. 497 um að ráðherrar eigi ekki atkvæðisrétt á Alþingi auðvitað minni háttar, en engu að síður er hún undirstrikun á því prinsippi sem verið er að mæla fyrir.

Ég hef getið þess, herra forseti, að að þeim brtt. samandregnum, sem ég er að mæla fyrir, er verið að mælast til að þetta frv. líti í öllum aðalatriðum allt öðruvísi út en það gerir, og þakka skyldi þeim sem fyrir slíku mælir vegna þess að eins og sagt hefur verið er frv., sem hv. þm. Geir Hallgrímsson er 1. flm. að og þeir fjórflokkamenn koma svo í halarófu á eftir honum, ónýtt. Það er einskis virði, fjallar um fjölgun þm. um þrjá, lækkun kosningaaldurs í 18 ár og ekkert annað. Hitt er í fskj. Eins og ég sagði við hv. þm. Geir Hallgrímsson hér úr ræðustól í dag er ég ekkert viss um að Gunnar Schram og Árni Johnsen telji sig bundna af því sem Geir Hallgrímsson, núverandi hv. 1. þm. Reykv., hefur sett í einhver fskj. Og þetta er kjarni málsins.

Þjóðin hefur leyfi til að endurkjósa þm. sína eða kjósa sér einhverja aðra. Það er liðin tíð að menn á einu löggjafarþingi setji lög fyrir löggjafarþing sem á eftir að kjósa til. Þetta gerðu menn í flokksaganum í gamla daga, en menn gera það ekki lengur með sama hætti. Að þessu leyti fer heimurinn mikið batnandi.

Eins og ég hef sagt, herra forseti, er mér ekki nákvæmlega kunnugt um með hvaða hætti núverandi hv. meiri hl. hugsanlega ætlar að böðla þessu máli í gegn. Vera má að meirihlutamenn ætli að ljúka 2. umr. um málið í kvöld og byrja þegar á 3. umr. Mig langar til að spyrja hæstv. forseta: Er það þetta sem stendur til? (Forseti: Nei, nei.) Nei, 3. umr. verður á morgun. Ég vildi sjá fyrir örlög þeirra brtt. sem ég mæli fyrir.

Það eru fleiri brtt. sem við vildum flytja við þetta frv. Við munum þá flytja þær við 3. umr. Þar kemur fram sú stjórnkerfisheimspeki sem við höfum verið að mæla fyrir. Og ég vildi leyfa hv. alþm. að heyra hvernig við viljum að 2. gr., raunar 14. gr. stjórnarskrárinnar, hljóði, en það er svona og það er þetta sem við munum freista þess að koma að við 3. umr. málsins:

„Forsætisráðherra skal vera þjóðkjörinn. Kjörgengur er hver sá maður, sem fullnægir skilyrðum kosningarréttar til Alþingis.

Forsrh. skal kjörinn beinum, leynilegum kosningum af þeim, er kosningarrétt hafa til Alþingis. Frambjóðandi skal hafa meðmæli minnst 1500 kosningarbærra manna og mest 3000. Kjósa skal í tveimur umferðum, ef nauðsyn krefur, og skulu tvær vikur líða í milli. Sá er réttkjörinn, er einfaldan meiri hluta hlýtur í fyrri umferð. Nái enginn frambjóðenda slíkum meiri hluta skal í síðari umferð kosið milli þeirra tveggja, er flest atkv. hlutu í fyrri umferð. Sá þeirra er þá réttkjörinn forsrh., er fleiri atkv. hlýtur. Ef aðeins einn maður er í kjöri, er hann réttkjörinn án atkvgr.

Að öðru leyti skal um framboð og kjör forsrh. ákveðið með lögum.“

Hér er auðvitað, herra forseti, verið að mæla fyrir, svo sem ég hef gert áður, gagngerðri grundvallarbreytingu á stjórnarskrá lýðveldisins. En því er þetta nefnt, að svona hugmyndir eru uppi og það er auðvitað furðulegt að böðlast skuli vera áfram með þeim hætti.

Hér hafa aðrir hv. alþm. mælt fyrir brtt. í dag. Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson og Jóhanna Sigurðardóttir leggja til eina hugmynd sem gengur til sömu áttar og þeirrar sem ég hef mælt fyrir, nefnilega þeirri að það verði ekki fjölgað í 63, heldur haldið sig við töluna 60. Ekki er því eindrægninni fyrir að fara á þeim bænum frekar en oft áður. En málið er það, að þeir hafa flutt till. til svolítið annarrar áttar hv. þm. Stefán Valgeirsson og Ólafur Þórðarson, nefnilega að upp sé tekin mælistika lífskjara úti um hinar dreifðu byggðir. Allt þetta skiptir máli í því sem við erum að gera. Og ef menn eru sammála um að allt þetta skipti máli, að við séum raunverulega að ræða alvarleg mál í þágu þessarar þjóðar, sem við auðvitað öll viljum þjóna svo vel sem við kunnum og getum, því þá þessi flýtir? Því er verið að hraða kvöldfundi um sjálfa stjórnarskrá lýðveldisins? Því er verið að neita um útvarpsumr. um sjálfa stjórnarskrá lýðveldisins? Það er ekki svo að við séum að fjalla um ályktun einhverra samtaka. Við erum að fjalla um sjálfa stjórnarskrá lýðveldisins. Sjálfir þessir herramenn í forustu fyrir fjórflokkakerfinu hafa margyfirlýst að stjórnkerfið standi eða falli með því að vel takist til. Því þá þessi flýtir? Og svarið er einfalt, segjum við. Þessum flokkum, sem allir eru eins og ekkert hefur tekist og skulda á 6. þús. dollara á mannsbarn erlendis og horfa upp á verðbólgu sem er upp undir 80% og ekkert geta og ekkert kunna, ætla einu sinni að sýna að þeir geti verið sammála og geti eitthvað. Og það er allt og sumt, herra forseti.

En ég hef lýst því að við erum að leggja til annars konar grundvallarbreytingar á þessu stjórnkerfi. Forseti hefur lýst því úr sínum stóli að 3. umr. verði ekki hastað í kvöld. Ég skil orð hans svo að það eigi að freista þess að ljúka 2. umr. og að deildin fái þá tíma væntanlega á miðvikudag til að sinna þeirri 3. Og ég veit að forseti og hv. alþm., a. m. k. þeir sem um þessi mál hafa hugsað, skilja mætavel að menn gera það ekki að gamni sínu að setja á langar ræður nema mönnum þyki að mikið liggi við. En það sem mér finnst vera svo mikið aðalatriði þessa máls er það, að flokkakerfinu fjórfalda takist ekki að skrökva því að þjóðinni að hér sé verið að leggja eitthvað allt annað til og breyta einhverju allt öðru en raunverulega er verið að gera. Það finnst mér vera alvörumál og áhyggjuefni í senn. Af þessari ástæðu hefur fyrir þessum hugmyndum verið svo mælt sem hv. alþm. hafa á hlýtt.

Í þeim brtt., herra forseti, er ekki að finna þá stærstu af þeim sem í okkar hugmyndafræði felst, en ég hef lýst hér hvernig liti út sem lagatexti og við munum freista þess að flytja við 3. umr., nefnilega þá grundvallarhugsun og grundvallarbreytingu á stjórnkerfinu að forsrh. skuli vera þjóðkjörinn. Ég hef lesið hér drög að till. þar um, en því er ég að því að ég er að undirstrika að þær tillögur aðrar, sem mælt hefur verið fyrir, um aðskilnað valdþáttanna, um fastanefndir Alþingis og um að ráðherrar eigi ekki atkvæðisrétt, eru auðvitað fluttar vegna þess að aðalatriði málsins er jöfnun atkvæðisréttar og þar með jöfnun aðstöðu þegnanna í landinu, sem felst í hinni beinu kosningu framkvæmdavalds, þar sem einn maður hafi eitt atkvæði á því sviðinu. Eins og við höfum margsagt og ég segi enn teljum við að þá sé ekki þörf á að vera að hrófla við þm.-fjöldanum og ekki af því ómerkilega og lítilfjörlega tagi sem lagt er til í þessu frv., þá megi hafa þm.-fjöldann óbreyttan og atkv. ójöfn í þágu hinna dreifðari byggða. Þetta, herra forseti, er stór hugsun þegar þessi atriði eru saman dregin með þeim hætti sem hér hefur verið gert.

En þessi breyting krefst auðvitað að fleiri þættir í stjórnarskránni séu athugaðir. Ég vil, herra forseti, leyfa hv. alþm. að heyra með hverjum hætti við hugsum okkur frekari útfærslu á þessu. Við segjum t. d. — og orðum hugsanlega stjskrgr. svo:

„Nú deyr forsrh. eða lætur af störfum, áður en kjörtíma hans et lokið og skal þá utanrrh. taka við embætti hans og gegna því til loka kjörtímabilsins.

Nú getur forsrh. ekki gegnt störfum um sinn vegna dvalar erlendis, sjúkleika eða af öðrum ástæðum og skal utanrrh. þá fara með vald hans.“

Það er auðvitað umdeilanlegt hvort það eigi að vera þetta tiltekna embætti eða eitthvað annað sem næst gengur forsrh., enda slíkt allt útfærsluatriði, en kjarni þessarar hugsunar er sá, að það er jafnframt verið að leggja til, og það mun einnig koma fram við 3. umr. þessa máls, að eitthvert misnotaðasta vald, sem hér fjallar um og sem valdið hefur að mörgu leyti bæði ósmekklegri pólitískri verslun í valdaskyni og annarri óáran raunar, og það er þingrofsrétturinn, sé afnumið. Ef hv. alþm., sem við erum að tala um, eru kjörnir til fjögurra ára eiga þeir auðvitað að sitja til fjögurra ára.

Það á auðvitað ekki einhver einn maður og það á ekki meiri hl. Alþingis að geta tekið umboðið af minni hl., enda fullyrði ég að oftar en ekki í tímans rás hefur þingrofsrétturinn verið notaður í auvirðilegu pólitísku hagsmunaskyni. Ég þarf ekki annað en nefna hugmyndir um kosningar 23. apríl, sem vitaskuld er valdavörn fjórflokkanna. Af hverju apríl og af hverju ekki júní? Velti menn því fyrir sér. Það er verið að kjósa undir vertíðarlok. Af samgönguástæðum og margháttuðum öðrum ástæðum fylgja alls konar óþægindi því að kjósa í apríl. Af hverju ekki í júní? Vitaskuld er þetta ákvörðun sem er tekin fyrir fjórflokkana og í þeirra þágu og af engum öðrum ástæðum.

Til marks um hvað þingrofsrétturinn getur verið ósæmilegt vald: Ef þjóðin hefur kosið einstaklinga, karla eða konur, til þess að vera þeir fulltrúar sem leikreglurnar setja og ef þeir eru kosnir til fjögurra ára, þá eiga þeir að sitja til fjögurra ára. Þá vita menn það þegar þeir ganga í verkin og þá er enginn Gunnar Thoroddsen, enginn Geir Hallgrímsson og enginn annar sem getur þar um breytt. M. ö. o.: mikilvægara en hinn snauði pappír um fjölgun þm. í þrjá væri það ef þeir felldu þetta niður og settu heldur inn að afnema þingrofsréttinn. Þá væru þeir að leggja inn eitthvað raunverulegt, eitthvað sem máli skiptir, og það munum við einnig leggja til, en þá þarf að hugsa fyrir því, séu menn að huga að því að framkvæmdavaldið sé kosið beinni kosningu, að eitthvað getur hent á kjörtímabilinu. Því er lagt til að í slíkum tilfellum, sem þó vonandi aldrei kemur til sé slíks gætt með þessum hætti.

Í svona frv., herra forseti, mundi einnig standa að forsrh. skipaði ráðh. og veitti þeim lausn, hann ákvæði tölu þeirra og skipti störfum með þeim. Þetta skýrir sig sjálft. Í svona frv., herra forseti, mundi einnig standa: Ráðherrar mega ekki vera alþm. Nú er alþm. skipaður af ráðh. og skal þá varamaður hans taka sæti á Alþingi þann tíma er hann gegnir ráðherrastörfum. — Þetta er efnislega aðeins öðruvísi fram sett, en sama hugmyndin og hin, sem flutt hefur verið brtt. um, að ráðh. hafi ekki atkvæðisrétt á Alþingi, en öll réttindi hv. alþm. önnur.

Síðan, herra forseti, þarf að vera í þessari hugmyndafræði mjög mikilvægt ákvæði þar sem við verðum, eins og um margt annað að þessu leytinu til, að horfa til Frakklands. Það er grein sem svo ætti að hljóða, að forsrh. geti efnt til þjóðaratkvgr. um hvaða mál sem vera skal. Ástæðan fyrir þessu er sú, að réttmætasta gagnrýni á hugmyndafræði af þessu tagi er ekki þingræðistautið, sem t. d. var mikið atriði hjá hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni, heldur hitt, að þar getur komið að meiri hl. Alþingis, sem svona er kosið, einnig vegna þess að það hallast inn á hinar dreifðari byggðir og það er ljóst, getur verið ósammála framkvæmdavaldi sem kosið er beinni kosningu.

Nú er það svo að í Frakklandi, í þau tæp 30 ár sem þetta kerfi hefur verið við lýði þar, er í raun og veru búið til miklu stöðugra bæði efnahags- og félagskerfi og um leið valddreifðara, t. d. í þágu héraða og sveitarstjórna þar í landi. En þá er hins vegar sú fræðilega hætta, og menn mega ekki líta fram hjá henni, að Alþingi eða löggjafarvaldíð hafi eina skoðun og framkvæmdavaldið aðra skoðun. Réttur til þjóðaratkvæðis eins og allt slíkt annað vald er þegar fyrir hendi hjá löggjafarvaldi eða meiri hl. þess, til að vera nákvæmari, en það sem Frakkarnir settu í sína stjórnskipan og hefur reynst þeim vel er ákvæði um að framkvæmdavald svona kosið geti einnig skírskotað málum til þjóðaratkvæðis. Reyndin er sú í Frakklandi, að til þessa hefur aðeins einu sinni komið, en í annað skipti var raunverulega spurning um traust eða vantraust á þá sitjandi handhafa framkvæmdavalds, sem varð undir í þeirri atkvgr. sem þekkt er og átti sér stað árið 1969. En af þessari ástæðu, ef menn vilja hugsa þessa hugsun til enda, þá er áreiðanlega skynsamlegt hér eins og þar einnig, ef vægið er allmikið misjafnt, miðað við fólksfjölda á löggjafarþinginu, að þetta ákvæði sé til staðar, ekki vegna þess að því muni verða beitt, því að það þykir mér satt að segja mjög ósennilegt, heldur af hinni ástæðunni, að þetta er öryggisventill sem í raun og veru knýr á um að báðir aðilar mætist á miðri leið ef um slíkan ágreining er að ræða.

Annar kjarni þessa máls er sá, að þetta þrönga flokkakerfi Sjálfstfl., Framsfl., Alþb. og Alþfl. hefur haldið þeirri hugsun að mönnum, t. d. hv. þm. sem hér eru, að þeir séu í hinum stærri málum ýmist stjórnarsinnar eða stjórnarandstæðingar og það sé frumskylda annarra að verja ríkisstj. og þá ekki aðeins gegn vantrausti, heldur í hverju stórmálinu á fætur öðru og það sé eiginlega sjálfvirk skylda hinna að koma höggi á ríkisstj. Ég fullyrði að það er að vísu rétt að allmikill fjöldi hv. alþm. hugsar enn svona, en það er miklu hærra hlutfall hér en út um land. Maðurinn sem mestu máli skiptir, maðurinn í þessu landi, er ekki annaðhvort harður stjórnarsinni eða harður stjórnarandstæðingur og hann sofnar ekki út frá því á kvöldin og vaknar við það á morgnana hvort ríkisstj. falli nú eða falli ekki.

Sannleikurinn er sá, að að þessu leytinu til einnig hefur þetta þrönga flokkakerfi með sínar þröngu skoðanir og raunar oft lítilfjörlegu áhugamál verið að þröngva því mynstri upp á Alþingi að þar eigi menn gagngert að vera annaðhvort stjórnarsinnar eða stjórnarandstæðingar og ævinlega, ef þeir komi því við, sé svo ákveðinn hópur sem eigi að koma höggi á ríkisstj., helst drepa fyrir henni öll mál, ef nokkur möguleiki sé til þess, og það í raun og veru alveg án tillits til þess hvert málið er. Svo vita menn um persónulegar skoðanir hv. þm. og þær ganga í allt aðrar áttir og eru oft allt öðruvísi.

Þessa hugsun, herra forseti, og þessa hegðan þarf einnig að brjóta upp, vegna þess að að þessu leytinu til eru alþm. auðvitað í sér eins og allt annað fólk í þessu landi. En félagsmynstrið knýr þá oft og iðulega til þess að hegða sér allt öðruvísi en þeir raunverulega vilja hegða sér. Þetta mundi einnig breytast við þær stjórnkerfisbreytingar, sem við erum að leggja til, og þegar hv. alþm. verða væntanlega og vonandi dæmdir eftir því hvernig þeir hafa greitt atkv., en ekki eftir hinu, hvað þeir útveguðu með puttunum upp úr sjóðum framkvæmdavaldsins svo sem nú er í allt of ríkum mæli.

Alls staðar erlendis hjá siðuðum þjóðum eru birtar um það upplýsingar í blöðum, hvort sem þau eru tengd við héruð eða landið allt, með hverjum hætti löggjafar hafa greitt atkv., hvaða skoðanir þeir hafa, hvort þeir eru með eða móti fóstureyðingum og hvort þeir hafa hinar eða þessar skoðanirnar. Sannleikurinn er sá, að hér á landi er sáralítill áhugi á slíku vegna þess að meginverkin sem menn eru hér að vinna koma almennri löggjöf, um efnahagsmál t. d. eða annað, sáralítið við. Hún er veigaminni hluti af þingstörfum, eins og við höfum svo oft verið að undirstrika með ýmsum hætti, og það er svo mikil undirstrikun í öllu því sem við erum að leggja til að einmitt þessu verði breytt.

Ég hef, herra forseti, mælt fyrir þeim brtt. sem eru frá mínum bæjardyrum séð aðalatriði þessa máls. Hér er raunverulega verið að leggja til að þegar sleppt er lækkun kosningaaldurs niður í 18 ár, sem ég er samþykkur, sé hinn lítilfjörlegi pappír, frv. til stjórnskipunarlaga, sem hv. þm. Geir Hallgrímsson og skoðanabróðir hans, hv. þm. Svavar Gestsson, og svo þeir hv. þm. Steingrímur og Magnús, hafa flutt, lagður til hliðar, enda held ég að það væri flokkakerfinu sæmst og þjóðfélaginu fyrir bestu að við gleymdum honum, en í staðinn verði sett upp annað frv. og nýtt frv., sem fjalli um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, og í þessu frv. verði menn að fjalla um raunverulegar breytingar, en ekki einskis verða fjölgun þm. um þrjá.

Herra forseti. Það vita guð og menn í þessu landi að vegur Alþingis hefur ekki verið ýkjahár nú um stundir. Það er sannleikur málsins. Auðvitað skemmtir fólk sér við að gera lítið úr þeim störfum sem hér eru unnin. Það eina sem við, sem hér sitjum enn, eigum að hafa áhyggjur af er að þeir, sem eru að finna að störfum Alþingis, mega helst ekki hafa allt of rétt fyrir sér. En því miður hefur það verið svo að undanförnu, að gagnrýnendur þessarar stofnunar hafa haft nokkuð til síns máls. Menn skemmta sér við það vítt og breitt um þjóðfélagið að halda því fram að þær breytingar, sem verið er að gera nú á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, séu reiknikúnstir til að tryggja forustumönnum í fjórflokkakerfinu réttindi sem þeir ekki hefðu að öðrum kosti. Þetta er svívirðilegt ámæli, ef upplogið er, en skelfilegt hússins vegna, ef satt er.

Við verðum að skilja það, að þegar verið er að hraða afgreiðslu á grínpappír eins og þeim sem hér er til umr. augljóslega af engum ástæðum, þegar verið er að bola í gegn á kvöldfundi breytingu á — ekki lögum og ekki félagasamþykkt og ekki þál., heldur á sjálfri stjórnarskránni, sem þeir hafa aftur og aftur sagt að sé mikið aðalatriði að breyta, og þegar, herra forseti, óskum okkar hv. þm. Geirs Hallgrímssonar um útvarpsumr. er hafnað af forsetum — ekki um almennar pólitískar umr. heldur um þetta frv. — þá getum við ekki álitið annað, andstæðingar þessa máls, en að mennirnir séu að vinna einhver feluverk, þeir séu að vinna einhver verk sem þeir vilja helst að sem allra fæstir viti sem allra minnst um.

Það er náttúrlega skelfilegur dómur yfir flokkakerfinu í landinu ef það er að vinna breytingar á sjálfri stjórnarskrá lýðveldisins, en vill helst að vinnan fari þannig fram að sem minnst sé um hana vitað. Það að gerast, því að annars byðu menn upp á, ef hér gengju stoltir fjórflokkasveinar stoltir með sitt frv. og glaðir og reifir og tryðu því að þetta væri samfélaginu til heilla, að kynna þetta í útvarpsumr., leyfa andstæðingum málsins að verða sér til skammar með sínu neikvæða nöldri. En það er ekki svo.

Vegna þess að hér brosir framan í mig hv. 1. þm. Vestf. væri út af fyrir síg ánægjuefni að vita hversu mikil gleði er og almenn ánægja í hans kjördæmi — ekki með frv. um fjölgunina, ekki með blöffið, hann hefði getað blöffað alveg eins og flokksbræður hans hér fyrir sunnan, nei, en með fskj., með frv., sem hann meinar ekki nokkurn hlut með frekar en aðrir og ætlar sér ekki að minnast á í sinni heimabyggð. Hann ætlar að glenna sig upp með fjölgunina: Fjölgað er í þrjá. Við erum sloppnir fyrir horn. — Hitt felur hann og lætur ekki nokkurn mann sjá. Það er málið. Það er nefnilega enginn vandi að ná sátt um ekki neitt, en friður um ekki neitt er enn sem fyrr friður gegn fólkinu í þessu landi og ekki friður í þágu nokkurs eða neins. Og það, herra forseti, er ennfremur mikið alvöruefni í sambandi við þann lítilfjörlega pappír, frv. til stjórnskipunarlaga, sem ég er hér að freista þess að gera breytingar á, en í öllum aðalatriðum að mæla gegn.

Herra forseti. Í fimm ár sat á vegum fjórflokkanna stjórnarskrárnefnd skipuð tveimur frá hverjum flokki. Það var í senn gæfa mín og ógæfa að alllangan tíma á þessum fimm árum tilheyrði ég einum af þessum fjórflokkum og hafði nokkurt tækifæri til að fylgjast með því hvernig þetta gerðist. Ég veit að forseti veit og ég veit og sá hluti þm. sem um vill vita veit, að ekki var þar samkomulag um nokkurn skapaðan hlut. Annars hefði verið lagt fram eitthvert bitastætt mál. Það var þvert á móti. Skoðanirnar voru jafnmargar og mennirnir í nefndinni — miklu fleiri en flokkarnir þó sem að baki þessu stóðu. Sannleikurinn er sá, að niðurstaðan í stjórnarskrárnefnd eftir vinnu fjórflokkanna er nákvæmlega eins og árangur þeirra í efnahagsmálum og öðrum málum sem þessa þjóð skipta. En það á að fela og það á að fela með þessum pappír. Þess vegna koma þeir í veg fyrir útvarpsumr., koma í veg fyrir alla þá kynningu sem þetta mál hugsanlega getur fengið. Svo ætla þeir að koma fram fjórflokkarnir og talsmaður þeirra, því að Geir Hallgrímsson talar auðvitað fyrir skoðanabræður sína þrjá, og hann segir: Sjáið þið, fólk í landinu, þetta gátum við. Við náðum samkomulagi. Og þeir náðu samkomulagi. En þeir leystu ekki nokkurn skapaðan hlut með því.

Herra forseti. Það er mikið áhyggjuefni til hverrar áttar þetta mál er að þróast. Ef fram fer sem horfir lýkur í kvöld 2. umr. Ég veit ekki hvort næst að greiða atkv. um brtt. Svo á að reyna að hespa þetta af í vikunni einhvern tíma. Það er í fimm ár búið að vera að reyna að leysa eitthvað sem kallað er stjórnarskrármál. Að vísu fljúga hér þær sögur um sali svo sem menn vita að hæstv. forsrh. ætli að leggja fram einhver drög að stjórnarskrá að auki. Um það hefur verið skrifað í blöðum og enginn veit. En að því slepptu er niðurstaða fjögurra til fimm ára vinnu flokkakerfisins aðeins frv. til l. um stjórnarskrárbreytingar í tveimur greinum: að fjölga þm. um þrjá og lækka kosningaaldur niður í 18 ár. Þetta er allt og sumt.

Svo til viðbótar, herra forseti, hafa þessir menn verið að leika sér að allt annarri hugsun og hana hef ég kallað óhæfuverk og mun kalla óhæfuverk. Hún er sú, að utan um þessar einskis verðu breytingar eigi að kjósa tvisvar. Og til hvers? Að vísu gátu þeir ekki komið sér saman um hvort ætti að vera ákvæði til bráðabirgða í þessum pappír, aftan við frv. skeytt, en hafa það þó uppi í erminni að kjósa skuli tvisvar vegna þessara hugmynda, sem þó engar eru, sem eru minni t. d. en þegar sú breyting var gerð á stjórnarskránni 1968 að kosningaaldur var lækkaður úr 21 í 20 ár. Það var metin svo lítil breyting að ekki þyrfti tvennar kosningar. Þetta er enn minni breyting, sem hér er um að ræða, en engu að síður er verið að leika sér með hugmyndina um tvennar kosningar. Og mér er spurn: Til hvers er það og af hverju er flokkakerfið að leika sér? Því hefur enginn getað svarað. Það eina sem menn frétta af eru svo deilur í bakherbergjum um hvort þetta skuli gert eða skuli ekki gert og enn sem fyrr rugla þeir um að þetta þing, sem nú situr og sem verður væntanlega leyst upp, leysi upp það þing sem saman kemur eftir kosningar, en það gerir slíkt ekki frekar en næsta þing sjálft vill, og allar horfur eru á því að það verði töluvert öðruvísi saman sett.

Kjarni málsins er samt sá, að við vitum ekki enn hvað út úr þessu kemur og hugsi menn um það: Ef þetta frv., sem segir í raun og veru alla söguna, hefði aðeins verið greinin um fjölgun úr 60 í 63, um lækkun kosningaaldurs úr 20 í 18 ár og síðan grein um tvennar kosningar, um hvað fjallaði slíkt frv.? Það fjallaði um stjórnmálaflokkana og ekkert annað, kemur hvergi nálægt því að það sé eitthvert samhengi á milli stjórnarskrár lýðveldisins og þess lífs sem fólk lifir í þessu landi, það sé eitthvert samhengi á milli stjórnarskrár lýðveldisins og þess efnahagskerfis sem hér er, að það sé eitthvert samhengi á milli stjórnarskrár lýðveldisins og þess félagskerfis sem í þessu landi er. Það örlar ekki á skilningi hjá þeim, sem um þetta tala, um eitthvert slíkt samhengi. Ónei. En hvað eru þeir að gera? Þeir eru að reikna sig inn á þing meira og minna. Þeir sitja við það. (Gripið fram í.) Austfjarðaslysið, segja þeir og hlæja ægilega. Í einu tölvudæminu gerðist það m. a. s. að krati fór inn á þing á Austfjörðum, og þykir fyndið.

Það er þetta, herra forseti, sem Alþingi ætti að blygðast sín fyrir, ekki aðeins málið sjálft heldur allan aðdraganda málsins. Og niðurstaða mín um þetta frv. hv. þm. Geirs Hallgrímssonar og hans samherja er sú, að þetta er frv. fyrir flokkana flutt í þeirra þágu og til þess eins að geta sagt þessari þjóð: Við getum eitthvað. Það er eitthvað sem við getum. Og þetta, herra forseti, er allt og sumt. Þessu hljótum við að vera mjög andvíg.

Mér er ekki enn ljóst með hverjum hætti aðrir andstæðingar þessa frv. munu snúast gegn því hér á hv. Alþingi. Sennilega hafa þeir verið beygðir í þingflokkunum. Sennilega standa þeir upp eins og svo oft áður. Þeir ristu nokkuð við 1. umr. málsins, en láta sennilega þar við sitja. Stjórnmálaflokkarnir í landinu hafa svo sem beygt annað eins eins og núverandi þingflokka hér á Alþingi. Það mun sennilega gerast eina ferðina enn.

En ég segi enn og aftur: Árum saman hafa menn verið að lýsa því að hin úrelta stjórnarskrá væri til vandræða og að breytingar á henni væru ekki bara breytingar breytinganna vegna og ekki pappírsins vegna og ekki tillagnanna vegna og ekki flm. vegna, heldur skipti það máli fyrir þjóðlífið í þessu landi að henni væri breytt. Hvernig má það vera að þetta er pappírinn sem þeir leggja fram, þetta er pappírinn sem þeir ætla að láta kjósa um og þetta er jafnvel pappírinn sem þeir hafa talað um að láta kjósa um tvisvar? Er furða þó að niðurstaða mín sé sú, að hér sé verið að hugsa um flokkana, en ekki þjóðina. Er furða þó að við sem hér á hinu háa Alþingi erum andvíg þessu frv. viljum fá að kynna okkar skoðanir? Ég er sannfærður um að ef þjóðin fær um þetta mál að vita og ef ekki tekst að loka þinginu og loka fjölmiðlunum, þá er allur þorri fólks í þessu landi sammála þeim sjónarmiðum sem hér hefur verið talað fyrir.

Ég veit, herra forseti, að þetta er orðið langt mál og ég veit einnig að maður leikur sér ekki að því að gera slíkt. En fyrir sum okkar er þetta alvörumál. Mér er ljóst að fyrir hv. flm. er þetta leikur og ekki alvörumál. Og mér er alveg ljóst að forustumenn fjórflokkanna eru bara að setja upp grímu — þeir eru að setja upp grímu gagnvart fólkinu í þessu landi. Þeir vita auðvitað eins og allir aðrir að þetta frv. fjallar ekki um neitt og hv. 1. flm. þessa máls, Geir Hallgrímsson, veit meira að segja að þessi frv.-flutningur og þessi málflutningur eru langt fyrir neðan hans virðingu. Hann veit auðvitað að hann hefur verið að gera stórt mál úr engu í blekkingarskyni í þágu síns flokks og flokkanna fjögurra, sem er í raun og veru eitt og hið sama. En það er ekki málið. Við sem erum andvíg þessu og þykjumst vera það með miklum rökum viljum fá meiri tíma, við viljum fá meiri umr., við viljum kynna þar aðrar breytingar. Það er auðvitað ljóst að þær fimm brtt. sem ég hef flutt — þær munu sennilega vera fimm aðrar sem fluttar hafa verið við þetta — eru ekki neinar venjulegar brtt. Það er í raun og veru verið að flytja nýtt frv., en það er líka frv. sem eitthvað stendur í og ekki frv. sem er innihaldslaust.

Herra forseti. Við erum ekki að fjalla um venjuleg lög, við erum ekki að fjalla um ályktun. Við erum ekki að fjalla um niðurstöðu á félagsfundi. Við erum að fjalla um sjálfa stjórnskipun lýðveldisins Íslands, sjálfa stjórnarskrána, það plagg sem leggur leikreglurnar um stjórnskipan landsins. Og það er fautaskapur, sem verið er að beita, að ætla sér að böðla þessu máli í gegn, að leyfa sér að láta 2. umr. um þetta mál fara fram á kvöldfundi sem er óvenjulegt í þingstörfum þar sem hluti þm. getur ekki verið við. (Gripið fram í: Líka 1. umr.) Og einnig 1. umr., er bætt við, sem er rétt. Menn þurfa að fresta fundum vítt og breitt vegna þessarar umr. svo sem henti hjá mér í kvöld og áreiðanlega einhverjum fleiri en málið er að slíkt getur verið nauðsynlegt oft. Ekki skal úr því dregið. Og ég vil bæta við: Oft er talað of lengi þegar það ekki á rétt á sér, en það er ekki kjarni málsins. Kjarni málsins er sá, að nú á það rétt á sér þegar aðra leið ætti að fara og hv. Alþingi ætti að gefa sér miklu betri tíma. Og eitt vil ég einnig segja, að ég treysti hv. 1. flm., hv. 1. þm. Reykv. Geir Hallgrímssyni, til þess að sýna þeim brtt. sem við þetta eru fluttar þá virðingu sem brtt. við frv. um stjórnarskrá lýðveldisins réttilega ber, en taka ekki þátt í því ómerkilega samsæri toppsins í flokkakerfunum og vera að böðlast yfir þetta, vera að böðla þessari breytingu sem ekkert er í gegn og bola þar með brtt. frá, því við erum að tala um merkilegra og stærra mál en svo að pólitískur böðulsskapur eigi nú rétt á sér. Mér er ljóst að í björgunarskini andlitanna er þess ekki þörf þó að ella sé slíkt nauðsyn. Þjóðarinnar vegna er ekki þörf á þessu og það ber enga nauðsyn til.

Af þessum ástæðum, herra forseti, hef ég lagt fram þær fimm brtt. sem ég hef talað fyrir. Ég hef kynnt það að við munum enn freista við 3. umr. málsins að koma skikki á þetta mál og forða þjóðinni frá þessari vitleysu, sem flokkakerfið hér er að drýgja gagnvart henni, og séum við samt í minni hl. hér á Alþingi að því er þetta mál varðar nær það ekki lengra, en sé það ekki frábið ég mér þann pólitíska böðulsskap sem hér á að fara að beita, það er engin ástæða til að hegða sér þannig, og fer fram á að vegna alvöru þessa máls, vegna mikilvægis þeirra brtt., sem verið er að flytja, hvort sem þær reynast svo hafa meiri hl. eða minni hl., hagi menn sér af þeirri reisn sem þeim ber, gefi sér þann tíma sem til þarf og séu þess minnugir að við erum að fjalla um sjálfa stjórnarskrá lýðveldisins, en ekki leikfang flokkakerfisins í landinu.