08.11.1982
Neðri deild: 8. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (251)

3. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Hv. 6. þm. landsk. þm. flutti ræðu hér í dag um þetta frv. sem verður víst ekki talin til sígildra bókmennta. Það er af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi virðist vera misskilningur á ferðinni um setningu í 1. gr. þessa frv. Þar segir, með leyfi forseta: „Félmrn. skal setja reglugerð um framkvæmd atkvgr.“ Það sem um er að ræða er það, að gert er ráð fyrir að tveir/þriðju hlutar launamanna á vinnustað þurfi að samþykkja breytingar, m.ö.o. þann aukna meiri hluta þurfi til þess að þessi breyting nái fram að ganga. Félmrn. kemur þar aðeins inn, það setur reglugerð um framkvæmd þessarar atkvæðagreiðslu, en ekkert annað. Þarna var sem sagt á misskilningi byggt. Lagagreinarnar eru útskýrðar á bls. 14. Þar er sagt um þetta, „að félmrn. setji reglugerð um framkvæmd kosninga og kveði á um, auk almennra ákvæða, hverjir hafi atkvæðisrétt.“ Ég nefni sem dæmi menn í hlutastörfum, sem auðvitað getur orkað tvímælis. Til þess að þetta sé samræmt á félmrn. að grípa inn í. M.ö.o. er þetta misskilningur.

Í annan stað er spurt: Hvað um orlofsmál og önnur slík öryggismál launamanna? Því er svarað í 2. gr. í þessu frv., en þar segir: „Þar sem í lögum þessum eru nefnd stéttarfélög komi: stéttarfélög og vinnustaðafélög.“

Lög um stéttarfélög og vinnudeilur, sem að stofni til eru frá 1938, eru 71 grein og þau fjalla um miklu meira en verkfallsréttinn sjálfan. Alls staðar þar sem talað er um stéttarfélög, og það meira en réttindi og skyldur, er gert ráð fyrir að vinnustaðafélög komi líka. Þessu er því öllu svarað ef menn lesa þau gögn sem liggja hér á borðum. M.ö.o.: Þetta er auðvitað alveg skýrt og læt ég þá umfjöllun um það lokið. En mig langar til að snúa mér að málflutningi hv. 7, þm. Reykjavíkurkjördæmis.

Mér finnst enn að það sé feikimargt í þessum efnum sem hv. 7. þm. Reykv. vill ekki skilja, en ég veit að hann gerir það. Jón Helgason orti einu sinni um menn sem nugguðu sér utan í Krist. Hv. 7. þm. Reykv. nuggar sér stöðugt utan í sósíaldemókratí eins og hann hafi aldrei verið annað en vinur þess, sem hann aldrei var og er ekki.

Málið er það í þessum efnum. Skoðum land eins og Noreg, þar sem verkamannaflokkur hefur farið með völd og hefur haft gífurleg áhrif. Í Noregi eru engin lög um þessa hluti. En það sem mér finnst hv. i. þm. Reykjavíkurkjördæmis ekki skilja er það, að í lögum 1938, settum af jafnaðarmönnum og framsóknarmönnum gegn atkvæðum flokksbræðra hans á sínum tíma, lögbundum við orðið „stétt“ og við lögbundum meira en orð, við lögbundum heila hugsun. Og hver er hún? Hún er sú, að stéttir manna séu lögbundnar og skildar kreppuskilningi. M.ö.o. eru verkamenn ein stétt, prentarar eru önnur stétt, skrifstofumenn og afgreiðslufólk í blíðum er þriðja stéttin o.s.frv. Þessir eru stéttarmúrarnir sem hlaðið var upp, og við verðum að skilja að menn hugsuðu svona á kreppuárunum, en menn hugsa ekki svona lengur.

Það eru engin svona lög í Noregi. Það er rangt hjá hv. þm. Þar er það verkalýðshreyfingin sem hefur breytt með róttækum hætti sjálf, því þar eru engar þvinganir af einu eða neinu tagi. Þeir hafa að vísu ekki grunneiningar, vinnustaðinn, heldur bandalag vinnustaða. Þeir geta breytt því hvenær sem þeir vilja. Þannig eru nú sósíaldemókratar í Noregi, — að ég ekki tali um sókndjarfari sósíaldemókrata, eins og þá í Frakklandi og á Ítalíu og Spáni. Ef hv. þm. er ólmur og allur af vilja gerður að nudda sér utan í sósíaldemókratí ætti hann, til að kynna sér hvernig það fer fram, að athuga hvernig áherslan á smáu einingarnar og valddreifingu er alls staðar sigrandi. Þið eruð á eftir. (Gripið fram í: Það eru þrjú verkalýðssambönd í Frakklandi.) Það er alveg rétt. Þeir hafa langar hefðir valddreifingar, Frakkarnir, það er rétt, og sósíaldemókratið þar hefur það líka og það byggir sögulega á allt öðruvísi hefðum en skandínavíski miðstýringarþankinn. En meira að segja í Noregi var farið svona að. Og hvað er þm. að tala um? Hann á enga sögu um sósíaldemókratíska hugmyndafræði og þekkir ekkert slíkt. Hans saga er öll orðin önnur og allt önnur. En þetta er nú málið, herra þm. Það er svona sem þetta gerist. En við fórum öðruvísi að. Við lögbundum hugtakið stétt. Verkamennirnir í Dagsbrún verða að vera í Dagsbrún. Þeir mega ekki vera í félagi með prentara eða skrifstofumanni. Þeir eru lögþvingaðir einir og sér og sjálfir. Hvaða mannasiðir eru það, ef þeir sjálfir kjósa öðruvísi?

Hv. þm. las upp úr gömlum dómi. Veit ekki 7. þm. Reykv. að lagakerfið á Íslandi er ónýtt? Lagakerfið á Íslandi er hand-hand-ónýtt. Sá skilningur, sem við höfum báðir verið sammála um, er skilningur allra á vinnulöggjöfinni, að þetta sé óheimilt. Ég get nefnt sem dæmi við hv. þm., að starfsfólk hjá Flugleiðum fór og talaði við sérfræðing, löglærðan mann í vinnurétti, — og hvert var svarið? Þetta er óheimilt. Þetta hefur skeð. (Gripið fram í.) Jú, nákvæmlega, og það er tvennt sem bannar, það er ekki bara 2. gr., eins og hér hefur verið sagt, heldur er það líka 1. gr., vegna þess að í 1. gr. laganna segir: „Rétt eiga menn á að stofna stéttarfélög.“ Hvað þýðir stéttarfélag? Það þýðir félag verkamanna eða félag prentara eða félag skrifstofufólks, en ekki félag sem þessir aðilar eru saman í. Þetta finnst mér vera alveg eins og klossi í kollinum á hv. þm. Það er skilningurinn á orðinu „stéttarfélag“ sem er bindandi.

Síðan segir í 2. gr.: „Félagssvæði má aldrei vera minna en eitt sveitarfélag“. Við skulum lesa allan rökstuðninginn 1938. Það er annars vegar stéttarfélagið sem rígbindur stéttirnar og hins vegar hugsunin að félagssvæði megi ekki vera minna en eitt sveitarfélag. Við skulum gera okkur ljóst af hverju Guðmundur Í. Guðmundsson og fleiri hugsuðu þetta upp á sinum tíma. Það var til að vernda Alþfl., sem þá eins og stundum síðar var alltaf á niðurleið. Það er málið. Það er það sem gerðist. Spurðu Guðmund Í. Guðmundsson. Spurðu um tilorðning laganna. Spurðu um söguna. Og þó svo að þessi skilningur finnist þarna, þá hefur hinn skilningurinn ævinlega verið ríkjandi. Sérfræðingar í vinnurétti hafa ævinlega túlkað þetta með þessum hætti, enda er það ljóst af bókstafnum. Og veit þm. ekki að lagahefðirnar á Íslandi eru með þeim hætti að menn túlka lögin sér í hag, verkalýðshreyfingin líka? Það er ekki bara dr. Gunnar Thoroddsen sem hegðar sér svona. Þið hegðið ykkur allir svona, bara túlkið lögin ykkur í hag, Óskar Hallgrímsson og hvað þeir heita allir þessir heiðursmen. Ég þarf ekki að segja hv. þm. neitt um það. Þetta eru greindir menn. Það er þetta sem er málið.

En það sem ég skil ekki er það, af hverju þessir sjálfkjörnu vitmenn, og þar vil ég nú taka undir með hv. 6. landsk. þm., eru alltaf að hafa vit fyrir fólki. Hér er aðeins verið að leggja til heimildarákvæði. Menn ráða því svo sjálfir hvort þeir gera þetta eða gera það ekki. Og af hverju má ekki ákvörðunarvald vera „á gólfinu“?

Kannske notar sér enginn þessa heimild. Þá nær það ekki lengra. Hvernig stendur á því að misheppnaður verkalýðsforingi, sem er misheppnað,.r vegna þess að hans fólk hefur hlutfallslega lakari kjör en það hafði fyrir 25 árum, — og það er misheppnaður ferill, — fær öllu að ráða? Af hverju má ekki fólkið ráða þessu sjálft? Af hverju þarf þessi maðurinn eða hinn maðurinn að standa hér upp í varnarskyni? Það er undarlegt bandalag sem hér hefur myndast.

En hvað sagði hv. 6. landsk.? (Gripið fram í.) Í hinni helgu bók segir: Leyfið börnunum að koma til mín. Hv. 6. landsk. þm. sagði: Dreifið valdinu til mín heim í hérað. Hann getur flutt um það einfalda till. í miðstjórn ASÍ. Dreifið valdinu til mín. Hjálpi okkur guð! (Gripið fram í.) Hann sagði efnislega þetta, það er hugsunin: Engu að breyta sem skerðir hár á mínu höfði, nei, dreifa valdinu til mín. — Þetta er það, því miður, sem háir ykkur allt of mörgum.

Svo undarlegur er málflutningur hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar að hann segir að hér sé verið að leggja til hálfbrjálæðislegan anarkisma að öðru leytinu til og hins vegar svo tannlæknaþjóðfélag, þjóðfélag þar sem harðir kröfugerðarmenn munu ryðjast fram, en í sömu setningunni er hann kominn í vörn fyrir flugmenn! Það er alveg rétt, að ef þetta fyrirkomulag yrði ofan á hef ég alltaf spáð því að hjá Flugleiðum mundu 90% í flugfélaginu vilja þetta, 10 ekki, þ.e. flugmennirnir. Hvað með það? En hv. 7. þm. Reykv. er kominn í vörn fyrir flugmennina og stöðvunarvald þeirra. Ég er á móti því. Að komast í fjóra hringi í sömu setningunni er býsna vel gert. Það kemur nefnilega í ljós, að menn sem eru talsmenn ófaglærðs verkafólks, sem stöðugt hafa verið að dragast saman kjörin hjá, sem allir segja hver um annan þveran að þeir hafi ekki fengið réttláta hlutdeild í tæknibyltingu undanfarandi ára og munu að óbreyttu fyrirkomulagi verða stórkostlega undir í tölvubyltingunni sem við stöndum andspænis, koma hingað hins vegar og vilja engu breyta. Allt er svo gott. Það er ekki að furða þó að menn eins og ég láti það hvarfla að mér að þeir séu að velta fyrir sér plusssófunum og málverkunum á skrifstofunum. Plussið hefur reynst mörgum erfitt. (Gripið fram í.) Já, það er hann.

Annað sem menn hafa ekki skilið og ég held að sé af ásettu ráði, en ég ætla engum manni, er að menn segja þetta verða litlar anarkískar einingar. Það er ekki rétt. ASÍ verður auðvitað til áfram ef menn vilja það — og það sem meira er: það segir enginn að menn þurfi að semja sem vinnustaður. Menn geta samið sem bandalag vinnustaða. Allir vinnustaðir á Íslandi geta samið saman, ef þeir svo kjósa. Það eina sem er heimilað er að fólk á sama vinnustaðnum geti tekið sig saman, ef það svo kýs. Öll frystihús í Reykjavík, öll frystihús á Íslandi geta samið saman, ef þau svo kjósa, ef það eru þeirra hagsmunir. Þau geta myndað samtök og sett upp skrifstofur eða félagsheimili og hvað eina. Það er bara í lögunum sem við fjöllum um vinnustaði sem grunneiningu. Við höfum ekki lakari heimildir fyrir okkur en þing ASÍ í þeim efnum. Hvað menn byggja ofan á þetta er þeim alveg frjálst. Kannske vilja vinnustaðirnir semja sér. Kannske vilja Flugleiðir semja sér. Kannske mynda starfsmenn þar bandalög starfsfólks í flugi. Það virðast vera hagsmunir þeirra. Stundum vilja menn dreifa valdinu. Ég sé ekki annað en upp standi helsti valddreifingarmaður þingsins, hv. 6. landsk. þm., og hins vegar helsti miðstýringarmaður þingsins og báðir þykist þeir vera verkalýðsforingjar. Ekki er nú „solidaritetið“ þar.

Það er þetta sem er vandinn. En mér er óskiljanlegt af hverju menn leyfa ekki fólkinu að ráða þessu. Þetta er heimildarákvæði. Ég endurtek það sem sagt hefur verið áður: Kannske notar ekki nokkur vinnustaður þetta heimildarákvæði. Kannske kemur það í ljós. Ég veit það, og ég vil taka undir það, það er rétt hjá hv. 7. þm. Reykv., að ekki er eins mikill spenningur fyrir þessu í Straumsvík og var fyrir ári eða tveimur. Þar hafa runnið tvær grímur á menn og menn hugsa um það í mikilli alvöru hvort þetta eru þeirra hagsmunir eða ekki þeirra hagsmunir. En ekki hvað? Það er nákvæmlega það sem menn eiga að gera. Og ef menn komast að þeirri niðurstöðu að þetta séu ekki þeirra hagsmunir stofna þeir ekki slíkt félag. En hv. þm. Guðmundur J. eða Karvel eiga ekki að fjarstýra þessu neðan úr Alþingi.

Menn tala um að hér sé verið að lögþvinga. Þetta er einn misskilningurinn til. Menn lögþvinga ekki þegar þeir eru að leyfa það sem er bannað. Menn lögþvinga þegar verið er að banna það sem hefur verið leyft. Það er lögþvingun. Þetta er ógnun, ekki lokun. Það getur ekki verið lögþvingun að leyfa eitthvað sem hefur verið bannað. Það er opnun, það er aukið vald, það er meiri réttur til fólksins. Þetta snýst við líka hjá hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni.

Kjarni málsins er hins vegar sá, að það kerfi sem við búum við hefur mistekist. Það eru allir sammála um þetta. Ég nefni ágæta blaðagrein eftir Steinunni Jóhannesdóttur leikkonu í Þjóðviljanum á föstudaginn var. Hún lýsir skilningi á þessu máli í það heila tekið. Ég segi við þig, Guðmundur J., að kommarnir undir fertugu eru að vakna. Það er að kvikna í þeim vegna þess að menn vita að kerfið hefur engum árangri skilað.

Ég vil þó aðeins nefna eitt í framhaldi af þeirri blaðagrein sem ég nefndi. Það er sagt þar og hefur verið sagt viða, að þetta sé ekki nógu róttækt. Hugsum okkur 28 ára gamla stúlku sem hefur 7800 kr, á mánuði og þarf að borga 3700 fyrir barnapössun. Hvað halda mena að séu hagsmunir hennar? 500 kr. meira eða minna eða geta samið um dagvistun. fyrir sitt barn eða sín börn inni í fyrirtækinu? Hvað halda menn að séu hagsmunir hennar í þessum efnum? Ef menn vilja semja svona, af hverju mega þeir það ekki? Og annað: Ef menn vilja semja um eignaraðild að fyrirtæki, af hverju mega þeir það ekki? Er það ekki upplagt að Launþegarnir eigi um 60% af fyrirtækinu? Nei, þá koma náttúrlega verkalýðsforingjarnir og rísa til varnar atvinnurekstrinum í landinu. Það finnst mér óhugnanlegur strengur, þ.e. þessi vörn fyrir atvinnureksturinn, þessi blessun. Ég er ekki svo hrifinn af fyrirtækinu. Ég held að mörg fyrirtæki væru miklu betur komin í eign þeirra sem vilja vinna.

Ég nefni þetta vegna þess að það var ekki alveg réttur skilningur í þeirri blaðagrein sem ég vísaði til, en gladdi mig þó mjög vegna þess hve þar kom fram mikill almennur skilningur á því hvað við erum að lýsa hér miklu vandamáli. — Hér hafa vandamálin staðið upp holdi klædd eitt eftir annað. — Það er þetta: Ef menn vilja semja sig til réttinda, semja sig til eignar, semja sig til stjórnunar,-lýðræðisjafnaðarmenn á Íslandi hafa verið hrifnir af atvinnulýðræði, — ef menn vilja semja sig inn í stjórnir fyrirtækjanna í staðinn fyrir laun sin, því ekki?

Ég sé á varaþm. úr Norðurl. e. að það er að renna upp fyrir honum hversu róttækt þetta plan er og auðvitað er það rétt- En hann verður líka að skilja hvar í samfélaginu hin íhaldssama fyrirstaða liggur, því að það skiptir miklu máli.

Ég ætla ekki að fara að svara því þegar var reynt að draga Verslunarmannafélag Reykjavíkur sérstaklega inn í þetta. Ég vil ekki svara því öðru en útskýra að þetta er eitthvað skelfilegasta láglaunafélag í Reykjavík. Þarna er margt fólk sem býr við hrein fátæktarkjör. Þetta er svipað og amerískt verkalýðsfélag. Þetta er vandi minna umbjóðenda hér í Reykjavík, hvers konar skelfing þetta félag er upp og niður. Ég vil ekki segja annað en það, að ég þekki mitt heimafólk.

Það er þetta sem er vandinn: Hér var hv. 9. þm. Reykv. með sósíaldemókratísk fleðulæti: samstöðu og samhjálp. En menn lýsa þeim orðum rangt. Hvernig halda menn að samningur gangi fyrir sig? Ég þarf ekki að láta neina menn, sem gefa sig út fyrir að vera sérfræðingar, segja mér neitt í þeim efnum. Auðvitað er slagur innbyrðis, innan verkalýðsfélaganna, um hvernig launahlutföll eigi að vera og annað slíkt. Manneðlið er einu sinni svona. Og allir sem þekkja til segja, og þeirra á meðal hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson í löngu viðtali við tímaritið Rétt árið 1976: Það hefur komið í ljós. hann segir þetta efnislega, að í vinnustaðasamningum reynist launajafnréttið vera meira. — Og þetta er alveg rétt. Við þekkjum öll til í Straumsvík. Við þekkjum það, að fólkið í mötuneytinu og annað fólk þar fær miklu betri laun. Um hvað eru menn að tala? Hann veit nákvæmlega, maðurinn, að málin ganga fyrir sig með þessum hætti. Það er þetta sem skiptir máli.

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á að ég lagði til í lok minnar ræðu að þessu máli yrði vísað til allshn. Þannig er, að þegar þetta mál var flutt fyrst fyrir tveimur árum var það sent í allshn. Í fyrra fór það í félmn. Það sem hangir á spýtunni er það, að í félmn. sitja menn sem ætla að setjast á málið. Ég bið þess vegna, herra forseti, að málið verði að minni ósk flutt í allshn. Ég á þar sæti sjálfur og hef áhuga á að fylgja þessu máli eftir. Ég vona að forseti hafi skilning á því.

Ég dreg saman: Kjarni málsins er sá, að þetta frv. er flutt vegna þess að hér höfum við stífa vinnulöggjöf, sem við hefðum ekki í landi eins og Noregi. Það eru engin lög þar. Þar geta menn ráðið þessu eins og frjálsir menn væru. Í reynd hefur þessi stífa vinnulöggjöf komið þannig út, að hún hefur bannað feikimargt, en leyft sumt. Það er kjarni málsins. Hér er aðeins verið að leggja til rýmkun, að stefna Alþýðusambands Íslands frá því fyrir 20 árum verði leyfð.

Nú vil ég útskýra, fyrir hv. þm. fyrst og fremst, sem ég tala til, af hverju þetta er stefna Alþýðusambands Íslands. Munurinn liggur í því, að þeir vildu ekki lögbinda vinnustaðafélög, heldur bandalag vinnustaðafélaga, starfsgreinasambönd. Það sem við gerum er að við göngum skrefinu lengra í heimildinni, en eftir sem áður er hægt að framkvæma þetta þar sem er bandalag vinnustaðafélaga, ef þið eruð að tala fyrir fólkið eins og þið staglist stöðugt á. Og hver er munurinn? Heimildin er skrefinu lengri. Við göngum skrefinu lengra, en það er hægt að „praktísera“ það nákvæmlega eins og þið lögðuð til á sínum tíma. Þið eruð fólksins menn, trúi ég, talið fyrir fólkið og um hagsmuni þess. Því ekki að heimila þetta svona og „praktísera“ það eins og fólkið vill? Kannske eruð þið ekki fólksins menn. Það skyldi nú ekki vera.

Það er þetta sem skiptir máli. Mín hugsun hefur ævinlega verið sú, að þetta mundi styrkja Alþýðusamband Íslands, en ekki veikja það.

Í öðru lagi viljum við að framkvæmdin á þessu yrði sú, að vinnustaðirnir mundu semja um kaup og kjör í bandalagi, margir saman. Að vísu, ef maður reynir að huga að framtíðinni, fer það auðvitað eitthvað eftir stöðunni á vinnumarkaðinum hverju sinni, en grundvallarhugsunin er samt sú, að vinnustaðirnir semji sem bandalag.

En í þriðja lagi, og það er mest um vert, þurfum við að eyða kreppuhugtakinu „stétt“ í skilningnum starfsstétt. Það á ekki að setja múra utan um verkamenn. Það á ekki að setja múra utan um prentara. Það á ekki að setja múr utan um neinn. Menn eiga að vera frjálsir og menn eiga að vera saman og það er enginn grundvallarmunur á launavinnu launafólks. Víst eru sum störf óþrifalegri en önnur störf eru, það er alveg rétt, en engu að síður eigum við ekki að byggja upp þessa múra, sem innan tíðar eru múrar fordóma.

Það er þetta sem er svo rangt gert. Og ég fæ ekki betur séð en hér standi menn og haldi dauðahaldi í kerfi sem er að ganga sér til húðar. Ég vil ekki sjá þennan mun. Ég er í grundvallaratriðum þeirrar skoðunar, að það eigi að bæta óþrifaleg störf með því að launa þau betur, en mér líkar ákaflega illa þegar hugarins íhaldsmenn, hugarins afturhald, standa hér og halda ekki bara dauðahaldi í gömul og ónýt lög heldur gamla og gengna fordóma.

Það er út af fyrir sig nokkuð rétt skilgreining á viðbrögðum jafnaðarmanna sem hv. þm. var með. — Þeir eru nú eins og þeir eru. — En málið er að vitaskuld er þessi hugmynd á dúndrandi sigurgöngu. Það er bara tímaspursmál hvenær hún sigrar. Þeir geta þvælst fyrir um lengri eða skemmri tíma, en það breytir út af fyrir sig ekki neinu. Þessi heimild til handa fólki kemur fyrr eða síðar og við eyðum gömlu stéttafordómunum. Við aukum launajafnréttið. Við gefum fólki möguleika á að semja um eignarréttindi í fyrirtækjum. Þetta mun ganga svona. Við dreifum valdinu í raun. Við búum til litlar einingar út um samfélagið allt, mikil völd til handa fólkinu sjálfu. Fólkið þarf ekkert á forsjá hinnar holdi klæddu íhaldssemi að halda. Það þarf þess ekki lengur. Það er liðin tíð. Og þetta mun gerast einhvern veginn svona. Af hverju segi ég þetta? Með því að horfa á heiminn í kringum mig. Ég sé það alls staðar gerast. Menn geta nuddað sér utan í sósíaldemókratí og sagt einhverjar ósannar sögur af því úti í heimi. Það verður enginn stærri maður fyrir það, — ég tala nú ekki um ef sagan er eins og sagan er. Það er svona sem þetta mun gerast: Valdinu verður dreift, einingarnar verða litlar, ábyrgðin verður mikil og við munum gera það gott.