08.11.1982
Neðri deild: 8. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (254)

3. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég er hv. 6. landsk. þm. þakklátur fyrir að hafa flutt ræðu þá sem hann hélt hér áðan. Hann sagði raunar í örfáum orðum sögu sem ég hefði ekki getað sagt betur á klukkutíma. Nóg um það.

Árið 1976 var fjallað um vinnustaðafélög í tímaritinu Rétti. Þeir sem þar voru spurðir mæltu mjög með vinnustaðafélögum. Það voru Sigurður Magnússon rafvirki, Björn Jónsson, þá forseti ASÍ, og Guðmundur J. Guðmundsson nokkur, hv. 7. þm. Reykv. í dag.

Herra forseti. Hvað skyldi nú Guðmundur J. Guðmundsson hafa sagt um vinnustaðafélög? Ég skal lesa það. Hann sagði: „Kannske er líka einhver smákóngapólitík í þessu“. — Það er ekki strigakjafturinn sósíaldemókrati, sem notar þetta orð, það er Guðmundur J. Guðmundsson. — „Kannske er líka einhver smákóngapólitík í þessu.“ Hann heldur þó áfram og er að harma að við ætlum ekki að koma á fót vinnustaðafélögum því að það auki launajafnrétti. Og hvað segir hann? Hann segir: „En það eru fyrst og fremst þeir sem eru hærra launaðir sem eru harðastir á móti, því þeir þola ekki lýðræðið. Þeir vita að þeir ófaglærðu eru fleiri.“ Herra forseti. Hvað eigum við að gera við svona hv. þm.? Þetta er Guðmundur J. Guðmundsson árið 1976 sem segir: „Kannske er líka einhver smákóngapólitík í þessu. En það eru fyrst og fremst þeir sem eru hærra launaðir sem eru harðastir á móti, því þeir þola ekki lýðræðið. Þeir vita að þeir ófaglærðu eru fleiri.“ Ég er hjartanlega sammála.

Þetta var um vinnustaðafélög sem nefnd voru þarna. (GJG: Tillögur úr Alþýðusambandinu.) Má ég lesa það sem Sigurður rafvirki sagði í sömu umræðu? Hann segir: „Ég hef verið þeirrar skoðunar, að stefna þurfi markvisst að því að gera vinnustaðinn sem næst að einni félagseiningu. Breyta þarf skipulagi verkalýðssamtakanna úr því að vera einhver sérgreinafélög iðnaðar- eða verkamanna í félög starfsfólksins á tilteknum vinnustöðum.“ Það er um þetta sem þeir voru að tala. „Þannig held ég að möguleiki sé á að mynda þann samhug og þá bræðralagskennd,“ segir Sigurður, „sem þarf til að hindra að það gerist sem hefur verið að gerast hjá okkur varðandi hina miklu tekjuskiptingu.“

Hugsið um ræðurnar, sem þeir hafa flutt hér í dag, kavalerarnir tveir, hv. þm. Hver er umsnúningurinn? Ég skal segja ykkur hver hann er. „Kannske er líka einhver smákóngapólitík í þessu,“ var svarað 1976, ekki af mér. Það er furðulegt að halda slíkar ræður. (Gripið fram í: Ekki af mér.) Nei, nei, við skulum halda okkur við efnið. Hv. 7. þm. Reykv. þarf að halda ræðu eftir þann virðulega umsnúning hugarins, sem hér hefur átt sér stað, og svo á að fara að skrifa lögin.

Það kemur hv. 6. landsk. þm. á óvart að ég skuli segja að lagakerfið í landinu sé ónýtt. Ég er búinn að segja það í 10 ár. Í 10 ár er ég búinn að segja það hér, síðan þessi leikur með brbl. byrjaði hjá hæstv. forsrh. Menn hafa túlkað lögin sér í hag, þegar þeim sýnist svo, og vitaskuld gera menn það enn að því er þetta varðar. Svo er sagt að fyrrv. dómsmrh. segi eitt og segi annað. Þetta er skoðun mín og hefur verið lengi.

Kjarni málsins er einfaldlega þessi: Báðir hv. þm. tala um launajafnrétti. Reynslan t.d. í Straumsvík sýnir að það er meira launajafnrétti á þessum stöðum. Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson sagði í Rétti árið 1976 að það leiddi til meira launajafnréttis. Og hugleiðum annað. Hvernig halda menn að mannlíf gangi fyrir sig? Nálægð fylgir virðing og hefur alltaf gert það. Fjarlægð fylgir óvirðing, hefur líka alltaf gert það. Það er þetta sem er kjarni málsins, spyrjið þið konurnar í eldhúsinu í Straumsvík, sem er hrikalegt láglaunafólk víða á vinnustöðum, en ekki þar. Spyrjið þær um þetta. Og ég vildi vita af hverju hv. þm. hefur skipt um skoðun á þessum sex árum. Hv. 7. þm. Reykv., af hverju hefur hann skipt um skoðun? Var hann að segja ósatt þá af ásettu ráði? (Gripið fram í.) Er hann að segja ósatt nú af ásettu ráði? Hvað hefur skeð í millitíðinni? Ég las það sem Sigurður rafvirki sagði. Síðan eru menn að reyna að slá sér upp á túlkun á 1. og 2. gr. Ég er búinn að reyna að stafa það hér ofan í hv. þm. af hverju þessi lög hafa verið túlkuð með þessum hætti. Ég hef vísað í vinnustaðafélög hér, sem auðvitað eru bara skemmtifélög, en sem hafa snúið sér til sérfræðinga í vinnurétti og spurt og fengið þau svör að þetta væri ekki hægt. (Gripið fram í: Nei, vegna þess að þau er ekki öllum opin.) Kjarni málsins er sá að það verður að leggja saman 1. og 2. gr. til þess að fá þessa túlkun. Það er orðið stétt sem stendur okkur fyrir þrifum. Og það er það sem er kjarni málsins. Þess vegna hefur þessi skilningur verið ríkjandi í þessum efnum.

Herra forseti. Við erum búnir að fara yfir þetta mál efnislega. Menn höfðu hér smekk til þess að fara að tala um persónu mína, aðferð við málflutning — ég á við flokksbróður minn — og allt þetta sem maður hefur heyrt margoft áður í leiðurum í Tímanum og víðar. Ég endurtek það sem ég sagði upphaflega að sá málflutningur segir í stuttu máli langa sögu og betur en ég hefði sjálfur getað gert.