09.11.1982
Sameinað þing: 15. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í B-deild Alþingistíðinda. (283)

17. mál, verktakastarfsemi við Keflavíkurflugvöll

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Það skal verða örstutt.

Hv. 3. þm. Reykv. hefur lýst stærð sinni, reisn og tign með þeim aths. sem hér hafa fallið. Ég bið menn að rifja upp svolítið í þeim efnum. En ég vil segja það við þá menn sem hér tala oftast og út frá bæjardyrum íslenskrar verkalýðshreyfingar: Er ekki málið orðið nokkuð erfitt þegar hún hefur eignast slíkan talsmann eins og hér var tekið fram áðan?

Um efni málsins vil ég að lokum í þessari umr. vegna margendurtekins misskilnings, m.a. hjá hv. síðasta ræðumanni, taka skýrt fram og undirstrika, að sú úttekt sem hér er lögð til að fram fari samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar, þótt það sé ekki tekið fram í tillgr., felur í sjálfu sér ekki í sér aðdróttanir af einu eða neinu tagi.

Einn hv. ræðumaður sagðist ekki vita til þess að viðkomandi rekendur fyrirtækja væru vandræðamenn. Það hefur enginn sagt að þeir séu það eða eigi að kallast það. Það eru alfarið hans orð. Hér er verið að biðja um, og það má vera að það sé hlutdrægt orð, úttekt á einokunarviðskiptum þannig að almenningur hafi allar upplýsingar þar um. Það er auðvitað eðlilegt að margir hv. ræðumenn hér fjalli um efnisatriði málsins, en dylgjur er ekki að finna í tillgr. Það er kjarni málsins. Ég hugsa að meira að segja þessi fyrirtæki mundu frábiðja sér varnarræður eins og þær sem hér hafa verið fluttar því að þær eru dylgjur.

Herra forseti. Áður en þessi till. fer til nefndar — ég vona að tekið verið undir till. um allshn. Sþ. — vil ég enn einu sinni undirstrika þetta aðalatriði málsins og þá staðreynd, sem fram kemur í grg., að það er vilji þeirra sem þetta mál flytja að engin tortryggni blandist í þetta; líka af þeim ástæðum að við erum í samvinnu við aðrar þjóðir.