17.11.1982
Neðri deild: 10. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í B-deild Alþingistíðinda. (434)

4. mál, lokunartími sölubúða

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. heldur áfram að kenna okkur hinum mannasiði. Nú er mannasiðakennslan fólgin í því að ekki megi nefna menn sem eru fjarstaddir. Þetta er sami þm. og í fyrradag sagði þinginu að hv. 4. þm. Reykv., sá er hér stendur, væri alinn upp í baksæti á ráðherrabíl. Ég verð nú að segja það að ráðherrabílstjórinn var fjarstaddur þegar þessi dónalega aths. féll. Þetta er sami þm. og flutti rannsóknartillögu um Samband ísl. samvinnufélaga. Hvar voru þeir þá? Sannleikurinn er sá, að í þessari mannasiðakennslu hv. þm. Alberts Guðmundssonar stendur auðvitað ekki steinn yfir steini og hefur aldrei gert, eins og árásir á þann opinbera starfsmann sem ég nefndi hér fyrst eru gleggst dæmi um.

Í þessum umræðum, herra forseti, er kjarni málsins sá, að allur rökflutningur hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar og hv. þm. Alberts Guðmundssonar — sem, þó furðu sæti, mynda bandalag, og sýnir samstaða þeirra í þessu máli hvað hugtök eins og hægri og vinstri lýsa mikilli pólitískri orðfæð — allur rökflutningur þeirra er endileysa, hrein endileysa af þeirri einföldu ástæðu að það gilda almenn lög um launafólk í landinu, lög sem við getum breytt hvenær sem er. Það gilda lög um vinnutíma. Þau gilda jafnt um alla launamenn, í verslun, í verkamannavinnu, í iðnaði. Það gilda lög um orlof og þau gilda jafnt fyrir alla. Það verður að gera greinarmun á altækum lögum og sértækum. Þann greinarmun veit ég að hv. þm. Eyjólfur Konráð þekkir. Þann greinarmun veit ég að h.v. þm. Geir Hallgrímsson þekkir. En svo er það upptalið með þingflokk Sjálfstfl. Og það er hans pólitíski harmleikur.

Það þarf að gera greinarmun á altækum lögum og sértækum lögum. Það er kjarni málsins, sá kjarni málsins sem ég t.d. fulltingi, að um launafólk eigi að gilda altæk lög, sem gilda þá um alla launamenn, hvað sem þeir vinna, þrifaleg eða óþrifaleg störf. (Gripið fram í.) Það er þetta. Það eru altæk lög. En hér er ekki verið að tala um altæk lög. Hér er verið að tala um sértæk lög. Lög sem gilda um verslunarmenn sem vinna við eina ákveðna tegund verslunar. Af hverju sér hv. þm. Albert Guðmundsson þetta ekki og Guðmundur J. Guðmundsson, séu þeir slíkir pólitískir englar, manndómsmenn og guðdómsmenn sem þeir hér lýsa sjálfum sér? (Gripið fram í:

Umfram allt.) Umfram allt. Af hverju líða þeir að skólakrakkar vinni hér í sjoppum um alla Reykjavík til hálftólf á kvöldin og hreinsi og geri upp til hálfeitt á nóttunni, 17, 16 ára duglegir unglingar til að auka tekjur sínar? Hvar er manndómurinn þá? Hvar er guðdómurinn þá? Hvar er manngæskan þá? Því að vitaskuld eru þeir ekki að tala um verslunarfólkið og hafa aldrei verið að því. Þeir eru að tala um hagsmuni stærri verslanaeigenda. Og vil ég þó undanskilja einn sem hefur verið brautryðjandi hér að mörgu leyti. Það er Pálmi Jónsson í Hagkaup. Hann talaði ekki eins og þessir tveir heiðursmenn. Hann er sammála því frv. sem hér er verið að flytja.

Sannleikurinn er sá að þessi löggjöf, þessi heimildarlöggjöf, sem flytur reglugerðarvaldið nálægt þeim sem valdinu eiga að beita, sem er alltaf hættulegt í sjálfu sér, þetta eru sértæk lög sem eru til valdbeitingar á ákveðna hópa launafólks. Og ég segi þér, hv. 7. þm. Reykv., að í þessu máli ert þú ekki að ganga erinda neinna launamanna. Það eina sem þarf að fara fram á er sterki og gott verkalýðsfélag, sem semur djarflega og vel við sína viðsemjendur. Vitaskuld á fólk, sem vinnur meira en 8 stundir og meira en 7 stundir á hverjum degi, að fá tvöfalt eða þrefalt borgað eða fimmfalt, því að menn eiga að geta lifað af 8 stunda vinnudegi. En þetta á að gerast í frjálsum samningum þar sem annars vegar samtök launamannanna semja og bera ábyrgð og hins vegar samtök í þessu tilfelli verslunareigenda. Er þetta ekki augljóst? Þessi síðustu tvö orð segja auðvitað það eitt varðandi hv. þm. sem réðist á ráðherrabilstjórann, að það stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi hans.

Það sem menn eins og hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson eru að tala um er að þessi lög hafa verið sett 1977 og þá hafi nú verið erfitt að lifa á Íslandi. Þetta er röksemdafærsla verkalýðsrekendanna í hnotskurn. Vitaskuld var erfitt að lifa á Íslandi 1917 og erfiðara en í dag. (Gripið fram í: Ekki allra.) Nei, það er rétt og ég leiðrétti það. Þetta á ekki við um alla verkalýðsrekendur, ekki þann sem hér gekk fram hjá ræðustólnum. Vitaskuld var afar erfitt að lifa á Íslandi árið 1917. Þá var ókomin heimskreppa. Það var enn erfiðara að lifa þegar hún gekk yfir og vitaskuld giltu ákveðin lögmál þá, sem að sumu leyti gilda enn þann dag í dag og að sumu leyti ekki. En að halda að hægt sé að reka hugmyndafræði og málflutning á rómantík kreppuáranna einni saman, og halda að verið sé að gera gagn þegar verið er að gera hið stakasta ógagn, það er hið ranga í málflutningi þessa fólks.

Ég skal fúslega fallast á að þegar þessi lög voru endurnýjuð árið 1936 kunni þau að hafa átt við mikil rök að styðjast, hreinlega af því að verkalýðssamtökin voru veikari en þau eru í dag og einnig af þeirri ástæðu að þá lá vofa atvinnuleysis yfir landinu og vofa vinnuþrælkunar einnig. Það verður allt að segjast eins og er. En að halda að hægt sé að flytja sömu rök til réttlætingar sömu gjörðum nú 40 árum síðar eða meira, það er það sem er rangt. Fólkið hefur breyst, hugmyndir þess hafa breyst. En hér rökfæra menn eins og frystikistur væru, eins og hugarins frystikistur væru, og það er það sem er vandinn.

Það er beðið um það eitt að lög, sem sett voru raunverulega árið 1917, að formi til 1936, séu afnumin. Það er beðið um það eitt að fólk fái að semja sem frjálsir menn væru. Við viljum í hverfinu heima hjá mér, hverfunum í Breiðholti, í hverfunum uppi í Árbæ semja um það við þá sem verslanirnar reka hvenær þær verði opnar. Það er ekki nóg að hafa opið til kl. 10 eitt kvöld í viku. En semja menn í valddreifðu þjóðfélagi sem frjálsir menn væru? Hér segja þeir félagar, bandalag forstokkunarinnar, hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson og Albert Guðmundsson, að þetta sé ekki alþingismál því að sveitarstjórnir sjái um þetta. Af hverju ekki að ganga skrefinu lengra, láta bara fólkið sjálft ráða þessu? Launafólkið auðvitað fyrst og fremst. Ef það hefur sterkt félag ræður það miklu. Síðan kaupmennina. Þeir smáu eru fleiri þar. Í þriðja lagi þá sem við verslanirnar versla. Það eru þeirra hagsmunir. Auðvitað er þetta hárrétt lýsing hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur. Við vitum að hún er einn af þeim einstaklingum í þjóðfélaginu sem vinna mikið. Fyrir vikið, vegna þessara þvingunarreglna hefur slíkur neytandi ekki aðstöðu til að kanna hvar er dýrt og hvar er ódýrt.

Þessir kerfiskarlar, þessir kreppumenn eru að eyðileggja forsendurnar fyrir okkur hin. Þeir hafa getað valið og hafnað. Það er þetta sem er hinn mikli vandi þessa máls. Þetta eru sömu mennirnir og í raun voru á móti frjálsum innflutningi, eins og auðvitað stór blokk í Sjálfstfl. var árið 1960, einkaleyfishafarnir, þrátt fyrir þá goðsögn Morgunblaðsins að það væri Sjálfstfl. sem stóð að þessu, sem er ósatt. Þetta er sama fólkið og vill niðurgreidd bankastjórastýrð lán: Það er sama fólkið og vill ekki leyfa okkur sjálfum að ráða því hvort við verslum í gömlu Reykjavík, uppi í Breiðholti, uppi á Akranesi, á Ísafirði þegar við viljum. Hvaða hagsmuni er verið að vernda? Þeir segja: launafólksins. Þeir segja það ekki satt, vegna þess að það eru í gildi lög sem banna vinnuþrælkun. Það eru í gildi lög, sem eru altæk, ná til allra launamanna. Af hverju heimta þeir þessi sértæku lög um verslunarfólkið?

Það eina sem hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson gæti sagt heiðarlegt máli sínu til varnar væri það að Verslunarmannafélag Reykjavíkur er raunverulega ónýtt hagsmunafélag og getur ekki samið og þess vegna þarf sérstök lög um þetta fólk. Ef hann segði þetta, þá ber að taka ofan fyrir honum. En þetta þorir hann ekki að segja. (GJG: Nei, nei.) Nei, nei, segir hann og er rétt. Þetta þorir hann ekki að segja. En þetta mundi þó mynda heila brú í málflutningi hans.

Ég vil spyrja hv. þm. Guðmund J. og aðra þá sem á mál mitt kunna að hlýða: Hvernig stendur á þessari einlægu, drengilegu, samtryggðu samstöðu Kaupmannasamtakanna annars vegar og stjórnarinnar í VR hins vegar, sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir lýsti auðvitað rétt hér áðan, í þessu máli? Getur verið samhengi á milli samstöðunnar í málinu og svo hins að vera að byggja saman eitthvert mesta stórhýsi í Reykjavík? Peningar úr lífeyrissjóðum félagsins renna í stórhýsið, það fer saman, og að reka skrifstofur eins og „union“inn fyrir vestan. Getur verið þar samhengi? Þeir sem lásu Alþýðublaðið s.l. sumar sáu að þar voru dag eftir dag nákvæmar lýsingar á hegðaninni í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur. Ég viðurkenni að í mínum gamla flokki var ekki alltaf ánægja. Um sinn var svo, að verkalýðsforustan gerði sínar kröfur um höft og boð og bönn. Það er rétt og sama hugarfarið og það sem nú býr að baki, að ætla að ráða fyrir fólkið, að hv. þm. Guðmundur J. sé hæfari til að ákvarða hvenær Sigurður eða Jón eða Sveinn eða Soffía í Breiðholtinu í Reykjavík versla, hann sé hæfari til þess heldur en þau sjálf eða hinn sem litlu verslunina kann að eiga.

Auðvitað er það rétt, sem fram kom hjá hv. 9. þm. Reykv. o.fl., að ástæðan fyrir því að fólkið í landinu veit ekki nógsamlega hvers konar flokkur Sjálfstfl. er í raun og veru — og ég vil, herra forseti, skjóta því að innan sviga að ég er sannfærður um það, — er að það eru aðeins tveir þm. í þingflokki Sjálfstfl. — og þá er ég að tala um prinsippin sem að baki búa hér — sem hafa lesið Adam Smith og vita hver hann var. Það eru hv. þm. Eyjólfur Konráð og hv. þm. Geir Hallgrímsson. Hitt er allt meira og minna eins og Albert. Það er sannleikur málsins. Svo eru menn hissa á því þó að þetta bandalag hrynji, þótt hagsmunabandalag hrynji, sem gengur hér erinda örfárra stórkaupmanna í Reykjavík gegn fólkinu og gegn smákaupmönnunum. Menn skyldu ekki vera hissa á því. Þetta er allt svona. Hvað eru þeir að gera uppi í Framkvæmdastofnun? Skammta fjármagn. Hvað eru þeir að gera hér? Skammta opnunartíma. Hvað voru þeir að gera, þorri þeirra, þegar upplýstir jafnaðarmenn brutu þá til baka 1960? Skammta innflutning. Þetta eru skömmtunarmenn eins og dæmið sannar um síðustu valdbeitinguna. Þó að ég viðurkenni að málið sé smátt, þá er prinsippið stórt? Valdbeiting í þágu hinna stóru og ríku. Það er það sem er svo slæmt. Og þá undanskil ég þó stóran brautryðjanda í alvöruverslun á Íslandi, sem eru þeir sem reka Hagkaup, því að þeir mundu ekki taka undir. Svo mikið veit ég, því ég hef rætt við ráðgjafa þar um það hverjir séu hagsmunir beggja aðila í þessum efnum, eins og þm. gerir þegar hann vandar vel til málatilbúnaðar.

En í landinu er valdakerfi sem heldur í lifandi goðsögn. Það er flokksblaðakerfið, sem hv. þm. Albert var að verja hér áðan, ríkisfjölmiðlarnir og í broddi fylkingar, stjórnandi almenningsálitinu, er Morgunblaðið. Morgunblaðið hefur í málum af þessu tagi aðeins eitt hlutverk: Að halda gangandi goðsögnum. Og goðsagnirnar eru þær að þetta séu klassískir, frjálslyndir menn altækra leikreglna. Eru þeir það í þessu máli? Eru þeir það í vaxtamálum? Eru þeir það varðandi Framkvæmdastofnun? Eru þeir það varðandi landbúnað? Nei, ekkert af þessu og miklu fleira eru þeir ekki.

Það á að vera hlutverk upplýsts afls að fara um samfélagið allt og segja því frá hvernig ræður hv. þm. Albert Guðmundsson heldur á Alþingi. Ekki um hina opinberu starfsmenn sem hann gerði árás á í gær. Það er smámál. Heldur hvernig þeir heimta sértækar reglur fyrir sitt fólk í nafni almenns velsæmis. Það er þetta sem er svo alvarlegt. Þess vegna riðar þetta hagsmunabandalag hinna ríku til falls, að þessari goðsögn hefur verið haldið lifandi í krafti þess að fjármagn hefur getað drottnað yfir fjölmiðlum, sem allt of víða hafa varið hið pólitíska vald, haldið ríkisfjölmiðlum valdhlýðnum og haldið fram alröngum upplýsingum, t.d. í máli eins og þessu. Þeir leika þann leik að halda sig allir saman, nema Albert þó að hinir voni nú held ég að hann muni gera það oftar — aðrir halda sig saman, eru helst fjarstaddir. Svona gengur þetta fram hjá og enginn veit neitt. Svo koma þeir fram, segjast vera frjálslyndir, klassískir. Altækar leikreglur, sem fyrir alla gildi, eru auðvitað lög fyrir stóru kaupmennina á móti litlu kaupmönnunum, á móti fólkinu, á móti neytendum.

Þess vegna, herra forseti, hef ég haft um þetta svona langt mál, að fræðilega talað, sem „prinsip“mál í þjóðfélaginu er þetta mál býsna alvarlegt, ekki kannske málsins sjálfs vegna heldur vegna þess hvernig valdinu er beitt, hvernig þeir hegða sér. Sannleikurinn er sá, að ræða sú sem hv. 3. þm. Reykv. hélt hér áðan og hefur margflutt áður, þar sem hann vefur einhverju tilfinningaþrungnu bulli inn í málflutning sinn, ræðan er að efnisinntaki aðeins þetta: ég er betri en þið hinir. Það er allt og sumt ef menn draga saman. Og ég var svo fátækur og allt þetta, ræður sem margoft hafa verið fluttar hér áður og eru náttúrlega langt fyrir neðan alla virðingu. Látum vera að hann skírskoti til æsku okkar hinna. Verra er t.d. að skírskota til æsku sjálfs sín hér úr þessum ræðustól. En þjóðin skal fá að vita — ég skal segja ykkur, herrar mínir, — þjóðin skal fá að vita með hverjum hætti þessir hlutir gerast hér.

Við erum að biðja um altækar leikreglur, ekki minni rétt fyrir fólk við verslunarstörf, sama rétt og aðrir hafa. Við vitum að frelsi á þessu sviði eru hagsmunir minni kaupmanna og ekki hinna stærri. Við vitum jafnvel að einhvers staðar kynni vöruverð að hækka litið eitt. Er það ekki það sem við greiðum fyrir betri þjónustu? Við ákveðum það sjálf. Ef menn eftir sem áður vilja fara í stóru markaðina milli 9 og 5, þá gera þeir það. En þeir eiga að geta valið. Og auðvitað er það grín, það er pólitískur brandari hvernig Sjálfstfl. hegðar sér í þessu máli. En það segir langa, langa sögu. Það er þetta sem hann er í raun og veru. Ég skil ekki hvers vegna hv. 3. þm. Reykv. ræðst að okkur hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur og segir að við höfum kallað okkur þm. litla fólksins. Auðvitað höfum við aldrei gert það. En í öðru lagi: Það eina sem ég sagði hér í minni framsöguræðu var að það væru augljóslega hagsmunir kaupmannsins á horninu að fá að ráða þessu sjálfur. Og ég vísaði í leiðara í Dagblaðinu eftir Jónas Kristjánsson og tók undir með honum, að sumpart er þetta spurningin um lata kaupmanninn og duglega kaupmanninn. Sem löggjafi á maður að hafa almenna samúð með duglega kaupmanninum og ef lati kaupmaðurinn knýr fram einhver lög, sem banna hinum að versla, eigum við að hafna slíkum lögum.

Frelsi getur auðvitað, t.d. frelsi fjármagns, verið hættulegt og snúist í andhverfu sína. Við því eigum við að hafa löggjöf eins og auðhringalöggjöf, sem vantar á Íslandi, það er rétt. En frelsi í þágu hins litla, í þágu lítilla eininga, lítilla eininga í atvinnurekstri, fólks með lág laun, skammarlega lág laun oft, það frelsi á rétt á sér. Þetta er frv. um slíkt frelsi.

Hv. þm. Albert Guðmundsson og Guðmundur J. Guðmundsson, hagsmunabandalag forstokkunarinnar, voru hér afar hneykslaðir á þeim orðum sem ég — og raunar á eftir mér hv. þm. Guðrún Helgadóttir — lét falla um VR. Það er regla hér á Alþingi að það er oft nefnt fólk sem er utan húss. Hér eru fáir sem hlusta. Ef frá því er greint í blöðum, þá á viðkomandi auðvitað allan rétt til að koma vörunum við og ég neita því, að hér sé verið að brjóta nokkra jafnræðisreglu. En ég tek eftir því að það eru alltaf sömu þm. sem standa upp og þykjast vera að verja eitthvert almennt velsæmi, að það megi ekki tala um menn fyrir utan húsið ef það er í þeirra þágu. Forustumaður um slíkt velsæmi er af einhverjum ástæðum ævinlega hv. þm. Albert Guðmundsson.

Það er til löggjöf um íslenska verkalýðshreyfingu. Hér kemur okkur við allt sem löggjöf snertir. Það er okkar starfi. Við störfum hér fyrir opnum tjöldum. 20

Hér getur hver hlýtt á sem vill. Hv. þm. vita báðir mætavel að ég er þeirrar skoðunar að þessi löggjöf sé úrelt. Ég er þeirrar skoðunar að íslensk verkalýðshreyfing sé ekki fulltrúi fyrir íslenskt verkafólk. Þar komi til atvinnulegir hagsmunir svokallaðra forustumanna, starfsmanna á skrifstofum og annarra slíkra. Félagskerfið sé orðið rammskakkt og þeir gangi ekki erinda þess. Það er þetta sem ég hef leitast við að leiðrétta m.a. með flutningi frv. Dæmigerð fyrir þessar skekkjur, sem til eru orðnar í atvinnuskyni og hafa oft leitt til furðulegra niðurstaðna, er einmitt sú álitsgerð stjórnar Verslunarmannafélags Reykjavíkur, stjórnarinnar sem er að byggja með Kaupmannasamtökunum hér úti í mýrum, sem hún sendi frá sér í fyrra. Ég segi bara blátt áfram, eins og hv. 8. landsk. þm. sagði líka hér áðan: Ég dreg mjög í efa að verslunarfólk hafi þessar skoðanir. Og þegar ég starfa hér sem þm., þá er það þó þetta fólk sem greiðir atkv. Það þarf ekki að fara í gegnum hið flókna pýramídakerfi sem búið er að búa til og hefur orðið að varðhundum valdsins.

Ég er að flytja þetta frv. fram hjá þessu kerfi og ég er sannfærður um að það hlýtur stuðning t.d. hér vítt og breitt um höfuðborgina, meðal neytenda, meðal húsmæðra, meðal ungs fólks í sambýli þar sem bæði vinna utan heimilis, meðal smærri kaupmanna. Og ef svo er, um hvað eru menn þá að tala? Leggi menn plögg á borðið um að þetta sé öðruvísi. Hvað eru menn að tala um? En þetta lokaða þjóðfélag, þetta lokaða fjölmiðlakerfi, þetta ríkisrekna valdbeitingarkerfi spyr ekki um þetta. Það spyr ekki þetta fólk og hefur aldrei gert. Útvarpið náði bara í hv. þm. Guðmund J. og spurði: Hvað segja verkamenn í Reykjavík? Hvað veit hann um það? Oft ekki neitt. Þeir ná í Magnús L. Sveinsson og spyrja: Hvað segja verslunarmenn um það? Hvað veit hann um það? Ennþá minna, ég fullyrði það, ennþá minna, þeir sjálfkjörnu heiðursmenn til áratuga. (Gripið fram í: Og hvað mundi Pétur segja?) Ja, hann er nú í skárri kantinum, vil ég segja, hann er nú í skárri kantinum, hv. þm. Pétur Sigurðsson. Það skal viðurkennt.

Það er þetta sem er vandinn, þessar félagsmálaskekkjur sem liggja út um þjóðfélagið allt. Í Alþfl., mínum gamla flokki, þurfti ég að lúta því með frv. um vinnustaði, sem ég veit að á geysilegan stuðning um alla höfuðborgina, að verkalýðsmálanefnd flokksins, 25 manna apparat, allt verkalýðsforingjar og starfsmenn á verkalýðsskrifstofunum, greiddi atkv. um hvort það væri flokksmál eða ekki flokksmál. Og þeir felldu það með 16:4. Halda menn að það sé lýðræði? Þetta er grín, þetta er nákvæmlega sama klúðrið. Það sem við erum að reyna að gera er að skírskota fram hjá þessu skakka félagskerfi og þetta frv. um opnunartíma verslana er alveg dæmigert fyrir þetta.

Auðvitað hef ég ekki neitt vísindalegt í höndunum um stuðning við þetta mál. Ég reyni að fara eftir tilfinningu minni og því hvað ég hef lært hér á mínum slóðum þar sem ég þekki best til og er sannfærður um. Þetta er mál fyrir fólk og slík mál reynir maður að flytja. Hér kemur hv. þm. Albert Guðmundsson. Hann er meira en hv. þm., hann er í Verslunarráði Íslands. (AG: Í stjórn þess.) Í stjórn þess, hugsið þið ykkur, í stjórn þess, bætir hann við bljúgur og roðnar ekki. Hann roðnaði nú að vísu. Hinn er í stjórn Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, þar sem samtryggða valdið lekur í gegnum verkamannafélagið inn í Verslunarmannafélagið. (GJG: Kaskótryggt allt.) Já, allt kaskótryggt, það er þetta. Fyrir hverja eru þeir að tala? Velti menn því fyrir sér. Hagsmunir fólksins? Þetta eru hagsmunir gegn fólkinu. En þetta kerfi er að brotna, og það skal brotna af því að það er svo öfugsnúið og ranglátt.

Ég segi enn, herra forseti, að þetta langa mál um frv. af þessu tagi á kannske ekki rétt á sér nema að því leyti sem það er lýsing á „prinsip“máli. Þetta sýnir hvernig þessir varðhundar valdsins, varðhundar hagsmunanna eru. Blygðunarlaust segjast þeir vera í stjórn Verslunarráðs og í stjórn Dagsbrúnar. Auðvitað eru þeir kallaðir til af hinum valdbeitingarfjölmiðlunum, útvarpinu, sjónvarpinu, Morgunblaðinu og hvað þetta fína fólk heitir allt saman. (Gripið fram í: Alþýðublaðinu.) Já, jafnvel af Alþýðublaðinu. Og þeir svara og þykjast tala í nafni einhvers fólks, þessar fölsku goðsagnir. Þess vegna er nú komið eins og komið er. Það er þetta falska félagskerfi, þetta í raun ólýðræðislega félagskerfi, þar sem skoðanir manna fá ekki að brjótast út. Ef meiri hlutinn í Reykjavík vill hafa frjálsan opnunartíma verslana, þá á auðvitað að vera frjáls opnunartími verslana. Ef meiri hlutinn í Reykjavík vill reglur, þá eiga auðvitað að vera reglur. En þetta kerfi er óhæft. Við verðum að leggja mat á hvað meiri hlutinn vill og hvað minni hlutinn vill. Og þess utan á það að gilda að frelsi eigi rétt á sér þegar það er í þágu hins smáa. En Sjálfstfl. hefur aldrei verið þeirrar skoðunar. Hann hefur viljað frelsi þegar það var í þágu þeirra stóru. Alltaf og ævinlega. Ég harma það að hv. þm. Eyjólfur Konráð skuli vera í Ed., svo að hann getur ekki komið og tekið undir með mér, því að ég veit að í þeirri skilgreiningu eigum við samleið.

Það er þetta sem er kjarni málsins. Hagsmunabandalagið er að brotna. Þetta ósamstæða hagsmunabandalag er að brotna. Og þetta litla mál sýnir ákaflega greinilega hvernig hagsmunavarslan snýst gegn fólkinu. Í þessu sambandi skiptir nokkru máli að maður eins og sá sem hér stendur er á ákveðnum aldri. Fyrir vikið veit hann vel um þá breytingu sem er orðin á þjóðfélaginu. Foreldrar í sambúð vinna yfirleitt báðir utan heimilis. Þetta er gagnger breyting frá því sem áður var. Þessi breyting útheimtir frjálsari opnunartíma sölubúða. Þetta fólk er með ung börn, borgar stórfé fyrir gæslu á þeim og þarf að sækja þau áður en það verstar. Núgildandi reglur eru of þröngar. Það eru hinir beinu hagsmunir sem máli skipta fyrir okkur. Hagsmunir hinna eru hagsmunir stóru kaupmannanna sem halda að þeir tapi. Það á okkur ekkert að koma við. Þessar tilfinningaþrungnu ræður um ekki neitt, sem Verslunarráðið flutti hér, sem Verkamannafélagið svokallaða flutti hér, eru einskis virði og fluttar í hagsmunavörsluskyni einu. Þær segja ekki neitt, segja ekkert um vilja fólksins, segja ekkert um vilja þess fólks sem þarf á þessu að halda. Og mín spá er sú, að þar komi að æ fleiri sjái í gegnum skekkjurnar í þessu kerfi og þá er vel.