07.12.1982
Sameinað þing: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 981 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

262. mál, löggjöf um samvinnufélög

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég vil að gefnu tilefni gera aths. við tæknilega framsetningu á þessu mikla nauðsynjamáli sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur hreyft á hv. Alþingi oftar en einu sinni. Ég held að það hafi tafið fyrir skynsamlegum umbótum á löggjöf um samvinnuhreyfingu að staðið skuli vera að því með þeim hætti að fá samþykkta þáltill. sem skorar á framkvæmdavald að undirbúa löggjöf. Ég held ennfremur, herra forseti, að mikið af þeim lagalega hægagangi, mikið af þeirri vörn valdsins — og auðvitað er samvinnuhreyfing eitt heljarvald-eigi sér einmitt rætur í þessum vinnuaðferðum.

Framkvæmdavald, herra forseti, er til þess að framkvæma lög, en löggjafarvald er til þess að setja lög. Auðvitað hefði réttur gangur málsins verið — og nú tek ég fram og undirstrika að mér er ljós hin vonda aðstaða til slíkra verka sem menn hafa hér-en hinn rétti gangur málsins hefði verið sá, að það umbótafrv., sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson er vissulega að tala fyrir, hafi verið flutt sem frv. af honum, af þingflokki Sjálfstfl. eða af þverpólitísku bandalagi af einu eða öðru tagi.

Ég held að sá gangur máls sé rökvilltur í öllum aðalatriðum að fá samþykkta þáltill., sem felur í þessu tilfelli hæstv. bankamálaráðh. að undirbúa löggjöf, sem á auðvitað að vera að framkvæma lög en ekki skipa nefndir til þess að setja lög. Það er þessi rökvilla sem gengur í gegnum allt stjórnkerfi okkar. Ég veit að ég er að tala um mál sem hv. þm. hefur sennilega öðrum þm. betur skilning á. Ég er ekki að gagnrýna málatilbúnaðinn að einu eða neinu leyti, heldur þessa aðferð sem allt of oft er beitt og er rökvillt í eðli sínu og tefur fyrir framförum oftar en ekki.