07.12.1982
Sameinað þing: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í B-deild Alþingistíðinda. (734)

269. mál, verðmyndunarkerfi landbúnaðarins og endurskoðun útflutningsbótakerfisins

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það er ánægjulegt að hv. alþm. fá tækifæri til að líta augum þéttbýlisflankann í Sjálfstfl. Þau koma hér, annað úr Reykjaneskjördæmi og hitt úr Reykjavík, segjast ekki svara spurningum sem ekki eru á dagskrá. Þau svara auðvitað þeim spurningum sem þeim þóknast um hvers konar þingmaður hv. 3. þm. Reykv. er. En hinu var ekki svarað, sem er kjarni málsins: Er þessi hluti Sjálfstfl. með eða móti þeim ríkisfyrirgreiðslum sem hér er verið að ræða um? Af hverju svarar Sjálfstfl. ekki þessari fsp.? Vegna þess að í þeim efnum hefur þjóðlygi verið haldið á lofti, þeirri þjóðlygi að þau sjónarmið t.d., sem jafnaðarmenn af öllum gerðum hafa staðið fyrir, eigi sér hljómgrunn í Sjálfstfl., sem þau eiga auðvitað ekki, af því að þetta er sértækur fyrirgreiðsluflokkur af því tagi sem lýst var í síðustu ræðu hér á undan.